Mannanna verk

Verðbólguhraðinn síðustu þrjá mánuði er 24% og mælt tólf mánuði aftur í tímann mælist hækkun á vísitölu neysluverðs 18%. Oft - síðast á útvarpi Sögu sl. föstudagsmorgun - er rætt um þá, sem leyfa sér að efast um réttmæti verðtryggingar, eins og þá sem efast um þyngdarlögmálið eða önnur Guðs gefin lögmál. Líktu þeir Guðmundur Ólafsson og Sigurður G. Tómasson slíkum efasemdarmönnum við menn sem vildu henda hitamælinum eða tommustokkinum ef þeim líkaði ekki útkoman úr mælingunni. Þó má lesa það í þessari frétt að það eru mannanna verk sem hafa hækkað marga liði hennar eins og oft þegar sagðar eru fréttir af hækkun vísitölu neysluverðs (sjaldan heyrast fréttir af lækkun hennar nema þegar önnur mannanna verk leiða til þess um skamma hríð eins og þegar matarskattur var lækkaður snemma í fyrra).

 

Samt er því ávallt haldið fram að ef verðtrygging væri ekki þá hefðu rétthafar (eigendur verðtryggðra krafna) tapað í ljósi þess að áfengisgjald o.fl. hefur hækkað skuldirnar þennan mánuðinn.

 

Sú umræða er af sama tagi og þegar rætt er um að svonefnd verðtrygging sé ekki vandamál; vandamálið sé verðbólgan. Ég er ekki viss um að það sé svona einfalt - að verðtrygging sé bara einkenni á sjúkdómi sem heiti verðbólga. Ég hef haldið því fram að verðtrygging sé ekki aðeins afleiðing - heldur einnig að hluta til orsök verðbólgu.


mbl.is Verðbólgan mælist 18,1%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Verðbólga er stundum líka mikil í öðrum löndum og ekki bitnar það á eignarhluta fólks í húsnæði sínu.

Við skulum hafa það í huga, að miklar líkur eru á að verðbólga mælist yfir 19% næst, þannig að þetta á eftir að versna áður en það batnar.

Marinó G. Njálsson, 22.12.2008 kl. 11:20

2 Smámynd: Hallur Magnússon

Eins og þú veist mætavel þá er vandamálið íslenska krónan

Hallur Magnússon, 22.12.2008 kl. 11:21

3 Smámynd: Gísli Tryggvason

Góð ábending Marinó.

Hallur. Við getum reyndar verið sammála um að krónan - sem einnig er mannanna verk - er vandamál; meira að segja aðalhagfræðingur Seðlabankans sagði í viðtali nýlega (sem ég bloggaði um í þessum sama flokki) að krónan yki sveiflur en drægi ekki úr þeim. Hitt erum við sennilega ósammála um að íslenskir neytendur séu dæmdir til verðtryggingar þar til og ef íslenskir stjórnmálamenn ákveða að taka upp evru eða annan stöðugri gjaldmiðlil en krónu.

Gísli Tryggvason, 22.12.2008 kl. 11:31

4 Smámynd: Ragnar Eiríksson

Mér finnst alltaf þessi verðtryggingarumræða einkennileg, ekki sýst á Útvarpi Sögu.    Menn eru þar stimplaðir fávitar ef þeir efast um réttlætið við verðtrygginguna.    Mér finnst þó ljóst að þarna er verið að tryggja aðra hlið jöfnunnar :

Lán * verðtrygging = Afborganir(Laun) * mögul. launahækkanir.   

Fylgist þetta ekki að tapar lántakandinn í lengdinni, er það ekki?

Ef við lítum nokkur ár til baka ráku bankarnir mikinn áróður fyrir lántökum þar sem verðmæti/veðhæfni (hús-)eigna hafði aukist mikið.   Jafnframt var gengi krónunnar haldið miklu hærra en eðlilegt var sem gerði innfluttar vörur ódýrar og ýtti undir fólk að kaupa þær.     Almenningur(og sérfræðingar) gerði sér ekki grein fyrir því hvernig peningarnir urðu til í bönkunum - með erlendum lántökum!   Þessar lántökur með verðtryggingu voru í lagi meðan uppgangur var á öllum sviðum en núna þegar niðursveiflan er komin er enginn möguleiki fyrir því að standa undir okinu.      

Núna finnst mér réttlátt að deila ábyrgð og kostnaði á einhvern hátt.    Það getur ekki verið réttlátt að fjármagnseigendur (bankar - þjóðfélagið) eigi að hafa fulla tryggingu en lántakendur þurfi að taka allan skellinn.    Þess vegna hlýtur einhvers konar frysting verðtryggingar eða verðtrygging launa að vera réttlát - það síðara er þó lítils virði þegar maður hefur misst vinnuna!    Það er einkennilegt þjóðfélag með einkennilegt siðferðismat ef gjaldþrota stóreignamönnum eða fyrirtækjum eru veitt víkjandi lán(gjafir) og milljarðaskuldir felldar niður en húsið er tekið af einstaklingnum sem ekki ræður við verðtryggða afborgun nema þannig að lánstíminn sé lengdur upp í 100 ár eða einhver ósköp.     

En auðvitað er ég bara fáviti eins og Guðmundur Ólafsson segir og sennilega ætti ég bara að stinga hitamælinum upp í rassinn því sá sem biður um réttlæti hér á landi er mikið veikur og þyrfti sennilega innlögn!    Er Kleppur lokaður?  

Ragnar Eiríksson, 22.12.2008 kl. 19:57

5 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Verðtryggingin var alfarið fest með Ólafslögunum árið 1979.  Þá var verið að glíma við þensluverðbólgu - verðhækkanadrifinn vanda þar sem gert var ráð fyrir að allar stærðir myndu hækka framvegis með einhverjum hætti.   Lánskjaravísitalan var samsett úr launavísitölu, byggingarvísitölu og neysluvísitölunni að jöfnu. Lofað var mjög lágum vöxtum til frambúðar  - mest 1-2% og algert hámark til skemmri tíma2,5%.  (Má sjá á gögnum Alþingis á þessum tíma - greinargerðum og umræðum í febrúar 1979). 

Gleymum heldur ekki að á þessum tíma var Ísland lokað hagkerfi - með handstýrðri gengisskráningu sem grátkór úterðarmanna meira og minna manípúleraði.

Núna er öldin önnur - hagkerfið í EES umhverfi - með frjálsu fjármagnsflæði og markaðsfrelsi langt úr hófi eins og við höfum fengið reynslu af - með skelfilegum afleiðingum.    'island er fórnarlamb siðlausra viðskipta græðgisvæðingarinnar - og gjaldmiðillinn skotmark spákaupmennskunnar og vogunar innlendra og erlendra glæpamanna.

Hið þrefalda hagkerfi; krónunnar og verðtryggðu krónunnar og erlendra gjaldmiðilsviðskipta og lána - hefur sýnt sig að vera óstjórnandi - með einstrengingi vaxtaskrúfunnar einnar og sér;  -með þekktum afleiðingum.

Nú stöndum við í brunarústunum: og "kreppuleiðrétting" nær til allra fasteigna - gengisleiðrétting nær líka til krónunnar í viðskiptum innanlands og í erlendum viðskiptum;   Verðtryggðar skuldbindingar eru hins vegar ónæmar fyrir kreppuleiðréttingunni - nema vísitalan til verðtryggingar verði fryst eða endurreiknuð með "neyðarlögum" - - Það er nefnilega augljóst að hagfræðilega er það algerlega baneitrað að "kreppuleiðréttingin" nái ekki til verðtryggðra fjárskuldbindinga: - til lána sem eru miðuð við verðhækkanavísitölu (sem hönnuð er til að takast á við þensluverðbólguna eina og sér).  Verðtryggð lán vaxa fólki og eignum þess yfir höfuð - ofbjóða greiðslugetu fólks þúsundum saman -   og sem mun óhjákvæmilega leiða til fjöldagjaldþrota og niðurlægingar - gera fólk unnvörpum að þrælum fjármagnsins og hinnar ofmetnu gamal-krónu (frá þenslubólu-tímanum) - sem ekki stóð undir því verðmæti sem hún var skráð fyrir.  Slíkt kann að leiða til fyrirséðra "undirmálslánavandræða" og gera okkur ómögulegt að koma á bankakerfi - - og reka íbúðalánasjóð og fasteigna og byggingamarkað næstu 10 árin eða lengur.  Dýpka og lengja kreppuna og gera þúsundir manna gjaldþrota og ófæra um að taka ábyrgð á sjálfum sér og framfærslu sinni - - gera menn óvirka í framleiðsluferlinu og ófæra um að framfæra sig og sína með reisn og ábyrgð.

Guðmundur Ólafsson og félagar hans setja sig í svona gamlakunnuga stöðu þeirra sem afneita raunveruleikanum:  Guðmundur þekkir vel til í gamla Sovétkerfinu og ætti að geta dregið vitrænar ályktanir af þeirri sögu þar sem "hinn lögboðni sannleikur" leiddi til siðferðilegs og efnahagslegra endaloka á arfi Stalíns.   Held að hann muni fljótt kjósa sér að láta til sín taka í öðru samhengi.

Frystum því vísitöluna til verðtryggingar við gildi - t.d. 1. mars 2008 - eða áður en efnahaghrunið fór að framkalla verðbólguna.  Það er einfaldlega komið að því að fjármagnseigendur leggi að mörkum til að skapa nýtt "eignajafnvægi" til framtíðar

Benedikt Sigurðarson, 22.12.2008 kl. 21:11

6 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Það er gjarnan farið með verðtryggingu eins og náttúrulögmál.

Þeir sem mest hampa kostum verðtryggingar tala lítið um hvað býr að baki henni. Til að verðtryggja lán er stuðst við vísitölu neysluverðs. Til að reikna hana út er stuðst við neyslukönnun sem send er til 1.200 heimila á landinu ár hvert. Niðurstöður síðustu þriggja ára mynda hverju sinni neyslugrunninn.

Þeir sem mest hampa kostum verðtryggingar ræða aldrei möguleikann á því að þar sé hreinlega vitlaust gefið. Það er staðreynd að svarhlutfall á neyslukönnun Hagstofu Íslands er einungis 45%. Engin greining er framkvæmd á því hverskonar heimili svara og hví hin gera það ekki.

Þá er aðstöðumunur lánveitanda og lántaka gríðarlegur. Lánveitandi hefur fé sitt ætíð tryggt, svo fremi að lántaki sé fær um að standa í skilum, á meðan lántaki er ofurseldur örlögum sínum. 

Sem dæmi, þá stefnir í það að íslenska ríkið verði helsti lánveitandi verðtryggðra lána. Til að auka tekjur ríkissjóðs í kreppunni þá hefur ríkið hækkað álögur á ýmsar vörur svo sem áfengi, tóbak og eldsneyti. Þessar hækkanir rýra ekki verðmæti útlána ríkisins. Þær ganga beint til hækkunar á vísitölu neysluverðs, sem leiðir til hækkunar á verðtryggðum lánum. Hinsvegar rýrnar eignarhluti fólks í fjármálaumhverfi hávaxtastefnu og óðaverðbólgu.

Gildir þá einu þótt lántaki sé bindindismanneskja á áfengi og tóbak, gangi eða hjóli til vinnu.

Ein rök sem forkólfar lífeyrissjóða leggja gjarnan á borðið snúa að verðtryggðum greiðslum úr lífeyrissjóðum. Það er ekki meira að marka þessa verðtryggingu en svo að nú þegar lífeyrissjóðir eru búnir að glutra niður gríðarlegum verðmætum með því að hlaupa með annarra manna fé á eftir útrásarvíkingum, þá er einfaldlega tilkynnt um skerðingu greiðslna.

Það væri til mikilla bóta ef vandlætisfullir verðtryggingarpostular tækju sig til og færðu fyrir því rök að rétt sé reiknað við ákvörðun vísitölu neysluverðs. Það væri létt verk að fylla Háskólabíó ef slíkur fyrirlestur væri haldinn, þrátt fyrir hóflegan aðgangseyri.

Sigurður Ingi Jónsson, 22.12.2008 kl. 22:24

7 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Ég skal láta það vera mitt síðasra verk á þessari plánettu að ryðja burt þessum gungum sem stjórna þessu landi. Og setja lög um lífeyrissjóði. Og verðtryggingar. O gera ekkert sem styggir fjármagns eigendur.

Eina vitræna leiðin er að sturta öllu þessu niður og afnema öll ólögleg lög, hvort sem þau eru Ólafs eða Davíðs.

Nýtt kerfi þar sem stjórnmálamenn hafa ekki möguleika á að stýra krónunni.

Þeir hafa endanlega dæmt sig úr leik.

Verðbólga af þessum mælihvarða er algjörlega óásættanleg, en vestrænir hagfræðingar telja flestir að verðbólga sé smurning á hagkerfið.

Flestir samþykkja það að peningarnir sem Amma geymir í krukkunnni sinni skreppi saman af því að einhverjum stjórnmálamanni dettur í hug að fara af stað með virkjunn sem enginn vill nema einhverjir ríkir vinir hanns. Og þetta þarf ekki að vera svona flókið kerfi og flækjustigið er óendanlegt og vandamálin leysast ekki í þessari afvegaleiddu umræðu.

Það er algjörlega augljóst hverjum þeim sem vill sjá að verðtrygging er það óréttlátasta sem fundið var upp og það á að afnema án afsakanna.

Þing sem getur ekki séð það er algjörlega máttlaust og á ekki skilið að lifa.

Og ég óska því dauða.

Þetta þing er liðleskju og gungu klíka sem er algjörlega máttlaust og hefur ekki minstu skerpu í ákvarðannatöku.

Flokkarnir með þessa evru leið er sorgleg staðreynd um heildarblindu þessa samfélags.

Með fullri virðingu fyrir ykkur herramenn. En ísland er á villigötum núna og ég veit það og það er meðal annars út af þessu sem við erum að tala um.

Ef við samþykkjum peningamálastefnu evrópusambandsinns erum við komin til heljar.

Er flotgengismintin evra betri en flotgengismintin króna ? Já eins og krónunni er stjórnað núna.

En hvaða maður mun stjórna evrunni eftir tvö 4 ár ? verðbólgan er núna ? en seinna ?

En það er hægt að skipta um kerfi. Og hætta einfaldlega að hlíta þessu kerfi.

Það er til annað betra sannara, heiðarlegra, réttlátara. einfaldara, sanngjarnara,raunverulegra, kerfi.

En það felur í sér það að stjórnmálamenn glata þeim möguleika að eyða einhverju sem þeir eiga ekki til. Heldur verða að skattleggja eða safna fyrir.

Nýjir tímar eru framundan og ný stefna verður tekin á þessu skipi.

Hvort sem sjórnmálamenn eru með eða ekki.

Að halda þessari vitleisu áfram er geðveikin ein.

Er það þetta kerfi sem við ætlum að skilja eftir okkur. Hvað um næstu kynslóðir.

Þetta er einu orði sagt viðbjóðslegt hvernig þetta samfélag er orðið.

Evran hlítur kerfi sem er mannana verk.

Krónan hlítur kerfi sem er mannanna verk.

Við höfum selt okkur undir vald sem er óguðlegt svo ekki sé meira sagt.

Ég er brjálaður. Og fyrirgefið mér, mér er heitt í hamsi.

Vilhjálmur Árnason, 23.12.2008 kl. 01:40

8 Smámynd: Friðrik Óttar Friðriksson

Það blasir við að ríkisstjórnin ætlar ekki að taka athugasemdum frá þeim þúsundum sem bæði mótmæla á fundum, með þáttöku á borgarafundum, greinaskrifum í fjölmiðlum eða í bloggheimum.  Tölur eru bjagaðar til að draga úr þeim gríðarlega vanda sem upp er kominn og eins þeim sem ríkisstjórnin er nú að stefna þjóð sinni í með því að "Haardera" stöðu atvinnulífsins og skuldastöðu heimilanna í landinu.  Verðtryggingin er þar lykilatriði ásamt stýrivöxtunum.  Heildarskuldir heimilanna voru í lok nóv. orðnar 1.890 milljarðar og hafa þá hækkað um 340 milljarða frá ársbyrjun 2008!!  Það er ljóst að atvinnulífið getur ekki staðist þessa stýrivexti nema með því að fleyta kjörunum beint út í verðlagið, ef fjármagn fæst þá yfir höfuð og þegar gengið er eins og það er, þá geta þessi skilyrði ekki annað en blásið út verðbólguna.  Vegna þess að hvorki fyrirtæki né heimili fá afgreiðslu á lánsfé nema í mjög takmörkuðum mæli hafa heimilin dregið verulega úr allri neyslu og fjárfestingum, en vegna gengisfallsins mælist mikil verðbólga, þar sem við erum mjög háð innfluttum vörum.  Með því að halda stýrivöxtum í þessum hæðum kynda því stjórnvöld mjög einbeitt undir verðbólgu, sem vegna verðtryggingar þenur gríðarlega hratt út verðtryggðar skuldir heimilanna.

Þetta er gríðarlega slæmt þar sem verðtryggðar skuldir hækka stöðugt og nú mjög hratt, sem mun rýra kaupmátt varanlega með auknum hraða, eftir því sem árin líða.  Það mun draga allt blóð úr atvinnulífinu á mjög mörgum sviðum, sem mun valda enn frekara atvinnuleysi og það til langs tíma.  Þessi stefna mun gera enduruppbyggingu atvinnulífsins mun erfiðari en þyrfti að vera. 

Það að setja ekki þak á verðtryggð lán hlýtur að vera skammtímayfirsjón, sem verður þó að leiðrétta strax og þá er ég sammála Benedikt um aðgerðir.

Þegar ríkisstjórnin velur að taka stöðu svo einhliða með einu sviði atvinnulífsins, en gegn öllum öðrum sviðum og einnig heimilunum í landinu, er ekki við öðru að búast að gagnrýnin sé mikil og fylgi fari dvínandi.

Það eru skelfileg pólitísk skilaboð að gera þá sem velja að fjárfesta í húsnæði í landinu og menntun meira fjárhagslega ábyrga fyrir ástandinu, með því að deila þessum byrgðum út frá skuldastöðu í stað skatta, sem taka þó mið af tekjum.  Með þessu móti má búast við miklu andófi og uppgjöf fólks í að reyna að axla sína fjárhagslegu ábyrgð, sérstaklega þegar siðferði ríksisstjórnar og fjármálageirans í þá veru eru hverfandi.  Þeir setja vissulega ný viðmið og að því ættu þeir að hyggja.

Vill ríkisstjórnin td að fólk hætti að fjárfesta í húsnæði og menntun hérlendis?  Vill ríkisstjórnin að fólk tileinki sér nýjar leikreglur í viðskiptum út frá speki svikarans, að greidd skuld sé tapað fé?  Ég get ekki séð annað enn að þessi ríkisstjórn sé að boða hér nýtt siðferði af mun lægri standard en áður og það tel ég ótækt. 

Það eru mjög alvarleg mistök að setja ekki þak á verðtrygginguna strax og á eftir að skapa hér gríðarlega erfiðleika.  Það er hreinn gunguháttur ráðamanna að þora ekki að taka á vandanum með skattahækkunum og vanvirðing við eignir heimilanna.  Þess í stað á að taka eina og eina fjölskyldu þegar sálarangistin er hvað mest og gera hana upp.  Svo að uppgjörstölurnar verði ósýnilegri hefur félagsmálaráðherra nú lengt meðhöndlunartímann í um 1 ár, svo þær tölur verði ekki í hámælum.  Þessar aðgerðir eru til háborinnar skammar og þróunina verður að stöðva strax.

Friðrik Óttar Friðriksson, 23.12.2008 kl. 22:30

9 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Gleðileg jól

Hólmdís Hjartardóttir, 24.12.2008 kl. 12:04

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gleðileg jól!

Þorsteinn Briem, 25.12.2008 kl. 10:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband