Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Þriðjudagur, 10. mars 2009
Brýnt neytendamál fengist rætt betur að loknu stjórnlagaþingi
Mér sýnast umræður í bloggfærslum um þessa frétt staðfesta mál mitt; í færslu í gærkvöldi vék ég að því að umræður um þingmálið (snemmbúna útgreiðslu séreignalífeyrissparnaðar vegna skuldavanda heimilanna) og umræður um þær umræður - í þingnefnd og í þingsal - sýndu að næsta mál á dagskrá - stjórnlagaþing - væri brýnt mál, jafnvel neytendamál.
Hér virðist mér ekki aðeins vera fyrir hendi dæmi um vantraust milli meirihluta og minnihluta Alþingis heldur milli þings og þjóðar; málefnalegt álitaefni varð að ómálefnalegri umræðu vegna þess að löng umræða á þingi á Íslandi er - réttilega - skilgreind sem málþóf! Það er galli á ríkjandi stjórnskipulagi.
Þess vegna var ákveðið í þetta skipti að Alþingi hefði ekki forystu um endurskoðun stjórnarskrárinnar að þessu sinni.
Saka sjálfstæðismenn um málþóf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 9. mars 2009
Alveg milljón
Aldrei þessu vant fór ég á þingpalla eftir vinnu til þess að hlýða á umræðu um hugðarefni mitt - stjórnlagaþing - en varð fyrst óvænt vitni að fróðlegum og nokkuð málefnalegum umræðum um efnahagsmál og hagsmuni heimilanna - þ.m.t. hvort réttmætt væri að færa niður skuldir heimilanna vegna efnahagshrunsins. Síðan hófst ítarleg umræða um útgreiðslu séreignalífeyrissparnaðar vegna skuldavanda heimilanna sem ég fylgdist með fram undir kvöldmatarleyti og svo aftur á sjónvarpsskjánum nú í kvöld - enda hefur umræðan staðið með litlum hléum síðan skömmu eftir kaffileytið. Framan af trúði ég ekki því, sem hvíslað var í stigaganginum og ýjað að í þingsölum, að aðeins væri um að ræða málþóf af hálfu stjórnarandstöðunnar - enda virtist mér umræðan þörf og málefnaleg efnislega.
Deilan í þingsölum í kvöld snerirst í stuttu máli meira um hvernig - en ekki hvort - ætti að greiða út eina milljón króna í séreignalífeyrissparnaði ef fólk sækir um það vegna efnahagsástandsins og skuldavanda heimilanna. Þá var deilt í löngu máli um hvort breytingartillaga stjórnarandstöðuþingmanns hefði átt að koma til (meiri) álita í þingnefnd áður en málinu yrði ráðið til lykta í þingsal.
Hlutirnir tala sínu máli; vaninn er (því miður) ekki að talað sé um brýn hagsmunamál fram á kvöld á þingi. Þó að ég hafi því miður ekki náð að gefa umsögn um málið til þingnefndarinnar hef ég satt að segja haft efasemdir um réttmæti þess að heimila yfirleitt tímabundna útgreiðslu séreignalífeyrissparnaðar - fyrr en hann kemur til útgreiðslu á sjötugsaldri - í áföngum í því skyni að létta skuldaböggum af fólki. Horfi ég þá til þeirrar hættu að neytendur verði óbeint knúðir til þess að sækja um slíkt - vegna skuldavanda sem er ekki endilega þeirra sök þar sem verðbólga hefur rokið upp úr öllu valdi (nær 20% undanfarið ár) og gengi íslensku krónunnar hrunið í tvígang á síðasta ári. Þá er álitamál hvort slík útgreiðsla bjargar miklu eða skilur neytendur einungis eftir í verri málum ef þeir lenda í þroti í kjölfarið. Loks er álitamál hve vel það hentar í núverandi ástandi að greiða út lífeyrissparnað í stórum stíl þar sem eignir að baki sparnaðinum eru ekki auðseljanlegar.
Enn frekar virðist mér málefnið, sem má lesa sér til um og hlusta á hér, um hvaða fyrirkomulag eigi að vera á slíkri útgreiðslu og skilyrði hennar í sjálfu sér mjög mikið álitaefni.
Nú þegar málið hefur verið rætt í á 7. klst. í þingsölum hef ég áttað mig á því að vandinn er sá að Alþingi er ekki nógu sterkt - en úr því á stjórnlagaþing m.a. að bæta; kjarni málsins er sem sagt þessi: Þegar löggjafarþingið (stjórnarandstaðan) hefur málefnalegar efasemdir fram að færa við mál sem handhafar framkvæmdarvalds (stjórnarmeirihlutinn) hafa undirbúið er því - með réttu (eins og e.t.v. í þessu tilviki) eða röngu (í eðlilegu stjórnskipulagi) - haldið fram að um sé að ræða ómálefnalegar tafir, málþóf.
Þessu þarf að breyta; hagur neytenda - m.a. - er í húfi. Ég held að stjórnlagaþing sé rétti vettvangurinn til þess.
Vilja ræða efnahagsfrumvörp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 4. mars 2009
Stóra Grágásarmálið II
Ég má til með að tjá mig um þetta síðara gæsarrán enda um nóg annað að blogga á morgun en ég kynntist vel síðustu gæsarræningjum fyrir um 16 árum þegar ég var ungur laganemi í móttökunefnd norrænna laganema.
Þarna tókust á ólíkar siðvenjur því Íslendingar töldu rán gæsarinnar of langt gengið í annars viðurkenndum strákapörum enda andstætt hegningarlögum. Norðmennirnir, sem voru afar skemmtilegir félagar og afburðalögspekingar, töldu rótgróna siðvenju í áralöngu samstarfi norrænna laganema í (þá 12) lagadeildum norrænna háskóla æðri almennum lögum og fylgdu þeirri skoðun nær allt til enda því þeir voru þeirrar skoðunar að ræna þyrfti Grágás til baka eða e.t.v. öðru sem skipta mætti á.
Þáverandi stjórn Orators, með bankalögfræðinginn Gunnar Thoroddsen, sem formann Orators þá, í forsvari brást hins vegar hart við enda var um að ræða tákn Orators, félags laganema, og um leið lagasafns þjóðveldis Íslendinga. Leitaði Orator aðstoðar utanríkisþjónustunnar sem norskum frændum okkar þótti heldur þunnur þrettándi en gerðu gott úr.
Grágás í utanlandsferð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 24. febrúar 2009
Rök fyrir niðurfærslu húsnæðislána
Hér er ágæt og ítarleg frásögn í nýlegri bloggfærslu Rakelar Sigurgeirsdóttur af erindi mínu á borgarafundi á Akureyri fyrir um tveimur vikum varðandi rök fyrir almennri niðurfærsla íbúðarlána vegna forsendubrests og af fleiri lagalegum ástæðum - bæði hvað varðar gengistryggð og verðtryggð íbúðarlán:
Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, reið á vaðið. Hann ræddi um húsnæðislánin, bæði gengistryggðu lánin og þau erlendu [les: bæði gengistryggðu lánin og þau verðtryggðu; GT], út frá réttindum lántakenda. Hann dró fram fjögur rök fyrir því að þessi lán verði endurskoðuð en þau kallaði hann: forsendubrest, sanngirnisrök, eignaréttarrök og hagfræðileg rök.Það sem hann benti á að hefði valdið því sem hann kallaði forsendubrest þessara lána er m.a. það að áhættustigið hefur margfaldast. Hann undirstrikaði það að neytandinn væri látinn bera alla áhættuna hvað forsendur lánanna varðar. Þar vakti hann athygli á því hvað gerðist í sambandi við erlendu lánin þegar ríkinu mistókst að viðhalda genginu.
Það sem vakti mesta athygli mína af því sem Gísli nefndi í sambandi við sanngirnisrökin er að hann velti því fyrir sér hve sanngjörn markaðssetning erlendu lánanna hafi verið. Ég er ein þeirra sem get nefnt dæmi um það að kostir erlends myntkörfuláns voru mjög tíundaðir í mín eyru. Þetta var þegar ég þurfti á láni að halda árið 2004.
Ég var mjög treg en lét tilleiðast eftir að yfirmaðurinn í bankanum hafði gefið mér persónulegt loforð um skuldbreytingu lánsin yfir íslenskt lán ef ég gæti rökstutt það að það sem mér hefði verið verið sagt um kosti lánsins stæðist ekki. Tveimur árum seinna fékk ég láninu breytt. Reyndar eftir eins árs jarm af minni hálfu um skuldbreytinguna. Veit ekki hvort rök mín voru nokkurn tímann tekin gild en þau blöstu við mér. Það skipti mig sem sagt meira máli að minnka skuldabyrðina í nútímanum en það að hafa borgað minna þegar upp var staðið og lánið uppgreitt einhvern tímann í framtíðinni.
Þriðju rökin, sem Gísli dró fram sem lögfræðileg - og neytendapólitísk rök fyrir því að húsnæðislánin og þá einkunn erlendu lánin væru tekin til rækilegrar endurskoðunar nefndi, hann eignaréttarrök. Þar benti hann á að greiðslugeta húsnæðiskaupenda færi minnkandi um leið og veðhæfi eignarinnar sem stæði undir láninu færi lækkandi líka.
Að lokum voru það hagfræðileg rök sem Gísli nefndi máli sínu til stuðnings. Þar benti hann á að ástæða væri til að endurskoða og -reikna þessi lán til að vernda aðra markaði samfélagsins. Hann sagði að ef allar ráðstöfunartekjur húsnæðiskaupenda færu í að greiða af húsnæðislánunum þá yrði lítið sem ekkert eftir til að viðhalda öðrum mörkuðum sem þyrfti að viðhalda svo samfélagið fúnkeraði.
Gísli lauk máli sínu með því að benda á að, að óbreyttu þá myndu neytendur, þ.e. lántakendur og þá aðallega þeir sem skulda húsnæðislán, bera allan skellinn sem hrun bankanna olli.
Í bloggfærslu Rakelar er einnig rakið inntakið í öðrum erindum á borgarafundinum á Akureyri um stöðu heimilanna en meðal annarra framsögumanna var fulltrúi Hagsmunasamtaka heimilanna.
Fimmtudagur, 19. febrúar 2009
"Told you so"
Talsmaður neytenda lagði á fundi starfshópsins fram þá breytingartillögu að spegilregla yrði lögfest. Tillagan var svohljóðandi: Við 3. mgr. 16. gr. a bætist svohljóðandi málsliður:´Sé samið um uppgreiðslugjald í lánssamningi skal neytandi með sama hætti og með sömu reiknireglu eiga rétt á endurgreiðslu ávinnings sem lánveitandi nýtur vegna uppgreiðslu láns fyrir þann tíma sem umsaminn er´. Við 4. mgr. 16. gr. a bætist orðin ´og á ávinningi´ á eftir orðunum á tjóni í lokamálslið. Röksemdir tillögunnar voru eftirfarandi: Tillaga að lagatexta gerir ráð fyrir að lánveitendum og neytendum sé að meginstefnu til heimilt að semja um uppgreiðslugjald vegna þess tjóns sem lánveitandi bíður vegna uppgreiðslu af hálfu neytanda áður en lánssamningur hefur runnið sitt skeið. Fallist er á að eðlilegt sé að neytandi, sem ákveður að nýta sér samningsbundinn rétt til uppgreiðslu, bæti slíkt tjón fremur en að því sé jafnað út á aðra neytendur með hærri vöxtum. Slík uppgreiðsla - hver sem ástæða hennar er - getur hins vegar ekki aðeins haft í för með sér tjón fyrir lánveitanda, þ.e. hafi vextir lækkað í millitíðinni. Uppgreiðsla getur einnig haft í för með sér ávinning fyrir lánveitanda, þ.e. ef vextir hafa hækkað í millitíðinni en þá er reyndar ólíklegt að margir neytendur nýti sér umsaminn rétt til uppgreiðslu; til þess getur þó komið vegna aðstæðna neytanda. Ástæðulaust þykir að lánveitandi hagnist vegna þessa á kostnað einstaks neytanda þó að sá hafi ákveðið að nýta sér samningsbundinn rétt til uppgreiðslu. Í samræmi við það meginsjónarmið að jafnræði eigi að ríkja með neytendum og viðsemjendum þeirra, í ljósi meginreglu um gagnkvæmni í kröfurétti og réttarreglna um óréttmæta auðgun þykir sjálfsagt að ef breyting á lánssamningi færir lánveitanda ávinning umfram það sem lánssamningur gerði ráð fyrir þá eigi neytandi - en ekki lánveitandi - að njóta þess ávinnings rétt eins og lánveitanda eru tryggðar bætur fyrrir það tjón sem hann bíður í sumum tilvikum. Tillagan var ekki samþykkt af meirihluta starfshópsins.
Axel Kristjánsson hrl. hefur ennfremur látið í ljósi þá skoðun sína að í ljósi þess að uppgreiðslugjaldi sé samkvæmt tillögunni ætlað að bæta tjón, kunni að vera andstætt grundvallarreglu skaðabótaréttarins að takmarka bætur ivð tiltekna prósentu af tjóninu samkvæmt uppreiknuðum eftirstöðvum láns á uppgjörsdegi. Talsmaður neytenda tekur undir með Axel og vísar til þess að svokölluð spegilregla hefði verið betur til þess fallin að ná sanngjarnri niðurstöðu auk þess sem rétt sé að bíða samræmdra reglna frá ESB um uppgreiðslurétt og uppgreiðslugjald, sbr. kafli 4.1. í III. hluta skýrslunnar.
Uppgreiðslugjald fellt niður tímabundið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 17. febrúar 2009
Skuldafangelsi afnumið
Þetta er afar brýnt og gott mál hjá nýju ríkisstjórninni, þ.e. að stytta fyrningarfrest í kjölfar gjaldþrots í tvö ár. Mig langar að vísa í rökstuðning í sömu átt úr frétt um umsögn mína um frumvarp til nýrra heildarlaga um fyrningu kröfuréttinda fyrir rúmu ári:
Hve lengi og oft á krafa að endurnýjast?
Neytendapólitískt efast talsmaður neytenda um réttmæti þess að halda megi kröfum í gildi endalaust. Um það segir í umsögninni:
Ég tel eðlilegt að viðskiptanefnd íhugi að fjárkröfur á hendur neytendum hafi endanlegan gildistíma í þeim skilningi að lög um fyrningu kröfuréttinda leggi bönd á það við hvaða skilyrði eða hversu oft kröfuhafi getur endurnýjað kröfu með því að slíta fyrningu kröfu að nýju.
Með þessu er öðrum þræði skírskotað til meðábyrgðar kröfuhafa á því að krafa sem ekki greiðist hafi stofnast á hendur neytanda - sem stundum er frá upphafi ófær um að standa í skilum en stundum vegna síðar tíl kominna atvika. Neytendur bera ábyrgð en kröfuhafar - svo sem lánveitendur - einnig. Vísaði ég þar m.a. til fyrri umsagnar minnar um drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga sem eiga að leysa af 100 ára gömul fyrningarlög.
Í umsögninni ítrekaði ég umsögn um drög fyrri viðskiptaráðherra fyrir tveimur og hálfu ári að frumvarpi til nýrra fyrningarlaga. Viðskiptaráðuneytið (eða - réttara sagt - lögmaður úti í bæ sem mun hafa samið frumvarp til fyrningarlaga fyrir viðskiptaráðuneytið) og viðskiptanefnd Alþingis féllust ekki á þessa ábendingu. Í fréttinni segir:
Jafnframt er lagt til að þegar kröfu er lýst í þrotabú hefjist nýr fyrningarfrestur sem er tvö ár. Hér er um styttingu á fyrningarfresti að ræða frá því sem verið hefur, en hann hefur verið mislangur.
Í fyrri frétt um sama mál í dag sagði:
Frumvörp til breytinga á lögum um nauðungarsölu, gjaldþrot og aðfararaðgerðir verða lögð fyrir Alþingi í dag eða morgun, að því er Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra greindi frá á blaðamannafundi í hádeginu í dag. Meðal boðaðra breytinga er að kröfur á gjaldþrota einstaklinga fyrnast á tveimur árum í stað 10, nauðungarsölum á húseignum verður frestað um sex mánuði þannig að þær geta í fyrsta lagi farið fram í ágúst og að þeir sem missa hús sín vegna nauðungarsölu geta búið þar í eitt ár frá því salan fer fram.
Framangreint er aftur í samræmi við fyrstu skref sem rædd eru í nýframkomnu ákalli til stjórnvalda um lausn á efnahagsvanda heimilanna en meira þarf að koma til eins og þar er lýst.
Svigrúm skuldara aukið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 11. febrúar 2009
Nánar um vanskilagjöld, seðilgjöld og önnur gjöld sem neytendur eru krafðir um - ýmist með réttu eða röngu
Í kjölfar umfjöllunar í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöldi um vanskilagjöld o.fl. gjöld rignir fyrirspurnum - bæði frá neytendum, kröfuhöfum, fjármálafyrirtækjum o.fl. - um hvað sé hið rétta í málinu varðandi vanskilagjöld, seðilgjöld, tilkynningar- og greiðslugjöld og jafnvel gjald fyrir innheimtuviðvörun. Það sýnir að full þörf er á frekari umfjöllun um málið og útskýringu á réttarstöðunni; eitthvað er þó þegar til af efni sem hér skal vísað á auk umfjöllunar í stuttu máli.
Mér virðist reyndar að kröfuhafar og fjármálafyrirtæki auðveldi neytendum og öðrum ekki að skilja málið þar sem stundum eru notuð misvísandi hugtök. Í mínum huga er í meginatriðum um að ræða þrenns konar gjöld - sem að einhverju leyti virðist ruglað saman:
- Vanskilagjöld eru gjöld sem ég hef lengi talið óheimil. Annars vegar vegna þess að oft skortir sambærilegan samningsgrundvöll fyrir þeim og lýst er varðandi seðilgjöld hér að neðan í 3. tl. Hins vegar vegna þess að í vaxtalögum er kveðið á um staðlaðar skaðabætur - svonefnda dráttarvexti - fyrir að greiða peningaskuld ekki á réttum tíma; hæpið er að annar aðilinn víki frá slíkum ófrávíkjanlegum lagafyrirmælum með einhliða ákvörðun um "vanskilagjald" til viðbótar ríflegum skaðabótum sem löggjafinn hefur ákveðið. Frá og með 1. febrúar sl. eru vanskilagjöld berum orðum bönnuð samkvæmt reglugerð viðskiptaráðherra um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar o.fl. sem sett var fyrir þremur vikum enda tel ég bráðabirgðaákvæði um þrönga undanþágu út febrúarmánuð ekki eiga við um svo einfalt atriði. Vera kann að sumir kröfuhafar eða fjármálafyrirtæki kalli gjald fyrir innheimtuviðvörun, sbr. 2. tl. hér að neðan, óvart vanskilagjald og valdi þar með misskilningi um að gjaldheimtan sé óheimil.
- Gjald fyrir innheimtuviðvörun samkvæmt innheimtulögum frá í fyrravor, sem tóku gildi nú um áramótin, er því miður heimilt samkvæmt lögunum þó að í innheimtuviðvörun felist fyrst og fremst ágæt réttarbót frá fyrra ástandi. Gjaldið má að hámarki vera 900 kr. samkvæmt áðurnefndri reglugerð og þá aðeins ef viðvörun er réttnefni, þ.e. ef hún er send eftir gjalddaga.
- Seðilgöld eru gjöld sem fyrir nokkrum árum var farið rukka neytendur og aðra skuldara um samhliða greiðslu án þess að um vanskil væri að ræða. Mér virðast tilkynningar- og greiðslugjald vera annað heiti yfir það sama. Fleiri heiti kunna að tíðkast. Fljótlega eftir að ég tók við nýju embætti talsmanns neytenda fyrir rúmum þremur árum fór ég að amast við slíkum gjöldum með röksemdum, sem raktar eru hér að neðan, en mætti skiljanlega andstöðu frá kröfuhöfum, fjármálafyrirtækjum og jafnvel fleirum; taka ber fram að bestu rökin með seðilgjaldi eru að mínu mati umhverfisrök og þau rök að sá, sem vill fá pappír sendan til áréttingar greiðsluskyldu, eigi að greiða fyrir það sjálfur. Gagnrýni mín á svonefndan FIT-kostnað og andstaða mín o.fl. við seðilgjöld leiddi til þess í ágúst 2007 að nýr viðskiptaráðherra skipaði starfshóp um málið sem féllst á eftirfarandi röksemdir mínar í skýrslu frá desember 2007 sem má lesa hér ásamt viðbrögðum þáverandi viðskiptaráðherra í janúar 2008. Hér má lesa upplýsingar um málið á vef Neytendastofu og meðferð af hennar hálfu. Í stuttu máli eru rök mín gegn lögmæti seðilgjalda eftirfarandi (sbr. nánar í áðurnefndri skýrslu, bls. 11-12, einkum neðanmálsgrein 6):
- Seðilgjald er stundum beinlínis andstætt lögum sem Alþingi hefur sett.
- Jafnvel þótt svo sé ekki í öllum tilvikum skortir oft stoð í samningi fyrir seðilgjaldi sem gerður hefur verið við neytanda, beint eða óbeint (þ.e. óbeint í skilmálum fyrirtækis sem neytandi hefur fengið tækifæri til þess að kynna sér).
- Seðilgjald á að vera sanngjarnt og byggt á raunkostnaði en á það hefur skort.
Tvær leiðir voru ræddar í starfshópnum og nefndar í skýrslu hans (bls. 11-12):
A) Algert bann við seðilgjöldum - sem hefði verið einfaldast; ekki var fallist á það - m.a. með vísan til ofangreindra röksemda með seðilgjöldum og til samningfrelsis.
B) Skilyrt heimild til töku seðilgjalda sem viðskiptaráðherra framfylgdi með tilmælum í kjölfarið; skilyrðin voru fjögur, eftirfarandi:
- Samningur um seðilgjald.
- Sannanlegur raunkostnaður að baki seðilgjaldi.
- Reikningur sé sendur.
- Raunhæfur gjaldfrjáls valkostur til þess að komast hjá seðilgjaldi.
Nú þegar tæpt ár er liðið frá tilmælum þessum kann að vera tímabært að íhuga kost A) - fortakslaust bann í lögum við seðilgjaldi - þar sem ástandið virðist lítið hafa batnað síðan frá sjónarhóli neytenda.
Þriðjudagur, 10. febrúar 2009
Prófessorarnir telja almenna skuldauppgjöf skilvirkasta
Í umtalaðri skýrslu Jóns Daníelssonar, prófessors við London School of Economics, og Gylfa Zoega, prófessors við Háskóla Íslands, er vikið að stuðningi fyrir heimili og fyrirtæki. Þar segir m.a. að verulegur fjöldi heimila og fyrirtækja eigi við alvarlega erfiðleika að stríða og að við mörgum blasi gjaldþrot. Þá er fullyrt að til þess að mæta þessum vanda hafi ferli gjaldþrotaskipta að miklu leyti verið fryst. Þetta held ég reyndar að sé ofmælt því að ný ríkisstjórn hefur vissulega kynnt áform um frestun fullnustugerða auk þess sem sú fyrri sendi frá sér ýmis tilmæli um að sýna sveigjanleika - en lög hafa enn ekki verið samþykkt í þessu efni. Þá segir í ritgerð prófessoranna:
Einnig hefur verið gripið til aðgerða til þess að létta greiðslubyrði lána einstaklinga.
Það eru orð að sönnu en prófessorarnir gefa í skyn að varanlegri lausn þurfi að koma til - og má skilja þá þannig að þar eigi neytendur einnig að njóta sanngirni í kjölfar gengis- og kerfishruns:
Skuldaniðurfellingar í einhverju formi eiga sér nú þegar stað. Sú staðreynd að bankarnir eru í höndum ríkisins, þ.e. flestar skuldir einkaaðila eru gagnvart hinu opinbera, auðveldar skipulagningu slíkrar skuldaniðurfellingar. [prentvilla leiðrétt]
Þetta er skiljanleg afstaða og raunsæ en hún er þó vonandi ekki rót þeirrar nálgunar sem lesa má úr stjórnarfrumvarpi um greiðsluaðlögun sem forseti ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson, gagnrýndi - að mínu mati með réttu - í hádegisfréttum hljóðvarps í gær með vísan til þess að ójafnræði fælist í því að niðurfelling skulda með greiðsluaðlögun yrði takmörkuð við skuldir hjá lánastofnunum í ríkiseigu. Prófessorarnir Gylfi og Jón virðast þó aðhyllast almennari leið til niðurfærslu höfuðstóla lána - neytenda og annarra sem ekki eru taldir "ábyrgir fyrir hruninu" - því þeir segja að skilvirkasta leiðin til skuldaniðurfellingar væri
að koma á einföldu kerfi þar sem það sama myndi yfir alla ganga. Þetta er þó útilokað pólitískt séð þar sem það myndi fela í sér almenna skuldauppgjöf fyrir þá sem taldir eru ábyrgir fyrir hruninu. Einnig er ekki skynsamlegt að fella niður skuldir eignarhaldsfélaga og fyrirtækja sem ekki eiga framtíð vegna breyttra aðstæðna í hagkerfinu.
Af þessu má ráða að prófessorarnir telji ekkert því til fyrirstöðu að neytendur og aðrir sem ekki bera ábyrgð á hruninu fái almenna skuldauppgjöf.
Vítahringur í peningamálum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 10. febrúar 2009
Réttlætið sigrar
Dómurinn sýnir sjálfstæði dómstóla gagnvart löggjafanum. "Kerfið" er því ekki alslæmt eins og stundum virðist almannarómur. Fyrir nokkrum árum - þegar fréttakona RÚV birti það svar Árna Johnsens alþingismanns að margumspurðir steinar, keyptir í ríkisreikning hjá Þjóðleikhúsinu, væru "geymdir" á ónefndum eða góðum stað gaf ólöglærður samstarfsmaður minn til kynna vantraust sitt á kerfinu með því að segja á kaffistofunni á þáverandi vinnustað eitthvað á þá leið að þingmaðurinn myndi auðvitað sleppa eins og aðrir "í kerfinu."
Þrátt fyrir ónógt sjálfstæði dómsvaldsins hérlendis undanfarin ár hafði ég þó enn nægilegt traust á kerfinu til þess að slá því strax föstu að Árni myndi segja af sér og yrði vitaskuld dæmdur í fangelsi - og gott ef ég giskaði ekki nokkurn veginn rétt á 2ja ára fangelsisdóm, ef ég man rétt, í ljósi þeirrar opinberu trúnaðarstöðu sem hann gegndi (og gegnir reyndar að nýju eftir uppreisn æru frá handhöfum forsetavalds og nýja kosningu til Alþingis nokkrum árum síðar).
Þetta rifja ég upp til þess að minna á að þrátt fyrir ýmsa galla (bæði kerfislæga og persónubundnari) á réttarkerfi okkar - sem við leitumst vitaskuld ávallt við að laga - er kerfinu treystandi til margs þó að sumum hafi þótt biðin löng þar til aðgerðir hófust.
Réttlætið mun sigra.
Lögin gegn stjórnarskrá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 9. febrúar 2009
Gróf aðför gegn vísinda- og skoðanafrelsi
Þessi ljóta saga rennir stoðum undir áralangar efasemdir mínar um að atvinnulífið eigi að styrkja tilteknar kennara- eða rannsóknarstöður - en ekki kemur þó fram að um slíkt sé að ræða í þessu tilviki. Sambærileg afskipti eru reyndar sérstaklega bönnuð atvinnurekendum gagnvart starfsmönnum sínum í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur frá 1938 en þar segir:
Atvinnurekendum, verkstjórum og öðrum trúnaðarmönnum atvinnurekenda er óheimilt að reyna að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna sinna, afstöðu þeirra og afskipti af stéttar- eða stjórnmálafélögum eða vinnudeilum með:
a. uppsögn úr vinnu eða hótunum um slíka uppsögn,
b. fjárgreiðslum, loforðum um hagnað eða neitunum á réttmætum greiðslum.
Í tilviki Vilhjálms virðist tilvikið enn grófara að því leyti sambandið er aðeins óbeint þar sem hótunin lýtur að því að hætta almennum styrkjum til háskóladeildar ef kennari í reglulegu starfi verði ekki rekinn vegna gagnrýni sinnar á viðskiptalífið. Ef slíkt tíðkast er enn meiri hætta á að styrkjum sé misbeitt gagnvart þeim sem sitja í kennara- eða rannsóknarstörfum sem eru sérstaklega styrkt af fyrirtækjum eða hagsmunasamtökum; þá er einfaldlega hætt að styrkja starfið ef rannsóknarefnið eða niðurstaðan er styrkgreiðandanum ekki að skapi.
Mál Vilhjálms þarf að rannsaka enda felst í því gróft brot gegn vísinda- og skoðanafrelsi en tilvitnað lagaákvæði á að tryggja hið síðarnefnda.
Með sama hætti má efast um réttmæti sértækra styrkveitinga frá atvinnulífinu út frá jafnræði hagsmuna; hvenær höfum við heyrt að samtök launafólks eða neytenda hafi styrkt rannsóknar- eða kennslustörf?
Vildu Vilhjálm Bjarnason burt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |