Þjóðfundurinn 2009 - uppskrift að stjórnlagaþingi

Flestir þekkja söguna um Þjóðfundinn 1851 þar sem Jón Sigurðsson mælti fyrir hönd þjóðarinnar:

 

Vér mótmælum allir!

 

Bloggheimar brenna nú ekki lengur bara af bræði - heldur logar allt í lausnum; undafarna sólarhringa hefur risið hvað hæst þverpólitísk hugmynd um stjórnlagaþing en um það ritaði fyrrverandi formaður stjórnarskrárnefndar, Jón Kristjánsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, grein í Fréttablaðið í gær sem má lesa hér.

 

Af því tilefni vil ég nefna nokkur meginatriði um þetta hugðarefni mitt.

 

  • Stjórnarskráin er 135 ára í þessum mánuði að stofni til.
  • Í 105 ár, frá heimastjórn 1904, hefur stjórnskipulag lítið breyst með nánum tengslum þings og ráðherra/ríkisstjórnar.
  • Frumkvæði að stjórnarskrárbreytingum hefur hingað til aðeins getað komið frá Alþingi og stjórnmálaflokkunum sem þar eiga fulltrúa.
  • Stjórnarskrárbreytingar hafa ávallt fallið í skugga almennra kosninga.
  • Heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar hefur oft staðið til en alltaf mistekist.
  • Vantraust er á stjórnvöldum og stjórnmálaflokkum.
  • Krafa er um beint lýðræði.
  • Óskir eru uppi um róttæka heildarendurskoðun stjórnskipunarinnar.

 

Svona gæti stjórnlagaþing komið til í tólf skrefum ef vilji stæði til þess:

  1. Núverandi Alþingi afgreiðir stjórnarskrárbreytingu um tímabundið stjórnlagaþing sem fái vald til þess að semja nýja stjórnarskrá.
  2. Þing er rofið og kosið að nýju eins og skylt er þegar frumvarp um stjórnarskrárbreytingu er samþykkt.
  3. Stjórnlagaþing kemur saman þegar stjórnarskrárbreyting er samþykkt öðru sinni af nýkjörnu Alþingi.
  4. Ekki verði aðeins um smávægilegar lagfæringar að ræða eins og hingað til.
  5. Þingmenn og ráðherrar eigi ekki sæti á stjórnlagaþingi.
  6. Á stjórnlagaþing verði kjörnir í almennum kosningum fulltrúar þjóðarinnar.
  7. Einnig gætu almannasamtök og hagsmunasamtök fengið áheyrnarfulltrúa, t.d. í starfsnefndum stjórnlagaþings, en aðeins þjóðkjörnir fulltrúar hafi atkvæðisrétt.
  8. Sjálfstæði stjórnlagaþings sé tryggt með því að fulltrúar þar séu launaðir, stjórnlagaþing ákveði sjálft skipulag sitt, fundarsköp og starfshætti.
  9. Stjórnlagaþing geti ráðið sér sérfræðinga til aðstoðar.
  10. Starfstími stjórnlagaþings gæti verið um hálft ár.
  11. Alþingi og ríkisstjórn starfi áfram að sínum hefðbundnu úrlausnarefnum á meðan.
  12. Ný stjórnarskrá verði borin undir þjóðina í bindandi allsherjaratkvæðagreiðslu.

 

Beinna verður lýðræðið ekki en að þjóðin sjálf ákveði grundvöll nýs þjóðskipulags. 

 

Formaður stjórnarskrárnefndar skrifar m.a.:

Hingað til hafa breytingar á stjórnarskránni verið hnýttar við almennar kosningar um umræður um dægurmál í Alþingi. Það er meðal annars vegna þess að rjúfa þarf þing og efna til kosninga eftir að alþingismenn hafa rætt og samþykkt stjórnarskrárbreytingar. Þær hafa hingað til hafa verið undirbúnar af fámennum starfsnefndum og lagðar fyrir Alþingi sem frumvarp til stjórnskipunarlaga. Frumkvæði að breytingum hefur aðeins getað komið frá alþingismönnum þó að stjórnvöld fari með vald í umboði þjóðarinnar.


Glöggt er gests augað - afnám verðtryggingar meginatriði endurreisnar

Afnám verðtryggingar er meðal aðeins þriggja meginatriða, sem einn af þeim, er vöruðu okkur við, telur nauðsynlegt til þess að endurreisa íslenskt efnahagslíf. Undanfarin þrjú ár hef ég - árangurslítið og þrátt fyrir mikið andstreymi frá "kerfinu" - reynt að finna hagfræðinga sem deila efasemdum mínum um réttmæti verðtryggingar og koma þeir nú loks í ljós - að utan - auk örfárra innlendra sem komið hafa fram á síðustu vikum.

Glöggt er gests augað. Carsten Valgreen, sem fyrir tæpum þremur árum varaði Íslendinga við þeim aðstæðum sem stuðluðu að hruni Íslands, segir í grein sinni í Fréttablaðinu á laugardag:

 

Í þriðja lagi verður að afnema verðtrygginguna svo að endanlega sé hægt að uppræta verðbólguna úr hagkerfinu. Þetta gæti falið í sér bann við nýjum verðtryggðum lánum og takmarkaðan aðgang neytenda að erlendum lánum.

Ég hef efast um réttmæti verðtryggingar út frá hagsmunum og réttindum neytenda, þ.e. hvers vegna veikari aðilinn í skuldarsambandi er látinn bera alla áhættuna af óvissri þróun atburða sem felst í verðþróun og þar með breytingu (les: hækkun) á vísitölu neysluverðs þó að sterkari aðilar í efnahagslífinu bæði viti meira og ráði meiru um þróun verðbólgu. Þá virðist Carsten Valgreen í grein sinni taka undir annað sem ég hef vakið máls á, þ.e. að verðtrygging sé ekki aðeins afleiðing - heldur einnig orsök - verðbólgu.

Ef ekki verður gripið til þessara aðgerða óttast ég að lærdómurinn sem draga má af þessari kreppu fari í súginn og ný holdgun hennar líti dagsins ljós eftir tíu til fimmtán ár.

mbl.is Íslensk stjórnvöld harðlega gagnrýnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðbrögð við misbeitingu gagnvart framleiðanda - og þar með hagsmunum neytenda!

Í gærmorgun hringdi í mig ónefndur íslenskur framleiðandi og sagði farir sínar ekki sléttar. Stundum eru orð til alls fyrst. Í þessu tilviki kann að vera réttlætanlegt að fjalla hér um ábendinguna enda getur hún varla leitt til formlegrar athugunar af hálfu talsmanns neytenda auk þess sem mér varð fátt um svör hvað gera ætti í málinu - þ.e. hvað hann ætti að gera enda tek ég fyrst og fremst við erindum frá neytendum en vísa atvinnurekendum yfirleitt annað ef þeir hafa samband.

 

Þetta tilvik er af öllum sólarmerkjum að dæma auk þess langt frá því að vera einsdæmi. 

 

Stór - kannski markaðsráðandi - smásöluaðili, sem framleiðandinn skiptir við, beitir hann (og þar með óbeint neytendur) óréttlæti sem minnir á það sem frést hefur af á öðrum mörkuðum og mun hafa verið til athugunar hjá Samkeppniseftirlitinu. Óréttlætið felst í því að það sem hann selur smásöluaðilanum hefur verið lækkað í heildsöluverði vegna þrýstings af hálfu smásöluaðilans. Smásöluaðilinn hefur hins vegar ekki lækkað smásöluverðið - gagnvart neytendum - heldur beinlínis hækkað það.

 

Enn fremur hefur erlend samkeppnisvara - sem sannarlega hefur hækkað í heildsöluverði vegna gengishruns - verið lækkuð tímabundið hjá sama aðila.

 

Hvaða úrræði eru tiltæk? Ég er talsmaður neytenda en ekki ráðgjafi atvinnurekenda; eina beina úrræðið sem ég gat vísað honum á er að

 

Eru önnur úrræði ekki tæk? Annað, sem ég nefndi ekki, er að klaga í fjölmiðla eða ræða við smásöluaðilann um úrbætur - en hvorugt er raunhæft í mörgum tilvikum þar sem framleiðandanum kann að hefnast fyrir.

 

Ef ekki er um markaðsráðandi aðila að ræða má segja að framleiðandinn þurfi síður á vernd samkeppnislaga og Samkeppniseftirlitsins að halda; þá getur hann frekar beitt markaðsvaldi sínu, greitt atkvæði með fótunum og skipt um smásala - án þess að hagsmunir hans af sem mestri og bestri sölu skerðist. Slíkt er því miður fátítt á Íslandi. Því hafa ýmsir efast um að sömu lögmál eigi við um samkeppni hér og í stærri ríkjum og mörkuðum. Gagnvart markaðsráðandi aðilum er ljóst að hætta getur verið í huga framleiðanda að nýta þetta úrræði og erfitt er að leita annarra úrræða því aðrir kostir í smásölu eru jú takmarkaðir ef þessi smásali er markaðsráðandi. Þess vegna eru frekari hömlur jú lagðar á markaðsráðandi aðila í samkeppnislögum.

 

Ef neytandi á í hlut leiðbeini ég um færar leiðir og til þess að gæta skilvirkni vísa ég gjarnan á gagnvirka leiðbeiningarvefgátt sem talsmaður neytenda kom á fót í fyrra og nefnd er Leiðakerfi neytenda.

 

Sú vernd sem framleiðandinn kann að finna í samkeppnislögum er ekki bara veitt hans vegna - heldur líka vegna hagsmuna og réttinda neytenda. Neytendur geta því líka kvartað sjálfir hafi þeir vitneskju eða grun um brot gegn þeim lögum

 

Í kvötrunargátt Samkeppniseftirlitsins segir:

 

Ef þú veist eða hefur grun um að verið sé að brjóta samkeppnislög geturðu nýtt þér eyðublaðið hér að neðan til að senda inn ábendingu til Samkeppniseftirlitsins, nafnlaust eða undir nafni. Við förum yfir allar ábendingar og könnum hvort ástæða sé til afskipta að hálfu Samkeppniseftirlitsins vegna meints brots.

 

Þá kemur einn reitur fyrir kvörtunina og svo tveir valfrjálsir reitir fyrir nafn og netfang en þar sem unnt er að kvarta nafnlaust segir þar:

 

Þarf ekki að fylla út 

 

Loks er nánari lýsing, svohljóðandi

 

Samkeppnislög banna hvers konar samkeppnishamlandi samráð og misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Brot á samkeppnislögum geta verið framin í leynd og valdið almenningi og atvinnulífinu miklu tjóni. Það er því mjög brýnt fyrir Samkeppniseftirlitið að fá upplýsingar um það þegar fyrirtæki hafa með sér ólögmætt samráð um t.d. verð eða skipta með sér mörkuðum. Einnig er mikilvægt að upplýsa Samkeppniseftirlitið þegar markaðsráðandi fyrirtæki misnota stöðu sína.

Hér geturðu komið upplýsingum á framfæri við Samkeppniseftirlitið þegar þú telur þig vita eða þig grunar að beitt sé ólögmætum aðgerðum í samkeppni fyrirtækja.

Settu þig í samband við Samkeppniseftirlitið vitir þú eða ef þig grunar að keppinautar eða önnur fyrirtæki hafi haft samráð eða á einhvern hátt haft samvinnu t.d.

  • um verð eða verðlag, álagningu, afslætti eða önnur viðskiptakjör
  • um takmörkun á framleiðslu
  • við tilboðsgerð þegar verkefni, vörukaup eða framboð á þjónustu hefur verið boðið út
  • um að skipta með sér mörkuðum, eftir t.d. viðskiptavinum eða landsvæðum.
  • um bindandi endursöluverð á vöru eða þjónustu.

Settu þig í samband við Samkeppniseftirlitið teljir þú þig vita eða gruni þig að markaðsráðandi fyrirtæki hafi gert samning eða samninga við önnur fyrirtæki um einkasölu eða einkakaup á vöru eða þjónustu, bjóði tryggðarafslætti, selji vöru á óeðlilega lágu verði, hafi neitað að selja vöru eða þjónustu eða á annan hátt reynt að viðhalda eða efla markaðsstöðu sína með óeðlilegum hætti og torvelda samkeppni keppinauta sinna. 


"Renaissance"

Frumlegir Frakkar - að hverfa fjóra áratugi aftur í tímann; í þeirri yfirlýstu "menningarbyltingu" felst e.t.v. tilraun til einhvers konar endurreisnar franskrar menningar - en við umboðsmaður barna höfum þó ekki gengið lengra í tillögum okkar um aukna neytendavernd barna en að vilja takmarka sjónvarpsauglýsingar sem beinast að börnum. Vonandi næst sátt um þær tillögur okkar.


mbl.is Auglýsingabann í ríkissjónvarpi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Líklega var maður að ofmeta mikilvægi einstaklingsins" og "við ofmátum virkni markaðarins"

Ég er sammála félaga Bjarna um þetta mat í Kastljósinu í gærkvöldi í kjölfar endurgreiðslu sem er sennilega fordæmalaus hérlendis - en byggist þó væntanlega öðrum þræði á gildandi lagareglum frá 1986 um breytingu ósanngjarnra samninga eftirá og sjónarmiðum um hugsanlegar endurkröfur vegna meintrar mismununar við kaup á hlutafé. Slík endurgreiðsla er þó ekki alveg fordæmalaus ef horft er til útlanda - eins og gert var í samningum við stjórnendur fármálafyrirtækja. 

 

Ekki skal ég hér fjalla um endurgreiðslufjárhæðina en hitt er vonandi líkleg afleiðing af þessu mati - og frumkvæði - Bjarna að meira jafnvægi verði framvegis milli hagsmuna þeirra sem eiga hlut að máli við rekstur og afkomu fyrirtækja, viðgang þjóðfélags og uppbyggingu samfélags, þ.e.a.s. (auk samfélagsins sjálfs):

  • hluthafa,
  • starfsmanna,
  • stjórnenda og
  • neytenda.

 

Síðastnefndi hópurinn - neytendur - gleymdist of lengi og víða (og gleymdi sér jafnvel sjálfur) í góðærinu svonefnda eins og sjá má af öðrum upphafsorðum Bjarna Ármannssonar:

 

Fjárhæðirnar sem slíkar urðu of háar.


mbl.is Endurgreiddi 370 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spilling stjórnmálaafla og möguleiki neytenda til þess að hafa áhrif á þau

Traustvekjandi er að sjá viðskiptaráðherraefnið afþakka embættið af þessari ástæðu - grun um opinbera fyrirgreiðslu sem endurgjald til fyrirtækis fyrir framlag í kosningasjóð. Þetta minnir á lokafall fyrrverandi kanslara Þýskalands, Helmut Kohl, fyrir um áratug í tengslum við fjármálahneyksli Kristilega demókrataflokksins og fleiri slík tilvik erlendis frá.

 

Megin ástæða slíkra afdrifa stjórnmálamanna og jafnvel -flokka er sú að erlendis hafa verið settar reglur um fjármál stjórnmálaflokka og -manna.

 

Bill Richardson, fylkisstjóri Nýju Mexíkó, er talinn mjög hæfur stjórnmálamaður, fyrrverandi kandídat í forsetaframbjóðendaforvali demókrata, áður orkumálaráðherra í ríkisstjórn Bills Clintons og líklega þekktasti stjórnmálamaður af spænskum ættum þarlendis. Samkvæmt fréttinni er ástæða þess að fylkisstjórinn tekur ekki við ráðherraembætti

 

sú, að rannsóknarkviðdómur rannsakar nú hvort Richardson hafi veitt fyrirtæki, sem gaf rausnarlega í kosningasjóði ríkisstjórans, óeðlilega fyrirgreiðslu. 

 

Margir spyrja hvort þessi ástæða gæti átt við hérlendis; rétt er að leggja áherslu á að ekki frekar en í Belgíu við stjórnarslit fyrir skömmu er ástæða þessarar ákvörðunar ekki dómur eða önnur efnisleg niðurstaða til þess bærs aðila - heldur rökstuddur grunur um ólögmætt athæfi.

 

Hérlendis er mútuþægni og svipuð brot í opinberu starfi vitaskuld refsiverð en auk þess tóku gildi fyrir réttum tveimur árum fyrstu lögin um fjármál stjórnmálaflokka o.fl.; að vísu voru lögin ekki sett fyrr en hálfu ári eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar og höfðu því eðlilega ekki áhrif á þær eða prófkjör í tengslum við þær. Verra var að eitt ákvæði laganna - um prófkjör - var látið taka gildi fimm mánuðum síðar, þ.e. eftir að prófkjörum var lokið fyrir alþingiskosningar 2007 (og reyndar kosningunum sjálfum, svo og stjórnarmyndun í kjölfarið).

 

Gott er þó að vita að slíkar reglur eru nú til og er refsivert að brjóta gegn þeim - fyrir utan þau pólitísku áhrif sem brot myndu væntanlega hafa hérlendis eins og hérnefnd dæmi eru fyrirmynd að.

 

Fyrir nokkru hófst rannsókn á framlögum í kosningasjóð Richardsons. Hún beinist meðal annars að því hvort brögð hafi verið í tafli þegar fyrirtæki frá Kaliforníu, sem greitt hafði stóra fjárhæð í kosningasjóð ríkisstjórans,  fékk úthlutað ábatasömu verki í Nýju-Mexíkó. Er verkið metið á 1 milljarð dala.

Richardson segir í yfirlýsingu, að rannsóknin gæti tekið vikur eða mánuði. Hins vegar muni hún leiða í ljós að hann hafi ekki beitt sér með óeðlilegum hætti í málinu. 

 

Nú gera margir vefmiðlar, völuspár og véfréttir hins vegar ráð fyrir nýjum þingkosningum á nýhöfnu ári og er því vert að rifja upp meginatriði í þessum lögum sem urðu umfjöllunarefni mitt í fyrsta óreglulega pistli mínum í talhorninu fyrir réttum tveimur árum:

 

Meginatriði laganna frá þessum [neytenda]sjónarhóli eru þessi:

 

  • Hámark árlegs stuðnings einstaklings eða lögaðila til stjórnmálaflokka eða frambjóðenda verður 300 þús. kr. á ári.
  • Stuðningur hins opinbera verður aukinn í  staðinn.
  • Óheimilt er að taka við öðru framlagi frá opinberum aðilum.
  • Óheimilt er taka við framlögum frá óþekktum gefendum.
  • Óheimilt er að taka við framlögum frá opinberum fyrirtækjum.
  • Óheimilt er að taka við framlögum frá erlendum aðilum.
  • Flokkar og frambjóðendur hafa upplýsingaskyldu gagnvart Ríkisendurskoðun.
  • Birta skal nöfn allra lögaðila sem veita framlög til stjórnmálastarfsemi.
  • Ríkisendurskoðun fer yfir reikningsskil stjórnmálaflokka og frambjóðenda.
  • Brot gegn lögunum geta varðað refsingu.

 

Auðvitað er það galli frá sjónarhóli kjósenda að lögin styðja við þá flokka sem fyrir eru á þingi en ekki ný framboð sem kunna að vilja keppa við þá um hylli kjósenda. Í pistlinum spurði ég hins vegar frá sjónarhóli neytenda

 

 hvort óbein afleiðing af þessum nýju lögum geti verið að auðveldara verði að ná fram réttarbótum til handa neytendum.

 

Mat mitt þá var - og er nú þegar kosningar kunna að vera í aðsigi - þetta:

 

Niðurstaða mín af þessum vangaveltum er því að áhrif einstakra fyrirtækja minnki að líkindum mikið og að áhrifamöguleikar fyrirtækja í heild minnki e.t.v. nokkuð eða jafnist fremur út þegar á heildina er litið. Að sama skapi tel ég líklegt að hlutfallsleg áhrif neytenda og almannasamtaka aukist í samræmi við framangreint.

 

Niðurlagið í pistlinum fyrir tveimur árum var svohljóðandi:

 

Tilgangur laga um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra er skv. 1. gr. þeirra m.a. að

 

„draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum. Markmið laganna er að auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið.“

 

Ef niðurstaða mín er borin saman við yfirlýstan tilgang og markmið laganna ég að framansögðu líklegt að þau dragi úr hættu á hagsmunaárekstrum stjórnmálamanna gagnvart hagsmunum fyrirtækja - en af því leiðir ekki að lögin útiloki hagsmunaárekstra; því þurfa neytendur og fulltrúar þeirra, stofnanir og almannasamtök áfram að vera á verði. Þá er e.t.v. ofsagt að lögin tryggi gagnsæi í fjármálum stjórnamálastarfsemi en væntanlega auka þau gagnsæið enda hefur það nánast ekkert verið. Vonandi eykst traust - neytenda t.a.m. - á stjórnmálastarfsemi en það er komið undir framhaldinu og hegðun stjórnmálafólks og aðhaldi neytenda og annarra. Þá hef ég trú á því að lýðræði eflist og hlutfallsleg áhrif neytenda geti aukist með lögunum þar sem dregið er úr möguleikum fárra stórra fyrirtækja til þess að hafa áhrif á stjórnmálaflokka og frambjóðendur. 

 

Meðal ítarlegra röksemda minna í pistlinum (auk ýmissa fyrirvara) fyrir þessu mati var þessi klausa:

 

Breytist staða neytenda?

Ég geri ekki ráð fyrir að margir einstaklingar hafi gefið stjórnmálaflokkum eða frambjóðendum hærri fjárhæðir en 300 þús. kr. á ári. Þar sem aðeins einstaklingar teljast neytendur í skilningi laga má strax slá því föstu að lögin rýri þannig ekki möguleika venjulegra neytenda til þess að hafa áhrif á stjórnmálaflokka eða frambjóðendur í prófkjörum miðað við stöðuna fyrir gildistöku laganna.

 

Síðan pistlillinn var skrifaður fyrir tveimur árum hefur nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, með sigri sínum fært frekari reynslurök undir framangreint mat enda var stór hluti hans gríðarmikla kosningasjóðs fenginn með mörgum smáum framlögum - fremur en fáum stórum.

 


mbl.is Afþakkar embætti viðskiptaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott val - og gleðilegt ár

Þetta er gott val - sem ég get tekið heils hugar undir miðað við það sem ég hef séð til Harðar Torfasonar undanfarið, og reyndar bæði fyrr og síðar. Þau litlu en góðu kynni sem ég haf haft af Herði staðfesta þetta mat. Ég er ánægður með dómgreind þeirra sem völdu Hörð og ekki hissa á vali í fyrsta sætið - nema kannski að aðeins fimmtungur hafi valið Hörð sem mann ársins:

 

Hörður Torfason hefur verið valinn maður ársins á Rás 2 með 20% atkvæða. Hörður fór mikinn seinnipart ársins en hann sá um að skipuleggja vikuleg mótmæli á Austurvelli í haust. 

 

Lesendum neytendabloggsins og neytendum og samstarfsaðilum öllum óska ég farsælla ári.


mbl.is Hörður Torfason maður ársins á Rás 2
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bætur út af Brindisi

Hér er mikilvægt fordæmi til handa neytendum. Samkvæmt fréttinni kemur fram í dóminum að flugfélag geti ekki - eins og hingað til hafi tíðkast - losnað við bótaskyldu gagnvart neytendum ef bilun í flugvél uppgötvast tímanlega áður en flugferð hefst eða kemur í ljós við reglubundna yfirferð tækjabúnaðar. 

 

Hér er væntanlega um að ræða svokallaða hlutlæga ábyrgð atvinnurekanda - þar sem ekki er spurt um svonefnda sök, þ.e. hvort mistök hafi verið gerð, eins og almennt er gert í skaðabótarétti utan samninga. Hér er um að ræða ábyrgð innan samninga sem er strangari - t.d. í þágu neytenda. Jafnvel getur ábyrgðin verið alger - nema að oft er gerð undantekning þar sem viðsemjandinn - hér flugfélagið - sleppur við ábyrgð vegna atvika sem hann getur ekki borið ábyrgð á. Þá er ekki hægt að bera fyrir sig afsakanir eins og peningaleysi eða tæknileg mistök - hvað þá gleymsku eða hirðuleysi - heldur aðeins óhjákvæmilegar ytri ástæður, svonefnt "force majeure" sem bókstaflega þýtt merkir eitthvað á borð við "æðri mátt." Ég hef ekki lesið dóminn sjálfan en geri ráð fyrir að þær sérstöku aðstæður sem um ræðir í fréttinni séu svonefndar force majeure aðstæður.

 

Á vef Flugmálastjórnar, sem fer með framkvæmd slíkra reglna hérlendis, segir um ábyrgð þegar flugi er aflýst (áhersla GT):

 

Ábyrgð flugrekanda getur fallið niður að hluta eða öllu leyti skapist óviðráðanlegar aðstæður sem ekki er mögulegt að afstýra, jafnvel þótt gerðar hafi verið allar nauðsynlegar ráðstafanir.  T.d. geta slíkar aðstæður skapast af völdum ótryggs stjórnmálasambands, veðurskilyrða sem samræmast ekki kröfum sem gerðar eru til viðkomandi flugs, öryggisáhættu, verkfalla sem geta haft áhrif á starfsemi flugrekanda, ákvarðana sem teknar eru af flugumferðarstjórn tengd tilteknu loftfari eða loftförum sem er þess valdandi að flugi er aflýst.

 

Af dæmunum, sem Flugmálastjórn tekur, má sjá að "æðri máttarvöld" voru upphaflega höfð í huga þegar reglan varð til og tekur hún því dæmigert til veðurskilyrða en síðar hafa mannanna verk bæst við svo fremi sem þau séu utan við beint áhrifasvið viðsemjandans, flugfélagsins - svo sem verkföll og stjórnmálaóvissa. Allt telst þetta óviðráðanlegt en til áréttingar er tekið fram að ekki sé mögulegt að afstýra þeim. Dómurinn undirstrikar það - sem reyndar er kennt á 1. ári í lögfræði - að ákvæði um force majeure eru mjög þröngt túlkuð.

 

Þröng nálgun er staðfest í fréttinni sem má að vísu skilja svo að byggt sé á sakarábyrgð; þar segir:

 

Í úrskurðinum segir að í tilfelli fjölskyldunnar hefði flugfélagið átt að sjá það fyrir að ekki yrði hægt að nota umrædda flugvél þar sem vitað hafi verið um bilun í henni sólarhring áður en hún átti að fara umrædda ferð. Þá segir í úrskurðinum að bilanir, sem komi í ljós við reglubundna yfirferð tækjabúnaðar, geti ekki flokkast sem sérstakar aðstæður. 

 

Fyrirsögnin "Réttur flugfarþega aukinn" er því misvísandi því þarna er að mínu mati gildandi réttur staðfestur þó að hann hafi ekki verið virtur í framkvæmd. Í frétt á www.mbl.is dag um málið segir:

 

Evrópudómstóllinn hefur úrskurðað að flugfélögum beri að endurgreiða farþegum flugfarmiða með staðgreiðslu sé ferðum þeirra aflýst, vegna tæk[n]ilegra vandamála. Málið var höfðað á hendur ítalska flugfélagsins [sic]  Alitalia vegna flugs sem aflýst var fimm mínútum fyrir áætlaða brottför.  Úrskurðurinn nær hins vegar til allra evrópskra flugfélaga. Þetta kemur fram á fréttavef Berlingske Tidende. 

 

Hér geta neytendur á Leiðakerfi neytenda (www.neytandi.is) leitað réttar síns vegna flugferða og annarra ferðalaga.


mbl.is Réttur flugfarþega aukinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannanna verk

Verðbólguhraðinn síðustu þrjá mánuði er 24% og mælt tólf mánuði aftur í tímann mælist hækkun á vísitölu neysluverðs 18%. Oft - síðast á útvarpi Sögu sl. föstudagsmorgun - er rætt um þá, sem leyfa sér að efast um réttmæti verðtryggingar, eins og þá sem efast um þyngdarlögmálið eða önnur Guðs gefin lögmál. Líktu þeir Guðmundur Ólafsson og Sigurður G. Tómasson slíkum efasemdarmönnum við menn sem vildu henda hitamælinum eða tommustokkinum ef þeim líkaði ekki útkoman úr mælingunni. Þó má lesa það í þessari frétt að það eru mannanna verk sem hafa hækkað marga liði hennar eins og oft þegar sagðar eru fréttir af hækkun vísitölu neysluverðs (sjaldan heyrast fréttir af lækkun hennar nema þegar önnur mannanna verk leiða til þess um skamma hríð eins og þegar matarskattur var lækkaður snemma í fyrra).

 

Samt er því ávallt haldið fram að ef verðtrygging væri ekki þá hefðu rétthafar (eigendur verðtryggðra krafna) tapað í ljósi þess að áfengisgjald o.fl. hefur hækkað skuldirnar þennan mánuðinn.

 

Sú umræða er af sama tagi og þegar rætt er um að svonefnd verðtrygging sé ekki vandamál; vandamálið sé verðbólgan. Ég er ekki viss um að það sé svona einfalt - að verðtrygging sé bara einkenni á sjúkdómi sem heiti verðbólga. Ég hef haldið því fram að verðtrygging sé ekki aðeins afleiðing - heldur einnig að hluta til orsök verðbólgu.


mbl.is Verðbólgan mælist 18,1%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auglýsingar bannaðar börnum

Ekki er vanþörf á jákvæðum fréttum og tillögum um þessar mundir og hér er ein í lagafrumvarpi menntamálaráðherra sem dreift var í síðustu viku til þess að vernda minnstu neytendur landsins gegn óhóflegri markaðssókn; þar hefur menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fallist á að leggja svohljóðandi reglu til við Alþingi:

 

Ríkisútvarpinu ohf. er óheimilt að sýna auglýsingar meðan á útsendingu barnaefnis stendur. Óheimilt er að sýna auglýsingar sem beinast að börnum í 10 mínútur fyrir og eftir útsendingu slíks efnis. 
 

Þetta er í samræmi við (og gengur meira að segja að vissu leyti aðeins lengra en) tilraunir okkar umboðsmanns barna undanfarin þrjú ár við að sporna við slíkri markaðssókn sem beinist að börnum og eru þær að ná hámarki þessa dagana með leiðbeiningum um aukna neytendavernd barna sem taka gildi um áramótin og hægt er að gera athugasemdir við til jóla.

 

Eina athugasemdin sem ég hafði við ákvæðið í umsögn í gær til menntamálanefndar Alþingis er að það ætti kannski betur heima í almennum útvarpslögum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.