Færðist upp um 11 sæti!

Uppgötvaði óvænt vinsældalista mbl.bloggara í gær (og á greinilega enn margt ókannað í netheimum) og fór að skoða listann. Vitaskuld hefur slíkur listi ekki áhrif á hlutlausa embættismenn eins og mig; ég tók samt "óvart" eftir því í morgun að ég hafði færst upp um 11 sæti úr 59. í 48. sæti. Í alvöru reyni ég þó að sannfæra mig - og ykkur - um að ég sé aðeins að reyna að koma málstað neytenda á framfæri (eins og mér ber lagaskylda til) en ekki ná einhverju sæti - rétt eins og ég stefndi aldrei að tiltekinni eða góðri einkunn í laga- eða stjórnunarnáminu - aðeins að verða góður lögfræðingur og bæta mig í stjórnun.

 

En auðvitað er stundum einhver fylgni eða skörun hér eins og þá.


...aftur í tímann, já, en verðbólguhraðinn nú!

Hvað segir ökumaður við lögreglumann sem tekur hann við of hraðann akstur á Holtavörðuheiðinni? Segir ökumaður: "Já, en að meðaltali hef ég ekið á löglegum hraða frá Akureyri."? Nei, ökumaðurinn viðurkennir sök sína. Þessa samlíkingu hef ég tekið þegar ég andmæli hagfræðingum og bendi fjölmiðlum á að villandi sé að tala um að verðbólgan "nú" sé tiltekinn hundraðshluti (hér 8,7%) eins og oft er gert.

 

Verðbólguhraðinn er tæp 13% miðað við síðustu þrjá mánuði og um 19% miðað við síðasta mánuðinn; Það er um 19% sem verðtryggð lán hafa hækkað á ársgrundvelli síðasta mánuðinn. Það tel ég nærtækari og meira lýsandi tölur frá Hagstofu Íslands en hækkunina síðustu tólf mánuði (8,7%) sem oft er kynnt í fjölmiðlum. Þessu eru hagfræðingar ekki sammála og vilja mæla tólf mánuði aftur í tímann í ljósi þess að þannig er rætt um verðbólgu í hagfræði.

 

Að mínu mati er verðbólguhraðinn nærtækari í umræðu um breytingu á vísitölu neysluverðs milli mánaða enda eru lögbundin áhrif hennar þau að "verðtryggð" lán hækka (eða lækka, þá sjaldan að það gerist) um þann hundraðshluta á ársgrundvelli síðasta mánuðinn, ekki um 8,7%.


mbl.is Mesta verðbólga í 6 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neytendur gjalda, höfundar valda

Athyglisverður dómur - og við fyrstu sýn nokkuð sannfærandi - svona lagatæknilega, þ.e. fyrir lögfræðinga; hann felur vitaskuld ekki í sér efnislegar lyktir máls eins og sumar athugasemdir við fréttina gefa til kynna. Málinu var vísað frá vegna svonefndrar vanreifunar - sem þýðir að annar aðilinn (eða báðir í þessu tilviki) hafi að mati dómaranna 3ja ekki gert nægilega grein fyrir lagaröksemdum sínum; reyndar þykir mér miðað við forsendur dómara ekki ólíklegt að sumir dómarar myndu telja þetta eiga að leiða til sýknu, efnislega, sem sagt. Sennilega varð þetta niðurstaðan vegna þess að báðir aðilar vanræktu að færa dómurum lagarökin eins og lögmenn eiga að gera; sjálfur hef ég reyndar lent í þessu í málflutningi gegn ríkislögmanni sem sérhæfir sig í frávísunarkröfum. Sjá ítarlegri, rökstudda skorinorða greiningu á dóminum hjá kollega mínum og félaga

 

Áhugaverðara en efnisleg niðurstaða, lögfræðilega, finnst mér þó neytendapólitísk úrlausn þess álitaefnis, sem ég hef gert að umtalsefni, hvort eigendur höfundaréttar gætu gefið - og ættu að gefa - meiri gaum að inntaki afnotaréttar neytenda. Hagsmunir höfunda og neytenda geta farið saman eins og dæmi eru um. Meiri virðisauki fyrir alla væri að höfundar viðurkenndu staðreyndir nútímatækni og fengju þannig kaupendur að höfundarréttarvörðu efni.

 

Annað mál er skattlagning á neytendur sem sumir fjalla um í athugasemdum við fréttina en ég ekki að sinni.


mbl.is Máli gegn Istorrent vísað frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Pabbi geymir gullin þín..."

Í uppáhaldskvöldlagi - að kvöldlagi auðvitað - okkar dætra minna kemur þessi hending fyrir: "Mamma geymir gullin þín..."; í kvöld varð yngri dóttir mín mér óvænt fyrri til þess að snúa þessu við upp á pabba sinn: "Pabbi geymir gullin þín" - sem mér hafði reyndar aðeins dottið í hug en ekki hugsað mér að syngja upphátt.

 

Fyrir "einstæðan" föður sem þykist vera femínisti er þetta þó of langt gengið enda hef ég verið beggja blands um - en þó hallur undir - hugmyndir félögu minnar úr Röskvu, Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, um að finna kvenlegra eða hlutlausara heiti fyrir ráðherra! Málið snýst væntanlega um að rétta hlut þeirra sem hafa borið skarðan hlut frá borði í hlutaðeigandi þjóðfélagi - eins og konur lengi hérlendis og svertingjar í Bandaríkjum Norður-Ameríku en af því hefur leitt töluverða nýyrðasmíð þar sem á að hlut-leysa málið.


Gott mál; reykmerki geta líka falið í sér samráð

Sjá fyrstu tilmæli mín sem talsmanns neytenda fyrir tveimur árum - sem beindust að því að rjúfa hugsanlegt mynstur í verðlagningu á olíumarkaði; grundvöllur tilmælanna var sá sami og Samkeppniseftirlitið virðist nú byggja á: að óformlegt mynstur í verðlagningu á markaði og önnur „reykmerki“ geti falið í sér samráð, beint og óbeint. Sama hefur reyndar verið sagt um verðlagseftirlit; þess vegna hef ég í dag áréttað að þá afstöðu mína á heimasíðu embættisins að verðmerkingareftirlit er með því mikilvægasta sem gera þarf í netyendamálum um þessar mundir.


mbl.is Samkeppniseftirlitið fylgist með umræðu um verðhækkanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löglaust, siðlaust og vitlaust - á „frjálsu“ vörunum

Verð er eitt - og verðmerking og verðmæling annað. Það er víst tímabært að segja smá dæmisögu í tengslum við þá stóru áskorun sem neytendur standa frammi fyrir þessa dagana - og reyndar alltaf. Rétt er að huga að því smáa sem hver og einn neytandi getur - og getur ekki sjálfur - gert. Þessi stóra áskorun er að standa gegn tilhneigingu til verðhækkana (svo ekki sé talað um þann vanda sem þeir geta ekki brugðist við nema með gengisáhættu þar sem mældar verðhækkanir leiða sjálfkrafa til hækkunar „verðtryggðra“ lána).

 

1. Löglausar verðmerkingar eða engar

Ég hef áður tjáð mig um löglausar eða hæpnar verðmerkingar (þ.e. rangar eða ónógar verðmerkingar, skaðlegar fyrirframverðmerkingar og of tíðar verðbreytingar) á vefsíðu talsmanns neytenda en sinni sjálfur ekki (í embættisnafni a.m.k.) almennri verðgæslu eða verðmerkingareftirliti. Neytendur eiga hins vegar rétt á og mikla hagsmuni af því að fyrirtæki sinni lögbundinni verðmerkingarskyldu sinni; um það ættu fjölmiðlar að spyrja meira. Neytendur eiga líka rétt á virku verðmerkingareftirliti. Það er forsenda mikilvægasta verðlagseftirlitsins - neytenda sjálfra. Ekki er eðlilegt að mínu mati að lagt sé á neytendur sjálfa og eina að sinna verðmerkingareftirliti gagnvart fyrirtækjum, sbr. nánar í frétt hér á heimasíðu talsmanns neytenda í dag.

 

 2. Siðlausar verðhækkanir

Rétt fyrir og rétt eftir páskahátíð spurði Fréttablaðið mig hvort mér hefðu borist ábendingar um hækkanir á vöru með vísan til gengisbreytinga en það hafði mér ekki eins og fram kemur í Fréttablaðinu (bls. 6) í gær. Ég lét þess hins vegar getið í viðtölum við blaðamennina að ég teldi slíkar verðhækkanir, sem hefðu annað hvort ekki stoð í gengislækkun eða væru ótímabærar, vera siðlausar þótt þær væru væntanlega löglegar - þar sem við byggjum við frjálsa verðlagningu (um annað en umrædda mjólk sem á fyrri hluta þessarar fyrirsagnar ekki skilið) og ættum að geta treyst á samkeppni.

 

Þetta hafði Fréttablaðið ekki eftir mér.

 

3. Vitlausar verðmerkingar eða mælingar

Rétt áður en nálæg verslun lokaði yfir hátíðarnar vanrækti ég í flýtinum að skoða kassastrimilinn fyrr en heim var komið - en þá gerði ég það þó um síðir eins og ég geri oftast. Þó vill furðu oft dragast eða farast alveg fyrir að snúa til baka með vöruna ef ekki var rétt verð á henni, hún tvígreidd eða gölluð - fyrr en hún er orðin mygluð og ekki gaman að skila henni. Nú brá svo við að ég var bæði tvírukkaður um vöru sem kostaði 329 kr. og svo var furðu hátt verð - 714 kr. - á litlum rauðum chilipipar sem mér finnst svo góður í mexíkóskum mat. Ég sá að vísu að verðið var - já, siðlaust - 2.799 kr./kg - en mér fannst eins og þetta ætti að kosta nokkra tugi króna enda vó chilipiparinn aðeins nokkra tugi gramma, fannst mér. Á kassastrimlinum var hann mældur 0,255 kg. - eins og lítið epli! Þegar ég var reyndar búinn að neyta helmingsins (og verslunin lokuð yfir hátíðarnar) fór ég til baka í verslunina og fékk endurgreiddar tæpar 1.000 kr. - annars vegar fyrir tvígreiddu vöruna og hins vegar á 7. hundrað fyrir vitlausu mælinguna; rétt mæling var um 20 g ef ég man rétt. Rétt er því að huga að að fleiru en (kíló)verðinu - líka þyngdinni - en eftirá að hyggja man ég að afgreiðslupilturinn var að hugsa um allt annað og sýsla fleira en að afgreiða mig.

 

Í leiðinni fór ég reyndar inn í verslunina og athugaði hvort ég gæti bara sjálfum mér um kennt varðandi hátt kílóverðið; nei, það tók mig um 1/2-1 mínútu að leita uppi merkinguna - hana skorti ekki alveg - en hún var um 20-30 cm yfir gólfi. Ég efast um að hún standist!

 

Nógu slæmt er að eitthvað af þessu sé til staðar - en allt þrennt í einu og sama tilvikinu! Í þessu litla dæmi virðist sem sagt saman komið bæði löglaus verðmerking, siðlaus verðlagning og vitlaus vigtarmæling; ef ekki verður bætt úr verðmerkingum og eftirliti þarf sennilega róttækari ráðstafanir - en lögin eru skýr að mínu mati, fjárlögin ekki eins góð. Meira um það síðar.

 


mbl.is Mjólkurlítrinn í 100 krónur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pizza, feta, kampavín og koníak - allt fyrir neytendur?

Ítalir vilja að aðeins alvöru pizza (ef ekki ítölsk - þá eftir strangítalskri hefð) sé kölluð pizza eins og RÚV sagði frá í kvöldfréttum sjónvarps sem segja frá kjarna þess  máls. Þó að það verði að bíða að ég greini þetta fræðilega hygg ég að tvær tegundir af slíkum kröfum séu gerðar; slíkar kröfur um skilyrði heitis matvöru eru líklega oftast gerðar af framleiðendum eða oftar upprunalöndum - eins og í þessu tilviki - frekar en af neytendum þó að öðrum þræði séu skilyrðin í þágu neytenda.

 

Annars vegar eru kröfur um að aðeins vörur frá tilteknu héraði (fremur en landi) megi kallast ákveðnu nafni - t.d. kampavín frá héraðinu Champagne í Frakklandi (en ekki annað freyðivín) og Cognac frá samnefndu frönsku héraði. Þá má nefna sjónarmið Grikkja um að aðeins feta-ostur frá Grikklandi sé réttnefndur slíkur. Hins vegar eru kröfur um rétta uppskrift en ekki nákvæman uppruna eins og flatbökukrafa Ítala. Eiginlega hef ég meiri samúð með þessari afstöðu Ítala (þó að uppskriftin sé nokkuð ströng miðað við frétt RÚV) enda amast þeir ekki við því að varan sé framleidd annars staðar. Munurinn kann að vera að hið fyrra er ekki samsett eins og pizzan! Þá er sá munur á að Frakkar hafa snemma haldið sínum hagsmunum til haga en Ítalir (og raunar Grikkir) voru nokkuð seinir til.


Neyttu réttar þíns!

Þarftu að leita réttar þíns sem neytandi? Farðu þá á www.neytandi.is og leitaðu - með aðstoð Leiðakerfis neytenda á vegum talsmanns neytenda - upplýsinga um rétt þinn.  Þar geturðu leitað réttar þíns - annað hvort hjá seljanda vöru eða þjónustu eða, ef hann bregst ekki (rétt) við, hjá viðeigandi úrskurðaraðila.


Að hika er sama og tapa

Best er að blogga strax - ef maður er ekki undir stýri, í heita pottinum eða þvíumlíkt - því ekki er víst að hugmyndin komi aftur seinna, í sömu mynd. Svo ef bloggari er í vafa eða ekki alveg allsgáður eins og stundum hefur heyrst - ef ekki gerst - þá er hægt að vista og birta síðar. Þetta er mín, auðmjúka, reynsla af þessum áhugaverða miðli eftir rúmlega viku reynslu.


Útrás og framfæri - en áhrif?

Nú á ég viku afmæli - sem bloggari sumsé - og líst mér (og vonandi ykkur) nokkuð vel á því að bæði gefur þetta útrás fyrir hugmyndir sem ella hefðu bara gufað upp eða valdið mér togstreitu um hvort, hvar, hvenær og hvernig ég ætti að bregðast við "áreiti." Auk þess er augljóst að þessi nýi (fyrir okkur tornæmum eða þrjóskum) miðill er vel til þess fallinn að koma boðskap á framfæri, skapa umræður og hafa jafnvel áhrif - eins og sumum ber lagaskylda til, a.m.k. að reyna.

 

A.m.k sé ég að heimsóknir (innlit) eru rúm 2.000 á einni viku eða um 17 sinnum fleiri en á heimasíðu talsmanns neytenda miðað við vikuna á undan;  flettingar á bloggi mínu á þessari fyrstu viku eru vel yfir 3.000 talsins - sem er auðvitað ekki mikið miðað við ofurbloggara eins og í Kastljósi í kvöld.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.