Spilling stjórnmálaafla og möguleiki neytenda til þess að hafa áhrif á þau

Traustvekjandi er að sjá viðskiptaráðherraefnið afþakka embættið af þessari ástæðu - grun um opinbera fyrirgreiðslu sem endurgjald til fyrirtækis fyrir framlag í kosningasjóð. Þetta minnir á lokafall fyrrverandi kanslara Þýskalands, Helmut Kohl, fyrir um áratug í tengslum við fjármálahneyksli Kristilega demókrataflokksins og fleiri slík tilvik erlendis frá.

 

Megin ástæða slíkra afdrifa stjórnmálamanna og jafnvel -flokka er sú að erlendis hafa verið settar reglur um fjármál stjórnmálaflokka og -manna.

 

Bill Richardson, fylkisstjóri Nýju Mexíkó, er talinn mjög hæfur stjórnmálamaður, fyrrverandi kandídat í forsetaframbjóðendaforvali demókrata, áður orkumálaráðherra í ríkisstjórn Bills Clintons og líklega þekktasti stjórnmálamaður af spænskum ættum þarlendis. Samkvæmt fréttinni er ástæða þess að fylkisstjórinn tekur ekki við ráðherraembætti

 

sú, að rannsóknarkviðdómur rannsakar nú hvort Richardson hafi veitt fyrirtæki, sem gaf rausnarlega í kosningasjóði ríkisstjórans, óeðlilega fyrirgreiðslu. 

 

Margir spyrja hvort þessi ástæða gæti átt við hérlendis; rétt er að leggja áherslu á að ekki frekar en í Belgíu við stjórnarslit fyrir skömmu er ástæða þessarar ákvörðunar ekki dómur eða önnur efnisleg niðurstaða til þess bærs aðila - heldur rökstuddur grunur um ólögmætt athæfi.

 

Hérlendis er mútuþægni og svipuð brot í opinberu starfi vitaskuld refsiverð en auk þess tóku gildi fyrir réttum tveimur árum fyrstu lögin um fjármál stjórnmálaflokka o.fl.; að vísu voru lögin ekki sett fyrr en hálfu ári eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar og höfðu því eðlilega ekki áhrif á þær eða prófkjör í tengslum við þær. Verra var að eitt ákvæði laganna - um prófkjör - var látið taka gildi fimm mánuðum síðar, þ.e. eftir að prófkjörum var lokið fyrir alþingiskosningar 2007 (og reyndar kosningunum sjálfum, svo og stjórnarmyndun í kjölfarið).

 

Gott er þó að vita að slíkar reglur eru nú til og er refsivert að brjóta gegn þeim - fyrir utan þau pólitísku áhrif sem brot myndu væntanlega hafa hérlendis eins og hérnefnd dæmi eru fyrirmynd að.

 

Fyrir nokkru hófst rannsókn á framlögum í kosningasjóð Richardsons. Hún beinist meðal annars að því hvort brögð hafi verið í tafli þegar fyrirtæki frá Kaliforníu, sem greitt hafði stóra fjárhæð í kosningasjóð ríkisstjórans,  fékk úthlutað ábatasömu verki í Nýju-Mexíkó. Er verkið metið á 1 milljarð dala.

Richardson segir í yfirlýsingu, að rannsóknin gæti tekið vikur eða mánuði. Hins vegar muni hún leiða í ljós að hann hafi ekki beitt sér með óeðlilegum hætti í málinu. 

 

Nú gera margir vefmiðlar, völuspár og véfréttir hins vegar ráð fyrir nýjum þingkosningum á nýhöfnu ári og er því vert að rifja upp meginatriði í þessum lögum sem urðu umfjöllunarefni mitt í fyrsta óreglulega pistli mínum í talhorninu fyrir réttum tveimur árum:

 

Meginatriði laganna frá þessum [neytenda]sjónarhóli eru þessi:

 

  • Hámark árlegs stuðnings einstaklings eða lögaðila til stjórnmálaflokka eða frambjóðenda verður 300 þús. kr. á ári.
  • Stuðningur hins opinbera verður aukinn í  staðinn.
  • Óheimilt er að taka við öðru framlagi frá opinberum aðilum.
  • Óheimilt er taka við framlögum frá óþekktum gefendum.
  • Óheimilt er að taka við framlögum frá opinberum fyrirtækjum.
  • Óheimilt er að taka við framlögum frá erlendum aðilum.
  • Flokkar og frambjóðendur hafa upplýsingaskyldu gagnvart Ríkisendurskoðun.
  • Birta skal nöfn allra lögaðila sem veita framlög til stjórnmálastarfsemi.
  • Ríkisendurskoðun fer yfir reikningsskil stjórnmálaflokka og frambjóðenda.
  • Brot gegn lögunum geta varðað refsingu.

 

Auðvitað er það galli frá sjónarhóli kjósenda að lögin styðja við þá flokka sem fyrir eru á þingi en ekki ný framboð sem kunna að vilja keppa við þá um hylli kjósenda. Í pistlinum spurði ég hins vegar frá sjónarhóli neytenda

 

 hvort óbein afleiðing af þessum nýju lögum geti verið að auðveldara verði að ná fram réttarbótum til handa neytendum.

 

Mat mitt þá var - og er nú þegar kosningar kunna að vera í aðsigi - þetta:

 

Niðurstaða mín af þessum vangaveltum er því að áhrif einstakra fyrirtækja minnki að líkindum mikið og að áhrifamöguleikar fyrirtækja í heild minnki e.t.v. nokkuð eða jafnist fremur út þegar á heildina er litið. Að sama skapi tel ég líklegt að hlutfallsleg áhrif neytenda og almannasamtaka aukist í samræmi við framangreint.

 

Niðurlagið í pistlinum fyrir tveimur árum var svohljóðandi:

 

Tilgangur laga um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra er skv. 1. gr. þeirra m.a. að

 

„draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum. Markmið laganna er að auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið.“

 

Ef niðurstaða mín er borin saman við yfirlýstan tilgang og markmið laganna ég að framansögðu líklegt að þau dragi úr hættu á hagsmunaárekstrum stjórnmálamanna gagnvart hagsmunum fyrirtækja - en af því leiðir ekki að lögin útiloki hagsmunaárekstra; því þurfa neytendur og fulltrúar þeirra, stofnanir og almannasamtök áfram að vera á verði. Þá er e.t.v. ofsagt að lögin tryggi gagnsæi í fjármálum stjórnamálastarfsemi en væntanlega auka þau gagnsæið enda hefur það nánast ekkert verið. Vonandi eykst traust - neytenda t.a.m. - á stjórnmálastarfsemi en það er komið undir framhaldinu og hegðun stjórnmálafólks og aðhaldi neytenda og annarra. Þá hef ég trú á því að lýðræði eflist og hlutfallsleg áhrif neytenda geti aukist með lögunum þar sem dregið er úr möguleikum fárra stórra fyrirtækja til þess að hafa áhrif á stjórnmálaflokka og frambjóðendur. 

 

Meðal ítarlegra röksemda minna í pistlinum (auk ýmissa fyrirvara) fyrir þessu mati var þessi klausa:

 

Breytist staða neytenda?

Ég geri ekki ráð fyrir að margir einstaklingar hafi gefið stjórnmálaflokkum eða frambjóðendum hærri fjárhæðir en 300 þús. kr. á ári. Þar sem aðeins einstaklingar teljast neytendur í skilningi laga má strax slá því föstu að lögin rýri þannig ekki möguleika venjulegra neytenda til þess að hafa áhrif á stjórnmálaflokka eða frambjóðendur í prófkjörum miðað við stöðuna fyrir gildistöku laganna.

 

Síðan pistlillinn var skrifaður fyrir tveimur árum hefur nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, með sigri sínum fært frekari reynslurök undir framangreint mat enda var stór hluti hans gríðarmikla kosningasjóðs fenginn með mörgum smáum framlögum - fremur en fáum stórum.

 


mbl.is Afþakkar embætti viðskiptaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sæll gleðilegt ár og takk fyrir að vinna ötuglega að neytendamálum

Ég hef sterklega á tilfinningunni að auðvelt sé að fara fram hjá þessum lögum, því miður.

Helsta ástæða þess hve illa er komið fyrir Íslandi er sú að 5. valdið keypti hin fjögur.

Sigurður Þórðarson, 5.1.2009 kl. 15:51

2 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Góð pæling og allt það.  Hef ekki bara áhyggjur af því að okkkar reglur séu óljósar og hefðir til að skilja að hagsmuni og stuðning bakhjarlanna eru ekki fyrir hendi.

N'u verð ég ennþá áhyggjufyllri þegar búið er að lækka laun alþingismanna.  Það held ég að hafi verið afar slæm aðgerð - - þvert á móti ættum við að hækka laun þingmanna verulega og setja þeim á móti mjög stranga skilmála um að þeir megi ekki taka við greiðslum og gjöfum frá markaðsaðilum - - og að þeir verði að skilja sig frá öllum umsvifum í fjármálalífinu og upplýsa um eignatengsl og tengsl við þá aðila sem eiga hagsmuni undir þeim málum sem þeir fjalla um.

Benedikt Sigurðarson, 5.1.2009 kl. 22:14

3 Smámynd: Gísli Tryggvason

Takk, Sigurður. Ríkisendurskoðun hefur eftirlit með lögunum - auk lögreglu og ákæruvalds en til þeirra geta jú allir kært vegna gruns um refsiverð brot. Hugsanlegir gallar - sem þú hefur í huga og þeir sem ég bendi á í pistlinum - verða vonandi lagaðir; þeir yfirskyggja þó vart þá miklu framför sem felst í lögunum því eins og ég var að reyna að sýna fram á er (pólitískt) aðhald fjölmiðla og almennings virkast eins og dæmin sanna erlendis frá. Er ekki alveg með á númerunum sem þú nefnir í lokin; er fjórða valdið ekki fjölmiðlar - og auðvaldið hið fimmta, eða hvað?

Sæll Benedikt og takk fyrir fyrri ábendinguna; ég hallast að því að umrædd lög feli í sér ágæta byrjun miðað við ástandið hingað til og ungan aldur okkar borgaralega samfélags - sem hefur rekið sig á. Hvað það varðar að "hefðir til að skilja að hagsmuni og stuðning bakhjarlanna eru ekki fyrir hendi" vil ég segja að lög sem þessi rjúfa hefð; þá eru stjórnsýslulög aðeins 15 ára gömul en þau taka á slíkum hagsmunaárekstri á öðru stigi. Varðandi lokaorð þín verð ég að viðurkenna að ég er sammála þér.

Gísli Tryggvason, 6.1.2009 kl. 01:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband