Vextir, verðtrygging og evra

Því miður sofnaði ég í gærkvöldi út frá ágætri kvikmynd um Kaupmann í Feneyjum með frábæran Al Pacino í því hlutverki. Þar er m.a. vikið að aldalangri andúð kristinna í garð gyðinga sem lánuðu öðrum fé og tóku vexti. Stundum þóttu þeir kannski háir en okur var óheimilt að Guðs lögum (og í sögunni reyndar óvenjulegur greiðslueyrir vaxta við lok lánstíma ef tiltekið skilyrði væri uppfyllt). Ekki veit ég hvort vextir voru alltaf fastir eða gátu verið breytilegir. Hér á landi er hins vegar ekki aðeins byggt á föstum (háum) vöxtum og gjarnan með heimild til að endurákvarða vexti á tilteknu tímamarki eða -fresti. Samkvæmt flestum langtímalánasamningum í íslenskum krónum ber annar aðilinn - lántakinn - alla áhættuna af þeirri óvissu sem felst í því hve há verðbólga mælist með breytingum á vísitölu neysluverðs. Ríkið tekur að sér að mæla þá breytingu. Reyndar skilst mér að í Ísrael, landi gyðinganna, þekkist einhvers konar verðtrygging en ég hef ekki rannsakað það sjálfstætt en hitt mun víst að útbreiðsla svonefndrar verðtryggingar í neytendalánum hér á landi er einsdæmi.

 

Í bókinni "Hvað með evruna?" - sem ég er að lesa (og gefa) er m.a. vikið að þeirri kenningu að ekki sé hægt að ná nema 2ur af 3ur eftirfarandi markmiðum á sama tíma:

  • frjáls för fjármagns,
  • sjálfstæð peningastefna og
  • stöðugt gengi.

 

Eins og ég bjóst við eftir að svonefnd einhliða upptaka evru var útilokuð á Viðskiptaþingi í vor eru nú álíka margir landsmanna (60%) fylgjandi upptöku evru og eru hlynntir fullri aðild Íslands að ESB og þar með evru sem er afleiðing af slíkri aðild; flestir telja aðild líka skilyrði evruupptöku þó að umsamin aukaaðild sé ekki útilokuð fyrr en hún er reynd. Þannig fjölgar þeim í hópi almennings - neytenda - sem vilja fórna sjálfstæðri peningastefnu vegna þess að þeir telja mikilvægara fyrir hag sinn að hafa stöðugt gengi - og þá líklega að jafnaði stöðugra (og lægra) verðlag; í kjölfarið mynd væntanlega fylgja afnám svonefndrar verðtryggingar.

 

Ráðandi öfl vilja hins vegar enn fremur halda í sjálfstæðið en stöðugleikann. Kannski þarf ég sem talsmaður neytenda að leita frekari leiða til þess að bera réttmæti hennar eða lögmæti undir yfirþjóðlega aðila.


mbl.is Meirihluti fylgjandi ESB-aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Heiðdal

Þú þarft ekki að hossast til Brussels til að fá stöðugleika í íslensk fjármál.  Nær væri að stunda vitræna lánastefnu og eyða ekki um efni fram.  Þessi svokallaða alþjóðavæðing með ESB í broddi fylkingar hjálpar neytendum voða lítið. 

Björn Heiðdal, 19.7.2008 kl. 18:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband