Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hagsmunir neytenda eru að í stjórn sitji (ekki van)hæfir menn

Hér er um að ræða tímabæra áréttingu Páls Ásgrímssonar hdl. á því sem löngu á að vera ljóst - eins og ég bloggaði m.a. um fyrir réttum 5 mánuðum síðan; þar kemur fram að stjórnarsetubannið á jafnt við í kjölfar skilorðsbundins dóms. Í færslu minni segir einnig:

 

Hins vegar hefur verið spurt hvort réttaráhrif refsidóms á stjórnarmenn séu hin sömu ef hinn dæmdi stjórnarmaður á stóran hluta eða meiri hluta hlutafjár eða jafnvel allt hlutaféð. Því hefur verið svarað af lögspekingum að í slíkum tilvikum sé engin undantekning gerð í lögunum og virðast sumir undrast það. Ég tel að það sé af því að þeir gleyma að hluthafar eru ekki þeir einu sem eiga hagsmuna að gæta gagnvart hlutafélagi og stjórn þess. Meðal annarra hagsmunaaðila eru viðsemjendur þess - bæði starfsmenn, kröfuhafar (birgjar) og neytendur.  

 

Í tilvísaðri færslu minni frá 10. júní sl. er vísað til röksemda fyrir því að löggjafinn geri kröfur af þessu tagi til hlutafélaga,

 

þ.e. að kjarni laga um (einka)hlutafélög er takmörkuð ábyrgð eigenda gagnvart kröfuhöfum - þ.m.t. neytendum.

 

Ég tek undir með höfundi greinarinnar, Páli Ásgrímssyni hdl. (í Morgunblaðinu í dag, bls. 19) - bæði hvað varðar niðurstöðu og ítarlegar röksemdir, þ.e.a.s. að stjórnsýslan hefur ekki heimild til að víkja frá því skýra skilyrði löggjafans að í hlutafélögum sitji hæfir menn og ekki vanhæfir vegna refsidóma eða annars.


mbl.is Jón Ásgeir víki úr stjórnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirtæki = bílar; afar gagnleg en (stundum stór) hættuleg tæki - sem þurfa öflugt eftirlit og ríka ábyrgð

Í umræðu um það hvort vegagerðinni eða ökumanninum sé um slysið að kenna virðist felast séríslenskur vandi - að það sé alltaf annað hvort, eða; svart eða hvítt. Þó að ég hafi ávallt verið lítið fyrir hraðakstur og vitaskuld á móti akstri með skerta dómgreind og öðrum glæfraakstri vil ég nota tækifærið og árétta nokkuð sem ég benti á í jólakveðju hins nýstofnaða embættis talsmanns neytenda fyrir þremur árum og í upphafi kennslu í neytendamarkaðsrétti nú í haust, eitthvað á þessa leið:

 

Eigendur og umráðamenn vélknúinna ökutækja hafa lengst af í um hundrað ára sögu þeirra samkvæmt norrænni löggjöf borið sérstaka og ríkari ábyrgð að lögum, t.a.m. gagnvart hjólandi og gangandi vegfarendum, svo og farþegum. Sú löggjöf felur ekki í sér að að bílar og sambærileg farartæki (enn strangari ábyrgð gildir um lestir og flugvélar) séu slæm - þvert á móti: löggjafinn telur þessi farartæki afar gagnleg og skilvirk - svo skilvirk að þau geta verið stórhættuleg eins og dæmin sanna. (Af sömu ástæðu er samlíking bloggarans við refsivert athæfi, fíkniefnainnflutning, ekki röklegt.)

 

Í dæminu lék ég mér við að líkja fyrirtækjum (atvinnulífinu) við vélknúin ökutæki af ýmsu tagi og gangandi vegfarendum við neytendur (en miðað við reynslu úr fyrra starfi mínu í þágu launafólks má e.t.v. því starfsfólki við farþegana í dæminu). Ekki gekk ég lengra eins og að segja að við hjólreiðamenn værum eins og uppáhaldið mitt, sjálfseignarstofnanir; varð ég ekki var við annað en að samlíking mín fengi fremur dræmar undirtektir - enda kannski bara fyrir lögfræðinga að skilja og þá helst félagslega sinnaða, en þeir hafa líklega verið fáir.

 

Í athugasemdum mínum við umræðuna í gær notaði ég, sem sagt, sömu röksemd til þess að andmæla því sjónarmiði, sem bloggarinn hafði eftir Jóni Baldvin Hannibalssyni, að ekki mætti kenna veginum um; auðvitað má ekki kenna veginum einum um slysið - en hrað-, ölvunar- og annar glæfraakstur tíðkast þó að hann sé ekki leyfilegur og því þarf gott (og vitaskuld eftir efnum og ástæðum víðfemt og fjölbreytt) vegakerfi en með vegriðum - líka á milli akreina.

 

Og vegriðin mega ekki bara vera til sýnis - frekar en við notumst við pappalöggur, eða hvað?


mbl.is Hannes vísar ásökunum á bug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögmálið um pólitískar afsagnir og fallhleri kvenna

Grímur Atlason tók í gær saman tilefni(sleysi) til afsagna erlendis og hérlendis en fyrir um 15 árum bjó ég mér til kenninguna um þrjár afneitanir sem undanfara pólitískra afsagna - sem hefur lítið með Bíblíusögur (Matt: 26,69) að gera. Kenningin varð líklega til í tengslum við fréttaskýringu, sem ég skrifaði um svipað leyti í dagblaðið Dag, um pólitískar afsagnir á Íslandi frá upphafi þingræðis, ef ég man rétt. Kenningin felur í sér eitthvað á þessa leið:

 

Ef kjörinn fulltrúi er spurður þrisvar opinberlega hvort hann muni segja af sér þá sjái hann sig - eða sé - tilknúinn til afsagnar innan tíðar.

 

Kenningin var staðfest í kjölfarið með afsögn Þórólfs Árnasonar úr borgarstjórastóli skömmu eftir að ég ritaði aðra grein. Augljóslega reynir þarna helst á fjölmiðlafólk, þ.e. þá fulltrúa almennings sem geta spurt kjörna fulltrúa um afsagnaráform (enda varð kenningin til fyrir tíma bloggsins sem er ekki í beinni útsendingu með sama hætti). Væntanlega reynir fljótlega á kenninguna í fyrsta skipti í yfirstandandi kreppu - enda er ekki vitað til þess að krafist hafi verið opinberlega afsagnar Tryggva Þórs þó að hann hafi e.t.v. verið fysta fórnarlamb kreppunnar í þeim skilningi að (þurfa að) segja af sér vegna (innanhúss) ágreinings eða þrýstings (svo ekki sé talað um þær hundruðir bankastarfsmanna sem sagt var upp í liðnum mánuði og fjöldauppsagnir í ýmsum geirum).

 

Hins vegar skrifaði ég fyrir rúmum 5 árum stutta grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni Fallhlerinn (í anda hins alþekkta hugtaks um glerþakið) sem gekk út á að sýna með þremur nýlegum norrænum dæmapörum að konur settu sér - eða væru settar undir - strangari mælistiku en karlar þegar metið væri hvort tilefni væri til afsagnar. Í greininni segir m.a.

 

Sjálfsgagnrýni?

Reyndar tel ég að ástæðan - glerþakið - sé ekki bara að aðrir geri meiri kröfur til kvenna heldur geri þær sjálfar meiri kröfur til sín en karlar til sjálfs sín, m.a. hvað varðar traust og (sjálfs)virðingu. Þetta leiðir hugann að því að konur í forystu virðast fremur - eða hraðar - en karlar axla ábyrgð sína þegar kemur að því að víkja úr stöðu. Orsökina má nefna "fallhlera" því þær konur sem ég hef í huga hurfu skyndilega úr stöðu sinni - en ekki af ósýnilegri ástæðu eins og þegar rætt er um glerþakið. Gallinn er að karlarnir virðast oft sleppa við fallhlerann í sambærilegum aðstæðum.

 

Þessi kenning var reyndar staðfest um daginn þegar kona, sem var fulltrúi Samfylkingarinnar í bankaráði Seðlabankans, sagði fyrst af sér í yfirstandandi kreppu - og það óumbeðið. Í kjölfarið rakti ég í greininni frá júlí 2003 þrjú nýleg íslensk og norræn dæmapör um borgarstjóra, ráðherra og forstöðukonu sem enn ættu að vera áhugafólki í fersku minni. Lokaorðin voru svohljóðandi:

 

Umburðarlyndi í garð karla?

Kannski skiptir ekki máli hvort við spyrjum hvort við séum umburðarlyndari gagnvart körlum eða hvort við orðum það svo að við höfum meiri væntingar í garð kvenna? Ég tel a.m.k. að ósamræmi sé í kröfunum.

 

***

Lesa greinina.


mbl.is Tryggvi Þór: Lítið samband
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Palin ekki galin

Fréttin - og einkum fyrirsögnin - staðfestir upphafsmat mitt, þ.e. að þó að Obama muni sennilega vinna nokkuð stóran sigur í nótt þá var Palin ekki galin - þ.e. sterkur og taktískur leikur - frá repúblikanskum sjónarhóli.

 

Skoðun mín á henni (ef ég væri bandarískur kjósandi) kom hins vegar snemma fram hér og var áréttuð fyrir mánuði.


mbl.is Palin hefur áhrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kröfuhafi ræður för - en ekki að geðþótta

Að gefnu tilefni vegna frétta af innheimtustarfsemi er ástæða er til að árétta svar mitt á fundi hjá viðskiptanefnd Alþingis í gærmorgun þar sem spurt var út í málið að það er vitaskuld ávallt kröfuhafi - ekki fulltrúi hans í innheimtuaðgerðum (lögmaður eða innheimtufyrirtæki) - sem ræður för í innheimtu. Það gerir kröfuhafi annað hvort með fyrirmælum til innheimtuaðila eða með samningi við hann.

 

Aðgerðir þeirra og samningar sæta svo aðhaldi sýslumanns eða dómstóla þegar þangað er komið - en það aðhald væri virkara ef skuldarar nytu aðstoðar lögmanna í vörnum sínum; því lagði ég til á fundi hjá viðskiptanefnd Alþingis í gær - þegar ég var spurður um þessi mál á fundi um almenna stöðu neytenda og launafólks - að ríkisvaldið legði skuldurum í té lögfræðilega aðstoð; í því sambandi minnti ég á að oft hefur verið lagt fram til skrauts frumvarp um skylt efni, þ.e. um opinbera réttaraðstoð.

 

Aðhaldið felst m.a. í því að ekki má notast við dýrari innheimtuaðgerðir en réttlætanlegar eru miðað við kostnað samkvæmt þeirri meginreglu að tjónþola beri að takmarka tjón sitt. Frekara aðhald mun felast í innheimtulögum sem taka gildi 1. janúar nk. og viðskiptaráðherra beitti sér fyrir á síðasta þingi (og lagði reyndar til í frumvarpinu að það tæki gildi 1. nóvember, sl.). Þar eru mikilvægustu nýmælin skyldubundin innheimtuviðvörun áður en innheimtuferlið hefst og hámark á hóflegum innheimtukostnaði samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.


Landslagið hreyfist

Og í nótt verður blökkumaður kosinn forseti Bandaríkjanna.
mbl.is Vilja hefja aðildarviðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú verð ég...

Nú verð ég að heimsækja Færeyjar - ekki vegna þess að þaðan komu fallegustu stúlkurnar til Akureyar á táningsárum mínum, heldur vegna þessa vinarbragðs og samstöðu sem Færeyingar sýna okkur á ögurstundu. Ég er reynar hræddur um að við höfum ekki sýnt þeim sama bróðurþel en lengi hefur mig langað til að kynnast þeim betur.


mbl.is Vill gefa Íslendingum 300 milljónirnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öflugra fjölmiðlaeftirlit

Þessi frétt um að flestir einkafjölmiðlar landsins lendi nú að uppfylltum skilyrðum á einni hendi rennir frekari stoðum - og samkeppnissjónarmiðum - undir það neytendasjónarmið mitt frá í fyrradag um að hér þurfi öflugt Ljósvakaeftirlit ríkisins - eða jafnvel allsherjarfjölmiðlastofnun!


mbl.is Félag Jóns Ásgeirs keypti fjölmiðla 365
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljósvakaeftirlit ríkisins?

Hljómar vel; þá aukast kannski möguleikar okkar umboðsmanns barna til að koma á þeirri löngu tímabæru takmörkun að ekki sé auglýst í barnatímum eða í kringum barnaefni í sjónvarpi eins og við höfum leitast við í 2-3 ár að sannfæra alla hagsmunaaðila um að eðlilegt sé - ekki síst hvað varðar óhollustu.

 

Þá mætti gjarnan íhuga hvort ekki sé rétt að auka eftirlitsheimildir og styrkja eftirlit með ljósvakamiðlum - t.d. að bandarískri fyrirmynd. Útvarpsréttarnefnd hefur að mínu mati ekki staðið undir nafni sem eftirlitsaðili.


mbl.is Starfshópur fjalli um stöðu fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nógu góður fyrir konurnar?

Til hamingju. Ekki hef ég nú lesið eða heyrt allar fréttir jafn vel undanfarið - hvað þá íþróttafréttir - og læt jafnvel ekki eftir mér að horfa á konur spila fótbolta en mér fannst endilega ég hafa heyrt í gær eða fyrradag að Laugardalsvöllur væri vegna frosts óleikhæfur (eða hvað það heitir) vegna væntanlegs landsleiks.

 

Var hann samt talinn nógu góður fyrir konurnar?


mbl.is Ísland á EM 2009
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband