Er Seðlabankinn sammála okkur hinum um skuldavandann? Já

Hér er áhugaverð tenging við álitamálið hvort færa eigi niður skuldir heimilanna - þ.e. afstaða Seðlabankans! Hlustið og þér munið skilja.

 

Í lokin spyr talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, hvort skuldaniðurfærsla muni laga vaxtastefnuna; svarið - frá seððlabankastjóra - er já.


Síðbúin lagfæring á sértækum úrræðum dugir ekki til

ASÍ leggur þarna aðeins til lagfæringar á sértækum úrræðum á borð við greiðsluaðlögun. Það dugir ekki til að mínu mati - þó að þetta virðist brýnar lagfæringar eins langt og þær ná. Almennar aðgerðir þarf til að mínum dómi.

 

Þó að ASÍ hafi ekki kynnt þessar tillögur fyrir mér sýnist mér á fréttum að þetta séu í sjálfu sér brýnar og góðar tillögur um lagfæringar á gölluðum lögum um greiðsluaðlögun. Eins og ég nefndi á fundi okkar, sem stóðum að ákalli um almennar aðgerðir  11. febrúar og 11. september sl., með forystu ASÍ í síðustu viku getum við sjálfsagt öll skrifað undir þessar tillögur ASÍ.

 

Eins og ég benti á í

sem loks komu fram eftir allsherjarefnahagshrun er þar um að ræða gölluð lög og auk þess sértækt úrræði - sem ekki dugir til eftir forsendubrest sem varð á verðtryggðum og einkum gengistryggðum lánum við endurtekið gengishrun og verðbólguaukningu í kjölfarið.

 

Ég verð því líklega að halda mínu striki ef ekki kemur annað og meira til.


mbl.is Mæta vanda 10.000 fjölskyldna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útrétt sáttahönd þreytist

Nú hafa fulltrúar lántakenda beðið í heila viku eftir svari frá félags- og tryggingamálaráðherra um hvort þeir fái aðild að endurskipulagningu skulda heimilanna. Stjórnvöld hafa fundað með fulltrúum kröfuhafa, þ.m.t. ASÍ - sem stendur að lífeyrissjóðum sem eru meðal kröfuhafa. Því verður ekki trúað að stjórnvöld afþakki gott boð um samstarf við neðangreinda aðila - eftir nær árs bið eftir að tekið verði í eitt skipti og með heildstæðum hætti á skuldum neytenda í kjölfar forsendubrests við gengisfall um páskana í fyrra og gengishrun í kjölfar bankakreppu.

 

Lengur verður vart beðið eftir að tekið verði í sáttahönd eftirfarandi aðila sem starfað hafa saman frá sameiginlegu ákalli 11. febrúar sl., þ.e.

  • Búseta á Norðurlandi,
  • Félags fasteignasala,
  • Hagsmunasamtaka heimilanna,
  • Húseigendafélagsins og
  • talsmanns neytenda.

 

Sjö mánuðum síðar endurnýjuðu sömu aðilar ákallið ásamt fleirum og í kjölfarið var fundað með ráðherra og þingflokkum stjórnarflokkanna auk ASÍ, Neytendasamtakanna og þingflokks Framsóknarflokksins og boðið upp á viðræður um leiðir til niðurfærslu. Á fundinum með ráðherra var óskað eftir fullri og beinni aðild að því að móta aðgerðir. Ráðherra veit að beðið er eftir svari.

 


mbl.is Ræða um greiðsluvanda heimila
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sátt um niðurfærslu skulda

Æ fleiri skilja að við neytendum blasir raunverulegur vandi vegna forsendubrests lána í kjölfar efnahagshruns. Rétt ár er frá þroti Lehmans-bankans. Í kjölfarið varð allsherjar efnahagshrun á Íslandi. Áhrifin eru – eins og við náttúrhamfarir – óháð efnahag og tekjum neytenda en vandinn er af manna völdum. Lausnin er einnig í mannlegu valdi.



Ýmsir hafa frá upphafi lagt til efnislegar lausnir:

Almennar lausnir

  • Hagsmunasamtök heimilanna, Búseti o.fl. vilja færa aftur verðtryggingu og leiðrétta gengistryggð lán.
  • Þingflokkar og þingmenn vilja færa niður skuldir, oft með tölulegu hámarki. 

     

Frestun og sértækar aðgerðir

Stjórnvöld hafa til þessa ekki lagt fram almennar lausnir en fryst skuldir og frestað fullnustu auk sértækra lausna. Sama gildir um stærstu samtök launafólks og neytenda. Í vikunni hefur óformlegur samráðshópur um þörf á samræmdum lausnum fundað með þessum samtökum, stjórnvöldum og þingflokkum en hópurinn sendi fyrst frá sér sameiginlegt ákall um almennar aðgerðir 11. febrúar sl. (sjá www.talsmadur.is)  

 

Gerðardómur – skjót málsmeðferð til lausnar

Sem talsmaður neytenda hef ég ekki lagt fram efnislegar tillögur heldur lagt áherslu á réttláta málsmeðferð til lausnar. Strax fjórum vikum eftir hrunið nefndi ég hjá þingnefnd að taka mætti íbúðarlán eignarnámi og færa niður eftir mati gerðardóms. Stjórnvöld virtust lengi vinna að lausn, a.m.k. vegna gengistryggðra lána, og dró ég því að árétta þá tillögu en gerði það formlega eftir þingkosningar.

 

Ein rök fyrir tillögu minni eru að það getur kostað neytanda allt að 2 millj. kr. og tekið um tvö ár að fá dómsúrlausn.

 

Eftir 4ra mánaða bið eftir viðbrögðum sendi ég 25 bönkum og lánveitendum sambærileg tilmæli, þ.e. að samið verði um að gerðardómur leysi úr ágreiningi um gengis- og verðtryggð lán vegna forsendubrests o.fl. lagaröksemda, þ.m.t. að óheimilt hafi verið að veita gengistryggð lán. Þess má geta að hagfræðingar – einkum að utan – hafa nú loks tekið undir að verðtrygging sé óréttmæt gagnvart neytendum.

 

Flestir sjá nú að hið hefðbundna réttarkerfi er ekki fært um að takast á við vandann og að saklausum neytendum sé ekki bjóðandi ígildi gjaldþrots og skerðing fjárræðis. 
 

Seðlabankinn tekur loks undir

Í fyrradag hélt Seðlabanki Íslands áhugaverða málstofu þar sem viðurkennt var – út frá reynslurökum úr yfir 100 kreppum – að “endurskipulagning skulda” væri efnahagsleg nauðsyn. Ef ekki koma heildstæðar lausnir fer verr fyrir þjóðfélagið allt. Ég tek enn undir það og árétta að samræmd niðurfærsla skulda er einnig siðferðisleg og lagaleg krafa neytenda í kjölfar ófyrirséðs efnahagshruns.


 

Höfundur er talsmaður neytenda og aðjúnkt

í neytendamarkaðsrétti við lagadeild Háskólans í Reykjavík.


 

Talsmaður neytenda birti í dag [17.9.09] eftirfarandi grein

í Viðskiptablaðinu - einnig sem aðjúnkt við lagadeild Háskólans í Reykjavík.

]


Óttast að fólk sé að gefast upp

Um helgina hitti ég tvo unga menn sem ætla að yfirgefa landið - til frambúðar að sögn - og líst ekki á framtíðina hér. Ég varð niðurdreginn yfir þessu vonleysi þeirra. Enn verra fannst mér þegar tvær konur sögðust vera að gefast upp - vegna skuldaáþjánar.

 

Að vísu skil ég að mörgum finnist biðin löng eftir bættum stjórnarháttum og uppbyggilegri umræðuhefð - sem ungu mennirnir nefndu sem ástæðu væntanlegrar brottfarar. Þeir hafa að vísu tengsl við útlönd og engar verulegar skuldir hérlendis og eiga ekki börn og því er e.t.v. skiljanlegt að þeir freisti gæfunnar erlendis eftir því sem unnt er.

 

Konurnar tvær, sem komu að máli við mig að fyrra bragði, eiga hins vegar ekki eins auðvelt með að fara af landi brott - eiga hér ung börn og fjölskyldu - en sögðu að þær væru að gefast upp á biðinni!

 

Loks tek ég, hér með, upp þráðinn eftir langt blogghlé og freista þess að nota þennan miðil að nýju til þess að setja málefni neytenda í kastljós út frá fréttum líðandi stundar.


mbl.is Ná ekki endum saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dregið verður úr vægi verðtryggingar

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem ég hef fjallað um undanfarna 10 daga m.t.t. neytendamála er þessa setningu að finna:

 

Dregið verði úr vægi verðtryggingar í lánaviðskiptum samhliða auknu framboði óverðtryggðra íbúðalána.

 

Þetta er að mínu mati elsta, stærsta og ótvíræðasta hagsmunamál neytenda á Íslandi - en tengist að mati margra sérfræðinga í hagfræði og stjórnvísindum aðild að ESB.

 

Sumir hafa sagt ómögulegt að afnema eða takmarka verðtryggingu nema með upptöku evru - og þá væntanlega í gegnum aðild að ESB og hafa hafnað efasemdum - mínum sem annarra - um réttmæti verðtryggingar með þeim rökum.

 

Aðrir hafa haldið því fram að verðtrygging verði endanlega - og sjálfkrafa - úr sögunni með ESB- og evruaðild.

 

Hvað sem þeim röksemdum eða spádómum líður hefur þetta lengi verið eitt helsta áhyggjuefni mitt fyrir hönd neytenda en ennþá hef ég ekki fundið lausnarmiðaða leið til þess að takast á við vandann með þeim takmörkuðu úrræðum og valdheimildum sem talsmaður neytenda býr yfir. Ein ástæðan er trú hagfræðinga og annarra sérfræðinga almennt - a.m.k. fram að bankahruni - á réttmæti verðtryggingar!

 

Ein hugmyndin, sem ég hef kannað lauslega með sérfræðingum og reifað óformlega (m.a. á fundi hjá Hagsmunasamtökum heimilanna nú í kvöld), er að leita úrlausnar hjá eftirlitsaðilum EES - svo sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) um réttmæti og lögmæti þess að flest neytendalán á Íslandi - þ.m.t. íbúðarveðlán - séu samkvæmt stöðluðum samningum tengd lögvarinni vísitölu neysluverðs sem ríkisstofnun reiknar út frá verðbreytingum - auk hárra vaxta. Með því er öll áhættan (ekki aðeins hluti hennar) af óvissum atburði - verðþróun utan áhrifamáttar einstakra neytenda - sett á veikari aðilann í samningssambandinu, þ.e. neytandann.

 

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir einnig um málsmeðferð - og takið eftir að þar segir (eins og felst í upphafstilvitnuninni að framan) "hvernig" - ekki hvort):

 

Jafnframt verður óskað eftir mati Seðlabankans á því hvernig best verði dregið úr vægi verðtryggingar í íslensku efnahagslífi.

 


Bílalán í biðstöðu

Í tengslum við reglulega umfjöllun mína undanfarna viku um neytendamál í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar má nefna að ekki er þar beinlínis að finna almenna lausn á þeim vanda sem lántakendur svonefndra bílalána standa frammi fyrir en samkvæmt dæminu í þessari frétt er greiðslubyrðin nákvæmlega tvöföld - 100% hækkun; þá er ekki fjallað um skuldavandann sjálfan, þ.e. að slík dæmi fela í sér að bifreið er gjarnan (einkum í íslenskum krónum ef um er að ræða lán í erlendri mynt) mun minna virði en lánið sem hún stendur að veði fyrir. Í samstarfsyfirlýsingunni segir þó, þessu tengt: 

 

  • Skuldastaða heimila, greiðslu- og framfærslugeta verði til stöðugs endurmats sem og nauðsynlegar aðgerðir til að koma til móts við heimili í vanda.
  • Heildarmat á þörf fyrir frekari aðgerðir og tillögur í því efni verði unnar í kjölfar úttektar Seðlabanka Íslands á skuldum og tekjum heimila sem áætlað er að liggi fyrir í síðari hluta maímánaðar. Ákvarðanir um frekari aðgerðir og tillögur verði teknar í samráði við aðila vinnumarkaðarins.

 

Þess er því væntanlega ekki langt að bíða - þ.e. væntanlega í lok maí eftir að úttekt Seðlabanka Íslands liggur fyrir - að fram komi hvort ákvörðun verður tekin af ríkisstjórninni að leggja til almenna lausn á þessum skuldavanda neytenda, þ.e. umfram sértæk úrræði á borð við greiðsluaðlögun og almennar aðgerðir til frestunar á skuldavanda neytenda. Ég er enn vongóður um að svo verði, sbr. tillögu mína hér til lausnar á skuldavanda vegna íbúðarveðlána. Þá vekur vonir um ásættanlegar lausnir - eins og framangreind ráðagerð um ákvörðun um frekari aðgerðir og tillögur í samráði við aðila vinnumarkaðarins - að settur verði á fót

 

fastur samstarfsvettvangur stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins og önnur lykilhagsmunasamtök um þróun íslensks samfélags.


mbl.is Lántakar með frystingu inn í sumarið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neytendamál í stjórnarsáttmála

Ég held áfram að vekja athygli á neytendamálum í samstarfsyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar en í gær var smá útúrdúr vegna frumkvæðis heilbrigðisráðherra til aukinnar neytendaverndar (barna) gagnvart sætum neysluvörum. Ítarlegasta umfjöllunin um neytendamál er eftirfarandi kafli er lýtur að umfangsmestu aðgerðunum í þágu neytenda sem fráfarandi minnihlutastjórn og ný meirihlutastjórn hafa þegar ákveðið og fengið samþykktar:

 

Greiðslu- og skuldavandi heimila

Djúp niðursveifla í kjölfar bankahrunsins hefur skapað misgengi á milli greiðslubyrði og greiðslugetu margra heimila í landinu. Þetta misgengi verður að leiðrétta með lækkun á greiðslubyrði þeirra sem verst standa þar til verðmætasköpun atvinnulífsins tekur aftur að aukast. Markmið ríkisstjórnarinnar er að koma í veg fyrir að tímabundinn greiðsluvandi leiði til vanskila og gjaldþrots, svo sem með hækkuðum og breyttum vaxtabótum og húsaleigubótum. Lykilatriði er að tryggja húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga. Greiðslujöfnun sem nú nær bæði til verðtryggðra og gengistryggðra lána gerir kleift að laga greiðslubyrði að lækkandi tekjum. Þá gera ný lög um greiðsluaðlögun sem samþykkt voru á síðasta þingi það mögulegt að taka á vanda þar sem fyrirsjáanlegt er að greiðslu- og skuldabyrði verði skuldurum ofviða til lengri tíma litið. Loks gera frystingar greiðslna sem eru í boði hjá lánastofnunum heimilum kleift að bregðast við bráðavanda vegna skyndilegs tekjumissis. Ofangreindum úrræðum þarf að fylgja fast eftir.

 

  • Efnt verður til sérstaks kynningarátaks á þeim úrræðum sem heimilum í erfiðleikum standa þegar til boða.
  • Ráðgjafarstofa heimilanna verði efld enn frekar ef þörf krefur til að eyða biðlistum eftir viðtölum og aðstoð við endurskipulagningu á fjárhag heimila og fólks í vanda. Sérstaklega verði hugað að aðgengi íbúa á landsbyggðinni að þjónustu Ráðgjafarstöðvarinnar.
  • Skuldastaða heimila, greiðslu- og framfærslugeta verði til stöðugs endurmats sem og nauðsynlegar aðgerðir til að koma til móts við heimili í vanda.
  • Heildarmat á þörf fyrir frekari aðgerðir og tillögur í því efni verði unnar í kjölfar úttektar Seðlabanka Íslands á skuldum og tekjum heimila sem áætlað er að liggi fyrir í síðari hluta maímánaðar. Ákvarðanir um frekari aðgerðir og tillögur verði teknar í samráði við aðila vinnumarkaðarins.

 

Þarna er lýst frekari áformum um tilteknar aðgerðir og opnað fyrir endurmat á nauðsyn viðbótaraðgerða í þágu neytenda en meðal þeirra lausna sem lagðar hafa verið til er tillaga mín sem send var ríkisstjórninni fyrir tæpum þremur vikum og lesa má um nánar hér; í útdrætti fréttar um málið á vefsíðu talsmanns neytenda segir:

 

Talsmaður neytenda hefur sent forsætisráðherra tillögu með ítarlegum rökstuðningi fyrir því að taka beri öll neytendalán með veði í íbúðarhúsnæði eignarnámi og fela gerðardómi að leggja til niðurfærslu þeirra.


Neyslustýring eða neytendavernd?

Ég tek fram að við Ögmundur Jónasson áttum árum saman gott samstarf í þágu launafólks og viðurkenni að í þessu framtaki hans sem heilbrigðisráðherra felst vissulega að nokkru svonefnd forsjárhyggja - ef fólk hugsar um neytendur almennt, sem eiga jú samkvæmt fremur almennri skoðun sjálfir að kunna fótum sínum forráð. Líklegt markmið heilbrigðisráðherra er engu að síður að mínu mati réttmætt - að stýra neyslu þannig að barnungir neytendur séu verndaðir gegn óheilsusamlegri neyslu gosdrykkja - og gjarnan annars sykurvarnings. Hins vegar finnast mér fjölmiðlar einblína á jákvæð áhrif sykurskatts gagnvart tannvernd en gleyma að fjalla um það sem heilbrigðisgeirinn er nokkuð einhuga um að nefna:

 

offitu-faraldur.

 

Ég vona að sem flestir átti sig á að ekki er aðalmálið að stýra neyslu fullorðinna neytenda heldur aukin neytendavernd barna - en þar er hollustuvernd eitt lykilatriðið í nýlegum leiðbeiningum okkar umboðsmanns barna. Meðal lykilatriða þar er þetta:

 

Fjölskylduvænar dagvöruverslanir
Í dagvöruverslunum skal leitast við að ekkert sælgæti, flögur, gos eða þvíumlíkt sé nærri kassa og a.m.k. sé tryggt að einn kassi sé laus við slíkar vörur í verslunum þar sem eru fleiri en tveir kassar. Auk þess er mælst til þess að auðvelt sé fyrir fólk með börn að ganga um dagvöruverslun en sneiða hjá matvælum, sem höfða sérstaklega til barna og hafa hátt innihald sykurs, salts, fitu eða transfitu – einkum ef þau eru í sjónhæð barna.

 

Ekki kann ég að reikna hve mikið fæst í ríkissjóð með framtakinu enda hef ég lýst því yfir að það sé ekki mitt hlutverk að hafa skoðun á sköttum - nema þeir raski frjálsum viðskiptum neytendum í óhag. Enn síður er það hlutverk talsmanns neytenda að lýsa afstöðu til þess hvert skatttekjur eigi að renna - til velferðarþjónustu eða annars.

 

En raskar þetta frjálsum viðskiptum? Já; neyslustýring - sem margir hreinstefnumenn á sviði hagfræði, stjórnmála og skattaréttar andmæla - getur að mínu mati haft nokkuð augljós hagræn áhrif þannig að færri vilja kaupa - eða geta keypt - sykraða gosdrykki - samkvæmt kenningunni. Undirtektir mínar styðja því frekari opinberar álögur á neytendur í hagrænu, lýðheilsupólitísku skyni; því miður var ég nokkuð einn um þá skoðun í óformlegu samráði á vegum hins opinbera fyrir rúmum tveimur árum - þegar ríkisvaldið áformaði snemma árs 2007 lækkun "matarvirðisaukaskatts" - að ekki ætti að lækka opinberar álögur á óhollustu í einhverjum skilningi. Fulltrúi viðskiptaráðuneytis lét sérstaklega í ljós undrun sína á að talsmaður neytenda teldi að halda ætti álögum á neytendur - sem ég vildi gera í forvarnarskyni vegna veikburða neytenda á borð við börn. Ég stend við þá skoðun. Kjarni málsins er að hérumrædd breyting væri ekki (öllum) neytendum í óhag að mínu mati.


mbl.is Sykrað gos skattlagt?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvalkvæð aukagjöld standast ekki

Þetta tel ég ekki standast - og mun beita mér gegn þessu á vettvangi norrænna (eða jafnvel evrópskra) kollega ef færi gefst eins og ég þegar hef gert innanlands - þ.e. að amast við aukagjöldum á neytendur vegna þjónustu sem felur ekki í sér einhverja afmarkaða viðbót sem neytandinn getur valið - og hafnað.

 

Einhver misskilningur hlýtur þó að felast í þessari frétt því að innskráning er nauðsynlegur hluti flugferðar þó að velja megi hvort fleiri en ein taska er innskráð, þyngd tösku eða hvort keyptur er matur eða annað í flugferðinni o.s.frv. Forsenda gjaldtöku er sem sagt að mínu mati að tekið sé gjald vegna afmarkaðrar og valkvæðrar aukaþjónustu við flugfarþega. Hugsanlega felst í þessu ráðagerð um að flytja kostnað af öllum yfir á einstaka neytendur sem vilja viðbótarþjónustu á borð við margar eða þungar töskur. Aukagjöld vegna aukaþjónustu eru í lagi en aukagjald vegna nauðsynlegs hluta hinnar seldu þjónustu (flugferðar) stenst að mínu mati ekki. Af sömu ástæðu hef ég efasemdir um niðurlag fréttarinnar er lýtur að atriðum sem vart eru valkvæðir í hefðbundnum skilningi:

 

Ryanair hefur hugleitt ýmsar sparnaðarleiðir að undanförnu. Meðal annars hefur lagt til að farþegar greiði fyrir notkun salernis í flugvélunum og að mjög þungir farþegar greiði aukagjald.


mbl.is Verða að borga fyrir innritun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband