Bylting fyrir neytendur - verðtrygging yrði úr sögunni með evruaðild

Það er við hæfi að bregðast á sjálfan Bastilludaginn við byltingarkenndri hugmynd helgarinnar frá ekki óreyndari manni í utanríkismálum en dómsmálaráðherra - sem hefur t.d. forræði á framkvæmd á aðild Íslands að Schengen. Dómsmálaráðherra reifaði hugmynd um evru sem gjaldmiðil á Íslandi án aðildar landsins að ESB. Nú kemur byltingin reyndar að ofan en ekki frá borgurunum eins og í frönsku byltingunni - en þó er um að ræða viðbrögð við kröfum sem hagsmunasamtök heildverslunar og smásöluverslunar og þjónustu hafa undanfarið (eins og Samtök iðnaðarins lengi) sett fram um breytingar á efnahagsumhverfi.

 

En hvað með neytendur á Íslandi; hverju myndi upptaka evru breyta fyrir þá?

 

Neytendasamtökin hafa reyndar látið gera úttekt á áhrifum aðildar Íslands að ESB og fjallað um hana í þessum mánuði og fyrr í vor á heimasíðu sinni og fer þar meira fyrir kostum en göllum. Auðvitað er það pólitísk spurning, sem embættismaður eins og ég tek ekki afstöðu til, hvort til greina kemur að bæta við fleiri stoðum þar sem við njótum (og gjöldum, eftir atvikum) áhrifanna af evrópusamstarfi með (auka)aðild án þess að eiga möguleika á að móta stefnuna og jafnvel framkvæmdina, þ.e.a.s. með fulltrúa Íslands við borðið.

 

En fyrir neytendur hér á landi virðist í fljótu bragði mikill kostur fylgja aukaaðild að myntbandalagi ESB þar sem með því væri svonefnd verðtrygging úr sögunni; verðtrygging felur í sér að lántaki ber -auk umsaminna (og stundum breytilegra) vaxta - einn alla áhættuna af verðþróun eins og hún er mæld af Hagstofu Íslands sem breyting á vísitölu neysluverðs. Er þá ekki horft til þess hvort hlutaðeigandi neytendur eða lánveitendur verða í raun fyrir sambærilegum kostnaðaráhrifum og þeim sem Hagstofan mælir. Þá er svonefnd verðtrygging án tillits til þess að hver og einn neytandi getur ekki haft áhrif á verðbólguna eins og ýmisir aðrir leikendur á markaðstorginu.

 

Um leið myndi evruaðild eyða gengisáhættunni sem margir neytendur o.fl. hafa tekist á hendur til þess að komast hjá svonefndri verðtryggingu.

 

Viðbrögð iðnaðarráðherra strax í gær gáfu vonir um að málið yrði rætt í ríkisstjórn en reglulegur ríkisstjórnarfundur ætti að vera á morgun, þriðjudag, ef sumarleyfi standa ekki í vegi. Þá var krafa formanns Samtaka atvinnulífsins í hljóðvarpi RÚV í morgun og málflutningur framkvæmdarstjóra Viðskiptaráðs í sjónvarpi RÚV í kvöld á þá leið að tími aðgerða væri löngu runninn upp. Viðbrögð formanna stjórnarflokkanna í ljósvakamiðlum síðdegis og í kvöld voru dræmari - en að mínu mati er ljóst að reyna þarf á hugmyndina. Eins og dómsmálaráðherra áréttaði strax í gær er hann ekki að viðra möguleikann á einhliða upptöku evru sem var útilokuð endanlega á Viðskiptaþingi í vor þar sem ég var staddur (og fannst reyndar strax að skoðanakönnun meðal atvinnurekenda, sem þar var kynnt, um takmarkaðan áhuga á ESB-aðild yrði úrelt á stundinni). Dómsmálaráðherra er að stinga upp á svipaðri lausn og tveir prófessorar hafa reifað - að semja um aukaaðild Íslands að myntbandalaginu án fullrar ESB-aðildar.

 

Um er að ræða fræðilegan möguleika sem verður ekki kannaður frekar fræðilega - aðeins eftir formlegum leiðum hjá til þess bærum aðilum í Brussel enda hefur embættisfulltrúi ESB gagnvart Íslandi þegar áréttað að þessi möguleiki sé útilokaður. Allt sem er fræðilega mögulegt er hins vegar pólitískt mögulegt ef réttur aðili er spurður (við réttar aðstæður).

 

Réttur aðili þarf líka að spyrja. Tvíhöfða Evrópunefnd forsætisráðherra (eða fræðimenn á hennar vegum) getur því ekki kannað þennan möguleika eins og forsætisráðherra virtist ætlast til með ummælum í RÚV síðdegis og í kvöld; tvíhöfða nefndin getur aðeins tekið undir hugmyndina (eða hafnað henni) og lagt til að ríkisstjórnin kanni hana formlega með því að leita samninga um hana.

 

Með stjórnarskrárbundið vald forseta til þess að gera samninga við önnur ríki fer utanríkisráðherra.


mbl.is Myntsamstarfsleið ekki fær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hefurðu siðferðislega heimild, sem talsmaður neytenda, til að vera svona einhliða, án þess að taka tillit til allra ókostanna við upptöku evru fyrir þjóðarbúið – kemur það ekki líka niður á neytendum til lengdar? Og fljótt varð trúin á tillögu Björns úrelt, nánast áður en blekið var þornað á pappírnum hjá honum – það mælir allt gegn henni, ótal aðilar í ýmsum og óvæntum áttum myndu þurfa að samþykkja hana, til að hún fengi framgang, sem aldrei verður.

Jón Valur Jensson, 15.7.2008 kl. 01:57

2 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Hugsa sér, ef Íslendingar taka upp Evru. Eftir svona 5 til 10 ár, þá verður hægt að fara erlendis án þess að þurfa að pæla í genginu á hverjum tíma fyrir sig. Svona við flest lönd innan Evrópu allavega.

Jón ætlar einungis til 16 af 54 löndum Evrópu. Og svo ætlar hann sér ekkert þar fyrir utan. Restin af umheiminum er ekki til. Þetta er átakanleg umræða og hún átti sér einkennilega EKKI stað þegar krónan var allt of há og skaðaði útflutning frá Íslandi. Nei eigingirnin og spákaupmennsku-hugsunin ríður ekki við einteyming þegar um neytendur er að ræða. Og svo halda þeir að ástandið eins og það er núna í dag (allt of há evra) muni haldast óbreytt um aldur og æfi.

Danir voru að uppgötva að þeir hafa tapað um 100.000 atvinnutækifærum eingöngu vegna þess að evran er allt allt OF há. Og það einungis á síðustu örfáum árum. En það skiptir náttúrlega engu máli ef paprikan er á góðu verði fyrir neytendur sem svo missa vinnuna. Muna: Evra er ekki há vegna þess að hún sé góður gjaldmiðill sem byggir á sterkum hagstærðum evru-landa. Hún er há vegna þess að Bandaríkjadollari hefur verið lágur

Þessi umræða er átakanleg og byggð á vanþekkingu um hagstjórn undir hinum ýmsu forsendum. Verðbólga getur þrifist í bestu vellystingum undir hvaða gjaldmiðli sem er. Ofurverðbólga (hyperinflation) í hagsögu nýrri tíma hefur einmitt átt sér stað undir mörgum stórum myntum.

Verðbólga er núna 17.7% í Lettlandi og eru þeir beintengdir við evru.

Verðbólga í ESB - seinustu tölur Eurostat

Um muninn á hagstjórn á Íslandi og í Lettlandi í verðbólgu

Úr Peningamálum Seðlabanka Íslands :: Peningamál 33. rit. Júlí 2008

Ísland og Lettland: Þjóðhagsleg aðlögun og peningastefna

Athyglisvert er að bera árangurinn af hagstjórn á Íslandi saman við árangur annarra ríkja sem eiga við svipuð vandamál að stríða en búa við annað fyrirkomulag peningamála, t.d. fastgengisstefnu.

Undanfarin ár hafa Ísland og Lettland þurft að glíma við mikla verðbólgu, sem stafar aðallega af mikilli innlendri eftirspurn, og mikinn viðskiptahalla. Mikill útlánavöxtur hefur orsakað eftirspurnardrifna verðbólgu í báðum löndunum og stuðlað að hækkun fasteignaverðs. Munurinn er hins vegar sá að á Íslandi er rekin sjálfstæð peningastefna með fljótandi gengi en í Lettlandi er í gildi fastgengisstefna gagnvart evrunni.

Frá því að Lettland öðlaðist sjálfstæði árið 1991 og til ársins 1998 var mikil verðbólga þar í landi. Hún stafaði fyrst í stað aðallega af nauðsynlegum breytingum þar í landi eftir áralangan áætlanabúskap. Við tók tímabil verðstöðugleika með ársverðbólgu nálægt 2% fram til ársins 2004.

Fastgengisstefna hefur verið við lýði í Lettlandi frá árinu 1994. Þann 1. janúar 2005 var gengi lettneska gjaldmiðilsins fest við gengi evrunnar í stað myntkörfu sem samanstóð af Bandaríkjadal, evrunni, breska pundinu og japanska jeninu. Var það gert til að tryggja stöðugleika og auka erlenda fjárfestingu og útflutning, auk þess að auðvelda upptöku evrunnar síðar meir.

Um svipað leyti hófst hins vegar, eins og á Íslandi, tímabil vaxandi verðbólgu. Frá 2004 hefur verðbólga aðeins einu sinni farið niður fyrir 6% og ársverðbólga í apríl 2008 mældist 17,5%, sem er mesta verðbólga frá því í ágúst árið 1996.

Einkennin voru flest hin sömu og hér á landi. Viðskiptahallinn jókst úr 4,8% af landsframleiðslu árið 2000 í 22,8% af landsframleiðslu árið 2007. Útlán hafa aukist mjög hratt undanfarin ár en þau eru í mun meira mæli veitt í erlendum gjaldmiðlum, einkum evrum, en hér á landi. Árið 2007 voru 86% útlána í Lettlandi í evrum.

Hin ósamrýmanlega þrenning

Kenningin um hina ósamrýmanlegu þrenningu segir að hvert ríki geti aðeins valið tvo af eftirfarandi þremur möguleikum: 1)frjálst flæði fjármagns, 2)sjálfstæða peningastefnu eða 3)fast gengi. Ástæðan er sú að ef ríki ákveður að hefta ekki flæði fjármagns og hafa fast gengi verður peningastefnan bundin af því að halda genginu föstu og er því í raun í höndum seðlabanka þess ríkis sem gjaldmiðillinn er festur við. Hækkun vaxta, t.d. til að stemma stigu við verðbólgu, leiðir til þess að fjármagn flæðir inn í landið og gengi gjaldmiðilsins hækkar, sem samrýmist ekki fastgengisstefnunni.

Ísland og Lettland hafa bæði kosið að hindra ekki flæði fjármagns, en íslensk stjórnvöld kusu að hafa sjálfstæða peningastefnu en lettnesk stjórnvöld að hafa fast gengi. Það er eðlilegt í ljósi þess að stefna Lettlands er að taka upp evruna, helst ekki síðar en árið 2012, en Lettland hefur verið aðili að Evrópusambandinu síðan árið 2004.

Þess má geta að til að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru fyrir aðild að Myntbandalagi Evrópu (EMU) verður viðkomandi ríki að ganga í ERM II, sem felur í sér að gengi gjaldmiðilsins megi ekki sveiflast meira en sem nemur ±15% gagnvart evrunni í tvö ár fyrir inngöngu í myntbandalagið. Sum ríki hafa þó kosið að hafa vikmörkin þrengri.

Baráttan við verðbólguna er því háð með ólíkum vopnum á Íslandi og í Lettlandi. Verkefni peningastefnunnar er engu að síður það sama í löndunum tveimur, þ.e.a.s. að veita verðbólguvæntingum trúverðuga kjölfestu.

Í Lettlandi er það gert með því að leitast við að tryggja fast gengi innlends gjaldmiðils gagnvart evru, sem leiðir til aðlögunar fyrir tilstuðlan versnandi samkeppnisstöðu vegna hækkandi raungengis sem hægir á hagvexti til lengdar. Á Íslandi er leitast við að veita verðbólguvæntingum kjölfestu með yfirlýstu verðbólgumarkmiði og kerfisbundinni og gagnsærri framkvæmd peningastefnu.

Aðgerðir stjórnvalda í Lettlandi

Þótt stjórnvöld í Lettlandi hafi ekki sjálfstæða peningastefnu og geti því ekki beitt henni að marki til þess að hafa áhrif á þróun efnahagsmála geta þau beitt almennri efnahagsstefnu til þess að hafa áhrif á eftirspurn.

Í apríl 2007 hrundu stjórnvöld af stað herferð gegn verðbólgu sem miðaði að því að draga úr þenslu hagkerfi sins. Herferðin fól í sér loforð stjórnvalda um að koma jafnvægi á ríkisfjármálin þannig að jöfnuður yrði á ríkissjóði árið 2008 og tekjuafgangur árin 2009 og 2010. Einnig lofuðu stjórnvöld að lækka ekki skatta á næstunni og gera skattalögin óhagstæðari spákaupmönnum.

Mikilvægur þáttur þessarar herferðar eru þó reglugerðarbreytingar stjórnvalda á lánamarkaðnum. Stjórnvöld settu strangari reglur um útlán banka til einstaklinga og reyndu þar með að draga úr vexti útlána. Ennfremur vinna stjórnvöld nú að endurbótum á vinnu- og orkumarkaðnum og reyna hvað þau geta að stuðla að aukinni samkeppni og að útrýma einokun. Stjórnvöld hafa ennfremur heitið að takmarka launahækkanir í opinbera geiranum.

Eitt af fáum tækjum sem Seðlabanki Lettlands hefur til að hafa áhrif á útlánaþenslu er breyting bindiskylduhlutfalls. Á árunum 2005-2007, þegar útlánaþenslan var sem mest, hafði bindiskylduhlutfallið hins vegar takmörkuð áhrif til hækkunar útlánsvaxta bankanna eða til að hægja á vexti útlána þar sem þeir fóru að einhverju leyti framhjá reglunum, t.d. með langtíma fjármögnun í erlendum gjaldmiðlum.

Bankinn hækkaði hlutfallið úr 6% upp í 8% í lok ársins 2005, en tók að lækka það aftur í byrjun þessa árs í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar, en bindiskylduhlutfallið stendur nú í 6%. Bankinn taldi að næg hjöðnun hefði orðið á útlánamarkaði til að réttlæta þessa lækkun, en þess má geta að bindiskylduhlutfall bankans verður að vera jafnt bindiskylduhlutfalli evrópska seðlabankans, þ.e. 2%, áður en Lettland tekur upp evruna.

Ljóst er að nokkuð hefur hægt á efnahagsumsvifum í Lettlandi á síðustu mánuðum, en hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi 2008 var neikvæður um 1,9%. Vandinn við val á gengisfyrirkomulagi fyrir lítil, ört vaxandi opin hagkerfi með frjálst flæði fjármagns Lettneska hagkerfið hefur vaxið með gífurlegum hraða undanfarin ár, verg landsframleiðsla á föstu verðlagi jókst um rúmlega 10% árið 2007 og rúmlega 12% árið 2006.

Fyrir því má færa rök að fastgengisstefna henti illa landi í svo hraðri þróun. Hún felur í sér, þegar gengið er bundið við gjaldmiðla þróaðra ríkja með minni hagvöxt, að nafnvextir verða lágir miðað við vöxt landsframleiðslunnar. Hækkun hlutfallslegs verðlags eða raungengis, sem er óhjákvæmileg þegar lönd efnast (svokölluð Balassa-Samuelsson-áhrif), kemur þá fram í hækkun verðlags í stað gengishækkunar.

Stýrivextir Seðlabanka Lettlands hafa verið 6% frá því í maí 2007, en voru í kringum 3-5% frá árinu 1997. Í því felst að raunvextir í Lettlandi hafa verið neikvæðir síðan árið 2004, þegar verðbólga þar í landi komst aftur á skrið. Neikvæðir raunvextir hafa ýtt undir gífurlegan vöxt útlána, sem kynti undir innlendri eftirspurn, verðbólgu og viðskiptahalla.

Hækkun raungengis mun hins vegar að lokum hægja á vexti og lægja öldur verðbólgunnar er fram líða stundir að því gefnu að fastgengið bresti ekki. Um það er hægt að efast í ljósi viðskiptahallans, en á móti kemur að bakhjarl fastgengisstefnunnar er öflugri í Lettlandi en hann var á fastgengistímanum á Íslandi, því að fast gengi lettneska latsins er hluti af tvíhliða samkomulagi við evrópska seðlabankann.

Einnig er gjaldeyris forði Lettlands nokkuð mikill, eða jafn stór og peningamagn í umferð. Algengt er í löndum með myntráð, eins og í nágrannaríkjunum Eistlandi og Litháen, að seðlabankinn sé skyldugur til að viðhalda svo miklum gjaldeyrisforða. Mikill gjaldeyrisforði gerir Seðlabanka Lettlands mun auðveldara fyrir að halda gengi latsins föstu og byggir upp traust á gjaldmiðlinum því að auðveldara er að forðast áhlaup spákaupmanna.

Hinn kosturinn í stjórn peningamála er sjálfstætt fljótandi gjaldmiðill með verðbólgumarkmiði. Smáríki sem velja slíka umgjörð standa þó frammi fyrir þeim vanda að gengissveiflur eru líklegar til að hafa mun meiri áhrif á innlent verðlag en í stærri ríkjum.

Baráttan við verðbólguna á Íslandi

Peningamálastjórn á Íslandi byggðist áratugum saman á ýmiss konar fastgengisstefnum sem fylgt var eftir með mistrúverðugum hætti. Fastgengisstefnan var komin í þrot árið 2001 og því var gengi krónunnar sett á flot og verðbólgumarkmiðið tekið upp.

Á undanförnum árum hefur Seðlabanki Íslands beitt ströngu peningalegu aðhaldi til að reyna að stemma stigu við verðbólgunni. Það hefur þó ekki gengið sem skyldi, eins og ítarlega hefur verið fjallað um á þessum vettvangi.

Vandinn er því hinn sami og í Lettlandi þótt aðferðirnar við að ráða bót á honum séu ólíkar. Í báðum löndum er líklegt að erfitt tímabil aðlögunar sé framundan og verður fróðlegt að bera saman hvernig löndunum reiðir af, þótt að ýmsu leyti sé ólíku saman að jafna.

Peningamál 33. rit. Júlí 2008

Bestu kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 15.7.2008 kl. 03:06

3 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Danmörk er búin að vera í ESB síðan 1973. Sem þýðir að þeir eru búnir að njóta ávaxta ESB í allan þennan tíma og bullið í þér verður bara innihaldslaust þvaður þegar nánar er skoðað.

Þetta er alveg rétt hjá þér Jón. Ávextirnir hafa meðal annars verið þeir að Danir hafa fallið frá því að vera ein af ríkustu þjóðum heims og niður í 11. sæti á lista OECD. Það eru fyrst of fremst fátækar þjóðir, sem til dæmis hafa verið að jafna sig eftur kommúnisma í austri, sem hafa verið að auka velmegun sína innan banda ESB. En það hefðu þau öll gert hvort sem þau hefðu verið innan eða utan ESB. En svo munu þau stoppa, alveg eins og eldri löndin hafa gert.

Fjarlægð hina ríku og eldri landa ESB til efnahags Bandaríkjanna hefur hinsvegar verið að aukast mörg síðustu ár. Gapið á milli efnahags Danmerkur og Bandaríkjanna hefur aukist frá 16% til 20% á síðustu 8 árum. Og á meðan þá hefur Ísland tekið framúr Danmörku og aukið vil velsæld og efnahag sinn langt framúr Danmörku.

Finnland leið undir nokkurskonar samgjaldþroti með Sovét. Efnahagur Finnlands lifði og andaði með náð Sovét. Þegar Sovét fór á hausinn þá varð Finnland einnig mjög illa úti. Örlögin voru Finnum ekki hagstæð, að þurfa að lifa og búa í skugganum frá Sovét. Þess vegna flýtti Finnland sér burt, og þeir hefði gengið í hvað sem væri, bara til að komast undan áhrifamætti Rússlands. Finnar eru mjög dugleg þjóð og hefði í það minnsta spjarað sig eins vel utan ESB sem innan því Finnar eiga einnig mikil viðskipti við umheiminn utan ESB.

ESB er fyrst og fremst orðið óskabarn sósíal-demo-krata og skriffinna, og hingað til hafa öll verkefni sósíal-demo-krata og skriffinna mistekist og orðið hálf gjaldþrota.

Ávextirnir fyrir Ísland með inngöngu í ESB væru neikvæðir alveg frá byrjun því Ísland er einfaldlega of ríkt til að geta fengið nokkuð út úr ESB, nema ef væri aukið atvinnuleysi, tap á lífsgæðum og afsal á hluta af sjálfstæði og frelsi sínu. Margt myndi versna á Íslandi við það að ganga í ESB - og ekki öfugt.

Allar þær ástæður fyrir verðbólgu sem þú telur upp eru einmitt til staðar fyrir allar þjóðir heimsins. Verðbólga er hinsvegar ennþá lægri í Bandaríkjunum en í ESB þrátt fyrir hrottalegar hækkanir þar á olíuverði því olíuverð er jú í dollurum. Þrátt fyrir þetta þá er verðbólga í ESB núna 100% yfir verðbólgumarkmiðum evrópska seðlabankans.

En já ég veit að ekkert af þessu samrýmist ykkar draumasýn um nýja undrabarnið í austri. Fyrir okkur sem búum í ESB og undir ESB þá hafa ávextirnir oft á tíðum verið mjög súrir. Það er þessvegna sem það er enginn áhugi fyrir óskabarni embættismannanna hjá sjálfu fólkinu. Ef hugsa að áhugasömustu menn um ESB í Evrópu séu einmitt á Íslandi núna

Bestu kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 15.7.2008 kl. 05:39

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

að sem þú telur upp hérna eru ástæður fyrirtækjamanna sem vilja ekkert nema græða og þeim er sama og þjóðfélögin sem þeir misnota og aðræna í kjölfarið. ESB er þekkt fyrir að koma í veg fyrir slíkt með því að henda heilum vegg í vegin fyrir slík fyrirtæki og sjónarmið. Fyrirtækjaismi er vel tengdur mjög hægri sinnuðum viðhorfum sem ganga útá það að græða sem mest og gefa skít í afleiðinganar. Oftar en ekki verða afleiðinganar hörmulegar fyrir fólk og náttúruna.


Þetta eitt Jón nægir þér sem félagsskírteini inn í ESB sem æfilangur heiðursmeðlimur. Gerðu svo vel. Alveg gratís.

Gott þá Jón að fyrirtæki skuli geta flutt út úr ESB. En það verður verra með þegnana. Þeir geta því miður ekki flutt með. En skítt með það. Þeir fá bara allir vinnu hjá ESB við að framleiða fleiri reglugerðir. Nema náttúrlega að menn vilji ráðast í að byggja nýjan múr. Stóran og traustan múr í þetta skiptið. Miklu stærri en sá gamli var. Ný atvinnuskapandi stórframkvæmd á vegum ESB.

Gunnar Rögnvaldsson, 15.7.2008 kl. 16:57

5 Smámynd: Gísli Tryggvason

Eina beina spurningin til mín er sú fyrsta frá Jóni Vali áður en ítarleg skoðanaskipti Jóns Frímanns og Gunnars hófust. Svar mitt er að í þeirri fræðilegu úttekt á vegum frjálsra félagasamtaka, sem ég vísa í í færslunni, er fjallað um marga kosti. Eins og tilvísuð umfjöllun Neytendasamtakanna um úttektina sýnir felur upptaka evru í sér margvíslegan hag fyrir neytendur. Stærsti kosturinn, sem ég sé og nefndi í færslunni, er að væntanlega yrði þá engin svonefnd verðtrygging (og heldur ekki gengisáhætta lána í evrum). Ókostir sem kunna að fylgja evru, sem Jón Valur tilgreinir að vísu ekki, eru ekki beinlínis neytendamál. Færsla mín er því ekki einhliða að mínu mati.

Gísli Tryggvason, 16.7.2008 kl. 00:27

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég þakka þér svarið, Gísli. Einu verður þú að gera þér grein fyrir: Það verður engin "upptaka evru" hér á landi án fullrar ESB-aðildar/innlimunar. Því verður þú í þínum útreikningum að gera ráð fyrir öllu því, sem þetta felur í sér og leiðir til, og reyna að reikna út áhrif þess á hag íslenzkra neytenda, sem eru auðvitað bara = íslenzkir ríkisborgarar, íslenzkir skattborgarar. Þú getur því ekki aðskilið "neytendaeðli" þessa sama fólks frá "skattborgaraeðli" þess o.s.frv. Þú verður t.d. að gera ráð fyrir því, að hér myndu skattar hækka verulega – sú er stefnan í ESB gagnvart (hugsanlegum aðildar)ríkjum með þetta lága skatta sem við erum með. Í 2. lagi þarftu að gera ráð fyrir um 15 milljarða króna skatti Íslands til Brussel á ári hverju (og þar sérðu hliðstæðuna við það þegar Ísland varð skattland Noregs 1262, sem reyndist okkur oft allþungt í skauti). "Aðild" og "þátttaka" af þessu tagi er ekki ókeypis! Mörgum beiningarmanninum/samtökunum/o.s.frv. verður að vísu gefið undir fótinn með að geta betlað fé út úr sjóðum ESB, en það nýtist ekki allri alþýðu. Og talsmaður neytenda ætti fyrst og fremst að vera talsmaður alþýðu, sem er sá hópur sem finnur hvað mest á eigin skinni, ef verðlag og skattlagning hækkar, af því að þar er af svo litlu að taka í tekjum þess hóps miðað við þá ríkari.

Margar aðrar afleiðingar verða af ESB-innlimun. Fullveldi okkar í gengis- og stýrivaxtamálum verður af okkur tekið endanlega með inngöngu í evru-myntsvæðið, og það getur komið mjög illa við atvinnuvegina, eins og Gunnar getur kennt þér. Ákvarðanir Seðlabanka Evrópu um evruna og stýrivexti taka bara mið af heildinni, ekki hinum mismunandi svæðum þar, sem búa þó oft við mjög ólíkar aðstæður og sveiflur í árferði, fiskistofnum, markaðsaðstæðum algengustu vöruframleiðslutegunda o.s.frv. Nú þegar eru ýmsar þjóðir á evrusvæðinu í vandræðum, vegna þess að þær geta ekki látið gengi eigin gjaldmiðils sveiflast eftir aðstæðum, af því að þær eiga engan "eigin gjaldmiðil" lengur, og hér væri gott hjá þér að leita aftur til Gunnars um upplýsingar.

Innrás ESB inn í fiskveiðimál okkar, kvótastýringu (sem yrði yfirtekin af Brussel) og jafnvel landhelgi (eins og gert var við Bretland, Möltu og Slóveníu) og aðstöðu í landi, allt þetta myndi gerbreytast og vitaskuld yrði það okkur í óhag, að mikið af þessum málum skryppu undar okkar eigin fullveldisstjórn og yrðu undirorpin ákvörðunum ESB og meginreglurnar endurskoðaðar (eins og nú er gert) reglulega á 10 ára fresti, með fullu yfirvaldi Brussel yfir landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnu bandalagsins, og þar hefðum við ekkert neitunarvald, um leið og við hefðum fengið ESB þetta fjöregg okkar í hendur: fullveldisyfirráðin.

ESB stefnir nú þegar að svo mikilli stýringu á löggjöf aðildarlandanna, að t.d. eru 80% af allri löggjöf Þýzkalands komin beint frá Brussel (við höfum hins vegar fengið aðeins um 6,5 til 8% af löggjöf okkar á seinni árum frá ESB gegnum EES-kerfið). Einstök ríki Bandaríkjanna hafa sín eigin löggjafarþing, og þau hafa faktískt virkara löggjafarvald – sem sé meira sjálfræði í þeim efnum – heldur en aðildarríki ESB. Og það er ekki eina ástæða þess, að það væri okkur hagstæðara að gerast 51. ríki Bandaríkjanna heldur en 28. ríki ESB, því að meðal annars er vöruverð í Bandaríkjunum mjög hagstætt, margfalt lægra á t.d. grænmeti en hér og um eða nær þrefalt lægra á benzíni og verðbólga og atvinnuleysi þar minna en í ESB. Samt er ég alls ekki að mæla með því, að við verðum eitt ríki Bandaríkjanna. Sú hugsun stappar nærri landráðum í huga sennilega meirihluta Íslendinga (ég meðtalinn), en það sama ætti að eiga við um hið skammsýna, vitavitlausa, óþjóðlega streð margra við að koma okkur undir klafa ESB.

Jón Valur Jensson, 16.7.2008 kl. 01:46

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

"ESB er gríðarstór markaður og ekkert fyrirtæki með viti hunsar hann," sagði Jón Frímann hér kl. 17:54. Með því taldi hann sig vera að svara því hjá Gunnari, að fyrirtæki geta flutt út úr ESB vegna aðstæðna sem orðnar séu illa við búandi. En svarið tekur ekki á veruleikanum. Það bannar enginn fyrirtækjunum að vera með skrifstofur og heimili í ESB og selja þar vörur sínar, en þau er samt farin að flytja framleiðsluverksmiðjur sínar til annarra landa, þar sem er ódýrara vinnuafl og aðföng mörg ódýarari. Rétt eins og sum stórfyrirtæki flýðu hina skattpíndu Svíþjóð, gerist þetta í ESB, og það stuðlar að lakara atvinnuástandi og minni tekjum samfélagsins.

Svo má aldrei gleyma einum helzta Akkilesarhælnum á þessu tröllabandalagi, og þar er ég að tala um það, hve innilega ófrjósamt það er, hættulega ófrjósamt væri réttara orð. Að ýmis þjóðlönd ESB skuli vera með náttúrlega tímgun mannskaparins upp á einungis 1,25 til 1,35 börn á hver hjón eða hverja konu á barneignaaldri og sum litlu meira, það stefnir nánast að eyðingu þjóðanna á næstu 50–150 árum. Sjá HÉR og í tilvísuðum greinum þar! – Eigum við svo að fara að taka þátt í því að axla þær sameiginlegu byrðar, sem af þessu munu hljótast á næstu 20–60 árum (og áfram) vegna stóraukins skattþunga á (æ færra) vinnandi fólk, sem stritar fyrir langtum hærra hlutfalli lífeyrisþega, elliheimilis- og sjúkrahúsfólks en fyrri þjóðfélög hafa þurft að gera? Nei takk, ESB-sinnar!

Með góðri kveðju, 

Jón Valur Jensson, 16.7.2008 kl. 02:08

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Nafni minn sparar sér rökstuðning með því að kjósa stóryrði í staðinn. Málefnastöðu minnar vegna hef ég nákvæmlega ekkert við það að athuga!

En kannski ég geri í leiðinni athugasemd við þessi kjánalegu orð hans í gær kl. 16.41:

"ESB er fyrst og fremst samband sem hefur það að markmiði að auka samvinnu milli Evrópuþjóða og koma í veg fyrir stríð á milli þeirra. Ég minni á þá staðreynd að ESB kemur til vegna hörmunga fyrra og seinna stríðs í Evrópu"

Það var engin þörf á ESB til að "koma í veg fyrir stríð," NATO sá um það, en Efnahagsbandalag Evrópu (síðar ESB, en áður Kol- og stálsambandið) sem slíkt var ekki varnarbandalag (að því marki sem Kol- og stálsambandið var friðar- og samvinnubandalag stórfyrirtækjanna í ríkjunum fáeinu, þá fór friðarþátturinn á könnu NATO, en efnahags- og samrunaþátturinn fór á könnu Efnahagsbandalagsins; þannig tvískiptist þetta). Samvinnu, jú, en Jón Frímann talar um, að þetta séu þau tvö atriði, sem tilgangur ESB snúist NÚ um. Hann virðist ekki fylgjast með þróuninni til alríkis og ofurríkis (m.a. með eigin forseta, fána, stjórnarskrá – og síðar alríkislögreglu og her), sbr. það sem ég sagði hér ofar um meira frelsi eða svigrúm ríkjanna í USA til eigin löggjafar heldur en ríkjanna í ESB. Tök miðstjórnarvaldsins í Brussel stefnir miklu meira að því að yfirtaka löggjöfina fyrir einstök ríki ESB heldur en Washingtonvaldið í USA gagnvart ríkjunum þar. "ESB-sinnar" stefna að því að fórna fullveldi okkar fyrir baunadisk af borðum Brusselmanna.

Jón Valur Jensson, 16.7.2008 kl. 11:01

9 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Málefnastöðu minnar vegna hef ég nákvæmlega ekkert við það að athuga!


Brilliant :) - einmitt. Fliss

Gunnar Rögnvaldsson, 16.7.2008 kl. 11:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.