Pizza, feta, kampavín og koníak - allt fyrir neytendur?

Ítalir vilja að aðeins alvöru pizza (ef ekki ítölsk - þá eftir strangítalskri hefð) sé kölluð pizza eins og RÚV sagði frá í kvöldfréttum sjónvarps sem segja frá kjarna þess  máls. Þó að það verði að bíða að ég greini þetta fræðilega hygg ég að tvær tegundir af slíkum kröfum séu gerðar; slíkar kröfur um skilyrði heitis matvöru eru líklega oftast gerðar af framleiðendum eða oftar upprunalöndum - eins og í þessu tilviki - frekar en af neytendum þó að öðrum þræði séu skilyrðin í þágu neytenda.

 

Annars vegar eru kröfur um að aðeins vörur frá tilteknu héraði (fremur en landi) megi kallast ákveðnu nafni - t.d. kampavín frá héraðinu Champagne í Frakklandi (en ekki annað freyðivín) og Cognac frá samnefndu frönsku héraði. Þá má nefna sjónarmið Grikkja um að aðeins feta-ostur frá Grikklandi sé réttnefndur slíkur. Hins vegar eru kröfur um rétta uppskrift en ekki nákvæman uppruna eins og flatbökukrafa Ítala. Eiginlega hef ég meiri samúð með þessari afstöðu Ítala (þó að uppskriftin sé nokkuð ströng miðað við frétt RÚV) enda amast þeir ekki við því að varan sé framleidd annars staðar. Munurinn kann að vera að hið fyrra er ekki samsett eins og pizzan! Þá er sá munur á að Frakkar hafa snemma haldið sínum hagsmunum til haga en Ítalir (og raunar Grikkir) voru nokkuð seinir til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þessar endalausu kröfur um "einkarétt" eða strangar reglur um hitt og þetta eru skiljanlegar en ekki alltaf til bóta.  Það er skiljanlegt að menn vilji gera öðrum óþægilegra fyrir og skara eld að eigin flatböku.

Hitt er svo að það er öllum til hagsbóta að skýrar upplýsingar séu um innihald þeirra vara sem þeir hyggjast versla.  Ég hef ekki miklar áhyggjur af því að neytendur séu "blekktir" til að kaupa pizzur sem séu ekki pizzur.

En auðvitað má velta fyrir sér skilgreiningum á ýmsum vörum.  Getur "mjólk" verið "mjólk", þegar búið er að taka mikið af fitunni úr henni og hún er 1. eða 2%?  Hvað gerir mjólk að mjólk?

Hvernig er hægt að kalla það rjóma sem inniheldur eingöngu 15% fitu?

Hvenær er komið of mikið vatn í kjöt til að það megi kallast kjöt?  Hvenær er komið of mikið "prótein" í kjötafurðir að þær megi ekki kalla þær "kjöt"?

Þær vörur sem eru kenndar við ákveðin héruð eru nokkuð annað, sbr. Champagne og Cogcnac.   Þó að mér finnist Íslendingar ekki geta krafist einkafnota af vöruheiti eins og t.d. skyr, þá væri það vissulega of langt gengið ef einhver kallar vöru sína "Icelandic skyr", ef það er framleitt annarsstaðar.

G. Tómas Gunnarsson, 27.3.2008 kl. 13:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband