Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

"Renaissance"

Frumlegir Frakkar - að hverfa fjóra áratugi aftur í tímann; í þeirri yfirlýstu "menningarbyltingu" felst e.t.v. tilraun til einhvers konar endurreisnar franskrar menningar - en við umboðsmaður barna höfum þó ekki gengið lengra í tillögum okkar um aukna neytendavernd barna en að vilja takmarka sjónvarpsauglýsingar sem beinast að börnum. Vonandi næst sátt um þær tillögur okkar.


mbl.is Auglýsingabann í ríkissjónvarpi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Líklega var maður að ofmeta mikilvægi einstaklingsins" og "við ofmátum virkni markaðarins"

Ég er sammála félaga Bjarna um þetta mat í Kastljósinu í gærkvöldi í kjölfar endurgreiðslu sem er sennilega fordæmalaus hérlendis - en byggist þó væntanlega öðrum þræði á gildandi lagareglum frá 1986 um breytingu ósanngjarnra samninga eftirá og sjónarmiðum um hugsanlegar endurkröfur vegna meintrar mismununar við kaup á hlutafé. Slík endurgreiðsla er þó ekki alveg fordæmalaus ef horft er til útlanda - eins og gert var í samningum við stjórnendur fármálafyrirtækja. 

 

Ekki skal ég hér fjalla um endurgreiðslufjárhæðina en hitt er vonandi líkleg afleiðing af þessu mati - og frumkvæði - Bjarna að meira jafnvægi verði framvegis milli hagsmuna þeirra sem eiga hlut að máli við rekstur og afkomu fyrirtækja, viðgang þjóðfélags og uppbyggingu samfélags, þ.e.a.s. (auk samfélagsins sjálfs):

  • hluthafa,
  • starfsmanna,
  • stjórnenda og
  • neytenda.

 

Síðastnefndi hópurinn - neytendur - gleymdist of lengi og víða (og gleymdi sér jafnvel sjálfur) í góðærinu svonefnda eins og sjá má af öðrum upphafsorðum Bjarna Ármannssonar:

 

Fjárhæðirnar sem slíkar urðu of háar.


mbl.is Endurgreiddi 370 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spilling stjórnmálaafla og möguleiki neytenda til þess að hafa áhrif á þau

Traustvekjandi er að sjá viðskiptaráðherraefnið afþakka embættið af þessari ástæðu - grun um opinbera fyrirgreiðslu sem endurgjald til fyrirtækis fyrir framlag í kosningasjóð. Þetta minnir á lokafall fyrrverandi kanslara Þýskalands, Helmut Kohl, fyrir um áratug í tengslum við fjármálahneyksli Kristilega demókrataflokksins og fleiri slík tilvik erlendis frá.

 

Megin ástæða slíkra afdrifa stjórnmálamanna og jafnvel -flokka er sú að erlendis hafa verið settar reglur um fjármál stjórnmálaflokka og -manna.

 

Bill Richardson, fylkisstjóri Nýju Mexíkó, er talinn mjög hæfur stjórnmálamaður, fyrrverandi kandídat í forsetaframbjóðendaforvali demókrata, áður orkumálaráðherra í ríkisstjórn Bills Clintons og líklega þekktasti stjórnmálamaður af spænskum ættum þarlendis. Samkvæmt fréttinni er ástæða þess að fylkisstjórinn tekur ekki við ráðherraembætti

 

sú, að rannsóknarkviðdómur rannsakar nú hvort Richardson hafi veitt fyrirtæki, sem gaf rausnarlega í kosningasjóði ríkisstjórans, óeðlilega fyrirgreiðslu. 

 

Margir spyrja hvort þessi ástæða gæti átt við hérlendis; rétt er að leggja áherslu á að ekki frekar en í Belgíu við stjórnarslit fyrir skömmu er ástæða þessarar ákvörðunar ekki dómur eða önnur efnisleg niðurstaða til þess bærs aðila - heldur rökstuddur grunur um ólögmætt athæfi.

 

Hérlendis er mútuþægni og svipuð brot í opinberu starfi vitaskuld refsiverð en auk þess tóku gildi fyrir réttum tveimur árum fyrstu lögin um fjármál stjórnmálaflokka o.fl.; að vísu voru lögin ekki sett fyrr en hálfu ári eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar og höfðu því eðlilega ekki áhrif á þær eða prófkjör í tengslum við þær. Verra var að eitt ákvæði laganna - um prófkjör - var látið taka gildi fimm mánuðum síðar, þ.e. eftir að prófkjörum var lokið fyrir alþingiskosningar 2007 (og reyndar kosningunum sjálfum, svo og stjórnarmyndun í kjölfarið).

 

Gott er þó að vita að slíkar reglur eru nú til og er refsivert að brjóta gegn þeim - fyrir utan þau pólitísku áhrif sem brot myndu væntanlega hafa hérlendis eins og hérnefnd dæmi eru fyrirmynd að.

 

Fyrir nokkru hófst rannsókn á framlögum í kosningasjóð Richardsons. Hún beinist meðal annars að því hvort brögð hafi verið í tafli þegar fyrirtæki frá Kaliforníu, sem greitt hafði stóra fjárhæð í kosningasjóð ríkisstjórans,  fékk úthlutað ábatasömu verki í Nýju-Mexíkó. Er verkið metið á 1 milljarð dala.

Richardson segir í yfirlýsingu, að rannsóknin gæti tekið vikur eða mánuði. Hins vegar muni hún leiða í ljós að hann hafi ekki beitt sér með óeðlilegum hætti í málinu. 

 

Nú gera margir vefmiðlar, völuspár og véfréttir hins vegar ráð fyrir nýjum þingkosningum á nýhöfnu ári og er því vert að rifja upp meginatriði í þessum lögum sem urðu umfjöllunarefni mitt í fyrsta óreglulega pistli mínum í talhorninu fyrir réttum tveimur árum:

 

Meginatriði laganna frá þessum [neytenda]sjónarhóli eru þessi:

 

  • Hámark árlegs stuðnings einstaklings eða lögaðila til stjórnmálaflokka eða frambjóðenda verður 300 þús. kr. á ári.
  • Stuðningur hins opinbera verður aukinn í  staðinn.
  • Óheimilt er að taka við öðru framlagi frá opinberum aðilum.
  • Óheimilt er taka við framlögum frá óþekktum gefendum.
  • Óheimilt er að taka við framlögum frá opinberum fyrirtækjum.
  • Óheimilt er að taka við framlögum frá erlendum aðilum.
  • Flokkar og frambjóðendur hafa upplýsingaskyldu gagnvart Ríkisendurskoðun.
  • Birta skal nöfn allra lögaðila sem veita framlög til stjórnmálastarfsemi.
  • Ríkisendurskoðun fer yfir reikningsskil stjórnmálaflokka og frambjóðenda.
  • Brot gegn lögunum geta varðað refsingu.

 

Auðvitað er það galli frá sjónarhóli kjósenda að lögin styðja við þá flokka sem fyrir eru á þingi en ekki ný framboð sem kunna að vilja keppa við þá um hylli kjósenda. Í pistlinum spurði ég hins vegar frá sjónarhóli neytenda

 

 hvort óbein afleiðing af þessum nýju lögum geti verið að auðveldara verði að ná fram réttarbótum til handa neytendum.

 

Mat mitt þá var - og er nú þegar kosningar kunna að vera í aðsigi - þetta:

 

Niðurstaða mín af þessum vangaveltum er því að áhrif einstakra fyrirtækja minnki að líkindum mikið og að áhrifamöguleikar fyrirtækja í heild minnki e.t.v. nokkuð eða jafnist fremur út þegar á heildina er litið. Að sama skapi tel ég líklegt að hlutfallsleg áhrif neytenda og almannasamtaka aukist í samræmi við framangreint.

 

Niðurlagið í pistlinum fyrir tveimur árum var svohljóðandi:

 

Tilgangur laga um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra er skv. 1. gr. þeirra m.a. að

 

„draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum. Markmið laganna er að auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið.“

 

Ef niðurstaða mín er borin saman við yfirlýstan tilgang og markmið laganna ég að framansögðu líklegt að þau dragi úr hættu á hagsmunaárekstrum stjórnmálamanna gagnvart hagsmunum fyrirtækja - en af því leiðir ekki að lögin útiloki hagsmunaárekstra; því þurfa neytendur og fulltrúar þeirra, stofnanir og almannasamtök áfram að vera á verði. Þá er e.t.v. ofsagt að lögin tryggi gagnsæi í fjármálum stjórnamálastarfsemi en væntanlega auka þau gagnsæið enda hefur það nánast ekkert verið. Vonandi eykst traust - neytenda t.a.m. - á stjórnmálastarfsemi en það er komið undir framhaldinu og hegðun stjórnmálafólks og aðhaldi neytenda og annarra. Þá hef ég trú á því að lýðræði eflist og hlutfallsleg áhrif neytenda geti aukist með lögunum þar sem dregið er úr möguleikum fárra stórra fyrirtækja til þess að hafa áhrif á stjórnmálaflokka og frambjóðendur. 

 

Meðal ítarlegra röksemda minna í pistlinum (auk ýmissa fyrirvara) fyrir þessu mati var þessi klausa:

 

Breytist staða neytenda?

Ég geri ekki ráð fyrir að margir einstaklingar hafi gefið stjórnmálaflokkum eða frambjóðendum hærri fjárhæðir en 300 þús. kr. á ári. Þar sem aðeins einstaklingar teljast neytendur í skilningi laga má strax slá því föstu að lögin rýri þannig ekki möguleika venjulegra neytenda til þess að hafa áhrif á stjórnmálaflokka eða frambjóðendur í prófkjörum miðað við stöðuna fyrir gildistöku laganna.

 

Síðan pistlillinn var skrifaður fyrir tveimur árum hefur nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, með sigri sínum fært frekari reynslurök undir framangreint mat enda var stór hluti hans gríðarmikla kosningasjóðs fenginn með mörgum smáum framlögum - fremur en fáum stórum.

 


mbl.is Afþakkar embætti viðskiptaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott val - og gleðilegt ár

Þetta er gott val - sem ég get tekið heils hugar undir miðað við það sem ég hef séð til Harðar Torfasonar undanfarið, og reyndar bæði fyrr og síðar. Þau litlu en góðu kynni sem ég haf haft af Herði staðfesta þetta mat. Ég er ánægður með dómgreind þeirra sem völdu Hörð og ekki hissa á vali í fyrsta sætið - nema kannski að aðeins fimmtungur hafi valið Hörð sem mann ársins:

 

Hörður Torfason hefur verið valinn maður ársins á Rás 2 með 20% atkvæða. Hörður fór mikinn seinnipart ársins en hann sá um að skipuleggja vikuleg mótmæli á Austurvelli í haust. 

 

Lesendum neytendabloggsins og neytendum og samstarfsaðilum öllum óska ég farsælla ári.


mbl.is Hörður Torfason maður ársins á Rás 2
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auglýsingar bannaðar börnum

Ekki er vanþörf á jákvæðum fréttum og tillögum um þessar mundir og hér er ein í lagafrumvarpi menntamálaráðherra sem dreift var í síðustu viku til þess að vernda minnstu neytendur landsins gegn óhóflegri markaðssókn; þar hefur menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fallist á að leggja svohljóðandi reglu til við Alþingi:

 

Ríkisútvarpinu ohf. er óheimilt að sýna auglýsingar meðan á útsendingu barnaefnis stendur. Óheimilt er að sýna auglýsingar sem beinast að börnum í 10 mínútur fyrir og eftir útsendingu slíks efnis. 
 

Þetta er í samræmi við (og gengur meira að segja að vissu leyti aðeins lengra en) tilraunir okkar umboðsmanns barna undanfarin þrjú ár við að sporna við slíkri markaðssókn sem beinist að börnum og eru þær að ná hámarki þessa dagana með leiðbeiningum um aukna neytendavernd barna sem taka gildi um áramótin og hægt er að gera athugasemdir við til jóla.

 

Eina athugasemdin sem ég hafði við ákvæðið í umsögn í gær til menntamálanefndar Alþingis er að það ætti kannski betur heima í almennum útvarpslögum.


Neytendur ekki lengur í vörn - heldur sókn

Hér er enn eitt dæmið að neytendur eru ekki dæmdir til þess að vera endalaust í vörn - heldur geta þeir líka verið í sókn og það á mörgum vígstöðvum eins og þessi dómur sjálfs Hæstaréttar Bandaríkjanna ber vitni um. Ég heyrði reyndar af þessum dómi í gærkvöldi en náði ekki að blogga um hann fyrr þó að ég hafi vísað til hans í viðtali ásamt umboðsmanni barna í Samfélaginu í nærmynd á Rás 1 í morgun um aukna neytendavernd barna.

 

Í frásögn á www.mbl.is segir um dóminn:

 

Dómurinn úrskurðaði að reykingamenn eigi rétt á því samkvæmt neytendalögum að fara í mál vegna merkinga á „light“ sígarettum sem talið er að geta verið blekkjandi.

 

Af þessu má ráða að þó að heimilt sé að selja tiltekna vöru er ekki sjálfsagt að kynna megi þá vöru (eða þjónustu) án fyrirvara enda var í dóminum talið að neytendavernd gegn blekkingum í garð neytenda vægi þyngra en heilsufarsvandamál reykingamannanna 3ja sem reykt höfðu "léttar" sígarettur. Þetta má væntanlega heimfæra á viðleitni okkar umboðsmanns barna, sem rædd var í viðtalinu, við að sporna við markaðssókn sem beinist að börnum - m.a. með aukinni neytendavernd barna gagnvart óhollri matvöru - þó lögleg sé. Drög leiðbeininga embættanna um aukna neytendavernd barna eru til umsagnar til jóla.

 

Í úrskurðinum virðist einnig felast að neytendavernd ryður burt sjónarmiðum um atvinnu- og viðskiptafrelsi þvert á fylkjamörk sem annað fyrirtækið vísaði til. Verður spennandi að fylgjast með efnisniðurstöðu í málinu en Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði í þessu máli aðeins um rétt umræddra neytenda til málsóknar. Það leiðir hugann að öðru sem við Íslendingar getum tekið upp eftir nágrönnum okkar vestan hafs og austan - þ.e. réttarfarshagræðið hópmálsókn.


mbl.is Hæstiréttur BNA dæmir gegn tóbaksframleiðendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

L'État, c'est moi?

Í dag hafa heyrst fréttir af þremur álitamálum sem tengjast þeirri spurningu hvort lögaðili (t.d. stofnun) geti orðið vanhæfur sem slíkur vegna aðgerða eða aðstöðu þess sem er í forsvari fyrir hann eða öfugt.

 

Ríkið það er ég

 

er haft eftir Lúðvík 14. Frakkakonungi sem lýsir öðrum þræði þeirri hugsun að gjörð og ábyrgð æðsta stjórnanda sé lögð að jöfnu við gjörð og ábyrgð þess lögaðila sem hann stýrir.

 

Í fyrsta lagi var sögð sú frétt að laganefnd Lögmannafélags Íslands hefði í umsögn til allsherjarnefndar Alþingis lýst efasemdum um að rétt væri að skipa starfandi hæstaréttardómara í rannsóknarnefnd um bankahrunið þar sem það gæti vakið vafa um hæfi Hæstaréttar í tengdum málum síðar.

 

Í öðru lagi er enn fjallað um hvort endurskoðunarfyrirtækið KPMG geti talist hæft til að sinna á gagnrýninn hátt verkefnum fyrir skilanefnd gamla Glitnis - eins og það hefur gert í um tvo mánuði - í ljósi þess að fyrirtækið hafi séð um endurskoðun tengdra fyrirtækja.

 

Í þriðja lagi er deilt um hvort eðlilegt sé að menn, sem hafi verið í forsvari fyrir tiltekinn banka þegar bankinn var talinn hafa brotið gegn reglum um bankaleynd, geti nú talist hæfir til þess að vera í forsvari fyrir skilanefndir annarra banka.

 

Ég hef ekki hjá mér doktorsritgerð Páls Hreinssonar hæstaréttardómara um hæfisreglur í stjórnsýslurétti en í norrænum skaðabótarétti er talið að ábyrgð æðsta stjórnanda lögaðila jafngildi ábyrgð lögaðilans sjálfs. Sömuleiðis er talið að uppsöfnuð ábyrgð margra starfsmanna - jafnvel óþekktra starfsmanna - lögaðila geti leitt til ábyrgðar lögaðilans sjálfs.

 

Lögfræðin er því oft rökrétt og niðurstöður skynsamlegar; svarið við spurningunni í upphafi er því jákvætt og þarf ekki að leita í stjórnskipunarréttinn til þess að sjá að ábyrgð getur verið fyrir hendi þó að forsvarsmaður beri ekki persónulega sök.


mbl.is KPMG vill rannsókn á störfum fyrir Glitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rúm 60% búast við að stunda vöru- og þjónustuskipti

Fréttir af því að krónan hafi braggast undanfarna tvo viðskiptadaga í vernduðu umhverfi greiðir væntanlega fyrir viðskiptum en yfir 60% svarenda í óformlegri spurningakönnun hér í byrjun vikunnar um hvort þeir stunduðu vöru- eða þjónustuskipti sögðust myndu stunda slík viðskipti í náinni framtíð; þar af var rúmur fjórðungur (rúm 15% allra svarenda) sem ekki sögðust hafa stundað slík viðskipti áður en bjóst við að taka þau upp.

 

Vöru- og þjónustuskipti teljast fyrir hendi þegar greitt er fyrir vöru eða þjónustu með vöru eða þjónustu - en ekki með peningum eða ígildi þeirra.

 

Um 5% svarenda voru hlutlausir eða vissu ekki svarið en taka ber fram að svarhlutfall og svarendur voru fremur fáir enda var óvenju lítil bloggvirkni hér þá daga sem könnunin stóð. Rúm 20% sögðust aldrei hafa stundað slík viðskipti og ekki búast við því en 10% höfðu einhvern tíma greitt fyrir vöru eða þjónustu með skiptum en bjuggust ekki við áframhaldi.


mbl.is Krónan styrktist um 11,5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama fer í spor Lincolns

Það er ekki bara gaman að heyra að frambjóðandinn, sem ég bjóst lengi við að yrði næsti forseti Bandaríkjanna og "studdi" framan af, verði í staðinn næstvaldamesti stjórnmálamaður stórveldisins. Með útnefningu Hillary Rodham Clinton sem utanríkisráðherra síns er Barack Obama að mínu mati einnig að feta í fótspor eins merkasta fyrirrennara síns, Abraham Lincoln, sem veitti svörtum þrælum einmitt frelsi í Borgarastyrjöldinni fyrir hátt í 150 árum.

 

Eitt af því sem einkenndi verk þess klóka hugsuðar var að Lincoln tókst að gera nokkra af sínum helstu keppinautum að ráðherrum sínum og var auk þess talinn hafa náð því besta út úr ráðherrateyminu með því að spila á innbyrðis togstreitu þeirra.

 

PS Hefurðu svarað í könnun hér til vinstri hvort þú stundar vöruskipti, þjónustuskipti eða skipti á vöru og þjónustu?


mbl.is Obama útnefnir Clinton sem utanríkisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundar þú vöru- eða þjónustuskipti?

Þetta er athyglisverð tilraun hjá breska hagfræðingnum sem segist ætla að reyna að lifa í heilt ár án þess að nota peninga en slíkt væri erfiðara á okkar litla eylandi en í Stóra Bretlandi. Samt mætti segja mér að nú við upphaf (tímabundinna) gjaldeyrishafta og með dýpkandi kreppu myndu vöruskipti og þjónustuskipti færast í vöxt.

  

Með lækkandi launum og hækkandi atvinnuleysi, samdrætti, gengishruni og jafnvel vandræðum með fjármagnsflutninga til Íslands og frá hefur væntanlega þegar færst í vöxt að fólk kaupi íslenskt - enda er væntanlega minni hvati til þess að hækka íslenska vöru eða þjónustu í verði af þessum ástæðum.

 

Væntanlega er undirskilið í fjórþættri skilgreiningu á lagahugtakinu "neytandi" að neytandi er einstaklingur sem kaupir vöru eða þjónustu og greiðir með peningum eða loforði um peningagreiðslu (t.d. með greiðslukorti eða ávísun). Hinu spái ég að Íslendingar muni í vaxandi mæli eiga viðskipti með vöru og þjónustu gegn vöru og þjónustu sem greiðslueyri á móti - í stað peninga.

 

Áhugavert væri að fá mælingu á þessu með skoðanakönnuninn hér til vinstri. Hún stendur í fjóra sólarhringa.


mbl.is Er hægt að lifa án peninga?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband