Útrás, já ný útrás - almannahagsmuna

Hér minni ég á tækifæri Íslands - ekki bara sumra Íslendinga - til "útrásar." Kapitalisminn snýst um framboð og eftirspurn - og þar sem nóg framboð er af slæmum fréttum vil ég jafna stöðuna með góðum staðreyndum og tækifærum. Annars vegar stendur ríkissjóður vel og er nánast skuldlaus miðað við aðra slíka eins og flestir hafa nú heyrt stjórnvöld minna á undanfarið. Hins vegar eigum við lífeyrissjóðakerfi á heimsmælikvarða - ekki bara miðað við höfðatölu heldur í raun. 

 

Hvernig væri að huga að útrás þess sem við kunnum betur en flestar aðrar þjóðir?

 

Ekki skal ég þreyta ykkur á tölum - sem má lesa hér á heimasíðu Landssamtaka lífeyrissjóða og hlusta á hér í viðtali við Benedikt Jóhannesson tryggingarstærðfræðing í Kastljósi í síðustu viku; auðvitað rýrna eignir samtryggingarlífeyrissjóðanna okkar við hlutabréfahrunið og afleidda verðrýrnun eigna sjóðanna eins og Benedikt rökstyður og rekur í tölum (rétt eins og sjóðir gildnuðu í "góðærinu" áður).

 

Hitt er annað að hér er ekki bara sóknarfæri fyrir okkur Íslendinga sjálfa - heldur er þarna tækifæri fyrir okkur að kenna öðrum þjóðum (já, við getum ekki bara þegið heldur einnig veitt) hvernig á að stofna og reka samtryggingarlífeyrissjóði og stjórna þeim eins og ég þekki örlítið til úr fyrra starfi mínu í þágu launafólks. Þar eru verðmæti fólgin því á endanum fylgir þátttöku í samfélagi þjóðanna - í ESB eða annars staðar - ekki aðeins rétturinn til að þiggja hjálp vina og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins o.s.frv. heldur einnig skylda til þess að leggja eitthvað af mörkum.´

 

Þó að útrásarfólk og bankakerfið virðist nú (að því er virðist með þegjandi samþykki breskra og íslenskra stjórnvalda) hafa skuldsett íslensku þjóðina um of megum við ekki gleyma að íslenska lífeyrissjóðakerfið er nær einstætt í heiminum fyrir þá sök að þar er safnað fyrirfram og samtímis fyrir lífeyrisréttindum launafólks, þ.e. lífeyrisskuldbindingum vinnuveitenda sem koma í stað sambærilegra skuldbindinga ríkissjóðs (þ.e. "funded" sjóðssöfnunarkerfi); víða annars staðar eru gefin út lífeyrisloforð sem dekkuð eru með framtíðartekjuöflun launafólks og skattgreiðenda ("pay-as-you-go"-kerfi). Okkar ríki er því skuldlaust í tvennum skilningi - bæði nú og þá. Íslenska ríkið/þjóðin stendur því betur en margir halda nú og betur en margir erlendir aðilar virðast telja - en vonandi er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ekki þar á meðal er hann leggur til skilyrði fyrir aðstoð við íslenska ríkið á ögurstundu.


mbl.is Ástandið verra en þjóðargjaldþrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ása Björg

Þetta er góð röksemd hjá þér. Mjög líklegt er þegar rykmökkurinn hverfur þá standi eftir að lífeyrissjóðakerfi okkar Íslendinga er það stöndugasta í heimi. Það er sárt að segja en ef fer sem horfið úti í heimi þá munu margir eldri borgarar ekki hafa mikið undir sér. Þetta lífeyriðsjóðsmódel væri þá hægt að selja öðrum þjóðum og aðstoða við uppsetningu þess.

Við megum náttúrulega ekki gleyma í barlóminum þessa dagana að sjálfsögðu hefur verið gert margt gott hérna á undanförnum árum og áratugum. Nú er okkar að taka stöðuna og gera okkur grein fyrir því hvar verðmæti okkar liggja.

Ása Björg
asabjorg.com

Ása Björg, 14.10.2008 kl. 09:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.