Alveg milljón

Aldrei þessu vant fór ég á þingpalla eftir vinnu til þess að hlýða á umræðu um hugðarefni mitt - stjórnlagaþing - en varð fyrst óvænt vitni að fróðlegum og nokkuð málefnalegum umræðum um efnahagsmál og hagsmuni heimilanna - þ.m.t. hvort réttmætt væri að færa niður skuldir heimilanna vegna efnahagshrunsins. Síðan hófst ítarleg umræða um útgreiðslu séreignalífeyrissparnaðar vegna skuldavanda heimilanna sem ég fylgdist með fram undir kvöldmatarleyti og svo aftur á sjónvarpsskjánum nú í kvöld - enda hefur umræðan staðið með litlum hléum síðan skömmu eftir kaffileytið. Framan af trúði ég ekki því, sem hvíslað var í stigaganginum og ýjað að í þingsölum, að aðeins væri um að ræða málþóf af hálfu stjórnarandstöðunnar - enda virtist mér umræðan þörf og málefnaleg efnislega.

 

Deilan í þingsölum í kvöld snerirst í stuttu máli meira um hvernig - en ekki hvort - ætti að greiða út eina milljón króna í séreignalífeyrissparnaði ef fólk sækir um það vegna efnahagsástandsins og skuldavanda heimilanna. Þá var deilt í löngu máli um hvort breytingartillaga stjórnarandstöðuþingmanns hefði átt að koma til (meiri) álita í þingnefnd áður en málinu yrði ráðið til lykta í þingsal.

 

Hlutirnir tala sínu máli; vaninn er (því miður) ekki að talað sé um brýn hagsmunamál fram á kvöld á þingi. Þó að ég hafi því miður ekki náð að gefa umsögn um málið til þingnefndarinnar hef ég satt að segja haft efasemdir um réttmæti þess að heimila yfirleitt tímabundna  útgreiðslu séreignalífeyrissparnaðar - fyrr en hann kemur til útgreiðslu á sjötugsaldri - í áföngum í því skyni að létta skuldaböggum af fólki. Horfi ég þá til þeirrar hættu að neytendur verði óbeint knúðir til þess að sækja um slíkt - vegna skuldavanda sem er ekki endilega þeirra sök þar sem verðbólga hefur rokið upp úr öllu valdi (nær 20% undanfarið ár) og gengi íslensku krónunnar hrunið í tvígang á síðasta ári. Þá er álitamál hvort slík útgreiðsla bjargar miklu eða skilur neytendur einungis eftir í verri málum ef þeir lenda í þroti í kjölfarið. Loks er álitamál hve vel það hentar í núverandi ástandi að greiða út lífeyrissparnað í stórum stíl þar sem eignir að baki sparnaðinum eru ekki auðseljanlegar.

 

Enn frekar virðist mér málefnið, sem má lesa sér til um og hlusta á hér, um hvaða fyrirkomulag eigi að vera á slíkri útgreiðslu og skilyrði hennar í sjálfu sér mjög mikið álitaefni.

 

Nú þegar málið hefur verið rætt í á 7. klst. í þingsölum hef ég áttað mig á því að vandinn er sá að Alþingi er ekki nógu sterkt - en úr því á stjórnlagaþing m.a. að bæta; kjarni málsins er sem sagt þessi: Þegar löggjafarþingið (stjórnarandstaðan) hefur málefnalegar efasemdir fram að færa við mál sem handhafar framkvæmdarvalds (stjórnarmeirihlutinn) hafa undirbúið er því - með réttu (eins og e.t.v. í þessu tilviki) eða röngu (í eðlilegu stjórnskipulagi) - haldið fram að um sé að ræða ómálefnalegar tafir, málþóf.

 

Þessu þarf að breyta; hagur neytenda - m.a. - er í húfi. Ég held að stjórnlagaþing sé rétti vettvangurinn til þess.


mbl.is Vilja ræða efnahagsfrumvörp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: TARA

Sammála síðasta ræðumanni

TARA, 10.3.2009 kl. 00:32

2 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Ég hef minnst á það áður Gísli að þjóðstjórn væri besti möguleikinn í þeirri stöðu sem komin er og að það myndi leysa mikið málþóf ef hægri og vinstri menn gætu sameinast nú á verstu tímum.

Alveg sammála þér að mjög mikið vafamál sé hvort ráðlegt sé að greiða út séreignarlífeyrissparnaði á þessari stundu. Fyrst og fremst verður að stöðva verðbólguna og stuðla hér að aukinni atvinnusköpun sem reyndar hefur verið gert nú með sköpun um 4.000 starfa.

Vil svo bara þakka þér Gísli minn fyrir þessa veglegu grein sem og að standa upp fyrir okkur neytendurnar.

Hilmar Gunnlaugsson, 10.3.2009 kl. 00:39

3 Smámynd: Hjalti Tómasson

Ég tel að fara hefði átt aðra leið en þessa til að létta á heimilunum. Ein leiðin hefði hugsanlega verið að skikka banka og lánastofnanir, hvort sem þær eru í ríkiseigu eða ekki, að hægja á sér í innheimtu, taka verðbætur útfyrir greiðsluskyldu og halda til haga á sérreikning og skoða þegar ástandið hefur lagast. Verðtrygging reiknast eftir sem áður af lánunum, við kaupum okkur tíma með því að gera þetta svona.

Þar sem verðtrygging varð til úr engu og er meira og minna bókhaldslegt atriði fyrir lánastofnanir þá trúi ég ekki öðru en hægt sé að finna leið til að létta þessum krossi af lángreiðendum, þó ekki sé nema tímabundið eða þar til við höfum náð áttum og séð hvaða kostir eru vænlegir.

Með útgreiðslu sérlífeyrissparnaðar nú er verið að seilast enn dýpra í vasa fólks og hugsanlega að festa fólk í fátækragildru þegar að því kemur að menn þurfa að stóla á ellilaunin sín. Þessi lausn, þó af góðum huga sé, er eins og að pissa í skóinn sinn, manni hlýnar um stundarsakir en svo kemur kuldinn aftur hálfu verri eins og menn þekkja sem staðið hafa úti, blautir og kaldir.

Hjalti Tómasson, 10.3.2009 kl. 17:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband