Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Allt gott kemur frá Guði

Yngri dóttir mín vaknaði upp á laugardaginn með ummælum sem minntu mig á þennan titil á smásögu Davíðs Oddssonar, sem kvikmynduð var fyrir nokkrum árum, ef ég man þetta rétt, og kemur mér alltaf í hug þegar ég keyri um Selfoss því drengurinn í sögunni (Davíð) fór upp á þak til þess að bíða eftir - eða biðja Guð um - nammi, eins og það heitir í dag en í mínu ungdæmi hét það reyndar líka "gott" eins og hjá sögumanni.

 

En aftur að dóttur minni sem sagði um leið og hún vaknaði - með tilhlökkun og upp úr eins manns hljóði:

 

Ég veit af hverju Guð er bestur. Af því að hann látti nammidagana vera til.

 

Og þá smávægis sumarsólarhlé.


Aðeins aukagreiðsla fyrir valkvæða viðbótarþjónustu

Ég hef ekki amast við því að flugfélög eða önnur fyrirtæki taki viðbótargreiðslu fyrir valkvæða aukaþjónustu en hæpið virðist að taka viðbótargreiðslu fyrir fyrstu tösku á hvern farþega; það hlýtur að vera lágmark þegar maður flýgur utan og jafnvel landshluta á milli að taka með sér eina tösku, upp að tiltekinni þyngd eins og verið hefur; sá töskukostnaður á að mínu mati að vera innifalinn í farmiðanum því neytandinn er engu bættari - og jafnvel blekktur - með að fargjaldið sé brotið niður í mismunandi kostnaðarhluta svo sem töskugjald, afgreiðslugjald, flugþjóna-/flugfreyjugjald, eldsneytisálag o.s.frv.


mbl.is Fleiri flugfélög taka farangursgjald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Má ég fá kort?"

Ertu svona fá..., fátækur?

 

spurði dóttir mín þegar ég sagðist ekki eiga fleiri peninga en þær tvær krónur sem ég fann í skúffu til þess að leyfa henni að leika sér með í búðarleik með systur sinni og nágrannatelpunni.

 

Nei, ég nota eiginlega bara kort til að borga,

 

sagði ég.

 

Má ég fá kort?

 

sagði hún þá; ég neitaði - enda er ég einmitt um þessar mundir að freista þess ásamt umboðsmanni barna að ná sem heildstæðastri sátt um leiðbeiningar um aukna Neytendavernd barna þar sem m.a. er fjallað um aldursmörk í tengslum við markaðssetningu og notkun korta. Nei, raunveruleg ástæða er að ég þori ekki að taka áhættuna af því að greiðslukortin mín týnist í búðarleiknum.

 

Þetta minnir mig reyndar á skemmtilegt atvik fyrir um fimm árum þegar sonur minn, þá um 5 ára gamall, spurði hvaða (rauði) miði þetta væri sem ég var með í höndunum; það var 500-króna seðill. Hann hafði aldrei séð seðil áður - heldur aðeins mynt og greiðslukort.


Gúrkutíðin hafin

Skömmu eftir að áðurnefnt tímabil hefst byrjar næstum eins löng gúrkutíð - sem ég nefni svo í góðu því að fyrir um og yfir 15 árum var ég sjálfur um árabil sumarafleysingamaður á dagblaði (sem nú er horfið í aldanna skaut). Fyrir mig - sem hef starfað í um 10 ár á opinberum vettvangi við að kynna reglur, standa vörð og hafa áhrif til úrbóta fyrir launafólk og neytendur - hefur þetta þau áhrif að þegar þingi og öðrum reglulegum (og jafnvel óreglulegum) stórviðburðum er lokið þá hef ég vart undan að svara blaðamönnum - sem oftar en ekki eru ný nöfn, sumarafleysingafólk.

 

Þetta nýtist vel og ég kvarta ekki því málstaður neytenda á það alveg inni að fá að njóta sín - og fjölmiðlar (flestir ef ekki allir) virðast reyndar undanfarin misseri hafa sótt mjög í sig veðrið við að sinna neytendamálum - sem njóta auk þess vaxandi athygli í þjóðfélaginu almennt. Áhersla á þennan málaflokk á líklega aðeins eftir að aukast í samdrættinum sem fer í hönd.

 

Samt er það svolítið skrýtið að eftir viðburðaríkan fréttavetur, þar sem (tals)maður má hafa sig allan við til þess að kynna starfsemi embættisins fyrir neytendum og áhrifaaðilum - í því skyni að hafa áhrif - vegna þess að það er svo margt annað að frétta og mikil mannekla á fjölmiðlum, kemur allt í einu (aftur) tími þar sem lögmálið snýst við: eftirspurn eftir neytendafréttum og skoðunum talsmanns neytenda er skyndilega meiri en framboðið. Þó eru enn nýjar fréttir á heimasíðu embættisins - www.talsmadur.is - sem gera má mat úr.

 

Á sumrin getur ástandið verið svipað og þegar Nýja fréttastöðin var starfandi í um ár; þá var nánast fullt starf að sinna fréttamönnum. Í gærkvöldi var ég meira að segja í fyrsta skipti í viðtali í Ísland í dag, í sólinni á Austurvelli, um stóra grænmetis- og bakkelsismálið og það strax í kjölfar viðtals á Bylgjunni, á Reykjavík síðdegis, um sama efni sem ég vék reyndar líka að í færslu fyrir tveimur vikum. Verkefnisstjóri Leiðakerfis neytenda, Liselotte Widing, fór reyndar betur yfir evrópureglurnar um það mál í hér þætti Brynhildar Pétursdóttur, Dr. RÚV, í fyrradag.

 

Kannski (tals)maður verði jafnvel aftur kallaður í Kastljós í júlí eins og í fyrra þegar ég féllst á að mæta þar samdægurs og gagnrýndi mismunun almennra neytenda og farþega á viðskiptafarrými við vopnaleit; það bar árangur enda var þeirri mismunun hætt en þess má geta að æðsti yfirmaður málsins, dómsmálaráðherra, hafði þá einnig fundið að þeirri mismunun á bloggsíðu sinni.


Told you so

Eins og ég benti á fyrir nær einu og hálfu ári og rökstuddi í löngu lagamáli bera ritstjórar, sem sagt, ábyrgð á ómerktu efni - þ.m.t. auglýsingum, svo sem óheimilum áfengisauglýsingum.

 

Þetta benti ég ritstjórum dagblaðanna reyndar persónulega á í kjölfarið enda vonaðist ég til þess að ábendingar þessar um réttarstöðuna leiði til breytts verklags á ritstjórnum eins og ég hef áréttað síðan. Dómarnir hljóta að hafa þessi áhrif nú enda eru þeir ágætt merki um meðábyrgð auglýsingamiðla eins og hér er rakið.


mbl.is Ritstjórar sektaðir fyrir áfengisauglýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Faðir vor og lög um stéttarfélög og vinnudeilur

Í dag, 11. júní 2008, er faðir minn, Tryggvi Gíslason - sex barna faðir og eiginmaður, fyrrverandi skólameistari Menntaskólans á Akureyri og um tíma deildarstjóri hjá Norrænu ráðherranefndinni í Kaupmannahöfn, Norðfirðingur, fræðimaður, ritstjóri, Kópavogsbúi og ýmislegt fleira - sjötugur.

 

Ég óska honum til hamingju hér á þessum vettvangi eins og ég hef gert í síma.

 

Til gamans má geta þess að pabbi er - upp á dag - jafn gamall lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur - sem eru líka gagnmerk. Reyndar tók ég þátt í að breyta lagabálki þessum fyrir rúmum 12 árum - vonandi til hins betra. Annars hafa lögin elst mjög vel - eins og pabbi minn; kannski hef ég líka tekið þátt í að breyta honum.


Hver ber sönnunarbyrðina?

Ónefnd verslun hér á höfuðborgarsvæðinu hringdi ítrekað í mig í morgun í báða símana og þegar í mig náðist var erindið að spyrja hvort ég hefði skilað lánsvöru sem ég hafði samkvæmt "leigusamningi" haft til endurgjaldslausra afnota í nokkra daga eða vikur á meðan gert var við sams konar vöru sem ég hafði keypt og hafði bilað fljótlega.

 

Fulltrúi verslunarinnar tók mig strax trúanlegan þegar ég sagði að ég hefði skilað vörunni fyrir all mörgum vikum þegar ég fékk minn eigin hlut til baka í góðu, viðgerðu standi. Ég - lögfræðingurinn - hafði samt klikkað á því að fá kvittun. Hvað ef ágreiningur hefði risið? Þá hefði ég reyndar getað spurt hvort almennt væru gefnar kvittanir við skil á (leigu- eða) lánsvörum og ef svo hefði ekki verið hefði ég getað haldið því fram að sönnunarbyrðin væri ekki mín eins og e.t.v. yrði talið ef kvittanir væru almennt gefnar við skil. Þá hefði ég getað nýtt mér Leiðakerfi neytenda á www.neytandi.is.

 

Þetta leiðir hugann að því að það er alltof algengt að neytendur séu krafðir staðfestingar á skuldbindingum sínum - t.d. á láni eins og í þessu tilviki eða leigu á kvikmynd - án þess að þeim sé boðin staðfesting á lausn undan skuldbindingunni við skil (og reyndar heldur ekki oft afrit af leigusamningi). Kannski er þetta ekkert vandamál en ég hef oft leitt hugann að þessu fræðilega álitamáli sem þarna hefði getað reynt á; til fyrirmyndar er þetta a.m.k. ekki.


Auglýsingin var rétt

Um daginn heyrði ég ítrekað auglýsingu í ljósvakamiðlum eitthvað á þá leið að göturnar væru helst tómar þegar Eurovision-keppni stæði yfir og hér um árið þegar JR í Dallas var skotinn - og svo þegar Evrópumeistarakeppni í fótbolta stæði yfir eins og nú. Ég sannreyndi þetta í kvöld því þegar ég hjólaði heim af fundi - að vísu á matmálstíma - leið mér nærri því eins og Palla sem var einn í heiminum, sem var ágætt. Göturnar voru hálftómar, sem var líka fínt. 

 

Hálftómar götur öftruðu mér þó ekki frá því að stytta mér leið hér við stórfljótið á mörkum Smára- og Lindahverfis og datt mér þá í hug samlíking um að hjólreiðar hér á höfuðborgarsvæðinu eru svolítið eins og að reyna að tala erlent tungumál því eins og kennarinn minn sagði einu sinni:

 

Á erlendri tungu segirðu það sem þú getur - en ekki það sem þér býr í huga.

 

Á hjóli ferðu þar sem þú kemst en ekki það sem þú vilt (ef þú ætlar að fara eftir hjólreiða- og göngustígum).

 

Ég hefði betur hjólað eftir götunum því í fyrsta skipti á ævinni hvellsprakk á hjólinu við eitt byggingarsvæðið - á splunkunýju dekki og slöngu síðan í morgun. Ég sem hélt að ég hefði fundið sértæka lausn á vandanum við síhækkandi bensínverð. Almenna lausn hef ég enn síður.


Neytendur eru líka hagsmunaaðilar

Nokkrar vangaveltur hafa verið að gefnu tilefni hvers vegna stjórnarmenn verði að víkja úr stjórn hlutafélaga í kjölfar refsidóms - þó ekki um regluna almennt heldur þegar dómur er skilorðsbundinn og hins vegar þegar hinn dæmdi er stór hluthafi.

 

Annars vegar velta sumir því fyrir sér hvort sama gildi um skilorðsbundna dóma; því er til að svara að skilorðsbundinn dómur felur í sér dóm þar sem dómari dæmir vissulega refsingu - en frestar fullnustu (framkvæmd) refsingar um tiltekinn tíma með skilyrði því að hinn dæmdi geri (ekki) eitthvað í þann tíma, þ.e. uppfylli tiltekin skilyrði (skilorð). Skilyrðið er yfirleitt að brjóta ekki af sér aftur á umræddum tíma, svonefnt almennt skilorð (svo eru til sértæk skilyrði). Því er dómurinn jafngildur öðrum og verður refsingin yfirleitt virk ef skilyrðin eru brotin.

 

Hins vegar hefur verið spurt hvort réttaráhrif refsidóms á stjórnarmenn séu hin sömu ef hinn dæmdi stjórnarmaður á stóran hluta eða meiri hluta hlutafjár eða jafnvel allt hlutaféð. Því hefur verið svarað af lögspekingum að í slíkum tilvikum sé engin undantekning gerð í lögunum og virðast sumir undrast það. Ég tel að það sé af því að þeir gleyma að hluthafar eru ekki þeir einu sem eiga hagsmuna að gæta gagnvart hlutafélagi og stjórn þess. Meðal annarra hagsmunaaðila eru viðsemjendur þess - bæði starfsmenn, kröfuhafar (birgjar) og neytendur.

 

Í þessu tilviki hefur löggjafinn gert það sem kalla má neikvæða kröfu til stjórnunar hlutafélaga (um að menn sem uppfylla tiltekin skilyrði, þ.e. hafa fengið refsidóm, megi ekki sitja í stjórn). Auðveldara er að rökstyðja slíkar (málefnalegar) kröfur til hlutafélaga en það sem kalla má jákvæðar kröfur en slíkar kröfur rakti ég í færslu hér og eiga röksemdirnar þar enn frekar við hér, þ.e. að kjarni laga um (einka)hlutafélög er takmörkuð ábyrgð eigenda gagnvart kröfuhöfum - þ.m.t. neytendum.


mbl.is Boltinn hjá öðrum stjórnarmönnum Baugs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samsæri Hæstaréttar - og fleiri?

Gæti Hæstiréttur bannað stærsta flokk landsins ef í stjórnarskránni stæði að landið væri lýðveldi sem aðhyllist félagshyggju - en umræddur flokkur væri fylgjandi meiri markaðsbúskap og ynni í ríkisstjórn að einkavæðingu í samræmi við þá stefnu. Mér fyndist það skrýtið - en það er svona álíka og það sem virðist samkvæmt erlendum fréttum stefna í hjá Tyrkjum.

 

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um slæður hér heldur velta fyrir mér hvort er eðlilegra að meirihluti lýðsins ráði í lýðveldinu Tyrklandi eða Hæstiréttur og herinn - sem hvorugur hefur lýðræðislegt umboð þó að báðir aðilar segist - með nokkrum rétti, reyndar - vera að standa vörð um veraldlegt stjórnarfar; vandinn er að vörnin er gegn (meintri) ógn frá sitjandi ríkisstjórn með lýðræðislegt umboð. Ég hef reyndar lengi efast um slæðubann Frakka og Tyrkja sem á að vernda veraldlegt stjórnarfar frá íhlutun trúarafla og er hrifnari af samþættingarleið Breta og einkum þó Bandaríkjamanna - sem hafa náð að gera flesta fljótt að bandarískum borgurum þó að þeir gleymi upprunanum sem betur fer seint; og fáir eru trúaðri en Bandaríkjamenn þó að í landi þeirra sé skýrlega kveðið á um aðskilnað ríkis og trúar í stjórnarskrá og því fylgt nokkuð vel eftir af dómstólum.

 

Ég hef lengi haft svolítinn áhuga á sögu Tyrklands og stjórnmálum og fylgdist ágætlega með þegar ég var þar í sólarlandaferð þegar stjórnarflokkurinn, AK, sem lýst er sem mildum islam-hneigðum flokki, vann öðru eða þriðja sinni stórsigur í þingkosningum í fyrra. Flokkurinn hefur enn hreinan meirihluta á þingi og gat valið forseta úr sínum röðum en hefur ekki nægilegan meirihluta til þess að breyta stjórnarskránni, ef ég man rétt. Herinn, sem oft hefur á undanförnum áratugum framið valdarán, reyndi að hafa áhrif í gagnstæða átt með því að gefa í skyn afskipti af forsetakjörinu í fyrra "til varnar stjórnarskránni" eða til þess að "verja veraldlegt stjórnarfar Tyrklands" en gugnaði að þessu sinni - sem betur fer.

 

Þó að Tyrkland virðist að mörgu leyti fyrirmynd annarra ríkja þar sem múhameðstrú er ríkjandi er þetta að sumu leyti sama vandamál og hefur verið uppi á teningnum víðar í múslimaheiminum þar sem vestræn ríki styðja fremur minnihluta- og jafnvel einræðisstjórnir fremur en að hleypa réttkjörnum (öfga)múslimum að; munurinn á þeim tilvikum og Tyrklandi er að vestræn ríki styðja stjórnarflokkinn (eins og um helmingur þjóðarinnar) og hann er auk þess ekki öfgaflokkur heldur talinn hófsamur.

 

Þetta minnir mig á þegar ég spurði eitt sinn í miðju laganámi ágætan læriföður minn í Háskóla Íslands eftir pallborðsumræður af tilefni, sem ég hef nú gleymt, eitthvað á þá leið hvort ekki gæti verið að (krafan um) lýðræði og (krafan um) réttarríki stönguðust í sumum tilvikum á; svarið var svolítið hrokafullt eins og stundum áður og lét ég mér það vel líka:

 

Nei, ég held að þú hafir misskilið eitthvað.

 

Ég er enn ekki viss um að svo hafi verið.


mbl.is Stjórnarflokkur í Tyrklandi gagnrýnir úrskurð dómstóls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband