Velkominn (aftur) Friðrik krónprins

Á þessum frelsisdegi Dana (1945) undan árásarstríði Þjóðverja er gaman að taka (aftur) á móti Friðriki krónprins en móðir hans var krónprinsessa okkar Íslendinga skamma hríð eftir að hún fæddist 1940; ég segi „aftur" (innan sviga) því að mig minnir að krónprinsinn hafi verið með í för 1984 frekar en 1985 ásamt yngri bróður sínum, Jóakim Danaprinsi, er menntaskólabekkur þeirra lenti í einhverjum hrakningum í skólaferðalagi fyrir norðan eða austan land og lenti á Akureyri eitt skammdegiskvöld og fékk að gista í heimavist Menntaskólans á Akureyri. Þar var faðir minn skólameistari og tók auðvitað vel á móti Dönum - sem áttu síðar eftir að taka vel á móti okkur er lunginn úr fjölskyldunni bjó við góðan kost í Danmörku 1986-1990, sumir skemur og aðrir lengur.

 

Ég, unglingurinn, var eins konar hirðljósmyndari eins og vel átti við í þessu sambandi og tók m.a. myndir í ýmis skólablöð á Brekkunni og í unglingasíðu Dags, Allt. Ég stóðst auðvitað ekki mátið að reyna að  ná mynd ársins af prinsinum eða prinsunum. Einhvers staðar í mynda- eða filmusafni mínu á ég sem sagt mynd - þar sem glytta kann í prins Jóakim sem var a.m.k. hávaxnari og minnisstæðari en krónprinsinn (ef hann var með í för en ég þykist vita að þeir voru saman í bekk). Aðalmyndefnið varð þó lífverðir (prinsins eða) prinsanna því þeir voru ekki sáttir við uppátækið og sjást mótmæla myndatökunni í bakgrunni ef ekki í forgrunni.


mbl.is Tignargestir á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Datt bara svona í hug að þar sem mamma Friðriks prins Dana var íslensk krónprinsessa i 4 ár, hvort ekki væri tilvalið að þegar herra Ólafur Ragnar lýkur því sem hann vill að verði sitt síðasta kjörtímabil, að við tækjum Friðrik (verðandi Friðrik X) og gerðum hann að krónprinsi Íslands með framtíðar valdatöku þegar Ólafur hættir.  Eða bara láta Margréti taka við ef hún verður enn við völd.  :)  Stórsparnaður að þessu!!!

Baldur Gautur Baldursson, 5.5.2008 kl. 18:14

2 Smámynd: Gísli Tryggvason

Ég er ánægður með forseta(nn). Reyndar má deila um hvort Margrét var krónprinsessa okkar í 13 mánuði eða 4 ár eins og þú segir, þ.e. frá fæðingardegi sínum 16. apríl 1940 - til lögformlegrar lýðveldisstofnunar 17. júní 1944, eða hvort hún var aðeins krónprinsessa okkar í 13 mánuði, þ.e. til 15. maí 1941 þegar konungur var í kjölfar innrásar Þjóðverja í Danmörku 9. apríl 1940 settur af í raun með því að Alþingi fól ríkisstjóra (Sveini Björnssyni, síðar forseta) vald konungs. Þess vegna sagði ég - alveg meðvitað "skamma hríð" í færslu minni. Reyndar mætti einnig deila um hvort Margrét hafi nokkurn tíma verið krónprinsessa okkar því viku áður en hún fæddist hertóku Þjóðverjar Danmörku og næsta dag fól Alþingi ríkisstjórninni (ráðuneyti Íslands) vald konungs. Það vantaði sem sagt kannski 6 daga upp á að Margrét II Þórhildur, krónprinsessa Dana, yrði krónprinsessa okkar.

Um þetta myndi ég treysta læriföður mínum Sigurði Líndal til þess að úrskurða.

Gísli Tryggvason, 5.5.2008 kl. 20:11

3 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Þau voru flott krónprinshjónin í dag, alla vegana á myndunum. Mary er flott kona og hefur heillað Dani með sínu fallega brosi svo ég tali nú ekki um dönskuna sem hún talar mjög vel.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 5.5.2008 kl. 20:28

4 Smámynd: Gísli Tryggvason

Sammála; alltaf hrifinn af konum - sem tala dönsku svona vel eins og dönsku prinsessurnar.

Gísli Tryggvason, 5.5.2008 kl. 20:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband