Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

3ja mánaða sumarleyfi hafið

Jæja, þá er 3ja mánaða sumarhlé hafið. Nei, ekki hjá mér - og ekki hjá þér. Og nei, kennarasonurinn ég á vitaskuld ekki við kennara sem eiga að vinna lengra sumarhlé af sér á veturna. Enn og aftur nei, ég á auðvitað heldur ekki við þingmennina sem ég tel (öfugt við hald sumra) þykist vita að séu margir beint eða óbeint í vinnunni þorra sólahringsins lungann úr árinu. 

 

Ég á við sumarhlé virks atvinnulífs á Íslandi!

 

Ég á við að nú í byrjun júní (og jafnvel þegar í lok maí) hefst sá tími á Íslandi sem stendur fram í lok ágúst (eða jafnvel byrjun september), þ.e.a.s. þá hefst um 3ja mánaða tímabil (+/- 1/2 mánuður) þar sem fólk, sem þykist gegna mikilvægum störfum og þarf að ná í annað mikilvægt fólk, á erfitt með það því þegar viðmælandinn/viðsemjandinn/gagnaðilinn/samstarfsmaðurinn kemur úr fríi þá er maður sjálfur kominn í frí. Ef svo hittist á að báðir séu á staðnum á sama degi þá er það gjarnan dagurinn þegar siðferðisleg skylda er að gefa frí í vinnunni vegna þess að það er dagurinn sem hitinn fer nærri því í 20° C í miðborginni undir heiðskírum himni (sem var auðvitað daglegt brauð fyrir okkur Akureyringa). Málið versnar svo ef fleiri en tveir þurfa að hittast eða tala saman.

 

Ég verð líklega ekki vinsæll fyrir að vekja máls á þessu enda fengu þessar vangaveltur mínar óvenju dræmar undirtektir þegar ég vakti óformlega máls á þeim í einhverju hugarflæði undir lok starfstíma míns hjá heildarsamtökum stéttarfélaga háskólafólks. Þá var ég í þeirri sérstöku stöðu (sem yfirleitt gekk vandræðalaust) að vera annars vegar ráðgjafi stéttarfélaganna og stundum málsvari réttinda og hagsmuna háskólamenntaðs launafólks og hins vegar framkvæmdarstjóri á litlum vinnustað og maður sem þurfti að ná í marga, stundum á sama tíma.

 

Auðvitað gerði ég - og geri enn - bara gott úr þessu og fékk oft margra vikna vinnufrið til þess að sinna einbeitingarverkefnum, fræðilegum og öðrum, þær sumarvikur sem ég var ekki sjálfur í langþráðu fríi. Spurningin er hins vegar hvort vera kunni að þessi mikli sveigjanleiki sem sumar stéttir (erlendis kallaðar hvítflibbastarfsmenn) - en síður aðrar, einkum heilbrigðis- og umönnunarstéttir, lögregla og þvíumlíkt - njóta sé farinn að koma of mikið niður á framleiðni vinnustaðanna, framleiðslugetu þjóðarinnar.

 

Ég gæti ímyndað mér að ef allir meginaðilar vinnumarkaðarins (og þá á ég við fleiri en bara ASÍ og SA) kæmu sér saman um (hálf)opinberan sumarleyfistíma (ekki endilega bara stífan júlí eða stífan ágúst eins og sum fylki eða ríki í Evrópu og Bandaríkjunum) gæti verið að framleiðni - og þar með kjör - þjóðarinnar myndu batna.

 

Þá þyrftum við kannski heldur ekki að vinna eins og skepnur hina 9 mánuði ársins - og kannski væri það betra fyrir fjölskyldur landsins en ekki bara framleiðslugetuna.

 

E.t.v. má segja það sama um framleiðnisamdrátt a.m.k. tvær vikur margra stétta í kringum jólin - og kannski er þetta bara hið besta mál enda erum við, að ég held, í þessu eins og mörgu með sæmilegan milliveg milli meginlands Evrópu og Bandaríkjanna en nóg um það að sinni.

 

Þá skilst mér að á morgun hefjist eitthvað sem skammstafað er EM - og þá má líklega gera ráð fyrir minni framleiðni af hálfu karlkyns starfsmanna sem hafa flestir áhuga á að horfa á aðra karlmenn hreyfa sig. Lengra á þessari braut hætti ég mér ekki nú!


40 ár frá síðara Kennedy-morðinu

Kannski hef ég ekki lesið fjölmiðla nægilega vel í dag en ég hef ekkert séð um þá sögulegu staðreynd - sem Hillary Rodham Clinton varð nýlega á að minnast í óheppilegu sambandi á lokasprettinum - að í dag eru 40 ár síðan Robert Kennedy var skotinn. Ég sem hef hingað til minnst 5. júní helst fyrir að vera það næsta sem Danir komast þjóðhátíðardegi, Grundlovsdag.

 

Nú binda margir sambærilegar vonir við Obama og við Kennedy(ana) á sínum tíma.


Nei, neytendur hafa ekki opið veiðileyfi til að hagnýta sér hrein mistök fyrirtækja

Nei, þessir dómar Hæstaréttar eru ekki dæmi um refsimál sem breyttist í neytendamál. Því hefur hefur verið haldið fram að sýknudómar í netbankamálinu feli í sér að neytendur megi hagnýta sér kerfis- eða forritunarvillu í netbanka eins og í þessu tilviki. Það er ekki alls kostar rétt að mínu mati. Eins og fram kemur í lok fréttarinnar getur Hæstiréttur þess sérstaklega að ákærðu hafi ekki verið sakaðir um fjársvik. Slík ummæli eru óvenjuleg í sýknudómum - og geta að mínu mati vart falið annað í sér en að Hæstiréttur sé einmitt að árétta að háttsemi ákærðu hafi ekki verið heimil.

 

Með slíkum ummælum í dómsforsendum í sakamáli - eftir að hafa sagt að refsiákvæðið, sem notast var við í ákæru, ætti ekki við - er þvert á móti óbeint gefið í skyn að slík háttsemi geti falið í sér að hagnýta sér villu viðsemjanda, sem í þessu tilviki var banki. Ef slík hagnýting villu á sér stað og ef slíkt er gert með ásetningi í auðgunarskyni felur það í sér fjársvik - sem er ekki síður alvarlegt brot en umboðssvik sem ákært var fyrir í þessum málum. Væntanlega átti engin sönnunarfærsla sér stað um þessi meginatriði fjársvika enda er í sakamáli efnislega aðeins tekist á um það sem ákært er fyrir - ekki það sem ákæra hefði (m)átt fyrir. 

 

Alveg eins og Hæstiréttur sé ég mig tilneyddan til þess að taka þetta fram - til öryggis - þar sem hlutverk talsmanns neytenda felst lögum samkvæmt m.a. í því að kynna réttarreglur um neytendamál - og í þessu tilviki hvað telst ekki neytendamál. Dómar Hæstaréttar hafa þegar - ranglega - verið lagðir út á þann veg í bloggi við þessa frétt og fyrirsögn hennar að ákærðu

 

Máttu nýta sér kerfisvillu í netbanka [...]

 

Þennan misskilning verður að leiðrétta strax í því skyni að neytendur vaði ekki í villu um réttarstöðu sína í mikilvægum efnum. Í niðurlagi efnislegra dómsforsendna Hæstaréttar fyrir sýknudómunum segir: 

 

Með þessu misnotaði ákærði sér ekki einhliða aðgang sinn að netbankanum við gjaldeyrisviðskiptin og verður háttsemi hans því ekki heimfærð undir 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður ákærði því sýknaður af þeim sakargiftum, en hann hefur ekki í máli þessu verið borinn sökum um fjársvik samkvæmt 248. gr. laganna.

 

Ég mun væntanlega við annað tækifæri og á formlegri vettvangi fjalla um réttaráhrif tilboða gagnvart neytendum enda geta mistök í verðlagningu fyrirtækja vissulega skapað rétt hjá neytendum sem eru í góðri trú, eins og kallað er.


mbl.is Máttu nýta sér kerfisvillu í netbanka Glitnis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsað til Kína

Þessir atburðir á Torgi hins himneska friðar held ég að hafi haft mikil áhrif á mig fyrir hálfri ævi minni - þegar ég var nýfarinn að fylgjast með heimsmálunum og hélt að allt horfði til batnaðar. Kannski hef síðan - þrátt fyrir meðfædda reglutilhneigingu - hallast meira að þeim sem leyfa sér að efast um (al)valdið. Ég var í miðjum stúdentsprófum í Danmörku, um það bil að taka stúdentspróf í bæði spjótkasti og badminton - sem ég stóð mig ekki vel í - og líka í "sport og politik" - sem ég fékk toppeinkunn í. Þessi hugrenningartengsl leituðu nú á mig í dag, á sjálfu ólympíuárinu þegar leikarnir verða í Kína.


mbl.is 19 ár frá fjöldamorðum á Torgi hins himneska friðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhrif ísbjarna á íslenska umferðarmenningu - að mati Dana

Æ, aumingja hann; ég myndi bara gá hvort hann myndi gera einhverjum illt - áður en ætti að skjóta hann,

 

sagði dóttir mín strax - óaðspurð - þegar ég sagði henni fréttina.

 

Annars ætlaði ég hér að segja sannan brandara um hvítabjörn, eins og það heitir víst á íslensku, og heiðra minningu hins fallna úr því að afstaða heimilisins er komin á hreint - enda hafa börnin mín reynst mun meiri friðunarsinnar en svona gamaldags nýtingarsinni eins og ég er. Gott er að börnin taka sjálfstæða afstöðu; sonur minn er t.a.m. algerlega á móti hvalveiðum - þó að ég hafi alla tíð verið frekar hallur undir þær síðan ég tók í fyrsta skipti opinberlega ótilneyddur til máls fyrir rúmum 20 árum, nýkominn í danskan menntaskóla, til að verja málstað okkar Íslendinga. Nóg um það; aftur að sanna brandaranum - sem er einmitt ættaður frá Danmörku.

 

Þegar bekkjarsystkin mín í danska menntaskólanum voru óðum að taka bílpróf - á þeim eðlilega aldri: 18 ára - var ég nýbúinn að taka slíkt hér heima, atvinnu minnar vegna. Ég gat ekki stillt mig um að spyrja eina bekkjarsystur mína kvikindislegrar spurningar:

 

Hvað myndirðu gera ef þú værir að keyra á þjóðveginum og það kæmi ísbjörn að veginum?

 

Ég veit það ekki; ætli ég myndi ekki stoppa bílinn,

svaraði hún.

 

Nei, það máttu alls ekki gera því þá myndi ísbjörninn koma og ráðast á bílinn og berja hann utan,

skáldaði ég - án þess að vita neitt um slíkt enda hafði ég aldrei heyrt af hvítabirni á Íslandi á minni ævi.

 

Jaá; það er gott að við erum ekki með þetta vandamál hér í Danmörku,

sagði bekkjarsystir mín þá.

 

Þetta fannst mér fyndið og punkturinn hér er sá sami og réð upphaflegri afstöðu minni í kjölfar drápsins í dag; þetta gerist svo sjaldan (20 ár síðan að hvítabjörn gekk á land hér síðast að sögn sjónvarpsfrétta RÚV nú í kvöld) að skiljanlegt er að ekki séu til meiriháttar viðbragðsáætlanir við svona atburði. Hitt er annað að miðað við sömu fréttir má vera að ráðrúm hefði gefist til þess að ræða við dýralækninn á svæðinu sem sagðist myndu hafa haft (eru þetta nokkuð of margar sagnir) tilgreinda lausn á málinu.

 

En brandarinn er ekki búinn; nokkrum árum síðan ætlaði ég aftur að slá um mig og sýna öðrum dönskum kunningja fram á hvað Danir væru illa að sér um Ísland. Þegar ég hafði sagt honum brandarann hér að ofan á dönsku, kímdi hann og sagði:

 

Já, ég skil. Það eru auðvitað engir þjóðvegir á Íslandi.


mbl.is Skýrist á næstu dögum hvað verður um ísbjörninn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sá, sem mengar, borgar

Ítarleg skýrslan á að vísu eftir að koma til umsagnar talsmanns neytenda en samkvæmt fréttum af starfi nefndar undir forsæti fjármálaráðuneytis um stefnu varðandi eldsneytisskatta virðist hún a.m.k. merki um tvennt:

 

Fram kom í fyrri frétt að heildarálögur á neytendur myndu ekki aukast samkvæmt tillögum nefndarinnar.


mbl.is Vistvæn hvatning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stuðningskveðjur til Suðurlands og hrós til allra

Mig langar að senda íbúum og frístundahúsaeigendum á Suðurlandi stuðningskveðjur. Athyglisvert er að þessi skjálfti er einmitt rúmum fjórum sólarhringum á eftir hinum stærri síðdegis á fimmtudag - rétt eins og rúmir fjórir sólarhringar liðu, að mig minnir, frá stóra skjálftanum á brúkaupsdaginn minn, 17. júní 2000, en þá var ég í höfuðborginni í gömlum skrjóð sem ég hélt að væri að gefa sig; í hinum seinni var ég svo í brúðkaupsferð í Biskupstungum og fann þann skjálfta betur.

 

Eftir nokkurra daga óskipulagt blogg-hlé (þar sem ég gleymdi mér í góða veðrinu og öðrum hugðarefnum og heimsótti einmitt Suðurland til að gróðursetja og huga að vegsummerkjum) vildi ég nú bara nefna að af fyrstu fréttum af fimmtudagsskjálftanum að dæma virðast innviðir landsins hafa staðist þetta mjög vel: Forsetinn fljótlega kominn austur, forsætisráðherra með yfirlýsingu um stuðning, dómsmálaráðherra á vaktinni, sýslumaður og vegamálastjóri með upplýsingar, lögregla og hjálparlið út um allt að huga að fólki, fréttamenn strax komnir með fréttir og fulltrúa austur, viðlagatrygging og tryggingafélög fljótlega með ágætar upplýsingar, rafmagn og önnur orka í góðu lagi og vegakerfið nokkuð ósnortið; þetta sýnir bæði styrkleika og mikilvægi fyrirtækja á borð við Landsvirkjun og Vegagerðina - nóg er rætt um veikleikana, t.d. í sambandi við áætlanagerð við ferjusmíði, sem aðrir eru kannski betri í en slík stofnun. Í stjórnunarfræðum er einmitt fjallað um svonefnda lykilhæfni en stofnanir, fyrirtæki og jafnvel ríki ættu að nýta hana og styrkja. Kannski erum við bara nokkuð góð í því sem við eigum að vera góð í, svo sem að standast óvæntar náttúruhamfarir og standa saman.

 

Stærsta hrósið fær nú samt RÚV fyrir að vera komið með fréttir á pólsku og litháísku (ef ég man rétt því ekki skil ég hana) nokkrum klukkustundum eftir stóra skjálftann. 

 

Ég skil nú betur en árið 2000 hvernig svona skjálfti getur haft sálræn áhrif - líka á innfædda Íslendinga - þó að alvarlegt líkamstjón hafi sem betur fer ekki orðið; það er væntanlega vegna aukins þroska og fleiri barna en fyrsta hugsun mín var einmitt að hringja í þau þó að við séum á höfuðborgarsvæðinu - en þau gátu hafa orðið hrædd.


mbl.is Snarpur kippur á Hellisheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Símhlerun gagnvart þingmönnum stjórnarskrárbrot?

Embættismaður eins og ég getur auðvitað ekki tjáð sig á opinberum vettvangi um pólitískt mál sem ekki er neytendamál - og geri ég það ekki. Auk þess er ég sammála Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra um að hlerunarmálið beri að ræða á grundvelli laga og réttar. Því vil ég árétta ábendingu mína á opnum fræðafundi um málið í fyrra þar sem ég efaðist um að það hlerun á síma alþingismanna hefði staðist svohljóðandi ákvæði stjórnarskrár:

 

Meðan Alþingi er að störfum má ekki setja neinn alþingismann í gæsluvarðhald eða höfða mál á móti honum án samþykkis þingsins nema hann sé staðinn að glæp.

 

Þegar þetta ákvæði var fyrst sett var sími ekki til (a.m.k. ekki í Danaveldi) og þegar það var endurnýjað var ekki mikið um síma en þarna er lagt fortakslaust bann við því að (reyndar tilteknum) rannsóknar- og þvingunarráðstöfunum í þágu rannsóknar sakamála samkvæmt lögum þar um sé beitt gagnvart alþingismönnum meðan þingið starfar - nema þeir séu staðnir að glæp en í því felst t.d. að gjaldkeri sé gripinn með höndina í kassanum.

 

Eins og ég nefndi á umræddum fræðafundi á vegum Orators eða lagadeildar Háskóla Íslands fyrir nokkrum mánuðum tel ég koma til álita að skýra þessa stjórnarskrárvernd alþingismanna (þeirra einu sem eru kjörnir af þjóðinni) gagnvart öðrum handhöfum ríkisvalds rýmkandi - þannig að verndin nái einnig til hlerana á nútímatækinu síma - sem ekki var, sem sagt, fyrir hendi þegar stjórnarskráin var upphaflega sett og væntanlega lítt útbreidd þegar lýðveldisstjórnarskráin var áréttuð, lítið breytt.

 

Þetta finnst mér eðlilegt að árétta úr því að fyrri ábending mín náði ekki eyrum starfandi fræðimanna.


mbl.is Dómarar ekki viljalaus verkfæri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðbólguhraðinn

Gott að heyra að verðbólguhraðinn verði lægri í framhaldinu og gaman að heyra loks hagfróða menn - og það á vegum bankanna - tala um "verðbólguhraðann" eins og hann er nú. Það hef ég gert og rökstutt með samlíkingu að eigi betur við þar sem það er verðbólguhraðinn hverju sinni (á ársgrundvelli að vísu) - ekki verðbólgumæling eitt ár aftur í tímann - sem hækkar verðtryggð lán frá mánuði til mánaðar.

 

Þess má geta að verðbólguhraðinn nú er samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands 17,7% og 28% ef litið er til 3ja síðustu mánaða.


mbl.is Verðbólga við það að ná hámarki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vín, svín og vinsældir

Ég hef verið að hugsa um vín-svín-auglýsingar ónefnds ríkisfyrirtækis hér á landi. Ég hef velt fyrir mér þeim skilaboðum sem felast í þessum (að mörgu leyti vel gerðu) auglýsingum; öðrum þræði er þar verið að segja:

 

Ekki drekka of mikið!

 

En um leið - eins og margir hafa bent á - er, óbeint, verið að segja: drekktu (hóflega) - sem er reyndar bannað að segja berum orðum. Þurfum við virkilega svona auglýsingar - og það frá ríkisfyrirtæki sem nýtur einokunaraðstöðu? Sjálfur er ég fylgjandi hófdrykkju enda alinn upp í Danmörku að hluta og er á móti "stigmatiseringu" áfengis eða hófdrykkju. Vandinn er að þó að framangreind skilaboð berist okkur fullorðnum neytendum - "það er í lagi að drekka í hófi" - þá kunna börnin að lesa annað úr þessu:

 

Breytist maður í svín ef maður drekkur?

 

Svona spyrja börnin; í því felst "tabu."

 

Málið hefur enn ekki komið inn á borð hjá mér og leyfi ég mér því að nefna það enda leitast ég við að fjalla ekki hér um mál sem eru í gangi hjá talsmanni neytenda. Reyndar er skylt samkvæmt lögum að miða auglýsingar við að börn sjái þær og heyri og mega auglýsingar ekki misbjóða börnum - en það meta aðrir en ég hvort uppfyllt er í þessu tilviki.

 

Málið snertir að vísu ekki beinlínis spennandi hringborðsumræður okkar umboðsmanns barna á morgun með hagsmunaaðilum um aukna Neytendavernd barna því að þessum auglýsingum er ekki beinlínis beint að börnum.

 

Við þessar hugleiðingar datt mér reyndar í hug að einhverjir skemmtilegustu menn, sem ég þekki, eru bindindismenn - annað hvort frá "upphafi" eða síðar til komnir. Er það tilviljun? Ef ekki; hvort er það þá orsök eða afleiðing?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband