Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Þriðjudagur, 25. nóvember 2008
Matadorspilinu var löngu lokið
Við þessa fróðlegu upprifjun hins frumlega fréttamanns Max Keiser rifjaðist líka upp fyrir mér þessi hugleiðing sem ég setti hér inn í lok mars um að Matadorspilinu væri lokið. Þar skrifaði ég líka að teikn væru á lofti um að nú yrði brugðist við; sú von brást.
![]() |
Trúðu á kraftaverkahagkerfið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 23. nóvember 2008
Ekki gleyma neytendum þegar hugað er að hagsmunum skattgreiðenda
Eitt af mörgu góðu sem fram kom í enn einu afbragðs Silfrinu rétt í þessu var það réttmæta sjónarmið Hallbjörns Karlssonar fjárfestis að gæta þyrfti hagsmuna almennings eða skattgreiðenda við fjárhagslega endurskipulagningu og endursölu fyrirtækja sem nú eru komin - beint eða óbeint - í eigu ríkis eða þjóðar. Það verður best gert með opnum og gegnsæjum leikreglum og eftir atvikum útboði eins og bent var á.
Þó vil ég minna á að ekki má ganga of langt í uppboðsnálgun við slíka sölu því eins og við þekkjum af reynslu, fræðum og lagaramma við slíkt söluferli þá er hætta á verðbólu (og þar með verðbólguáhrifum) við slíkt verklag - hvort sem um er að ræða lóðir eða fyrirtæki. Á endanum byggist söluverð fyrirtækja á væntingum kaupenda til arðs og hækkunar hlutabréfaverðs í framtíðinni; þær væntingar ráðast af því hvað (kaupendur telja að) hægt sé að bjóða - vonandi ekki misbjóða - neytendum.
Með því að halda uppi sterku samkeppniseftirliti er frekar hægt að treysta á að þessar væntingar verði ekki of háar þannig að nógu lágt verð fáist fyrir svo að ekki þurfi að okra á neytendum í framtíðinni!
Ég minni á að þrjár meginleiðir eru til í því skyni að gæta hagsmuna neytenda af lágu verði á vöru og þjónustu:
- ríkisrekstur,
- miðstýrt verðlag og
- samkeppni.
Nokkur sátt hefur líklega verið um að fara síðastnefndu leiðina að mestu og vaxandi leyti síðan um 1990 en oft er þó réttara að tala um fákeppni. Forsenda þess að sú leið verði áfram fyrir valinu er að framangreind sjónarmið verði höfð að leiðarljósi.
Laugardagur, 22. nóvember 2008
Mega embættismenn mótmæla á Austurvelli?
Samkvæmt lögum á ríkisstarfsmaður að
rækja starf sitt með alúð og samviskusemi í hvívetna. Hann skal gæta kurteisi, lipurðar og réttsýni í starfi sínu.
Ríkisstarfsmanni eru ekki aðeins lagðar þessar beinu (jákvæðu) skyldur á herðar heldur er einnig tekið fram hvað hann má ekki gera (neikvæðar skyldur):
Hann skal forðast að hafast nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein er hann vinnur við.
Fyrir nokkrum vikum var ég reyndar spurður af forsvarsmanni útifundanna hvort ég vildi vera einn ræðumanna á "útifundi" og tók ég vel í það með því fororði að auðveldara væri að vera fylgjandi einhverju í ræðu minni eða í mesta lagi fjalla gagnrýnið um eitthvert málefni - t.d. verðtryggingu - en ég vildi ekki taka þátt í opinberum mótmælum. Stuttu síðar kom í ljós að um var að ræða mótmælafund þar sem yfirskriftin var eitthvað á þessa leið:
Niður með ríkisstjórnina.
Bakkaði ég þá strax út með vísan til fororðsins og sagðist forsvarsmaðurinn skilja mig vel. Þá komu þessi lagaákvæði ekki sérstaklega upp í hugann því ég tók þessa ákvörðun að eigin frumkvæði til þess að gæta að trúverðugleika embættis talsmanns neytenda.
Framangreind ákvæði koma hins vegar upp í hugann þegar spurt er hvort eðlilegt sé að embættismaður taki almennt þátt í mótmælum - ekki sem ræðumaður heldur bara sem einn af hópnum - þ.e. mótmælafundi eins og þeim sem er haldinn í dag á Austurvelli og haldnir hafa verið undanfarna 6 laugardaga. Reyndar eru frekari kvaðir lagðar á suma ríkisstarfsmenn, embættismenn, en talsmaður neytenda telst til þeirra; í sömu lögum segir um þá:
Embættismönnum er óheimilt að efna til eða taka þátt í verkfalli eða öðrum sambærilegum aðgerðum.
Þarna var reyndar gengið lengra í frumvarpinu og lagt bann við því að embættismenn tækju þátt í að "stuðla að" verkfalli. Með hliðsjón af því brottfalli má ætla að tjáningarfrelsi ("stuðla að") embættismanna, sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, eigi að njóta sambærilegrar verndar og annarra þó að framangreindar hömlur séu lagðar á athafnafrelsi þeirra ("efna til eða taka þátt").
Að mínu mati er alveg ljóst að það sem í lögunum er lagt bann við er þátttaka í að leggja niður störf - í verkfalli eða með "öðrum sambærilegum aðgerðum" svo sem yfirvinnubanni eða hægagangi - í því skyni að þrýsta á um kjarabreytingar sér í hag. Lögin verða með engu móti túlkuð þannig að lagðar séu almennar hömlur á athafnafrelsi embættismanna utan starfs þeirra - svo fremi sem þeir virði tilvitnaðar lagareglur um að forðast að aðhafast nokkuð
í starfi sínu eða utan þess sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein [...].
Undir það gæti t.d. fallið eggjakast í opinberar byggingar.
Þessi afmörkun á bannsviði lagaákvæðisins verður að mínu mati enn ljósari þegar haft er í huga að þetta ákvæði það eina í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem refsingu varðar að brjóta:
Brot á 40. gr. varða fésektum, nema mælt sé fyrir um þyngri refsingu í öðrum lögum.
Föstudagur, 21. nóvember 2008
Óheimil afskipti forsætisráðherra af kjörum forseta og embættismanna
Slík afskipti forsætisráðherra af ákvörðunum Kjararáðs, sem hann kynnti á fréttamannafundi undir kvöld ásamt utanríkisráðherra, eru ekki heimil. Annars vegar virðist mér af fréttafrásögnum að forsætisráðherra mælist beinlínis til þess að Kjararáð brjóti sjálfa stjórnarskrána með því að lækka laun forseta Íslands tímabundið á árinu 2009 enda segir þar orðrétt:
Óheimilt skal að lækka greiðslur þessar til forseta kjörtímabil hans.
Hins vegar fara slík tilmæli forsætisráðherra að mínu mati ekki aðeins í bága við lögákveðið sjálfstæði Kjararáðs og það skipulag að frumkvæði komi frá ráðinu sjálfu að kjarabreytingum þegar tilefni gefst til. Með tilmælum forsætisráðherra er einnig vegið frekar að stjórnarskrárvörðum rétti allra - þ.m.t. embættismanna - til þess að semja um starfskjör sín og réttindi tengd vinnu en í lögum um Kjararáð er embættismönnum veittur aðgangur til þess að tjá sig um slíkt; ekki er gert ráð fyrir almennum afskiptum forsætisráðherra - en Geir H. Haarde var einmitt fyrsti flutningsmaður og framsögumaður frumvarpa til stjórnarskipunarlaga 1995 þegar eftirfarandi ákvæði var bætt í stjórnarskrána:
Í lögum skal kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu.
Mikilvægt er - nú sem endranær - að forsætisráðherra eins og aðrir fulltrúar þjóðarinnar haldi sig innan valdmarka embætta sinna við formleg afskipti af málum og virði sjálfstæði annarra stofnana þjóðfélagsins.
![]() |
Óska eftir launalækkun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Fimmtudagur, 20. nóvember 2008
Bann við skyndibitaauglýsingum myndi draga úr offitu barna
Þessi frétt styður við viðleitni okkar umboðsmanns barna að auka neytendavernd barna en í fréttinni segir:
Ný rannsókn á áhrifum auglýsinga um skyndibitafæði í Bandaríkjunum bendir til að bann við slíkum auglýsingum myndi fækka offitutilfellum ungra barna um allt að 18 prósent, en um 14 prósent hjá eldri börnum.
Í tillögum umboðsmanns barna og talsmanns neytenda er einmitt sérstaklega leitast við að sporna gegn auglýsingum á óhollustu eins og lesa má nánar um hér.
![]() |
Skyndibitaauglýsingar ýta undir offitu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 17. nóvember 2008
Dýrafjörður eða Brussel!
Stundum er rætt um mun á bjartsýni og svartsýni með þeirri myndlíkingu að sumir sjái hálf-fullt glas en aðrir hálf-tómt. Í sama anda eru einkunnarorð mín hér á blogginu:
Sá, sem vill, finnur leið; sá, sem vill ekki, finnur afsökun (arabískur málsháttur).
Nú renna öll vötn til Dýrafjarðar
Sunnudagur, 16. nóvember 2008
Vor eða haust?
Víða sjást nú áskoranir, undirtektir, undirskriftarsafnanir, kröfur, spár eða jafnvel fullyrðingar um kosningar fyrr en stjórnarskráin gerir ráð fyrir vorið 2011 og er þá ýmist rætt um að kosið verði "sem fyrst á nýju ári" eða "eins fljótt og mögulegt er." Flestir virðast þó gera ráð fyrir vorkosningum 2009, þ.e. eftir u.þ.b. hálft ár.
Í ljósi þess að tveir stærstu flokkar landsins og sá elsti verða að líkindum allir þrír komnir með endanlega og afdráttarlausa stefnu fyrir 1. febrúar 2009 - eftir 2 1/2 mánuð - um að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið (ESB) (og fregnir eru auk þess um hugsanlegt endurmat á afstöðu gagnvart ESB innan stærsta stjórnarandstöðuflokksins) finnst mér líklegri spá félaga Friðriks um að þingkosningar fari ekki fram fyrr en eftir tæpt ár - að afloknum aðildarviðræðum Íslands við ESB.
Í ljósi yfirgnæfandi stuðnings þings og þjóðar við ESB-aðildarviðræður myndu þingkosningar fyrr - t.d. í vor eða fyrir páska - fyrst og fremst þjóna þeim tilgangi að endurnýja eða endurskoða umboð kjörinna fulltrúa þjóðarinnar - sem í kjölfarið munu semja um aðildarskilyrðin við ESB; auðvitað kann vel að vera að sú krafa komi fram og nái fram að ganga.
Annars er hér einnig raunhæf spá um tímaröð atvika í tengslum við væntanlegar ESB-aðildarviðræður sem er nú kannski nærtækari en þessi hálfs árs gamla spá mín þar sem gert var ráð fyrir tvöföldu þjóðaratkvæði sem er líklega óþarft.
![]() |
Vilja kosningar í upphafi nýs árs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 14. nóvember 2008
Sagði ég ekki...?
Fimmtudagur, 13. nóvember 2008
Edrú, á leiðinni á Vog!
Margir hafa notað þá samlíkingu við mig undanfarið að Ísland sé eins og alkóhólisti sem vill fá hjálp - en treystir sér ekki til þess að hætta að drekka (strax); ef sú samlíking er rétt er ég ekki frá því að af ummælum forystufólks ríkisstjórnarinnar í fréttum nú í kvöld megi ráða að á þessu sé að verða breyting - það er runnið af okkur og við erum að bíða eftir plássi á Vogi.
Flestir, sem hafa átt í erlendum samskiptum (eins og ég hef átt í nær tvo áratugi við norræna kollega), kannast sjálfsagt við spurningar eins og þessa frá samstarfsaðilum erlendis frá undanfarin misseri:
Hvaðan koma allir peningarnir?
Mér varð oft svara vant þó að ég hafi stundum getað bent á þann óumdeilanlega styrk landsins sem felst í sterku og þróuðu lífeyriskerfi - og stend við það - og á það fjármagn sem leystist úr læðingi með einkavæðingu bankanna og áður með framseljanleika kvótans - og held mig enn við það. Aðalsvarið var hins vegar væntanlega að út á þetta fé og annað var tekið meira fé að láni - meira fé en samrýmdist stærð landsins og kerfi.
Ekki get ég nú - frekar en aðrir sem hefðu átt að sjá það fyrir - sagt að ég hafi búist við þessu algera hruni bankakerfisins (en kannski gjaldmiðilsins) eða djúpri kreppu í kjölfarið; hitt er annað að ég hefði eins og fjölmargir aðrir átt að gera mér grein fyrir að það gat ekki gengið endalaust að fá sífellt meira fé að láni sem við Íslendingar virðumst hafa lifað fyrir sem heild. Helgina sem Glitnir hrundi (og spilaborgin öll í kjölfarið) fann ég hins vegar á mér - að eitthvað alvarlegt var að.
Þá var það líklega of seint. Kannski ætti maður oftar - og fyrr - að tjá hug sinn hreint út ef maður finnur eitthvað á sér.
![]() |
IMF: Íslendingar verða að breyta um stefnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 12. nóvember 2008
Hver væri núvirtur auður Hollendinga af auðlindum hafsins í kringum Ísland á 17. öld?
Ég var að lesa í bók um áhrif olíu á sögu og stjórnmál o.fl. að Hollendingar hefðu í yfir 100 ár, einkum á 17. öld, haft yfirburði á höfunum sem herrar vinds og viðar - og ríkt sem slíkir yfir gróðavænlegum síldveiðum og umfangsmikilli hvalaverslun á Norður-Atlantshafi o.fl. auðlindum hafsins.
Hvert skyldi vera núvirt virði þessara gríðarlegu verðmæta sem héldu m.a. hollenskum borgum upplýstum og Hollendingum vel nærðum og ríkum? Jón Sigurðsson forseti notaði slíkan framreikning í vopnlítilli sjálfstæðisbaráttu okkar Íslendinga gegn Dönum.
Skyldi sagan endurtaka sig?
(Sjá American Theocracy, The Peril and Politics of Radical Religion, Oil and Borrowed Money in the 21st Century, eftir Kevin Philips, einkum bls. 12.)
![]() |
Ísland stendur frammi fyrir gjaldþroti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |