Neytendur ekki lengur í vörn - heldur sókn

Hér er enn eitt dæmið að neytendur eru ekki dæmdir til þess að vera endalaust í vörn - heldur geta þeir líka verið í sókn og það á mörgum vígstöðvum eins og þessi dómur sjálfs Hæstaréttar Bandaríkjanna ber vitni um. Ég heyrði reyndar af þessum dómi í gærkvöldi en náði ekki að blogga um hann fyrr þó að ég hafi vísað til hans í viðtali ásamt umboðsmanni barna í Samfélaginu í nærmynd á Rás 1 í morgun um aukna neytendavernd barna.

 

Í frásögn á www.mbl.is segir um dóminn:

 

Dómurinn úrskurðaði að reykingamenn eigi rétt á því samkvæmt neytendalögum að fara í mál vegna merkinga á „light“ sígarettum sem talið er að geta verið blekkjandi.

 

Af þessu má ráða að þó að heimilt sé að selja tiltekna vöru er ekki sjálfsagt að kynna megi þá vöru (eða þjónustu) án fyrirvara enda var í dóminum talið að neytendavernd gegn blekkingum í garð neytenda vægi þyngra en heilsufarsvandamál reykingamannanna 3ja sem reykt höfðu "léttar" sígarettur. Þetta má væntanlega heimfæra á viðleitni okkar umboðsmanns barna, sem rædd var í viðtalinu, við að sporna við markaðssókn sem beinist að börnum - m.a. með aukinni neytendavernd barna gagnvart óhollri matvöru - þó lögleg sé. Drög leiðbeininga embættanna um aukna neytendavernd barna eru til umsagnar til jóla.

 

Í úrskurðinum virðist einnig felast að neytendavernd ryður burt sjónarmiðum um atvinnu- og viðskiptafrelsi þvert á fylkjamörk sem annað fyrirtækið vísaði til. Verður spennandi að fylgjast með efnisniðurstöðu í málinu en Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði í þessu máli aðeins um rétt umræddra neytenda til málsóknar. Það leiðir hugann að öðru sem við Íslendingar getum tekið upp eftir nágrönnum okkar vestan hafs og austan - þ.e. réttarfarshagræðið hópmálsókn.


mbl.is Hæstiréttur BNA dæmir gegn tóbaksframleiðendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

L'État, c'est moi?

Í dag hafa heyrst fréttir af þremur álitamálum sem tengjast þeirri spurningu hvort lögaðili (t.d. stofnun) geti orðið vanhæfur sem slíkur vegna aðgerða eða aðstöðu þess sem er í forsvari fyrir hann eða öfugt.

 

Ríkið það er ég

 

er haft eftir Lúðvík 14. Frakkakonungi sem lýsir öðrum þræði þeirri hugsun að gjörð og ábyrgð æðsta stjórnanda sé lögð að jöfnu við gjörð og ábyrgð þess lögaðila sem hann stýrir.

 

Í fyrsta lagi var sögð sú frétt að laganefnd Lögmannafélags Íslands hefði í umsögn til allsherjarnefndar Alþingis lýst efasemdum um að rétt væri að skipa starfandi hæstaréttardómara í rannsóknarnefnd um bankahrunið þar sem það gæti vakið vafa um hæfi Hæstaréttar í tengdum málum síðar.

 

Í öðru lagi er enn fjallað um hvort endurskoðunarfyrirtækið KPMG geti talist hæft til að sinna á gagnrýninn hátt verkefnum fyrir skilanefnd gamla Glitnis - eins og það hefur gert í um tvo mánuði - í ljósi þess að fyrirtækið hafi séð um endurskoðun tengdra fyrirtækja.

 

Í þriðja lagi er deilt um hvort eðlilegt sé að menn, sem hafi verið í forsvari fyrir tiltekinn banka þegar bankinn var talinn hafa brotið gegn reglum um bankaleynd, geti nú talist hæfir til þess að vera í forsvari fyrir skilanefndir annarra banka.

 

Ég hef ekki hjá mér doktorsritgerð Páls Hreinssonar hæstaréttardómara um hæfisreglur í stjórnsýslurétti en í norrænum skaðabótarétti er talið að ábyrgð æðsta stjórnanda lögaðila jafngildi ábyrgð lögaðilans sjálfs. Sömuleiðis er talið að uppsöfnuð ábyrgð margra starfsmanna - jafnvel óþekktra starfsmanna - lögaðila geti leitt til ábyrgðar lögaðilans sjálfs.

 

Lögfræðin er því oft rökrétt og niðurstöður skynsamlegar; svarið við spurningunni í upphafi er því jákvætt og þarf ekki að leita í stjórnskipunarréttinn til þess að sjá að ábyrgð getur verið fyrir hendi þó að forsvarsmaður beri ekki persónulega sök.


mbl.is KPMG vill rannsókn á störfum fyrir Glitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rúm 60% búast við að stunda vöru- og þjónustuskipti

Fréttir af því að krónan hafi braggast undanfarna tvo viðskiptadaga í vernduðu umhverfi greiðir væntanlega fyrir viðskiptum en yfir 60% svarenda í óformlegri spurningakönnun hér í byrjun vikunnar um hvort þeir stunduðu vöru- eða þjónustuskipti sögðust myndu stunda slík viðskipti í náinni framtíð; þar af var rúmur fjórðungur (rúm 15% allra svarenda) sem ekki sögðust hafa stundað slík viðskipti áður en bjóst við að taka þau upp.

 

Vöru- og þjónustuskipti teljast fyrir hendi þegar greitt er fyrir vöru eða þjónustu með vöru eða þjónustu - en ekki með peningum eða ígildi þeirra.

 

Um 5% svarenda voru hlutlausir eða vissu ekki svarið en taka ber fram að svarhlutfall og svarendur voru fremur fáir enda var óvenju lítil bloggvirkni hér þá daga sem könnunin stóð. Rúm 20% sögðust aldrei hafa stundað slík viðskipti og ekki búast við því en 10% höfðu einhvern tíma greitt fyrir vöru eða þjónustu með skiptum en bjuggust ekki við áframhaldi.


mbl.is Krónan styrktist um 11,5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama fer í spor Lincolns

Það er ekki bara gaman að heyra að frambjóðandinn, sem ég bjóst lengi við að yrði næsti forseti Bandaríkjanna og "studdi" framan af, verði í staðinn næstvaldamesti stjórnmálamaður stórveldisins. Með útnefningu Hillary Rodham Clinton sem utanríkisráðherra síns er Barack Obama að mínu mati einnig að feta í fótspor eins merkasta fyrirrennara síns, Abraham Lincoln, sem veitti svörtum þrælum einmitt frelsi í Borgarastyrjöldinni fyrir hátt í 150 árum.

 

Eitt af því sem einkenndi verk þess klóka hugsuðar var að Lincoln tókst að gera nokkra af sínum helstu keppinautum að ráðherrum sínum og var auk þess talinn hafa náð því besta út úr ráðherrateyminu með því að spila á innbyrðis togstreitu þeirra.

 

PS Hefurðu svarað í könnun hér til vinstri hvort þú stundar vöruskipti, þjónustuskipti eða skipti á vöru og þjónustu?


mbl.is Obama útnefnir Clinton sem utanríkisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundar þú vöru- eða þjónustuskipti?

Þetta er athyglisverð tilraun hjá breska hagfræðingnum sem segist ætla að reyna að lifa í heilt ár án þess að nota peninga en slíkt væri erfiðara á okkar litla eylandi en í Stóra Bretlandi. Samt mætti segja mér að nú við upphaf (tímabundinna) gjaldeyrishafta og með dýpkandi kreppu myndu vöruskipti og þjónustuskipti færast í vöxt.

  

Með lækkandi launum og hækkandi atvinnuleysi, samdrætti, gengishruni og jafnvel vandræðum með fjármagnsflutninga til Íslands og frá hefur væntanlega þegar færst í vöxt að fólk kaupi íslenskt - enda er væntanlega minni hvati til þess að hækka íslenska vöru eða þjónustu í verði af þessum ástæðum.

 

Væntanlega er undirskilið í fjórþættri skilgreiningu á lagahugtakinu "neytandi" að neytandi er einstaklingur sem kaupir vöru eða þjónustu og greiðir með peningum eða loforði um peningagreiðslu (t.d. með greiðslukorti eða ávísun). Hinu spái ég að Íslendingar muni í vaxandi mæli eiga viðskipti með vöru og þjónustu gegn vöru og þjónustu sem greiðslueyri á móti - í stað peninga.

 

Áhugavert væri að fá mælingu á þessu með skoðanakönnuninn hér til vinstri. Hún stendur í fjóra sólarhringa.


mbl.is Er hægt að lifa án peninga?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matadorspilinu var löngu lokið

Við þessa fróðlegu upprifjun hins frumlega fréttamanns Max Keiser rifjaðist líka upp fyrir mér þessi hugleiðing sem ég setti hér inn í lok mars um að Matadorspilinu væri lokið. Þar skrifaði ég líka að teikn væru á lofti um að nú yrði brugðist við; sú von brást.


mbl.is Trúðu á kraftaverkahagkerfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki gleyma neytendum þegar hugað er að hagsmunum skattgreiðenda

Eitt af mörgu góðu sem fram kom í enn einu afbragðs Silfrinu rétt í þessu var það réttmæta sjónarmið Hallbjörns Karlssonar fjárfestis að gæta þyrfti hagsmuna almennings eða skattgreiðenda við fjárhagslega endurskipulagningu og endursölu fyrirtækja sem nú eru komin - beint eða óbeint - í eigu ríkis eða þjóðar. Það verður best gert með opnum og gegnsæjum leikreglum og eftir atvikum útboði eins og bent var á.

 

Þó vil ég minna á að ekki má ganga of langt í uppboðsnálgun við slíka sölu því eins og við þekkjum af reynslu, fræðum og lagaramma við slíkt söluferli þá er hætta á verðbólu (og þar með verðbólguáhrifum) við slíkt verklag - hvort sem um er að ræða lóðir eða fyrirtæki. Á endanum byggist söluverð fyrirtækja á væntingum kaupenda til arðs og hækkunar hlutabréfaverðs í framtíðinni; þær væntingar ráðast af því hvað (kaupendur telja að) hægt sé að bjóða - vonandi ekki misbjóða - neytendum.

 

Með því að halda uppi sterku samkeppniseftirliti er frekar hægt að treysta á að þessar væntingar verði ekki of háar þannig að nógu lágt verð fáist fyrir svo að ekki þurfi að okra á neytendum í framtíðinni!

 

Ég minni á að þrjár meginleiðir eru til í því skyni að gæta hagsmuna neytenda af lágu verði á vöru og þjónustu:

  • ríkisrekstur,
  • miðstýrt verðlag og
  • samkeppni.

 

Nokkur sátt hefur líklega verið um að fara síðastnefndu leiðina að mestu og vaxandi leyti síðan um 1990 en oft er þó réttara að tala um fákeppni. Forsenda þess að sú leið verði áfram fyrir valinu er að framangreind sjónarmið verði höfð að leiðarljósi.


Mega embættismenn mótmæla á Austurvelli?

Samkvæmt lögum á ríkisstarfsmaður að

 

rækja starf sitt með alúð og samviskusemi í hvívetna. Hann skal gæta kurteisi, lipurðar og réttsýni í starfi sínu.

 

Ríkisstarfsmanni eru ekki aðeins lagðar þessar beinu (jákvæðu) skyldur á herðar heldur er einnig tekið fram hvað hann má ekki gera (neikvæðar skyldur):

 

Hann skal forðast að hafast nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein er hann vinnur við.

 

Fyrir nokkrum vikum var ég reyndar spurður af forsvarsmanni útifundanna hvort ég vildi vera einn ræðumanna á "útifundi" og tók ég vel í það með því fororði að auðveldara væri að vera fylgjandi einhverju í ræðu minni eða í mesta lagi fjalla gagnrýnið um eitthvert málefni - t.d. verðtryggingu - en ég vildi ekki taka þátt í opinberum mótmælum. Stuttu síðar kom í ljós að um var að ræða mótmælafund þar sem yfirskriftin var eitthvað á þessa leið:

 

Niður með ríkisstjórnina.

 

Bakkaði ég þá strax út með vísan til fororðsins og sagðist forsvarsmaðurinn skilja mig vel. Þá komu þessi lagaákvæði ekki sérstaklega upp í hugann því ég tók þessa ákvörðun að eigin frumkvæði til þess að gæta að trúverðugleika embættis talsmanns neytenda.

 

Framangreind ákvæði koma hins vegar upp í hugann þegar spurt er hvort eðlilegt sé að embættismaður taki almennt þátt í mótmælum - ekki sem ræðumaður heldur bara sem einn af hópnum - þ.e. mótmælafundi eins og þeim sem er haldinn í dag á Austurvelli og haldnir hafa verið undanfarna 6 laugardaga. Reyndar eru frekari kvaðir lagðar á suma ríkisstarfsmenn, embættismenn, en talsmaður neytenda telst til þeirra; í sömu lögum segir um þá:

 

Embættismönnum er óheimilt að efna til eða taka þátt í verkfalli eða öðrum sambærilegum aðgerðum.

 

Þarna var reyndar gengið lengra í frumvarpinu og lagt bann við því að embættismenn tækju þátt í að "stuðla að" verkfalli. Með hliðsjón af því brottfalli má ætla að tjáningarfrelsi ("stuðla að") embættismanna, sbr. 73. gr.  stjórnarskrárinnar, eigi að njóta sambærilegrar verndar og annarra þó að framangreindar hömlur séu lagðar á athafnafrelsi þeirra ("efna til eða taka þátt").

 

Að mínu mati er alveg ljóst að það sem í lögunum er lagt bann við er þátttaka í að leggja niður störf - í verkfalli eða með "öðrum sambærilegum aðgerðum" svo sem yfirvinnubanni eða hægagangi - í því skyni að þrýsta á um kjarabreytingar sér í hag. Lögin verða með engu móti túlkuð þannig að lagðar séu almennar hömlur á athafnafrelsi embættismanna utan starfs þeirra - svo fremi sem þeir virði tilvitnaðar lagareglur um að forðast að aðhafast nokkuð

 

í starfi sínu eða utan þess sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein [...].

 

Undir það gæti t.d. fallið eggjakast í opinberar byggingar.

 

Þessi afmörkun á bannsviði lagaákvæðisins verður að mínu mati enn ljósari þegar haft er í huga að þetta ákvæði það eina í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem refsingu varðar að brjóta:

 

Brot á 40. gr. varða fésektum, nema mælt sé fyrir um þyngri refsingu í öðrum lögum.


Óheimil afskipti forsætisráðherra af kjörum forseta og embættismanna

Slík afskipti forsætisráðherra af ákvörðunum Kjararáðs, sem hann kynnti á fréttamannafundi undir kvöld ásamt utanríkisráðherra, eru ekki heimil. Annars vegar virðist mér af fréttafrásögnum að forsætisráðherra mælist beinlínis til þess að Kjararáð brjóti sjálfa stjórnarskrána með því að lækka laun forseta  Íslands tímabundið á árinu 2009 enda segir þar orðrétt:

 

Óheimilt skal að lækka greiðslur þessar til forseta kjörtímabil hans.

 

Hins vegar fara slík tilmæli forsætisráðherra að mínu mati ekki aðeins í bága við lögákveðið sjálfstæði Kjararáðs og það skipulag að frumkvæði komi frá ráðinu sjálfu að kjarabreytingum þegar tilefni gefst til. Með tilmælum forsætisráðherra er einnig vegið frekar að stjórnarskrárvörðum rétti allra - þ.m.t. embættismanna - til þess að semja um starfskjör sín og réttindi tengd vinnu en í lögum um Kjararáð er embættismönnum veittur aðgangur til þess að tjá sig um slíkt; ekki er gert ráð fyrir almennum afskiptum forsætisráðherra - en Geir H. Haarde var einmitt fyrsti flutningsmaður og framsögumaður frumvarpa til stjórnarskipunarlaga 1995 þegar eftirfarandi ákvæði var bætt í stjórnarskrána:

 

Í lögum skal kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu.

 

Mikilvægt er - nú sem endranær - að forsætisráðherra eins og aðrir fulltrúar þjóðarinnar haldi sig innan valdmarka embætta sinna við formleg afskipti af málum og virði sjálfstæði annarra stofnana þjóðfélagsins.


mbl.is Óska eftir launalækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bann við skyndibitaauglýsingum myndi draga úr offitu barna

Þessi frétt styður við viðleitni okkar umboðsmanns barna að auka neytendavernd barna en í fréttinni segir:

 

Ný rannsókn á áhrifum auglýsinga um skyndibitafæði í Bandaríkjunum bendir til að bann við slíkum auglýsingum myndi fækka offitutilfellum ungra barna um allt að 18 prósent, en um 14 prósent hjá eldri börnum.

 

Í tillögum umboðsmanns barna og talsmanns neytenda er einmitt sérstaklega  leitast við að sporna gegn auglýsingum á óhollustu eins og lesa má nánar um hér.


mbl.is Skyndibitaauglýsingar ýta undir offitu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband