Sunnudagur, 11. maí 2008
Gráu hárin
Eldri dóttir mín vill að ég liti á mér skeggbroddana - ekki af því að henni finnist ekki flott að hafa nokkra gráa bletti. Hún veit líka að ég er ekki beinlínis orðinn gamall þó að ég sé örlítið hæruskotinn. Ástæðan er sú að gráu hárin minna hana á forgengileika lífsins og dauðann.
"Ég er svo hrædd um að þegar þú ert orðinn gamall - þá hugsa ég um að þú ert að fara að deyja."
**
Greiðið atkvæði um fjölpóst hér til vinstri.
Laugardagur, 10. maí 2008
Þetta er ekki neytendamál
Það er ekki beinlínis neytendamál að fólk geti nálgast afnotarétt af höfundaréttarvörðu efni án endurgjalds; hagsmunir og réttindi neytenda felast í því að slíkt efni sé búið til og selt við sanngjörnu verði og með eðlilegum skilmálum. Meðal þeirra er að neytendur borgi ekki oft fyrir sama afnotaréttinn eins og hér er bent á og rökstutt ítarlegar hér, þ.e.a.s. að ef diskur með tónlist, leik eða mynd eyðileggst geti neytandi fengið nýjan gegn vægu endurgjaldi ef hinum skemmdu "umbúðum" er skilað. Slík tilhögun myndi gagnast bæði rétthöfum og neytendum svo lengi sem diskar verða áfram notaðir sem umbúðir fyrir höfundaréttarvarið efni.
***
Hefðurðu greitt atkvæði um rétt neytenda gagnvart fjölpósti - hér til vinstri?
![]() |
Kröfu rétthafa vísað frá í Hæstarétti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 9. maí 2008
"Get ég fengið vinnu?"
Fyrir rúmum tveimur áratugum réðst ég til vinnu í sundlaug þar sem ég bjó í nokkur ár og gekk í menntaskóla og síðar háskóla á Norður-Sjálandi. Gegndi ég þá virðulegasta starfsheiti sem ég hef nokkurn tíma haft - fyrr og síðar - "livredder" (lífbjörgunarmaður) þó að starfið hafi ekki aðeins falist í að sitja á háum stalli og vaka yfir lauginni svo enginn drukknaði (hérna er starfsheitið ekki eins "sexy" - sundlaugarvörður; tókum við regluleg námskeið í björgun og skyndihjálp í því skyni. Til þess að halda okkur vakandi voru önnur verkefni, svo sem að taka á móti fötum og afhenda, þrífa o.fl.
Ein af leiðinlegri starfsskyldunum var að banna sundlaugargestum ýmislegt - svo sem að hlaupa og ganga á röngum stöðum en sundlaugarstjórinn hafði þá stefnu að sundlaugin skyldi ekki verða "skiltaskógur" heldur ættum við frekar að tilkynna sundlaugargestum (eftirá) það sem væri bannað. Eitt af því, sem sundlaugargestir máttu ekki, var að stytta sér leið yfir laugina með því að ganga á skilrúmunum breiðu sem skiptu 50 metra keppnislauginni upp í þrjár - fyrirtaks dýfingarlaug, barnalaug og 25 metra sund-laug.
Einu sinni sem oftar þurfti ég að tilkynna sundlaugargesti - neytanda - að hann mætti ekki ganga á skilrúmunum; til þess notaði ég, nýbúinn, frasa sem ég hafði komið mér upp eftir að hafa fengið þessa góðu og vellaunuðu vinnu eftir aðeins um ár í Danaveldi:
"Det er kun for ansatte,"
þ.e.
"þetta (skilrúmið) er aðeins fyrir starfsmenn."
Ekki stóð á skemmtilegu svari frá Dananum:
"Kan jeg blive ansat?"
***
Segðu skoðun þína á fjölpósti í fyrstu óformlegu skoðanakönnuninni hér til vinstri.
Fimmtudagur, 8. maí 2008
Fyrsta skoðanakönnun um fjölpóst
Nú birti ég fyrstu óformlegu skoðanakönnunina fyrir neytendur um fjölpóst, þ.e. hvort takmarka eigi með almennum reglum rétt atvinnurekenda til þess að dreifa óumbeðnum fjölpósti í póstkassa eða póstlúgur neytenda. Könnunin stendur í tvo sólarhringa.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.5.2008 kl. 00:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 7. maí 2008
Meðbyr með rétti neytenda til þess að afþakka fjölpóst
Frábært að eiga bandakonu í Stjórnarráðinu; miðað við stuðning umhverfisráðherra og undirtektir við umfjöllun mína um fjölpóst og fríblöð, m.a. á vefsíðu talsmanns neytenda, og viðbrögð við þessari frétt hér á blogginu er ég ekki í vafa um að viðunandi lausn fæst; aðeins er spurning um hvort löggjöf þarf til eða hvort samkomulag næst við þá sem dreifa fjölpósti og fríblöðum en lesa má um þær tilraunir hér og strand þeirra hér. Er e.t.v. rétt að endurtaka óformlegar skoðanakannanir hér um málið?
![]() |
Hægt verði að hafna fjölpósti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 6. maí 2008
Neytendum sem leita sálfræðings mismunað
Neytendum, sem vilja leita til sálfræðings, er mismunað - því aðeins geðlæknaþjónusta er niðurgreidd af ríkinu. Þessa framkvæmd hefur Hæstiréttur nú staðfest. Gagnrýndi ég röksemdir dómaranna og afstöðu löggjafa og ráðherra hér og rökstuddi ítarlegar í pistli mínum á heimasíðu talsmanns neytenda.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 5. maí 2008
Ian
Mér datt í hug þegar ég las - einu sinni sem oftar - þetta ofurblogg að ég er rosalega seinn að fatta; ég stundaði eiginlega engar skipulegar íþróttir í æsku fyrr en ég var - fyrir mistök - skráður á íþrótta- og málabraut í menntaskóla í Danmörku fyrir rúmum 20 árum. Þegar ég varð loks pabbi og fór að fylgjast með íþróttaiðkun annarra undraðist ég hvað margir strákar í fótboltanum virtust af erlendum uppruna; einkum fannst mér ótrúlega algengt að fótboltastrákar væru nefndir ensku nafni: "Ian."
Sífellt heyrði ég suma foreldra á hliðarlínunni kalla "Ian, Ian, Ian," meðan við hin kölluðum bara íslensk nöfn strákanna okkar:
- "áfram Gunnar,"
- "það var rétt, Friðjón" eða
- "góður Siggi!
Loks rann það upp fyrir mér að ekki var verið að kalla á "Ian" - heldur verið að segja við Gunnar, Friðjón eða Sigga: "í'ann" (boltann, fyrir þá sem eru enn fattlausari).
Mánudagur, 5. maí 2008
Velkominn (aftur) Friðrik krónprins
Á þessum frelsisdegi Dana (1945) undan árásarstríði Þjóðverja er gaman að taka (aftur) á móti Friðriki krónprins en móðir hans var krónprinsessa okkar Íslendinga skamma hríð eftir að hún fæddist 1940; ég segi aftur" (innan sviga) því að mig minnir að krónprinsinn hafi verið með í för 1984 frekar en 1985 ásamt yngri bróður sínum, Jóakim Danaprinsi, er menntaskólabekkur þeirra lenti í einhverjum hrakningum í skólaferðalagi fyrir norðan eða austan land og lenti á Akureyri eitt skammdegiskvöld og fékk að gista í heimavist Menntaskólans á Akureyri. Þar var faðir minn skólameistari og tók auðvitað vel á móti Dönum - sem áttu síðar eftir að taka vel á móti okkur er lunginn úr fjölskyldunni bjó við góðan kost í Danmörku 1986-1990, sumir skemur og aðrir lengur.
Ég, unglingurinn, var eins konar hirðljósmyndari eins og vel átti við í þessu sambandi og tók m.a. myndir í ýmis skólablöð á Brekkunni og í unglingasíðu Dags, Allt. Ég stóðst auðvitað ekki mátið að reyna að ná mynd ársins af prinsinum eða prinsunum. Einhvers staðar í mynda- eða filmusafni mínu á ég sem sagt mynd - þar sem glytta kann í prins Jóakim sem var a.m.k. hávaxnari og minnisstæðari en krónprinsinn (ef hann var með í för en ég þykist vita að þeir voru saman í bekk). Aðalmyndefnið varð þó lífverðir (prinsins eða) prinsanna því þeir voru ekki sáttir við uppátækið og sjást mótmæla myndatökunni í bakgrunni ef ekki í forgrunni.
![]() |
Tignargestir á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 4. maí 2008
Tímaröð: þjóðaratkvæði, ESB-aðildarumsókn, stjórnarskrárbreyting, þjóðaratkvæði
Miðstjórn Framsóknarflokksins hefur ályktað að spyrja beri þjóðina um hvort sækja eigi um fulla aðild Íslands að ESB en Ísland hefur í raun með EES-samningnum verið aukaaðili að ESB í nær 15 ár eins og launafólk og neytendur hafa notið að nokkru. Eins og hér kemur fram er full aðild mikilsvert hagsmunamál neytenda; leyfi ég, embættismaðurinn, mér því að blogga um stjórnlagafræðileg álitamál í þessu sambandi í kjölfar tímamótaályktunar Framsóknarflokksins um að eðlilegt sé að spyrja þjóðina
"um hvort stjórnvöld fái umboð til að ganga til aðildarviðræðna við ESB verði borin undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu, óháð öðrum kosningum."
Eins og ég rakti hér á baráttudegi launafólks er spurning hversu oft og í hvaða röð þjóðin er spurð en miðstjórnin vill að hún sé spurð tvívegis í þjóðaratkvæði auk óbeinnar afstöðu sem felst í kosningum á milli samþykkta 2ja þinga, sem sagt þrisvar.
Mitt mat er að röðin og tímasetningar eigi samkvæmt þessu að líta einhvern veginn svona út:
- Snemma árs 2009: Alþingi ákveður með þingsályktun að efna til þjóðaratkvæðis um "hvort stjórnvöld fái umboð til að ganga til aðildarviðræðna við ESB".
- Snemma árs 2009: Alþingi samþykkir lög um tilhögun slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu og lögin árétti að meiri hluti kjósenda, sem taka afstöðu, ráði niðurstöðu og engin krafa sé um lágmarksþátttöku.
- Haustið 2009: Þjóðaratkvæði á sér stað um hvort skilgreina eigi samningsmarkmið og sækja um aðild að ESB í kjölfar ítarlegrar og upplýstrar umræðu málið hálfu ári fyrir og hálfu ári eftir samþykkt þingsályktunar í 1. tl. og laga í 2. tl.
- Veturinn 2009-2010 (eftir að öryggisráðsframboði er lokið): Ef meirihluti þjóðarinnar samþykkir að veita umboð til aðildarviðræðna skv. 3. tl. er gengið til slíkra viðræðna - og stefnt að því að þeim ljúki á árinu 2010 með fyrirvara um stjórnarskrárbreytingu skv. 5. tl. og þjóðaratkvæði um niðurstöðu samningaviðræðna skv. 6. tl.
Í þinglok vorþings 2011: Stjórnarskipunarlög eru samþykkt á Alþingi og aftur að loknum þingkosningum um vorið, svo sem þannig að 2/3 þingmanna geti (t.d. að fengnu samþykki þjóðarinnar) samþykkt að framselja hluta fullveldis vegna aðildar að yfirþjóðlegum samtökum á borð við ESB.
Vorið 2011 (eða strax 2010 í kjölfar viðræðna): Samhliða þingkosningum, þar sem reynir óbeint á stjórnarskrárbreytingu, má bera niðurstöðu samningaviðræðna sérstaklega undir þjóðina til samþykktar eða synjunar; ég er ekki sannfærður að rétt sé að spyrja þjóðina tvívegis beinlínis og einu sinni óbeint, alls þrisvar, en miðstjórn Framsóknarflokksins hefur ályktað á þann veg.
17. júní 2011: Nýr þjóðbúningur verður kynntur ef niðurstaða aðildarviðræðna, þjóðaratkvæða og stjórnarskrárbreytinga verður jákvæð.
Eins og fram kemur í athugasemd hér og rökstutt er hér felst það ekki í samþykkt miðstjórnar að stjórnarskránni eigi að breyta áður en þjóðin er spurð álits hvort sækja eigi um aðild eins og hér er haldið fram. Slíkt er að mínu mati heldur ekki stjórnskipulega skylt; spyrja má þjóðina um hvort sækja eigi um aðild með fyrirvara um að stjórnarskránni sé breytt áður en hugsanleg aðild kemur til framkvæmdar og væntanleg niðurstaða samningaviðræðna einnig borin sérstaklega undir þjóðina eins og að framan greinir.
Lesa má ályktun Framsóknarflokksins hér (sem samþykkt var af þorra atkvæðisbærra á fjömennum miðstjórnarfundi og án mótatkvæða) en eftirfarandi er nýmælið um þjóðaratkvæði um ESB-aðildarumsókn:
"Miðstjórn Framsóknarflokksins telur eðlilegt að spurningunni um hvort stjórnvöld fái umboð til að ganga til aðildarviðræðna við ESB verði borin undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu, óháð öðrum kosningum.
Veiti þjóðin umboð til slíkra viðræðna yrði niðurstaða samningaviðræðna við ESB lögð í þjóðaratkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar.Útfærsla á þjóðaratkvæðagreiðslum verði skoðuð frekar á komandi flokksþingi Framsóknarflokksins að undangenginni umræðu um Evrópumál sem framkvæmdastjórn standi fyrir."
![]() |
Þjóðaratkvæði um aðildarviðræður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sunnudagur, 4. maí 2008
Nafnið
"Síðast var það laust á honum,"
sagði dóttir mín í gærkvöldi þegar við ræddum um veisluna sem við förum í síðar í dag til þessa fagna nafngift frænda okkar. Nafnið, sem drengnum hefur verið valið, er sem sagt bara laust á honum en
"nú fær hann nafnið inn í sig,"
sagði þessi skynsama dóttir mín þegar ég var að bögglast með að veislan gæti ekki beinlínis heitið skírnarveisla.