Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Þriðjudagur, 22. júlí 2008
Indversk áhrif á íslenska neytendur
Ekki skal ég tjá mig um spillinguna sem mbl.is getur um en hvaða áhrif skyldi það hafa á neytendur á Íslandi að indverska ríkisstjórnin hafi haldið velli? Jú, rétt eins og við heyrum að tilteknir atburðir víða um heim hafi - a.m.k. yfirleitt - býsna hröð og mikil áhrif á (heimsmarkaðs)verð á eldsneyti þá var það að mati Economist fyrir helgi talið líklegt til þess að auka sæmilegar líkur á árangri í nýrri lotu Doha-viðræðna um aukið heimsmarkaðsviðskiptafrelsi sem hófust í gær.
Ég hef að vísu ekki séð fréttir í dag um árangur; engar fréttir eru vonandi góðar fréttir í þessu sem öðru - því talið er að ef ekki næst árangur hjá stjórnmálalmönnum nú á næstu dögum eftir tilraunir embættismanna til að undirbúa málamiðlun í frjálsræðisátt þá valdi ágústdeyfð í Brussel vegna sumarleyfa í stjórnkerfi ESB og svo enn meiri áhersla á bandarískar forsetakosningar þegar hausta fer að málið tejist næstu misseri.
Ef vel tekst upp í Doha-lotunni sem hófst í gær hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni við Genfarvatn þá er líklegt að dregið verði úr heimilli og vonandi raunverulegri innanlandsvernd á vörum á borð við landbúnaðarafurðir en Ísland mun hafa tekið sér stöðu með hvað íhaldssömustu ríkjum í þessu efni!
Á meðan gjalda neytendur í minni samkeppni, takmarkaðra vöruvali og hærra vöruverði. Áfram Indverjar.
![]() |
Ríkisstjórn Indlands hélt velli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 21. júlí 2008
Lögfræðin betri en brjóstvitið
Tilefnið er að vísu kostulegt (en ég hef líka blandað saman berum brjóstum og neytendamálum og farið flatt á því) en í fyrsta lagi felur lögfræðin í bandaríska brjóstaberunarmálinu í sér góð rök fyrir að fella hina háu brjóstaberunarsekt úr gildi - enda er margt af bandarískri lögfræði að læra, þ.e.:
að fjarskiptanefndin hefði farið offari og látið stjórnast af duttlungum þegar hún ákvað að CBS skyldi greiða sekt fyrir að sýna ósæmilegt sjónvarpsefni [...] - [...] - [og] brugðið út af 30 ára hefð fyrir því að sekta því aðeins sjónvarpsstöðvar fyrir að sýna ósiðlegt sjónvarpsefni, að áhorfendur hafi komist verulega úr jafnvægi. Atriðið, sem þetta mál snérist um, hafi verið allt of stutt og lítilfjörlegt til að falla undir slíka skilgreiningu.
Meðalhóf, málefnaleg sjónarmið og jafnræðisregla eða stjórnsýsluhefð vernduðu þarna sjónvarpsstöðina.
Annar lærdómur af þessu skondna máli er að það er stundum athyglisvert hvaða mál njóta athygli stjórnvalda sem eiga m.a. að gæta réttinda neytenda eins og ég skrifaði um í gær.
Í þriðja og síðasta lagi finnst mér þetta mál áhugavert vegna þess að þessi stutta frétt sýnir að í Bandaríkjunum er a.m.k. virkt (ef ekki virt) neytendaeftirlit með ljósvakamiðlum - nokkuð sem að mínu mati skortir hér á landi eins og ég hef ítrekað bent á.
![]() |
Sekt vegna brjóstasýningar ógilt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.7.2008 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 21. júlí 2008
Neytendur (eiga að) "kjósa" daglega
Mörgum hefur - að mínu mati réttilega - fundist ónógt lýðræði í Evrópusambandinu og hefur lengi verið talað um "lýðræðishalla" í því efni. Eins og fjallað var um á BBC í vikunni er ástæðan m.a. sú að almenningur veit ekki hvert á að snúa sér með umkvörtunarefni sín og umbótatillögur.
Hér á landi er hins vegar a.m.k. á 4ra ára fresti hægt að kjósa þingmenn (eða a.m.k. flokka) og í flestum lýðræðisríkjum er fræðilega hægt að skipta um þing á 4-5 ára fresti.
Í Bandaríkjunum, sem mér finnast að mörgu leyti góð stjórnskipuleg fyrirmynd er fresturinn mislangur eftir því hvor þingdeildin á í hlut og auk þess er við lýði skörun þannig að ekki er kosið um alla þingmenn í einu. Á hinn bóginn er þar ekki þingræð, þ.e. þingið þarf ekki að samþykkja hverjir fara með framkvæmdarvald eins og hér, þ.e. ráðherra. Auk þess er í Bandaríkjunum löng hefð fyrir rétti kjósenda til þess að koma á framfæri erindum við stjórnvöld og þingmenn (e. the right to petition the government) eins og við fréttum stundum af.
Sá réttur kemur mér oft í hug þegar auglýst er að kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum (sem skipta má út á 4ra ára fresti) auglýsa viðtalstíma - sem mér finnst frábært.
Þetta lýðræði er ágæt framför frá 19. öld (þ.e. 1801-1900) en sumum þykir það þunnur þrettándi að fá ekki að segja, hlusta, ákveða og samþykkja meira á milli formlegra kosninga. Hvað um það; þegar neytendur kvarta í mín eyru yfir áhrifaleysi sínu er ég ekki alltaf sammála - þó að samkeppni og möguleikar á að velja mættu vera meiri, líka í okkar litla landi. Að meginstefnu til kjósa neytendur nefnilega daglega - og meira en það; kosningaréttur neytenda felst líka í að sitja heima eða kjósa með fótunum, sem kallað er.
Eins og ég vísaði til fyrir hálfu öðru ári síðan virðast nú loksins (smám saman) vera að renna upp þeir tímar að neytandinn sé "kóngur" - eins og þarnefndur kaupmaður lýsti yfir fyrir meira en 130 árum.
En, ekki er nóg að neytendur tali um hlutina - hafi "kosningarétt;" það þarf að nýta hann.
Sunnudagur, 20. júlí 2008
Forgangsmál
Ég tjái mig vitaskuld ekki lögfræðilega um þetta mál fyrr en ég hef rætt við hlutaðeigandi lögreglustjóra en gott er að sjá og heyra að vernd neytenda - sem ég geri ráð fyrir að séu aðalhagsmunirnir í þessu máli - njóti svo góðrar og skjótrar athygli löggæsluyfirvalda. Ég hef reyndar lengi verið að safna kjarki til þess að ræða frekar við lögreglustjóra um hvort - og hversu mikil og skjót - brot gegn neytendum leiði til viðbragða í refsivörslukerfinu.
Á endanum er gott að þeir, sem eiga að gæta hagsmuna neytenda (eins og talsmaður neytenda), geti vísað á virk úrræði til verndar hagsmunum og réttindum neytenda.
![]() |
Farandsali handtekinn á Ísafirði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 20. júlí 2008
"Sérstaklega ekki maskara!"
Þú ert besti pabbi í heimi,
fæ ég stundum að heyra frá börnunum mínum - þegar ég samþykki eða ákveð að gefa þeim einhver sætindi án þess að nammidagur sé eða önnur lögvarin krafa á slíku. Þetta varð mér nú tilefni til þess að segja að maður væri ekki endilega gott foreldri fyrir þær sakir að leyfa börnunum allt sem þau vildu eða gefa þeim eitthvað óhollt og svoleiðis. Ég ætlaði að bæta við því sjálfsagða (að þvert á móti setji góðir foreldrar takmörk, reglur, leiðbeiningar og jafnvel boð og bönn) þegar eldri dóttir mín greip frammí - með ákefð.
Sérstaklega ekki maskara!
Ég gat ekki annað en hlegið (óvart) - og tekið undir með henni - sem hefur fengið þau, væntanlega nokkuð samræmdu, skilaboð frá okkur foreldrunum að snyrtivörur séu ekki almennt ætlaðar fyrir litlar stelpur. En hún bíður spennt þangað til hún verður 16 ára því þá hættir hún að stækka og getur, að sögn, sett maskara á augnhárin sem þá verða líka hætt að stækka og þá verður samræmi í öllu saman.
Ég varð að spyrja hana - svipað og maðurinn í áramótaskaupinu (sem varð að blogg'um'etta):
Má ég blogga um þetta?
Ég fékk leyfi til þess.
Laugardagur, 19. júlí 2008
Vextir, verðtrygging og evra
Því miður sofnaði ég í gærkvöldi út frá ágætri kvikmynd um Kaupmann í Feneyjum með frábæran Al Pacino í því hlutverki. Þar er m.a. vikið að aldalangri andúð kristinna í garð gyðinga sem lánuðu öðrum fé og tóku vexti. Stundum þóttu þeir kannski háir en okur var óheimilt að Guðs lögum (og í sögunni reyndar óvenjulegur greiðslueyrir vaxta við lok lánstíma ef tiltekið skilyrði væri uppfyllt). Ekki veit ég hvort vextir voru alltaf fastir eða gátu verið breytilegir. Hér á landi er hins vegar ekki aðeins byggt á föstum (háum) vöxtum og gjarnan með heimild til að endurákvarða vexti á tilteknu tímamarki eða -fresti. Samkvæmt flestum langtímalánasamningum í íslenskum krónum ber annar aðilinn - lántakinn - alla áhættuna af þeirri óvissu sem felst í því hve há verðbólga mælist með breytingum á vísitölu neysluverðs. Ríkið tekur að sér að mæla þá breytingu. Reyndar skilst mér að í Ísrael, landi gyðinganna, þekkist einhvers konar verðtrygging en ég hef ekki rannsakað það sjálfstætt en hitt mun víst að útbreiðsla svonefndrar verðtryggingar í neytendalánum hér á landi er einsdæmi.
Í bókinni "Hvað með evruna?" - sem ég er að lesa (og gefa) er m.a. vikið að þeirri kenningu að ekki sé hægt að ná nema 2ur af 3ur eftirfarandi markmiðum á sama tíma:
- frjáls för fjármagns,
- sjálfstæð peningastefna og
- stöðugt gengi.
Eins og ég bjóst við eftir að svonefnd einhliða upptaka evru var útilokuð á Viðskiptaþingi í vor eru nú álíka margir landsmanna (60%) fylgjandi upptöku evru og eru hlynntir fullri aðild Íslands að ESB og þar með evru sem er afleiðing af slíkri aðild; flestir telja aðild líka skilyrði evruupptöku þó að umsamin aukaaðild sé ekki útilokuð fyrr en hún er reynd. Þannig fjölgar þeim í hópi almennings - neytenda - sem vilja fórna sjálfstæðri peningastefnu vegna þess að þeir telja mikilvægara fyrir hag sinn að hafa stöðugt gengi - og þá líklega að jafnaði stöðugra (og lægra) verðlag; í kjölfarið mynd væntanlega fylgja afnám svonefndrar verðtryggingar.
Ráðandi öfl vilja hins vegar enn fremur halda í sjálfstæðið en stöðugleikann. Kannski þarf ég sem talsmaður neytenda að leita frekari leiða til þess að bera réttmæti hennar eða lögmæti undir yfirþjóðlega aðila.
![]() |
Meirihluti fylgjandi ESB-aðild |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 18. júlí 2008
Stórafmæli
Ekki vissi ég (fyrr en nú) að Bifröst og Mandela væru jafnaldrar (kannski bara á sama árinu); um leið og ég sendi báðum innilegar afmæliskveðjur tek ég fram að ég er ekki nógu frjór til þess að sjá einhverja spennandi samlíkingu þar á milli en bæði afmælis"börnin" eru stórmerk.
Í ævisögu Mandela kemur m.a. fram það markverða fordæmi að hann fyrirgaf fangelsurum sínum - og svo finnst mér alltaf merkilegar blóðsúthellingalausar byltingar. Talandi um byltingar þá hitti ég nokkra byltingarsinna og gamla samstarfsmenn úr réttindabaráttunni í enn einu stórafmælinu í gær hjá öðru stórmenni, Ögmundi Jónassyni, sem var sextugur; ég færði honum bókina "Hvað um evruna?"
![]() |
Fagnar afmæli með fjölskyldunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 16. júlí 2008
Hæfni, heppni - eða óheppni?
Ein af mörgum ástæðum þess að ég hef hrifist af bandarísku stjórnskipulagi og stjórnkerfi er að þar virðast ríkja nokkuð skýrar línur milli yfirlýst pólitískra ráðninga í tilteknar toppstöður - samkvæmt reglum - og hæfnisráðninga sem annars munu meginregla. Það finnst mér ágætt - en betra er þó að sátt er um hver reglan sé. Þá finnst mér frábært hversu vel Bandaríkjamönnum hefur tekist að samræma hæfnisráðningar sjónarmiðum - sem ég tel réttmæt - um að minnihlutahópar nái eðlilegri stöðu í samfélaginu.
Hér á landi er óumdeild (en því miður ekki nægilega vel kynnt) lagaregla að í öll önnur störf en embætti ráðherra og framkvæmdarstjóra sveitarfélaga (þ.e. borgarstjóra, bæjarstjóra og sveitarstjóra) skal ráða óháð pólitískri afstöðu og samkvæmt hæfni; ef jafnhæfar manneskjur sækja um skal auðvitað láta kyn í minnihluta á því sviði njóta vafans.
Ég hef ekki misst trú á kerfið að þessu leyti þrátt fyrir einstök vonbrigði fyrir dómstólum og víðar og veit að frávik fela í sér undantekningar en ekki breytta reglu. Ég hafði að vísu í tæp 7 ár atvinnu mína af því að verja - og stundum sækja - réttindi háskólafólks sem taldi á sér brotið og sá og heyrði ýmislegt sem ekki virtist samkvæmt óumdeildum reglum; en, sem sagt, enn treysti ég því að kerfið standist skoðun, m.a. fyrir aðhald umboðsmanns Alþingis.
Sjálfur hef ég lengi talið að réttur stjórnandi ríkisstofnunar sé sá sem hafi bæði fagmenntun á hlutaðeigandi sviði (t.d. kennari í skólastofnun, leikari í leikhúsi og heilbrigðisstarfsmaður á sjúkrastofnun) og reynslu af og menntun í stjórnun og rekstri. Sú skoðun er óbreytt.
Megi sá hæfasti vinna.
Samkvæmt tilvísaðri frétt sækja 14 um embætti forstjóra Landspítala og 11 um embætti forstjóra Veðurstofu. Ég tek fram að einn af þessum 25 umsækjendum er skyldur mér þannig að valda myndi vanhæfi samkvæmt stjórnsýslulögum.
![]() |
Fjórtán sækja um forstjórastarf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 15. júlí 2008
The Birds
Í gærmorgun vaknaði ég við sannkallaða árás fugla svo að í svefnrofunum minnti gargið mig á "The Birds" eftir Hitchcock. Þrestirnir - sem mér sýndust þeir vera - voru gríðarmargir og þetta var ekkert venjulegt fuglatíst en árásin var auðvitað ekki á sjálfan mig. Þeir gogguðu í gríð og erg í grasbalann fyrir vestan íbúðina sem ég var nýbúinn að marka með stórfallegu holtagrjóti í því skyni að skýla smátrjám og runnum. Ekki var það tilbúinn áburðurinn sem þeir ásældust heldur var það væntanlega maðkurinn eftir kærkomnar rigningar helgarinnar og næturinnar í kjölfar náttúrlegs áburðar skömmu áður. Um kvöldið sá ég að allur balinn var alsettur allstórum götum en þrestirnir hurfu jafnskjótt og þeir birtust.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.7.2008 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 14. júlí 2008
Bylting fyrir neytendur - verðtrygging yrði úr sögunni með evruaðild
Það er við hæfi að bregðast á sjálfan Bastilludaginn við byltingarkenndri hugmynd helgarinnar frá ekki óreyndari manni í utanríkismálum en dómsmálaráðherra - sem hefur t.d. forræði á framkvæmd á aðild Íslands að Schengen. Dómsmálaráðherra reifaði hugmynd um evru sem gjaldmiðil á Íslandi án aðildar landsins að ESB. Nú kemur byltingin reyndar að ofan en ekki frá borgurunum eins og í frönsku byltingunni - en þó er um að ræða viðbrögð við kröfum sem hagsmunasamtök heildverslunar og smásöluverslunar og þjónustu hafa undanfarið (eins og Samtök iðnaðarins lengi) sett fram um breytingar á efnahagsumhverfi.
En hvað með neytendur á Íslandi; hverju myndi upptaka evru breyta fyrir þá?
Neytendasamtökin hafa reyndar látið gera úttekt á áhrifum aðildar Íslands að ESB og fjallað um hana í þessum mánuði og fyrr í vor á heimasíðu sinni og fer þar meira fyrir kostum en göllum. Auðvitað er það pólitísk spurning, sem embættismaður eins og ég tek ekki afstöðu til, hvort til greina kemur að bæta við fleiri stoðum þar sem við njótum (og gjöldum, eftir atvikum) áhrifanna af evrópusamstarfi með (auka)aðild án þess að eiga möguleika á að móta stefnuna og jafnvel framkvæmdina, þ.e.a.s. með fulltrúa Íslands við borðið.
En fyrir neytendur hér á landi virðist í fljótu bragði mikill kostur fylgja aukaaðild að myntbandalagi ESB þar sem með því væri svonefnd verðtrygging úr sögunni; verðtrygging felur í sér að lántaki ber -auk umsaminna (og stundum breytilegra) vaxta - einn alla áhættuna af verðþróun eins og hún er mæld af Hagstofu Íslands sem breyting á vísitölu neysluverðs. Er þá ekki horft til þess hvort hlutaðeigandi neytendur eða lánveitendur verða í raun fyrir sambærilegum kostnaðaráhrifum og þeim sem Hagstofan mælir. Þá er svonefnd verðtrygging án tillits til þess að hver og einn neytandi getur ekki haft áhrif á verðbólguna eins og ýmisir aðrir leikendur á markaðstorginu.
Um leið myndi evruaðild eyða gengisáhættunni sem margir neytendur o.fl. hafa tekist á hendur til þess að komast hjá svonefndri verðtryggingu.
Viðbrögð iðnaðarráðherra strax í gær gáfu vonir um að málið yrði rætt í ríkisstjórn en reglulegur ríkisstjórnarfundur ætti að vera á morgun, þriðjudag, ef sumarleyfi standa ekki í vegi. Þá var krafa formanns Samtaka atvinnulífsins í hljóðvarpi RÚV í morgun og málflutningur framkvæmdarstjóra Viðskiptaráðs í sjónvarpi RÚV í kvöld á þá leið að tími aðgerða væri löngu runninn upp. Viðbrögð formanna stjórnarflokkanna í ljósvakamiðlum síðdegis og í kvöld voru dræmari - en að mínu mati er ljóst að reyna þarf á hugmyndina. Eins og dómsmálaráðherra áréttaði strax í gær er hann ekki að viðra möguleikann á einhliða upptöku evru sem var útilokuð endanlega á Viðskiptaþingi í vor þar sem ég var staddur (og fannst reyndar strax að skoðanakönnun meðal atvinnurekenda, sem þar var kynnt, um takmarkaðan áhuga á ESB-aðild yrði úrelt á stundinni). Dómsmálaráðherra er að stinga upp á svipaðri lausn og tveir prófessorar hafa reifað - að semja um aukaaðild Íslands að myntbandalaginu án fullrar ESB-aðildar.
Um er að ræða fræðilegan möguleika sem verður ekki kannaður frekar fræðilega - aðeins eftir formlegum leiðum hjá til þess bærum aðilum í Brussel enda hefur embættisfulltrúi ESB gagnvart Íslandi þegar áréttað að þessi möguleiki sé útilokaður. Allt sem er fræðilega mögulegt er hins vegar pólitískt mögulegt ef réttur aðili er spurður (við réttar aðstæður).
Réttur aðili þarf líka að spyrja. Tvíhöfða Evrópunefnd forsætisráðherra (eða fræðimenn á hennar vegum) getur því ekki kannað þennan möguleika eins og forsætisráðherra virtist ætlast til með ummælum í RÚV síðdegis og í kvöld; tvíhöfða nefndin getur aðeins tekið undir hugmyndina (eða hafnað henni) og lagt til að ríkisstjórnin kanni hana formlega með því að leita samninga um hana.
Með stjórnarskrárbundið vald forseta til þess að gera samninga við önnur ríki fer utanríkisráðherra.
![]() |
Myntsamstarfsleið ekki fær |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)