Laugardagur, 3. maí 2008
Framsókn svarar kalli dagsins
Mér sýnist í fljótu bragði að Guðni og Framsóknarflokkurinn hafi orðið við því sem ég kallaði kröfu dagsins hér í fyrradag - á baráttudegi launafólks og vegna hagsmuna neytenda, þ.e. að spyrja þjóðina hvort sækja eigi um fulla aðild að ESB; meira um það á morgun - þ. á m. um röð og fjölda þjóðaratkvæðagreiðslna um málið.
![]() |
Þarf að breyta stjórnarskrá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 1. maí 2008
Krafa dagsins
Ég hjólaði á 1. maí hátíðahöldin í höfuðborginni og hitti gamla félaga - báðum megin við borðið. Eftir að hafa hugsað málið lengi og starfað fyrir launafólk og neytendur í heilan áratug held ég að krafa dagsins sé sú að fólkið í landinu fái sjálft að segja skoðun sína á stærsta hagsmunamáli sínu: Á að kanna - með formlegum hætti, þ.e. skilgreiningu samningsmarkmiða og aðildarviðræðum - hvort það hentar okkur að gerast aðilar að ESB og evrunni?
Þar sem ég er lögfræðingur og embættismaður er kannski nærtækt að ég árétti að engar reglur eru í stjórnarskrá um slíkt þjóðaratkvæði - enda í sjálfu sér ekki lögskylt að spyrja þjóðina nema í þeirri skyldubundnu "þjóðaratkvæðagreiðslu" sem felst óbeint í kosningum til Alþingis þegar stjórnarskránni er breytt til þess að heimila löggjafanum eða Alþingi að staðfesta samningsniðurstöður og framselja hluta formlegs fullveldis ríkisins til þess að endurheimta nokkuð af því pólitíska sjálfstæði þjóðarinnar sem afsalað var með aukaaðild að ESB (svonefndum EES-samningi) sem tók gildi 1994. Eðlilegt er að mínu mati að slík formleg ákvörðun þjóðþings verði ákveðin með auknum meirihluta - eins og í Noregi (3/4) og Danmörku (5/6), ef ég man rétt.
Að mínu mati er hins vegar ekki eðlilegt frekar en endranær að þegar þjóðin segi skoðun sína í frjálsri þjóðaratkvæðagreiðslu að einhver önnur regla gildi en að meiri hlutinn ráði; sjálfsagt er að setja lög um tilhögun slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu en slíkt lagafrumvarp væri aðeins dagsverk fyrir góðan lögfræðing. Óeðlilegt væri að mínu mati að áskilja aukinn meirihluta í slíku þjóðaratkvæði - að meiri hlutinn ráði ekki! Einnig fyndist mér skrýtið ef ákveða ætti að þeir sem sætu heima hefðu atkvæðisrétt, þ.e. áskilja að tiltekið hlutfall atkvæðisbærra þyrfti að mæta til þess að mark yrði tekið á niðurstöðunni. Á því getur stjórnarskrárgjafinn hins vegar tekið í breytingu sem heimilar formlegt fullveldisafsal samkvæmt framansögðu. Lesa má um þjóðaratkvæði hérlendis og erlendis hér. Að lokum finnst mér rétt að fólk íhugi hversu oft á að spyrja þjóðina; er ekki nóg að spyrja þjóðina tvisvar
- beinlínis þegar ákveðið er að sækja um, þegar samningsmarkmið eru skilgreind eða staðfest að loknum viðræðum
- og óbeint þegar stjórnarskránni er breytt?
![]() |
Formaður SFR: Splundruð þjóð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.5.2008 kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 1. maí 2008
Ákveðni, ábyrgð og ánægja - ekki sjálfsánægja
Sem gamall blaðaljósmyndari (og reyndar fyrsti hirðljósmyndari núverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar fyrir rúmum 20 árum) og sem fyrrverandi lögmaður hjúkrunarfræðinga (í tæp 7 ár mín sem framkvæmdarstjóri BHM) verð ég - líka sem talsmaður sáttaumleitunar og aðdáandi ákveðinna kvenna - að lýsa ánægju minni með þessa snilldarlega lýsandi fréttaljósmynd (höfundaréttur mbl.is); ákveðnin, ábyrgðin og ánægjan - en engin sjálfsánægja eða hroki - skín út úr þessum talskonum. Þetta er hið afgerandi augnablik sem sjálfur Henri Cartier Bresson hefði orðið stoltur af - eins og þjóðinni varð sjálfsagt létt; ég tek ekki efnislega afstöðu en mér létti mjög þó að ég sé ekki að fara að leggjast undir hnífinn, svo ég viti!
![]() |
Vaktakerfið dregið til baka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 30. apríl 2008
Til hamingju (sumir, nei örfáir) neytendur
Hér er gott dæmi um að lögin vernda neytendur - ef þeir leita eftir því - en í þessu tilviki kannski aðeins þá fáu, sem hafa haldið til haga kvittunum af bensínkaupum undanfarinn rúman áratug (hér allt frá 1995). Reglurnar eru, sem sagt, oft ágætar - en hér er því miður óraunhæft að tugþúsundir neytenda sæki bótarétt sinn fyrir dómi sem ekki hafa geymt kvittanir til sönnunar um
- hvort,
- hvar,
- hjá hverjum,
- hvenær og
- hve mikið
bensín þeir keyptu undanfarinn hálfan annan áratug frá því að samkeppnislög tóku gildi.
Dómur 5 einhuga hæstaréttardómara er merki um réttsýni og að dómstólakerfið virkar ágætlega - innan þeirra marka sem löggjöfin setur:
"Í málinu krefst [neytandi] skaðabóta vegna tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir við kaup sín á bensíni hjá [umræddu olíufélagi] á tímabilinu frá 10. ágúst 1995 til 18. desember 2001 vegna ólögmæts verðsamráðs þess síðarnefnda og tveggja annarra olíufélaga. Ágreiningslaust er að með samráðinu hafi [umrætt olíufélag] brotið gegn 10. gr. þágildandi samkeppnislaga nr. 8/1993. Af gögnum málsins er ljóst að það samráð tók meðal annars til verðlagningar á bensíni. [Umrætt olíufélag] hefur ekkert fært fram í málinu, sem staðið getur í vegi þeirri ályktun að tilgangur samráðsins hafi verið að hækka tekjur hans með því að selja bensín á hærra verði en annars hefði verið. Þá hefur honum ekki tekist að sýna fram á að slíkur ágóði hafi ekki í reynd hlotist af samráðinu. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, sem skírskotaði jafnframt til niðurstöðu héraðsdóms 6. desember 2006 um hluta málsins, er [umrætt olíufélag] skaðabótaskyldur við [neytandann]."
Næsta skref á löggjafinn - með því að setja lagareglur um hópmálsókn - eða talsmaður neytenda í að leggja þetta til, eins og lögð hafa verið drög að. Meðan hópmálsókn er ekki möguleg eða raunhæf þarf að huga að öðrum úrræðum til þess að koma fram þeim varnaðaráhrifum sem felast í skýrum bótarétti neytenda.
Ég óska Neytendasamtökunum, sem kostuðu þetta mál sem prófmál, til hamingju með sigurinn.
![]() |
Ker greiði bætur vegna samráðs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 29. apríl 2008
Nei, takk? Þetta eru mikil vonbrigði
Neytendur eiga rétt á að hafna fjölpósti og fríblöðum og gagnrýndi ég Íslandspóst í dag í frétt á vefsíðu talsmanns neytenda fyrir að stranda samkomulagi sem stefndi í; ekki gengur að neytendur þurfi að sækja mismunandi miða á marga staði og jafnvel árlega til að geta sagt nei takk við fjölpósti eða fríblöðum eða hvoru tveggja.
![]() |
Ekki samkomulag um frípóstsreglur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 28. apríl 2008
Je blogge, donc je suis - látið verkin tala
Fór um daginn, aldrei þessu vant, á listasýningu - í mínum gamla heimabæ, Akureyri. Þar sem óvenju margt höfðaði jafnvel til mín - sem er frekar lítið listrænn - verð ég að mæla með sýningunni, Bæ, bæ Ísland; einkum var þó vakning að horfa og hlusta á mynd- og hljóðverk (kann ekki hið listfræðilega hugtak yfir vídeóhugleiðingar sem þessar) Þorvaldar Þorsteinssonar sem snertu tilvistarlegan streng í mér og vöktu upp þessa fyrirsögn; hver er ég og hvers vegna?
Þar sem ekki er um starfsemi í arðsemisskyni að ræða get ég víst leyft mér að skora á ykkur að leggja leið ykkar norður og taka tíma í að láta (lista)verkin tala!
Mánudagur, 28. apríl 2008
Dómur um sviðsetningu fréttar
Svokallaðar svart/hvítar myndir eru oft bestar þegar gráu tónarnir eru sem flestir. Færri en kváðu upp sleggju-dóma - bæði til sýknu og til sakfellis - um meinta tilraun til þess að sviðsetja eggjakast í síðustu viku virðast muna að til er nýlegur alvöru-dómur sem snertir sviðsetningu fréttar. Óþarfi ætti að vera að rekja umræður um sviðsetningu frétta hér á blogginu eða tengja í þær enda tröllriðu þær öllu í lok síðustu viku þar til fréttakona Stöðvar 2 sagði upp störfum. Mér finnst að vísu nokkuð til í þeirri tilgátu að vandinn hafi verið talinn að fréttakonan náðist; sú séríslenska afstaða til reglna fer oft í taugarnar á mér að aðalmálið sé ekki að fylgja reglunum heldur aðeins að virðast fylgja þeim - nást ekki, sjást ekki.
"Justice must not (only?) be done, but seem to be done,"
segja lögspekingar - en án þess að setja sviga utan um orðið "aðeins" eins og hér er gert.
Þetta er óbeint neytendamál þar sem neytendur frétta eiga væntanlega að geta treyst því að það sem sýnt er sé raun-veruleiki en ekki sýndar-veruleiki - þó að ég geti ekki sem gamall blaðamaður og blaðaljósmyndari á unglingsárum fallist á þá svart/hvítu mynd sem ráða má af ummælum bloggara - með og á móti ummælum og uppsögn umræddrar fréttakonu.
Erfitt er að byggja niðurstöðu um sviðsetningu á hlutlægum veruleika - þ.e. hvort eggjum var kastað eður ei. Því finnst mér sviðsetning (og ásökun um slíkt) reyndar frekar snúast um huglæga afstöðu viðfangsins (t.d. eggjakastara) heldur en afstöðu og tilraunir þess sem fangar augnablikið (fréttamannsins); sem sagt: Því betur meðvitaðir sem mótmælendur (sbr. tilefnið hér að ofan) eða brottkastarar (sbr. dóminn hér að neðan) eru um viðveru fréttamanna og myndatökur því meira getur fréttaefnið talist "sviðsett." Besta fréttamyndin er ekki bara tekin á hinu afgerandi augnabliki í anda Henri Cartier Bresson heldur helst án þess að viðfangið viti; þetta er hins vegar fremur óraunhæft í mörgum viðfangsefnum fréttafólks nútímans.
Aðilar málsins, sem ég minni hér á, voru annars vegar maður, sem starfað hafði að fréttamennsku og tekið þátt í stjórnmálaumræðu, og hins vegar alþingismaður og ráðherra; deildu þeir um hvort í því fælust meiðyrði að hinn síðarnefndi hefði m.a. sagt hinn fyrrnefnda hafa komið nálægt því að sviðsetja frétt um brottkast fisks. Stutta lýsingin á þessu ítarlega dómafordæmi - þar sem niðurstaðan varð sitthvor í héraði og í Hæstarétti - er að ekki var í Hæstarétti leyst úr ásökun um sviðsetningu fréttar.
Um þetta sagði héraðsdómur hins vegar:
Ummælin, [...], fela í sér meiðandi aðdróttun um óheiðarlega fréttamennsku og sviðsetningu á umræddu brottkasti, sem [ráðherrann] hefur hvorki sannað né réttlætt á annan hátt. Hefur þvert á móti verið nægjanlega leitt í ljós með vitnisburði [...] að brottkastið [...] hafi ekki verið sett á svið.
Taldi héraðsdómur með hliðsjón af sjónvarpsmiðlinum og ráðherrastöðu stefnda rétt að refsa honum með sektargreiðslu. Hæstiréttur sýknaði ráðherrann hins vegar vegna þess að hann hefði beint orðum sínum að fréttastofunni en ekki fréttamanninum sem fór í mál.
Löngu lýsinguna má lesa í dómi Hæstaréttar og héraðsdóms.
Kjarninn er að mínu mati hvort fréttamenn megi hafa áhrif á hvort (og hvenær) athæfi - sem framið hefur verið eða líklegt er að eigi sér stað - komi fyrir (aftur); þessi umræða er lík umræðu í lögfræði um notkun tálbeitu en þar - eins og hér - er að mínu mati um "different shades of grey" að ræða en ekki niðurstöðu af eða á, í eitt skipti fyrir öll - rétt eins og svokallaðar svart/hvítar myndir eru bestar þegar hinir gráu tónar eru sem flestir og bestir. Við lestur dóma héraðsdóms og Hæstaréttar í brottkastsmálinu styrkist sú trú að afstætt sé hvað teljist sviðsetning.
Sunnudagur, 27. apríl 2008
Stóra brjóstaberunarmálið; stefnir í nokkuð afdráttarlausa niðurstöðu (1:4)
Nú þegar óformlegri skoðanakönnun er í þann mund að ljúka um hvort leyfa eigi konum að vera berbrjósta á almennum sundstöðum á Íslandi er ljóst að niðurstaðan er nokkuð skýr - og virðist hafa verið nokkuð viðvarandi tilhneiging frá upphafi skoðanakönnunarinnar fyrir tveimur sólarhringum:
Mikill meirihluti (80%) þeirra sem greiddu atkvæði (rúmlega 150) úr hópi atkvæðisbærra, þ.e. lesenda bloggsins (rúmlega 550), er hlynntur því að leyfa konum að bera sig að ofan á sundstöðum. Fáir voru hlutlausir og um 20% voru því andvígir.
Ég er nokkuð hissa og er enn á því að niðurstaðan yrði öndverð ef á reyndi meðal reglulegra sundlaugargesta - án þess að ég lofi að gera könnun um það í heita pottinum á morgun. Það sem skiptir máli er afstaða þeirra sem ráða þessu líklega í raun (sveitarstjórnarfulltrúa) - og þó enn fremur kvennanna sjálfra því ég er viss um að meirihluti þeirra mun ekki breyta háttum sínum.
Laugardagur, 26. apríl 2008
Á að leyfa ber brjóst í sundi? Óformleg skoðanakönnun
Nú þarf maður að fara að passa sig ef alvöru samkeppni verður á sundlaugarbakkanum; ég er reyndar nýkominn frá Danmörku - og missti af þessu, þó að ég hafi bæði verið með sundskýlu og fylgst nokkuð vel með fréttum! Að öllu gamni slepptu held ég að við Norðmenn séum ekki tilbúnir í þetta frjálslyndi á almennum sundstöðum á Íslandi eins og ég hef áður vikið að.
Danir hafa áður verið á "undan" öðrum Norðurlandabúum í ýmsu fleiru - sem ég nefni auðvitað ekki í sömu andrá og þetta frjálsræði - enda eru ber brjóst auðvitað ekki klám eins og hér var réttilega bent á. En hvað sem frjálslyndum bloggurum finnst um þetta - svona fræðilega - held ég enn að reglulegir sundgestir, neytendur almennt, séu íhaldssamari en svo að þeir séu hlynntir því að konur séu berar að ofan á almennum sundstöðum á Íslandi (utan sólarbekkja). Mér finnst líklegt að þetta eigi nokkuð jafnt við um konur og karla sem sækja sundstaði en erfitt er reyndar að sannreyna það.
Rétt er að prófa þessa kenningu með því að endurtaka óvísindalega tilraun með einfaldri skoðanakönnun hér til vinstri um þetta efni - sem stendur í tvo sólarhringa. Spurningin felur auðvitað í sér að bannað sé (áfram) að konur séu berar að ofan á almennum sundstöðum á Íslandi - en ég er ekki viss um að mikið hafi reynt á það (óformlega) bann hingað til.
![]() |
Konur mega bera brjóstin í Kaupmannahöfn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 25. apríl 2008
Breskir bankar töpuðu FIT-prófmáli
Nú FITna færri á kostnað neytenda. Bresku bankarnir hafa tapað prófmáli um FIT-kostnað. Í fréttum BBC í gærkvöldi sá ég að breskir bankar hafa tapað prófmáli um FIT-kostnað, þ.e.a.s. þegar neytandi fer yfir á reikningi. Sjá nánar hér - m.a. um þýðingu málsins fyrir neytendur á Íslandi.