Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Rennur blóðið til skyldunnar

Ég byrjaði vikuna á góðverki - sem ég mæli með því að aðrir fullorðnir og fullfrískir temji sér eins og ég hef gert síðan fljótlega eftir að mér varð ljóst að ég mátti það, þó ekki vikulega. Reyndar ætlaði ég að blogga um þetta samdægurs til að auglýsa málstaðinn (en ekki mig) en gat auðvitað ekki af alkunnum ástæðum.

 

E.t.v. er það af sömu ástæðu sem ég get ekki lengur sett inn hlekki en þeir sem hafa ekki ráðið gátuna geta þá fengið svarið hér:

http://svali.landspitali.is/lsh_ytri.nsf/htmlpages/blodbankinn.html

 

Setjið þetta inn í dagatalið - karlar á 3ja mánaða fresti og konur á 4ra!


Æ, æ - slæmt fyrir neytendur

Var að heyra á RÚV að Doha-viðræðum hefði verið slitið rétt í þessu. Enn verða neytendur því að bíða lægra vöruverðs - nema innlend stjórnvöld bæti úr!


Góðar fréttir frá Genfarvatni

Eins og ég vonaðist til í byrjun síðustu viku stefnir nú loksins í árangur sem sé ásættanlegur fyrir neytendur á Íslandi þannig að dregið verði úr tollavernd á landbúnaðarvörum - neytendum til hagsbóta vegna lægra vöruverðs eins og fréttin sýnir og hér er vikið að frá sjónarhóli bænda, þ.e.

 

að tollar verði lækkaðir af innfluttum vörum og innflutningur auðveldaður, [...].

 

Ég hef nú reyndar borðað kjúkling þrjá daga í röð en með væntanlegu samkomulagi yfir 150 ríkja í svonefndum Dohaviðræðum tekst vonandi að lækka verð á kjúklingi og öðrum landbúnaðarvörum.

 

Þá er þess að vænta að fulltrúar neytenda verði hafðir með í ráðum eins og aðrir hagsmunaaðilar við skilgreiningu undanþága eins og hér segir frá og hér er rakið:

 

Vegna þess hversu tollalækkunin kann að hafa mikil áhrif á Íslandi fá Íslendingar ásamt hinum tveimur EFTA-þjóðunum, Norðmönnum og Svisslendingum, sérstaka undanþágu á Genfarfundinum sem heimilar þeim að undanskilja allt að 6% vöruflokka frá fyrirhuguðum tollalækkunum á innfluttum landbúnaðarvörum.


mbl.is Líklegra en ekki að menn nái saman um nýjar Doha-tillögur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreimurinn

Ég sat á kaffihúsi um daginn í sólinni og komst ekki hjá því að heyra þetta:

 

Mér fannst ég kannast við hreiminn en áttaði mig ekki strax á honum,

 

sagði þjónninn vinalega við manninn á næsta borði - sem var að norðan (eins og ég); ég blandaði mér þó ekki í málið til að benda á að "hreimur" er eitthvað sem útlendingar hafa. Þeir fáu Akureyringar sem enn tala kjarnyrta íslensku (eins og margir úr dreifðari byggðum, t.d. fyrir norðan) hafa ekki hreim - en stundum fannst mér reyndar að maður væri hálfgerður útlendingur hér fyrir sunnan; sama var reyndar sagt um tilfinningu "aðkomumanna" á Akureyri - og sjálfur vann ég vissulega um árabil á Degi þar sem lögreglufréttir enduðu víst oft á svona setningu:

 

Maðurinn var aðkomumaður.

 

Með aukinni alþjóðavæðingu er þetta væntanlega allt úr sögunni - eins og "hreimurinn" stefnir í.

 

Best fannst mér hins vegar að landsbyggðarmaðurinn sagði, greinilega aðspurður, í símann (sem ég heyrði líka, óumbeðið) að hann væri "ekki í bænum," nei; hann var í borginni! Það eru nefnilega tugir bæja (þéttbýlisstaða) á landinu en ein borg - sem margir borgarbúa kalla "bæinn." Þetta segi ég nú bara af því að það var ekki búið að finna upp bloggið þegar ég var að pirra mig á þessu þegar ég flutti til borgarinnar fyrir um 17 árum.


Freudian slip

Athyglisverð missögn í fyrirsögn mbl.is - að hjálpa eigi fasteigna-bönum; ég hef nú reyndar lengi ætlað að blogga um þessar ráðstafanir sem eiga að hjálpa skuldugum neytendum vestanhafs, ekki síður en hálfopinberum fasteignabönkum (eins og lesa má í meginmáli fréttarinnar og víðar).

 

Kannski er þetta svonefnt freudian slip en hér á landi virðist helst deilt um hvor hafi átt (meiri) sök á þenslunni og miklum verðhækkunum fasteigna 2004, einkareknir (fasteigna)bankar eða hinn opinberi, Íbúðarlánasjóður. Fáir virðast velkjast í vafa um hvort þeir hafi átt sökina; nú myndu sumir e.t.v. kalla þá fasteignabana.


mbl.is Bandarískum fasteignabönkum hjálpað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Indian summer

... eða akureyrskt.
mbl.is Heitasti dagur ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Akureyrskt sumar og (ó)skeikul vísindi

Til er hugtakið indian summer. Þegar ég gekk um Borgartúnið með vinnufélaga síðdegis í dag vorum við a.m.k. sammála um eitt, að svo heitt hefði aldrei áður verið (og þó að mestu sólarlaust) en ég held að bæði mat og mælir staðfesti að ég hafi aldrei fyrr í minni u.þ.b. 17 ára búsetu á stór-Kópavogssvæðinu upplifað slíkan hita heima - síðan ég flutti að heiman frá Danmörku (en slíkt var auðvitað alvanalegt á Akureyri í gamla daga).

 

Mamma sagði svo, réttilega, í símann í kvöld að svo miklum hita hefði ekki verið spáð. Og þó teljast veðurfræðingar raunvísindamenn - en jarðvísindamönnum hefur reyndar tekist að spá fyrir um jarðskjálfta með innan við hálftíma fyrirvara.

 

Svo er fólk að finna að því þegar lögfræðingar - sem eru af meiði félags- eða hugvísinda - eru ekki allir sammála, alltaf!

 

En á hagfræðinga virðast margir trúa eins og.. ég veit ekki hvað.


"Doktora" í sjónvarpið - í kóngsins nafni!

Margir sem búið hafa í Danmörku eða fylgst með þar undanfarin ár þekkja hinn skorinorða neytendaþátt Kontant. Slíkir þættir finnast víðar - nema á Íslandi. Hvarvetna þar sem ég kem ræðir fólk um neytendamál og eru flestir á því að aukin neytendavitund sé æskileg en margir taka þó undir með mér - aðspurðir - að hún hafi þó heldur aukist á undanförnum misserum, eins og ég tel.

 

Vitund og umræða er þó ekki nóg að mínu mati; aðgerða er þörf.

 

Eitt af því sem ég nefni oft og heyri stundum - jafnvel frá fólki sem er sjálft tilbúið að bæta úr - er að það vanti neytendaþátt. Nei, ekki í prentmiðlana; þeir eru að standa sig ágætlega og fjalla ríkulega um neytendamál eftir því sem kostur er í dagblaði, t.d. 24 stundir frá upphafi og nú síðast Dr. Gunni í Fréttablaðinu. Og; nei ég er ekki bara að meina í útvarpið - slíkur þáttur er þegar til: dr. RÚV á þriðjudögum kl. 15:30 á rás 1 á RÚV.

 

En doktor Gunni og Dr. Rúv er ekki nægileg "mótvægisaðgerð;" markaðsöflin eru miklu sterkari. Ég - og allir þessir neytendur, sem eru tilbúnir til þess að leggja sitt af mörkum - er að tala um reglulegan sjónvarpsþátt - ekki bara ágæt innslög í fréttaþáttum. Ég er að meina þátt í víðséðu sjónvarpi á besta tíma - þegar neytendur landsins, fjölskyldufeður og -mæður, eru að koma börnunum í rúmið eða sitja að loknum vinnudegi í sófanum og slaka á. Það nennir enginn að lesa þessa annars ágætu bæklinga eða fínu heimasíðu frá stofnunum og samtökum - sem eru þó að standa sig vel í að afla upplýsinga um ýmis málefni og kynna þær í hefðbundnum fjölmiðlum.

 

Þetta kostar pening. Þekkingin liggur fyrir. Viljinn er ljós. Krafan er skýr. Áhuginn er örugglega fyrir hendi. RÚV - almannasjónvarpið okkar allra - þarf að svara kröfunni.

 

Sem  talsmaður neytenda hef ég ítrekað lagt þetta til við til þess bæra aðila - í kóngsins embættis nafni, sbr. t.d. eftirfarandi tilvitnun í umsögn mína frá 17. febrúar 2006 til menntamálanefndar Alþingis um frumvarp til laga um RÚV ohf.:

 

"Meginhugmyndin er að framleiddur verði fjöldi stuttra myndskreyttra sjónvarpskynninga sem höfðað geti til bæði barna, ungs fólks og fullorðinna um hin aðskiljanlegustu efni. Þannig verði almannafé nýtt betur án þess að mikill kostnaðarauki ætti af þessu að leiða. Þó þarf væntanlega að gera ráð fyrir einhverjum aukakostnaði við hugmyndavinnu, samhæfingu, stjórnun og framleiðslu – bæði hjá Ríkisútvarpinu og ríkisstofnunum og öðrum sem njóta opinbers stuðnings til almannaþjónustu. Tel ég að um gæti verið að ræða hentugt efni til uppfyllingar og fjölbreytni í dagskrá – auk sjálfsagðs fræðslu- og uppeldisgildis. Sjónvarp er miðill sem mikið er nýttur af markaðsaðilum og tel ég nauðsynlegt að með almannafé sé stutt við virka fræðslu fyrir neytendur, notendur, skattborgara, skjólstæðinga stofnana ríkisins og allan almenning í landinu – í almannaþágu. Um nánari reifun er vísað til hjálagðra bréfa undirritaðs til útvarpsstjóra, dags. 1. september sl. og 1. nóvember sl., en í kjölfar þeirra fundaði ég með útvarpsstjóra um hugmyndina. Eins og fram kemur í fyrra bréfinu er hugmyndin að danskri fyrirmynd og er þar við áratuga góða reynslu að styðjast. Hafa margir fulltrúar ríkisstofnana o.fl. aðilar sem embætti talsmanns neytenda hafði samráð við á liðnu hausti tekið hugmyndinni vel eins og fram kemur í síðarnefnda bréfinu.

 

Tel ég að í þessari tillögu felist einn meginkjarni og grundvallar tilgangur með útvarpsþjónustu í almannaþágu sem er til þess fallin að bæta hag neytenda og alls almennings í landinu, nýta betur almannafé og auka hróður ríkisstofnana og annarra sem sinna almannaþjónustu."

 


Oft var þörf en nú er nauðsyn

Gott hjá Neytendastofu. Nú geta neytendur loksins nýtt daglegan "kosningarétt" sinn betur - því eins og ég hef ítrekað bent á er verðlagseftirlit neytenda sjálfra háð því að skýr lagaskylda til verðmerkinga sé virt - og eftirlit virkt. Neytendastofa birtir þessa dagana daglegar fréttir af ástandi verðmerkinga á ýmsum sviðum en stofnunin hefur haft lögbundið eftirlit með verðmerkingum frá því að hún var sett á fót fyrir þremur árum þegar verðmerkingareftirlit var flutt frá Samkeppnisstofnun og Samkeppniseftirlitið sett á fót. Neytendastofa birtir samhliða jafnvel einnig verðkannanir - sem frjáls félagasamtök á borð við ASÍ, Neytendasamtökin og FÍB hafa hingað til sinnt af kappi.

 

Þessar fréttir af virku eftirliti með verðmerkingum vekja vonir um að ástandið batni vegna þess að nú eru auknar líkur á eftirliti, áminningum, viðurlögum og gjarnan nafnbirtingum fyrirtækja sem ekki standa sig og fara eftir settum reglum.

 

Svo eru reyndar aðrar merkingar, svo sem um innihald, en með eftirlit með þeim fara einkum heilbrigðisnefndir á vegum sveitarfélaga.


mbl.is Gera athugasemdir við verðmerkingar í bakaríum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

19. aldar hvað!

Ég er því miður ekki vel að mér um byggingarlist en ekki áhugalaus um skipulagsmál og mjög fíkinn í ýmis konar tengingar við ártöl og dagsetningar eins og lesendur hafa e.t.v. orðið varir við. Það rifjaðist upp fyrir mér um daginn þegar ég heyrði enn eina fréttina um brýna þörf á að varðveita 19. aldar götumynd í borginni að tvö hús við Laugaveginn virðast hafa átt þátt í því að að aftur urðu meirihlutaskipti í úthverfi okkar Kópavogsbúa - og auðvitað ekkert athugavert við það.

 

Það sem mér fannst dálítið skrýtið við þessa sífelldu klifun á mikilvægi þess að varðveita 19. aldar götumyndina við þessa gömlu verslunargötu var ekki bara að um var að ræða tvö hús (sumir myndu segja kofa) - sem eiga, sem sagt, að vera götumynd. Sem landsbyggðarmaður var ég ekki nógu vel að mér um sögu Reykjavíkur en hafði ekki fyrirfram búist við að komin hefði verið götumynd á þessum tíma - sem auk þess hefði varðveist í yfir 100 ár.

 

Efi minn reyndist svo - a.m.k. að hálfu - á bjargi byggður þegar einni fréttinni í kjölfar meirihlutaskiptanna fylgdi myndskeið sem sýndi að annað mannvirkið var byggt í byrjun 20. aldar, 1912 að mig minnir (ég hef ekki nennt að hjóla og ekki tímt að keyra til þess að sannreyna nákvæmt ártal). Helmingurinn af þessari götumynd er sem sagt ekki frá 19. öld heldur frá 20. öld - sem hófst ekki síðar en 1901!

 

Kannski er þetta rugl með aldir sama eðlis og misskilningur margra - jafnvel fjölmiðlamanna og annarra sem starfa fyrir lýðinn - á því hvenær menn eru á þrítugsaldri o.s.frv. Ég fjalla kannski um það síðar en smá vísbending: þetta er kannski viðkvæmt fyrir suma(r) en svo dæmi sé tekið - þegar ég verð fertugur (40 ára) á næsta ári verð ég kominn á fimmtugsaldur.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.