Áhrif ísbjarna á íslenska umferðarmenningu - að mati Dana

Æ, aumingja hann; ég myndi bara gá hvort hann myndi gera einhverjum illt - áður en ætti að skjóta hann,

 

sagði dóttir mín strax - óaðspurð - þegar ég sagði henni fréttina.

 

Annars ætlaði ég hér að segja sannan brandara um hvítabjörn, eins og það heitir víst á íslensku, og heiðra minningu hins fallna úr því að afstaða heimilisins er komin á hreint - enda hafa börnin mín reynst mun meiri friðunarsinnar en svona gamaldags nýtingarsinni eins og ég er. Gott er að börnin taka sjálfstæða afstöðu; sonur minn er t.a.m. algerlega á móti hvalveiðum - þó að ég hafi alla tíð verið frekar hallur undir þær síðan ég tók í fyrsta skipti opinberlega ótilneyddur til máls fyrir rúmum 20 árum, nýkominn í danskan menntaskóla, til að verja málstað okkar Íslendinga. Nóg um það; aftur að sanna brandaranum - sem er einmitt ættaður frá Danmörku.

 

Þegar bekkjarsystkin mín í danska menntaskólanum voru óðum að taka bílpróf - á þeim eðlilega aldri: 18 ára - var ég nýbúinn að taka slíkt hér heima, atvinnu minnar vegna. Ég gat ekki stillt mig um að spyrja eina bekkjarsystur mína kvikindislegrar spurningar:

 

Hvað myndirðu gera ef þú værir að keyra á þjóðveginum og það kæmi ísbjörn að veginum?

 

Ég veit það ekki; ætli ég myndi ekki stoppa bílinn,

svaraði hún.

 

Nei, það máttu alls ekki gera því þá myndi ísbjörninn koma og ráðast á bílinn og berja hann utan,

skáldaði ég - án þess að vita neitt um slíkt enda hafði ég aldrei heyrt af hvítabirni á Íslandi á minni ævi.

 

Jaá; það er gott að við erum ekki með þetta vandamál hér í Danmörku,

sagði bekkjarsystir mín þá.

 

Þetta fannst mér fyndið og punkturinn hér er sá sami og réð upphaflegri afstöðu minni í kjölfar drápsins í dag; þetta gerist svo sjaldan (20 ár síðan að hvítabjörn gekk á land hér síðast að sögn sjónvarpsfrétta RÚV nú í kvöld) að skiljanlegt er að ekki séu til meiriháttar viðbragðsáætlanir við svona atburði. Hitt er annað að miðað við sömu fréttir má vera að ráðrúm hefði gefist til þess að ræða við dýralækninn á svæðinu sem sagðist myndu hafa haft (eru þetta nokkuð of margar sagnir) tilgreinda lausn á málinu.

 

En brandarinn er ekki búinn; nokkrum árum síðan ætlaði ég aftur að slá um mig og sýna öðrum dönskum kunningja fram á hvað Danir væru illa að sér um Ísland. Þegar ég hafði sagt honum brandarann hér að ofan á dönsku, kímdi hann og sagði:

 

Já, ég skil. Það eru auðvitað engir þjóðvegir á Íslandi.


mbl.is Skýrist á næstu dögum hvað verður um ísbjörninn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Bangsinn er fyrir börn,
bústinn líka Einar Örn,
sólginn í ís,
og sauðaflís,
og Bjarnason langar í Björn.

Þorsteinn Briem, 3.6.2008 kl. 23:45

2 Smámynd: Gísli Hjálmar

Þessi var ágætur ...

Það eru enginn fjöll í Danmörku en samt skíra þeir einhvern smá hól "Himmelbjerget".

Það eitt og sér lýsir mikilli vanmetakennd Dananna. Vona að ég fari rétt með nafnið á hólnum.

Gísli Hjálmar , 4.6.2008 kl. 21:50

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fjöldinn allur af himinháum fjöllum og ísbjörnum í Danmörku.

Færeyjar og Grænland eru hluti af Danmörku.

Miklu hærri fjöll á Grænlandi en hér á Klakanum.

Þorsteinn Briem, 4.6.2008 kl. 22:05

4 Smámynd: Gísli Tryggvason

Nú er ég reyndar farinn að efast um hvort síðari Daninn var þvert á móti að gera grín að mér bláeygum eða hvort fyndnin byggist á þeim misskilningi að ég notaði vissulega orðið "motorvej" sem þýðir hraðbraut; af alvöru hraðbrautum í evrópskum stíl var nú ekki mikið hér fyrir 20 árum. Það eru svona útskýringar sem eyðileggja góða brandara og þess vegna lét ég þessa ekki fylgja í meginmáli strax enda held ég enn að hann hafi frekar meint þetta eins og ég hef grínast með í tvo áratugi - þó að auðvitað sé mér hlýtt til Dana.

Gísli Tryggvason, 4.6.2008 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.