Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Dregið verður úr vægi verðtryggingar

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem ég hef fjallað um undanfarna 10 daga m.t.t. neytendamála er þessa setningu að finna:

 

Dregið verði úr vægi verðtryggingar í lánaviðskiptum samhliða auknu framboði óverðtryggðra íbúðalána.

 

Þetta er að mínu mati elsta, stærsta og ótvíræðasta hagsmunamál neytenda á Íslandi - en tengist að mati margra sérfræðinga í hagfræði og stjórnvísindum aðild að ESB.

 

Sumir hafa sagt ómögulegt að afnema eða takmarka verðtryggingu nema með upptöku evru - og þá væntanlega í gegnum aðild að ESB og hafa hafnað efasemdum - mínum sem annarra - um réttmæti verðtryggingar með þeim rökum.

 

Aðrir hafa haldið því fram að verðtrygging verði endanlega - og sjálfkrafa - úr sögunni með ESB- og evruaðild.

 

Hvað sem þeim röksemdum eða spádómum líður hefur þetta lengi verið eitt helsta áhyggjuefni mitt fyrir hönd neytenda en ennþá hef ég ekki fundið lausnarmiðaða leið til þess að takast á við vandann með þeim takmörkuðu úrræðum og valdheimildum sem talsmaður neytenda býr yfir. Ein ástæðan er trú hagfræðinga og annarra sérfræðinga almennt - a.m.k. fram að bankahruni - á réttmæti verðtryggingar!

 

Ein hugmyndin, sem ég hef kannað lauslega með sérfræðingum og reifað óformlega (m.a. á fundi hjá Hagsmunasamtökum heimilanna nú í kvöld), er að leita úrlausnar hjá eftirlitsaðilum EES - svo sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) um réttmæti og lögmæti þess að flest neytendalán á Íslandi - þ.m.t. íbúðarveðlán - séu samkvæmt stöðluðum samningum tengd lögvarinni vísitölu neysluverðs sem ríkisstofnun reiknar út frá verðbreytingum - auk hárra vaxta. Með því er öll áhættan (ekki aðeins hluti hennar) af óvissum atburði - verðþróun utan áhrifamáttar einstakra neytenda - sett á veikari aðilann í samningssambandinu, þ.e. neytandann.

 

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir einnig um málsmeðferð - og takið eftir að þar segir (eins og felst í upphafstilvitnuninni að framan) "hvernig" - ekki hvort):

 

Jafnframt verður óskað eftir mati Seðlabankans á því hvernig best verði dregið úr vægi verðtryggingar í íslensku efnahagslífi.

 


Sjö hestar andskotans

Alveg fram undir kreppu máttu þeir sem efuðust um réttmæti verðtryggingar sæta ámæli stjórnmálaafla og hagfræðinga - en nú efast fleiri. Gunnar Tómasson hagfræðingur, sem mun hafa verið meðal þeirra sem fyrst og lengst efuðust um réttmæti verðtryggingar, skrifar gagnorða og góða grein í Fréttablaðið í gær um Hagfræði andskotans. Þar svarar hann Guðmundi Ólafssyni lektor mjög vel villandi dæmi um hestana sjö - eins og ég leitaðist við síðsumars með þessum hætti:

 

Málið er að lántakandi tekur einmitt 10 hesta (krónur) að láni og vill vita hvað hann á að greiða til  baka í leigu (vexti) auk höfuðstólsins (hestanna 10, auðvitað). Hér á landi bætist hins vegar við óviss fjöldi folalda (verðbóta) sem er mældur eftir á - miðað við það sem nágrannabóndinn hefur náð í ávöxtun með því að hafa sínar hryssur heima með með fola. Væri ekki eðlilegra að lánveitandinn semdi um vexti með hliðsjón af þeim fórnarkostnaði - eina tegund vaxta en ekki tvær?

 

Meint rýrnun lánsins (verðbólga) er mæld sem það sem lánveitandinn er talinn hafa farið á mis við með því að verðbólga var ekki bara hærri en búist var við heldur bara einhver. Ég gæti ímyndað mér að réttlátara þætti ef áhættu af umframverðbólgu yfir einhverri tilgreindri spá (t.d. 2,5% eins og verðbólgumarkmið Seðlabankans) væri skipt á milli lánveitanda og lántakanda. 

 

Gunnar svarar Guðmundi m.a. með þessum orðum:

 

Þetta er rugl - einum hesti verður ekki umbreytt í stóð né kaffipakka í skipsfarm af kaffi með einfaldri tölvufærslu líkt og dugar til að margfalda nafnvirði peninga í hagkerfinu. Skipsfarmur af framleiðsluvörum getur týnst í hafi en pappírsauður getur horfið eins og dögg fyrir sólu sbr. hlutafé í íslenzku bönkunum í byrjun október 2008. Vitræn umræða um verðtryggingu krefst þess að raunverðmætum sé ekki jafnað til ávísana á verðmæti - að hestum og kaffi sé ekki jafnað til peninga/ávísana á hesta og kaffi.

 

 


Glöggt er gests augað - afnám verðtryggingar meginatriði endurreisnar

Afnám verðtryggingar er meðal aðeins þriggja meginatriða, sem einn af þeim, er vöruðu okkur við, telur nauðsynlegt til þess að endurreisa íslenskt efnahagslíf. Undanfarin þrjú ár hef ég - árangurslítið og þrátt fyrir mikið andstreymi frá "kerfinu" - reynt að finna hagfræðinga sem deila efasemdum mínum um réttmæti verðtryggingar og koma þeir nú loks í ljós - að utan - auk örfárra innlendra sem komið hafa fram á síðustu vikum.

Glöggt er gests augað. Carsten Valgreen, sem fyrir tæpum þremur árum varaði Íslendinga við þeim aðstæðum sem stuðluðu að hruni Íslands, segir í grein sinni í Fréttablaðinu á laugardag:

 

Í þriðja lagi verður að afnema verðtrygginguna svo að endanlega sé hægt að uppræta verðbólguna úr hagkerfinu. Þetta gæti falið í sér bann við nýjum verðtryggðum lánum og takmarkaðan aðgang neytenda að erlendum lánum.

Ég hef efast um réttmæti verðtryggingar út frá hagsmunum og réttindum neytenda, þ.e. hvers vegna veikari aðilinn í skuldarsambandi er látinn bera alla áhættuna af óvissri þróun atburða sem felst í verðþróun og þar með breytingu (les: hækkun) á vísitölu neysluverðs þó að sterkari aðilar í efnahagslífinu bæði viti meira og ráði meiru um þróun verðbólgu. Þá virðist Carsten Valgreen í grein sinni taka undir annað sem ég hef vakið máls á, þ.e. að verðtrygging sé ekki aðeins afleiðing - heldur einnig orsök - verðbólgu.

Ef ekki verður gripið til þessara aðgerða óttast ég að lærdómurinn sem draga má af þessari kreppu fari í súginn og ný holdgun hennar líti dagsins ljós eftir tíu til fimmtán ár.

mbl.is Íslensk stjórnvöld harðlega gagnrýnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannanna verk

Verðbólguhraðinn síðustu þrjá mánuði er 24% og mælt tólf mánuði aftur í tímann mælist hækkun á vísitölu neysluverðs 18%. Oft - síðast á útvarpi Sögu sl. föstudagsmorgun - er rætt um þá, sem leyfa sér að efast um réttmæti verðtryggingar, eins og þá sem efast um þyngdarlögmálið eða önnur Guðs gefin lögmál. Líktu þeir Guðmundur Ólafsson og Sigurður G. Tómasson slíkum efasemdarmönnum við menn sem vildu henda hitamælinum eða tommustokkinum ef þeim líkaði ekki útkoman úr mælingunni. Þó má lesa það í þessari frétt að það eru mannanna verk sem hafa hækkað marga liði hennar eins og oft þegar sagðar eru fréttir af hækkun vísitölu neysluverðs (sjaldan heyrast fréttir af lækkun hennar nema þegar önnur mannanna verk leiða til þess um skamma hríð eins og þegar matarskattur var lækkaður snemma í fyrra).

 

Samt er því ávallt haldið fram að ef verðtrygging væri ekki þá hefðu rétthafar (eigendur verðtryggðra krafna) tapað í ljósi þess að áfengisgjald o.fl. hefur hækkað skuldirnar þennan mánuðinn.

 

Sú umræða er af sama tagi og þegar rætt er um að svonefnd verðtrygging sé ekki vandamál; vandamálið sé verðbólgan. Ég er ekki viss um að það sé svona einfalt - að verðtrygging sé bara einkenni á sjúkdómi sem heiti verðbólga. Ég hef haldið því fram að verðtrygging sé ekki aðeins afleiðing - heldur einnig að hluta til orsök verðbólgu.


mbl.is Verðbólgan mælist 18,1%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengið: IKEA og neytendur - brostnar forsendur eða lokun! Hvað með íbúðarlánin?

Verðið í vörulistanum gildir til 15. ágúst 2009,

segir á forsíðu IKEA-bæklingsins frá í haust - rétt eins og í fyrra sagði: á sama stað

Verðið í vörulistanum gildir til 15. ágúst 2008.

 

Fyrirvari um gengisbreytingar eða aðrar forsendubreytingar er ekki auðfundinn í bæklingnum - en forsendur geta breyst í litlu hagkerfi eins og við Íslendingar þekktum á árum áður og nú af sárri reynslu; því er eðlilegt að neytendur spyrji sig hvort um sé að ræða eðlilega viðskiptahætti eða óheimilt rof á ofangreindri yfirlýsingu þessa alþjóðafyrirtækis.

 

Almennt verða fyrirtæki á borð við banka, tryggingarfélög, tímaritaútgefendur og orkufyrirtæki að teljast bundin af samningum (og samningsígildum á borð við opinberar yfirlýsingar um viðskiptakjör) til langs tíma - sem lögfræðingar nefna viðvarandi samninga (þ.e. annað hvort ótímabundnum samningum þar til þeim er sagt upp eða tímabundnum samningum til tiltekins tíma, t.d. til 31. desember 2008 eða til 3ja mánaða frá upphafsdegi). Slíkum samningum verður ekki breytt nema í samræmi við skilmála og almennar reglur neytendamarkaðsréttar - og þá með formlegri tilkynningu til hvers og eins neytanda og með hæfilegum fyrirvara eins og ég hef í embættisnafni gætt, formlega og óformlega.

 

Í venjulegum vestrænum ríkjum mætti telja rétt að leggja formlegt mat á hvort slík yfirlýsing um afturköllun verðstefnu af hálfu fyrirtækis á borð við IKEA stæðist almennar reglur neytendamarkaðsréttar.

 

Hvað gerir talsmaður neytenda þá?

 

kunna einhverjir að spyrja sig.

 

Ég tek fram að yfirleitt leitast ég við að nefna ekki tiltekin fyrirtæki - hvorki hér á neytendablogginu né á vefsíðu talsmanns neytenda nema að undangengnum samskiptum við þau og eftir málalyktir enda eðlilegt að þau njóti eins konar andmælaréttar áður en fjallað er um þau í embættisnafni. Hér virðist mér hins vegar í fljótu bragði ekki auðvelt að efast um lögmæti - og jafnvel réttmæti - þeirrar einhliða (en að vísu fyrirvaralausu) ákvörðunar IKEA að víkja frá áralangri yfirlýstri stefnu um bindandi verð heilt ár fram í tímann. Fyrirvarann - 1 dag - má reyndar efast um.

 

Á hinn bóginn má hugsanlega réttlæta þessa óvenjulegu yfirlýsingu með því að hér er vikið frá

  • óhefðbundnum og neytendavænum viðskiptaháttum miðað við íslenskar aðstæður - þar sem flest allt hefur annars vegar áratugum saman verið verðtryggt, vísitöluháð og breytingum undirorpið,
  • í einstökum viðskiptum hverju sinni en ekki viðvarandi samningum samkvæmt framangreindu og
  • vegna sérstakra aðstæðna á gengismarkaði á sama tíma og réttnefnd neyðarlög hafa verið sett vegna hamfara á fjármálamarkaði.

 

Það, sem IKEA kann m.ö.o. að geta borið fyrir sig ef einhver neytandi vill byggja á bindandi gildi yfirlýsingarinnar hér í upphafi um bindandi verð rúmlegan meðgöngutíma fram í tímann, heitir á lagamáli "force majeure." Undir það falla að jafnaði utanaðkomandi atburðir sem samningsaðilar (t.d. fyrirtæki og neytandi) hafa ekki áhrif, hvað þá stjórn á, svo sem verkföll, borgarastyrjaldir, stríð og annað (svo sem e.t.v. beiting hryðjuverkalöggjafar gagnvart íslensku fyrirtæki og jafnvel heilu samfélagi óbeint).

 

Ég er, sem sagt, því miður ekki frá því að algert og fremur óvænt gengishrun undanfarið ár geti fallið undir "force majeure;" þess vegna er málstaður IKEA ekki erfiður að verja og réttur neytenda gagnvart fyrirtækinu ekki augljós í kjölfar þesarar skyndilegu breytingar þó að ég hefði, sem sagt, að vanda talið lengri fyrirvara eðlilegan.

 

Kjarni málsins - og hið alvarlega álitamál fyrir neytendur, kröfuhafa og efnahagskerfi landsins - er að mínu mati að neytendur geta hugsanlega borið fyrir sig sömu röksemd - og það með meiri rétti þar sem um er að ræða viðvarandi samninga: Þeir neytendur sem skulda "verðtryggðar" krónur eða eru ábyrgir fyrir íbúðar- og bílalánum í erlendri mynt geta þá ekki síður borið fyrir sig sömu röksemdir:

 

Brostnar forsendur og force majeure.

 

Á því byggi ég sem talsmaður neytenda væntanlegar tillögur til stjórnvalda um neyðarlög í þágu neytenda vegna íbúðarlána á næstunni - eins og ég rakti fyrir viðskiptanefnd Alþingis á fundi sl. mánudag.

 

Á mannamáli getur maður sagt eins og IKEA: annað hvort er verðinu breytt eða við (heimilin) lokum.


mbl.is Verðhækkanir í IKEA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Festing gengis myntkörfulána og verðtrygging

Hér er enn eitt raunhæfa dæmið um harðan skell íbúðarlána í erlendri mynt gagnvart ungu fjölskyldufólki. Sjá hér nýjustu fréttina af þessu á vefsíðu talsmanns neytenda og viðtal við mig hér á rás 1 hjá RÚV í morgun þar sem ég rek m.a. að sum sjónarmið að baki ósk um viðræður við félagsmálaráðherra um festingu gengis myntkörfulána - fast eða varanlega - eins og nánar er útfært hér af Marinó G. Njálssyni á bloggsíðu hans.

 

Í jafnræðisskyni þarf svo að gera eitthvað við svonefndri verðtryggingu neytendalána eins og ég hef lengi bent á og Marinó rökstyður og útfærir hér


mbl.is Afborgunin fór úr 107 í 198 þúsund á mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisafskipti eingöngu af verðlagningu lánsfjár?

Í gær þáði ég - öðru sinni og með þökkum - þetta endurtekna góða boð um "ókeypis" þjóðhagfræðikennslu í boði ríkisháskólans - enda virðast flestir hagfræðingar telja mig á villigötum þegar ég efast um rétt sé að verðlagning á lánsfé sé háð öðrum lögmálum en önnur vara og þjónusta á markaði - sem á að heita frjáls. Fáir hagfræðingar styðja efasemdir mínar og því verð ég sem talsmaður neytenda að afla mér frekari þekkingar sjálfur.

 

Eftir að frjáls verðlagning á leigubifreiðarþjónustu var tekin upp fyrir um 2ur árum (þegar Samkeppniseftirlitið ákvað að ekki mætti lengur miðstýra verðlagningu, meira að segja með atbeina þeirrar ríkisstofnunar) er sennilega ekki margt fleira (ég lýsi eftir öðrum dæmum) en búvörur sem eru háðar ríkinu um verðlagningu; þetta kallast samkvæmt prófessor í HÍ staðreyndarhagfræði.

 

Flestir hagfræðingar, sem vinna ekki hjá hagsmunaaðilum sem hafa aðra hagsmuni, gagnrýna þetta fyrirkomulag þó - og telst sú afstaða samkvæmt sama prófessor svonefnd stefnuhagfræði.

 

Þess vegna skil ég enn ekki víðtæka andstöðu hagfræðinga við hugmyndir um að stór hluti endurgjalds fyrir lán á peningum - svokallaðar verðbætur í formi ríkisútreiknaðrar vísitölu neysluverðs - sé einfaldlega settur inn í vextina og þar með sýnilegri og háðari samkeppni.

 

Er þetta ekki eins og ef seljendur annarrar vöru og þjónustu gætu verðlagt fastakostnaðinn en rukkað eftir á og með aðstoð ríkisins fyrir breytilegan eða óvissan kostnað? Þá gæti bakarinn sagt:

 

Rúnnstykkið kostar 80 kr. - en svo rukka ég þig síðar um meira ef hitunarkostnaður eða heimsmarkaðsverð á hveiti (sem er þó "relevant" fyrir þann geira) hækkar mér í óhag - eða ef bakarasveinninn veikist.

 

Eini munurinn er að kaup á rúnnstykki eru í eitt skipti en lán eru gjarnan til 25 eða 40 ára - en breytir það dæminu? Það á líka við um neytandann að vilja vita að hverju hann gengur til langs tíma.

 

Boðið er upp á rökræður.


Vaxandi gagnrýni á svonefnda verðtryggingu

Hér er góð, vel rökstudd, umfjöllun (og margar athugasemdir frá bloggurum) um málefni sem ég hef lengi leitast við að finna formlegan flöt á vegna efasemda minna um fyrirbærið en enn ekki tekist - m.a. vegna þess að fáir hagfræðingar vilja taka - ég meina auðvitað geta tekið - undir efasemdir mínar.

 

Viðfangsefnið hef ég formlega nefnt lengra og formlegra heiti en "verðtryggingin" er kölluð í daglegu tali, þ.e. eitthvað á þessa leið:

 

Gildandi fyrirkomulag á sjálfkrafa (lögvarinni) tengingu neytendalána við vísitölu neysluverðs.

 

Álitaefnið kalla ég helst ekki "afnám" verðtryggingar (sem væri þá eini valkosturinn við óbreytt ástand) - heldur hugsanlega eitthvað þar á milli; ég hef efasemdir um núverandi framkvæmd.

 

Ég hef einkum - en ekki eingöngu - gagnrýnt svonefnda verðtryggingu út frá tveimur sjónarmiðum - þannig að umfjöllun mín hefur ekki verið órökstudd

  • þó að ég hafi ekki komist að formlegri eða endanlegri niðurstöðu og
  • þótt sumir ljósvakamiðlar og jafnvel prentmiðlar klippi og skeri þegar þeir spyrja mig um svo flókið og umdeilt mál.

 

Í fyrsta lagi hef ég vakið athygli á því neytendasjónarmiði að óréttmætt sé að annar aðilinn, sá veikari, skuldarinn (oft neytandi) beri alla áhættuna af óvissum atburði - sem hann hefur enga stjórn á einn og sér, verðbólgunni; hinn aðilinn, t.d. banki, hefur hins vegar oft nokkkur áhrif á þenslu og þar með verðbólgu með athæfi sínu. Sú óskipta áhætta skuldarans er auk þess ekki háð neinum takmörkunum; maður gæti sagt:

 

"the sky is the limit." 

 

Þetta taka sumir lögfræðingar undir og stundum útlendingar - ef þeir skilja yfirleitt fyrirbærið sem ég er að reyna að lýsa. Mótrökin um að neytendur ávaxti líka fé eiga ekki fyllilega við að mínu mati þar eð þeir gera það ekki í atvinnuskyni - enda teldust þeir þá ekki neytendur samkvæmt skilgreiningu; neytendur sem ávaxta fé - annað hvort sem frjálsan sparnað eða (skyldu)bundinn lífeyrissparnað - gera það ávallt fyrir milligöngu sérfróðra aðila - svo sem banka og lífeyrissjóða - sem ströng skilyrði og ítarlegur lagarammi gildir um og verndar hann m.a. neytendur - auk samkeppnislögmála um bestu ávöxtun og markaðs- og efnahagslögmála um vaxtastig. 

 

Í öðru lagi hef ég haldið fram því efnahagslega sjónarmiði - sem vissulega er ekki á sérsviði mínu - að "verðtrygging" sé ekki bara lögvernduð afleiðing verðbólgu heldur líklega að nokkru leyti orsök hennar; sterkir aðilar á markaði hafa m.ö.o. ekki sérstakan hag af því að halda niðri verðbólgu því að þeir fá vextina ávallt (sem eru ekki lágir hérlendis) auk verð"bóta" ofaná - óháð sinni fjármögnun. Jafnvel kunna einhverjir að hafa hagnast af meiri verðbólgu án þess að ég hafi ennþá beinlínis leitað uppi slík dæmi.

 

Í fyrra tók ég í embættisnafni með umsögn til viðskiptaráðuneytis undir fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur þingkonu um brýna þörf á greiðsluaðlögun - m.a. með vísan til þeirrar útbreiddu verðtryggingar sem tíðkast hérlendis. Nýverið áréttaði ég þessa afstöðu í ítarlegri umsögn um drög viðskiptaráðuneytis að frumvarpi um greiðsluaðlögun sem er félagslegt úrræði til handa neytendum í verulegum greiðsluvandræðum. RÚV fjallaði síðan um umsögnina síðdegis í gær í fréttum hljóðvarps.

 

Í hádegisfréttum Stöðvar 2 og Bylgjunnar í gær var svo fjallað um "afnám verðtryggingar" og aftur komu svo andmæli í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi.

 

Opinber rökræða heldur áfram.


83% á villigötum?

Ég er þá í góðum hópi samkvæmt þessu þar sem margir áhrifaaðilar og hagfræðingar telja mig á villigötum er ég hef rökstuddar efasemdir um réttmæti á núverandi fyrirkomulagi þess ríkisvarða og nokkuð sjálfkrafa skipulags að lántakandi (gjarnan neytandi, einkum vegna húsnæðislána) beri alla áhættuna af þeirri óvissu þróun sem verðlag á bensíni, brauði og banönum felur í sér - ofan á ágæta vexti. Þarna er rætt um að afnema verðtryggingu - en ég hef gefið í skyn að ef maður kemst að þeirri niðurstöðu að núverandi fyrirkomulag "verðtryggingar" standist ekki þá sé það sjálfstæð ákvörðun hvað taki við.

 

Málið er a.m.k. ekki svart/hvítt eins og margir virðast hafa talið í hartnær 30 ár en auðvitað eru rökin - en ekki fjöldinn - með og á móti aðalatriðið.


Þjóðarsátt um afnám verð(bólgu)tryggingar?

Í lok síðustu viku kom fram í fréttum sú afstaða fjármálaráðherra að sjálfsagt væri að hitta aðila vinnumarkaðarins, kæmu þeir með góðar tillögur. Af þessu tilefni hafði ég samband við fulltrúa aðila vinnumarkaðarins - og þá ekki bara þá stóru, ASÍ og SA, heldur líka þá sem víla og díla um kjör opinberra starfsmanna.

 

Ég stakk upp á að þeir tækju upp við ríkisstjórnina mál sem ég hef vakið máls á en ekki komið í formlegan farveg ennþá: afnám verðtryggingar - sem ég hef haldið fram að tryggi áframhaldandi verðbólgu.

 

Breyting á því fyrirkomulagi sem tíðkast á tengingu neytendalána við vísitölu neysluverðs verður ekki gerð án þess að aðilar vinnumarkaðarins - sem komu lífeyriskerfinu á fót og reka það - komi að því (auk stjórnvalda). Að vanda eru undirtektir hagfræðinga dræmar; nánar um það síðar.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband