"Told you so"

Hvers vegna skyldi Nýi Glitnir - frá morgundeginum aftur "Íslandsbanki" - fella (tímabundið) niður uppgreiðslugjald verðtryggðra lána? Það er af sömu ástæðu og (Nýja) Kaupþing ákvað fyrir tveimur vikum 50% afslátt af hinu sama. Ástæðan er sú að fjármálafyrirtæki geta hagnast stórlega á uppgreiðslu slíkra lána nú - þegar vextir eru mun hærri en þeir voru þegar samið var um lánið og það veitt.
En var þetta fyrirsjáanlegt - eða jafnvel fyrirséð? Já; það er aðeins rúmt ár síðan ég lagði til  - formlega og með rökstuðningi - að svonefnd "spegilregla" gilti við slíka uppgreiðslu þannig að neytendur greiddu gjald (eftir atvikum upp að vissu hámarki sem meirihluti var fyrir)  ef lánveitandi tapaði á uppgreiðslu en þeir fengju endurgreitt ef lánveitandi hagnaðist eins og nú. Þetta var í starfshópi þáverandi viðskiptaráðherra um gjaldtöku fjármálafyrirtækja; þar sagði í sératkvæði mínu um málið:
Talsmaður neytenda lagði á fundi starfshópsins fram þá breytingartillögu að spegilregla yrði lögfest. Tillagan var svohljóðandi: „Við 3. mgr. 16. gr. a bætist svohljóðandi málsliður:´Sé samið um uppgreiðslugjald í lánssamningi skal neytandi með sama hætti og með sömu reiknireglu eiga rétt á endur­greiðslu ávinnings sem lánveitandi nýtur vegna uppgreiðslu láns fyr­ir þann tíma sem umsaminn er´. Við 4. mgr. 16. gr. a bætist orðin ´og á ávinningi´ á eftir orðunum „á tjóni” í lokamálslið.” Röksemdir tillögunnar voru eftirfarandi: „Tillaga að lagatexta gerir ráð fyrir að lánveitendum og neytendum sé að meginstefnu til heimilt að semja um uppgreiðslugjald vegna þess tjóns sem lánveitandi bíður vegna uppgreiðslu af hálfu neytanda áður en lánssamningur hefur runnið sitt skeið. Fallist er á að eðlilegt sé að neytandi, sem ákveður að nýta sér samningsbundinn rétt til uppgreiðslu, bæti slíkt tjón fremur en að því sé jafnað út á aðra neytendur með hærri vöxtum. Slík uppgreiðsla - hver sem ástæða hennar er - getur hins vegar ekki aðeins haft í för með sér tjón fyrir lánveitanda, þ.e. hafi vextir lækkað í millitíðinni. Uppgreiðsla getur einnig haft í för með sér ávinning fyrir lánveitanda, þ.e. ef vextir hafa hækkað í millitíðinni en þá er reyndar ólíklegt að margir neytendur nýti sér umsaminn rétt til uppgreiðslu; til þess getur þó komið vegna aðstæðna neytanda. Ástæðulaust þykir að lánveitandi hagnist vegna þessa á kostnað einstaks neytanda þó að sá hafi ákveðið að nýta sér samningsbundinn rétt til uppgreiðslu. Í samræmi við það meginsjónarmið að jafnræði eigi að ríkja með neytendum og viðsemjendum þeirra, í ljósi meginreglu um gagnkvæmni í kröfurétti og réttarreglna um óréttmæta auðgun þykir sjálfsagt að ef breyting á lánssamningi færir lánveitanda ávinning umfram það sem lánssamningur gerði ráð fyrir þá eigi neytandi - en ekki lánveitandi - að njóta þess ávinnings rétt eins og lánveitanda eru tryggðar bætur fyrrir það tjón sem hann bíður í sumum tilvikum.” Tillagan var ekki samþykkt af meirihluta starfshópsins.
Svo mörg voru þau orð. Reyndar var annar lögmaður í starfshópinum sem talaði í svipaða átt, sbr. eftirfarandi afstöðu okkar í nefndinni varðandi 2% hámarkið sem þáverandi viðskiptaráðherra lagði til og fékk samþykkt:
Axel Kristjánsson hrl. hefur ennfremur látið í ljósi þá skoðun sína að í ljósi þess að uppgreiðslugjaldi sé samkvæmt tillögunni ætlað að bæta tjón, kunni að vera andstætt grundvallarreglu skaðabótaréttarins að takmarka bætur ivð tiltekna prósentu af tjóninu samkvæmt uppreiknuðum eftirstöðvum láns á uppgjörsdegi. Talsmaður neytenda tekur undir með Axel og vísar til þess að svokölluð spegilregla hefði verið betur til þess fallin að ná sanngjarnri niðurstöðu auk þess sem rétt sé að bíða samræmdra reglna frá ESB um uppgreiðslurétt og uppgreiðslugjald, sbr. kafli 4.1. í III. hluta skýrslunnar.

mbl.is Uppgreiðslugjald fellt niður tímabundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þú ert hér með skipaður ráðherra neytenda

Hólmfríður Bjarnadóttir, 19.2.2009 kl. 15:02

2 Smámynd: Davíð Pálsson

Hugsanlega kæmi það best út þegar stóra myndin og framtíðin er skoðuð að bankarnir (ríkið) greiði með uppgreiðslu, t.d. 1%. Þá myndu þeir sem það geta, sjá sér frekar ástæðu til að greiða niður lánin sem stefna annars í óefni öllum til tjóns.

Með þessari leið myndi fólk vera tilbúið til að leggja mikið á sig til að greiða niður þessi þungu lán.

Davíð Pálsson, 19.2.2009 kl. 15:23

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Heyr heyr. Gísli...við þurfum á þínum kröftum að halda til að gera umhverfið bærilegra, ekki láta bugast. Einnig væri vel þegið að fá þig í hóp Hagsmunasamtök Heimilanna, www.heimilin.is við þurfum góða trausta menn í lið með okkur!

Haraldur Haraldsson, 19.2.2009 kl. 22:11

4 Smámynd: Gísli Tryggvason

Takk, Hólmfríður; umboð mitt sæki ég hvort eð er til neytenda á endanum fyrir tilstilli löggjafans. Þó að ég ráði lítlu miðað við ráðherra hef ég vonandi einhver ráð - og áhrif. Góður punktur Davíð - en ég vildi hreinlega að ávinningi og tjóni af slíkum uppgreiðslusamningum yrði skipt réttlátlega. Takk Haraldur - fyrir góða hvatningu; Hagsmunasamtökum heimilanna hef ég veitt þá aðstoð sem ég hef getað og þau hafa óskað og í kjölfarið stóðum við saman að sameiginlegu ákalli um almenna niðurfærslu skulda í síðustu ásamt fleiri samtökum; sjá: http://talsmadur.is/Pages/55?NewsID=990. Ég get þó ekki beinlínis gengið í slík samtök en hef unnið óformlega með öllum aðilum sem vilja efla hag neytenda, þ.m.t. mörgum samtökum neytenda, svo sem FÍB, Neytendasamtökunum og ASÍ.

Gísli Tryggvason, 19.2.2009 kl. 23:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband