Löglaust, siðlaust og vitlaust - á „frjálsu“ vörunum

Verð er eitt - og verðmerking og verðmæling annað. Það er víst tímabært að segja smá dæmisögu í tengslum við þá stóru áskorun sem neytendur standa frammi fyrir þessa dagana - og reyndar alltaf. Rétt er að huga að því smáa sem hver og einn neytandi getur - og getur ekki sjálfur - gert. Þessi stóra áskorun er að standa gegn tilhneigingu til verðhækkana (svo ekki sé talað um þann vanda sem þeir geta ekki brugðist við nema með gengisáhættu þar sem mældar verðhækkanir leiða sjálfkrafa til hækkunar „verðtryggðra“ lána).

 

1. Löglausar verðmerkingar eða engar

Ég hef áður tjáð mig um löglausar eða hæpnar verðmerkingar (þ.e. rangar eða ónógar verðmerkingar, skaðlegar fyrirframverðmerkingar og of tíðar verðbreytingar) á vefsíðu talsmanns neytenda en sinni sjálfur ekki (í embættisnafni a.m.k.) almennri verðgæslu eða verðmerkingareftirliti. Neytendur eiga hins vegar rétt á og mikla hagsmuni af því að fyrirtæki sinni lögbundinni verðmerkingarskyldu sinni; um það ættu fjölmiðlar að spyrja meira. Neytendur eiga líka rétt á virku verðmerkingareftirliti. Það er forsenda mikilvægasta verðlagseftirlitsins - neytenda sjálfra. Ekki er eðlilegt að mínu mati að lagt sé á neytendur sjálfa og eina að sinna verðmerkingareftirliti gagnvart fyrirtækjum, sbr. nánar í frétt hér á heimasíðu talsmanns neytenda í dag.

 

 2. Siðlausar verðhækkanir

Rétt fyrir og rétt eftir páskahátíð spurði Fréttablaðið mig hvort mér hefðu borist ábendingar um hækkanir á vöru með vísan til gengisbreytinga en það hafði mér ekki eins og fram kemur í Fréttablaðinu (bls. 6) í gær. Ég lét þess hins vegar getið í viðtölum við blaðamennina að ég teldi slíkar verðhækkanir, sem hefðu annað hvort ekki stoð í gengislækkun eða væru ótímabærar, vera siðlausar þótt þær væru væntanlega löglegar - þar sem við byggjum við frjálsa verðlagningu (um annað en umrædda mjólk sem á fyrri hluta þessarar fyrirsagnar ekki skilið) og ættum að geta treyst á samkeppni.

 

Þetta hafði Fréttablaðið ekki eftir mér.

 

3. Vitlausar verðmerkingar eða mælingar

Rétt áður en nálæg verslun lokaði yfir hátíðarnar vanrækti ég í flýtinum að skoða kassastrimilinn fyrr en heim var komið - en þá gerði ég það þó um síðir eins og ég geri oftast. Þó vill furðu oft dragast eða farast alveg fyrir að snúa til baka með vöruna ef ekki var rétt verð á henni, hún tvígreidd eða gölluð - fyrr en hún er orðin mygluð og ekki gaman að skila henni. Nú brá svo við að ég var bæði tvírukkaður um vöru sem kostaði 329 kr. og svo var furðu hátt verð - 714 kr. - á litlum rauðum chilipipar sem mér finnst svo góður í mexíkóskum mat. Ég sá að vísu að verðið var - já, siðlaust - 2.799 kr./kg - en mér fannst eins og þetta ætti að kosta nokkra tugi króna enda vó chilipiparinn aðeins nokkra tugi gramma, fannst mér. Á kassastrimlinum var hann mældur 0,255 kg. - eins og lítið epli! Þegar ég var reyndar búinn að neyta helmingsins (og verslunin lokuð yfir hátíðarnar) fór ég til baka í verslunina og fékk endurgreiddar tæpar 1.000 kr. - annars vegar fyrir tvígreiddu vöruna og hins vegar á 7. hundrað fyrir vitlausu mælinguna; rétt mæling var um 20 g ef ég man rétt. Rétt er því að huga að að fleiru en (kíló)verðinu - líka þyngdinni - en eftirá að hyggja man ég að afgreiðslupilturinn var að hugsa um allt annað og sýsla fleira en að afgreiða mig.

 

Í leiðinni fór ég reyndar inn í verslunina og athugaði hvort ég gæti bara sjálfum mér um kennt varðandi hátt kílóverðið; nei, það tók mig um 1/2-1 mínútu að leita uppi merkinguna - hana skorti ekki alveg - en hún var um 20-30 cm yfir gólfi. Ég efast um að hún standist!

 

Nógu slæmt er að eitthvað af þessu sé til staðar - en allt þrennt í einu og sama tilvikinu! Í þessu litla dæmi virðist sem sagt saman komið bæði löglaus verðmerking, siðlaus verðlagning og vitlaus vigtarmæling; ef ekki verður bætt úr verðmerkingum og eftirliti þarf sennilega róttækari ráðstafanir - en lögin eru skýr að mínu mati, fjárlögin ekki eins góð. Meira um það síðar.

 


mbl.is Mjólkurlítrinn í 100 krónur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband