Mega embættismenn mótmæla á Austurvelli?

Samkvæmt lögum á ríkisstarfsmaður að

 

rækja starf sitt með alúð og samviskusemi í hvívetna. Hann skal gæta kurteisi, lipurðar og réttsýni í starfi sínu.

 

Ríkisstarfsmanni eru ekki aðeins lagðar þessar beinu (jákvæðu) skyldur á herðar heldur er einnig tekið fram hvað hann má ekki gera (neikvæðar skyldur):

 

Hann skal forðast að hafast nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein er hann vinnur við.

 

Fyrir nokkrum vikum var ég reyndar spurður af forsvarsmanni útifundanna hvort ég vildi vera einn ræðumanna á "útifundi" og tók ég vel í það með því fororði að auðveldara væri að vera fylgjandi einhverju í ræðu minni eða í mesta lagi fjalla gagnrýnið um eitthvert málefni - t.d. verðtryggingu - en ég vildi ekki taka þátt í opinberum mótmælum. Stuttu síðar kom í ljós að um var að ræða mótmælafund þar sem yfirskriftin var eitthvað á þessa leið:

 

Niður með ríkisstjórnina.

 

Bakkaði ég þá strax út með vísan til fororðsins og sagðist forsvarsmaðurinn skilja mig vel. Þá komu þessi lagaákvæði ekki sérstaklega upp í hugann því ég tók þessa ákvörðun að eigin frumkvæði til þess að gæta að trúverðugleika embættis talsmanns neytenda.

 

Framangreind ákvæði koma hins vegar upp í hugann þegar spurt er hvort eðlilegt sé að embættismaður taki almennt þátt í mótmælum - ekki sem ræðumaður heldur bara sem einn af hópnum - þ.e. mótmælafundi eins og þeim sem er haldinn í dag á Austurvelli og haldnir hafa verið undanfarna 6 laugardaga. Reyndar eru frekari kvaðir lagðar á suma ríkisstarfsmenn, embættismenn, en talsmaður neytenda telst til þeirra; í sömu lögum segir um þá:

 

Embættismönnum er óheimilt að efna til eða taka þátt í verkfalli eða öðrum sambærilegum aðgerðum.

 

Þarna var reyndar gengið lengra í frumvarpinu og lagt bann við því að embættismenn tækju þátt í að "stuðla að" verkfalli. Með hliðsjón af því brottfalli má ætla að tjáningarfrelsi ("stuðla að") embættismanna, sbr. 73. gr.  stjórnarskrárinnar, eigi að njóta sambærilegrar verndar og annarra þó að framangreindar hömlur séu lagðar á athafnafrelsi þeirra ("efna til eða taka þátt").

 

Að mínu mati er alveg ljóst að það sem í lögunum er lagt bann við er þátttaka í að leggja niður störf - í verkfalli eða með "öðrum sambærilegum aðgerðum" svo sem yfirvinnubanni eða hægagangi - í því skyni að þrýsta á um kjarabreytingar sér í hag. Lögin verða með engu móti túlkuð þannig að lagðar séu almennar hömlur á athafnafrelsi embættismanna utan starfs þeirra - svo fremi sem þeir virði tilvitnaðar lagareglur um að forðast að aðhafast nokkuð

 

í starfi sínu eða utan þess sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein [...].

 

Undir það gæti t.d. fallið eggjakast í opinberar byggingar.

 

Þessi afmörkun á bannsviði lagaákvæðisins verður að mínu mati enn ljósari þegar haft er í huga að þetta ákvæði það eina í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem refsingu varðar að brjóta:

 

Brot á 40. gr. varða fésektum, nema mælt sé fyrir um þyngri refsingu í öðrum lögum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Gunnarsson

Hvaða "mega" embættismenn voru þetta sem voru að mótmæla?

Semsagt hægt að lesa fleira fleira en eitt útúr fyrirsögninni.

Kv. Steini

Þorsteinn Gunnarsson, 23.11.2008 kl. 00:49

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Það hefði verið gagnlegt að hlusta á þig Gísli. 

Það er aðeins lítið brot mótmælenda sem stunda ósæmilegt atferli eins og eggjakast.  Rétt eins og það er ekki hægt að álassa fólki fyrir að sækja skemmtistaði þó einhverjir eigi það til að slást.

Þar fyrir utan er tæplega hægt að krefjast þess af fólki jafnvel ekki embættismönnum að þeir sýni gáleysislegum stjórnvöldum sérstaka andagt. 

Sigurður Þórðarson, 23.11.2008 kl. 01:18

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég tók þátt í andófi kollega minna vegna ráðningar í stöðu fréttastjóra hljóðvarpsins á RUV á sínum tíma. Kannski mátti ég það ekki?

Ómar Ragnarsson, 23.11.2008 kl. 09:55

4 Smámynd: Gísli Tryggvason

Sá var góður, Þorsteinn. Minnir mig á fyrirsögnina í Degi fyrir um 20 árum: "Látnir þvo slökkviliðsbíla á nóttunni." Yfirfyrirsögnin var: Slökkviliðsmenn á Akureyri. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem misskilja má fyrirsögn hjá mér en það er alveg óviljandi.

Takk Sigurður; ég verð að koma sjónarmiðum um verðtryggingu á framfæri á öðrum og formlegri vettvangi en ég er sammála þér um það sem þú segir.

Sæll Ómar; ég man eftir því enda var ég sem framkvæmdarstjóri og lögmaður BHM lögfræðilegur ráðgjafi ykkar fréttamannanna áður en þið ákváðuð ykkar andóf sem auðvitað var eðlilegt þó að sumir hafi sjálfsagt talið slíkt á gráu svæði.

Gísli Tryggvason, 23.11.2008 kl. 19:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband