Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ástæður þess að neytendur ná ekki rétti sínum gagnvart olíufélögunum eins og aðrir tjónþolar

Dómur héraðsdóms í olíubótamáli Vestmannaeyja kemur ekki á óvart fyrir það sem í honum felst - en sýnir vel hvað vantar í íslensk lög. Neytendur eiga efnislega sama rétt til bóta og bæjarfélög og fyrirtæki sem höfðað hafa mál gegn olíufélögunum vegna ólögmæts samráðs; neytendur skortir hins vegar formlega aðstöðu eða úrræði til þess að sækja þann rétt eins og ég ræddi aðspurður á Bylgjunni í þættinum Reykjavík síðdegis í dag.

 

Vestmannaeyjabær fær meira en helming dómkröfu sinnar í skaðabætur, 10 millj. kr., og má ágætlega við una enda á löglærðum ekki að koma þessi dómur á óvart því að öll skilyrði almennra, óskráðra skaðabótareglna eru uppfyllt - þ.e. að bænum er valdið fjártjóni með ólögmætu athæfi (samráði) annars aðila.

 

Sú aðstaða sem neytendur skortir til þess að ná fram réttlæti - því að þeir eiga í raun sama rétt efnislega - er einkum eftirfarandi:

  • tap hvers neytenda er of lítið til þess að borgi sig að hver og einn af þeim sæki þann rétt í dómsmáli; úr því má bæta með löggjöf um hópmálsókn eins og nýverið skapaðist þverpólitísk samstaða um á Alþingi - sem því miður nær vart fram að ganga fyrir alþingiskosningar en verður vonandi að lögum strax í vor eða í síðasta lagi í haust og þá er ekkert því til fyrirstöðu að hafa þær reglur afturvirkar;
  • neytendur eru ekki bókhaldsskyldir eins og sveitarfélög og fyrirtæki og hafa því síður á takteinum sönnunargögn um viðskipti sín við olíufélög - umfang þeirra og við hvern þeir hafa skipt og hvenær;
  • af sömu ástæðu koma fyrningarreglur í veg fyrir greiða málsókn því að 10 ára fyrningartími var aðalreglan eins og dómurinn staðfestir en meginreglan er nú 4ra ára fyrningartími á skaðabótakröfum; felur sú umdeilanlega breyting í sér viðbótarrök fyrir löggjöf um hópmálsókn samkvæmt framangreindu.

mbl.is Olíufélögin skaðabótaskyld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipuleg úrelding neytendavöru

Þetta er skemmtilegt orðalag - að hætta sé á að neytandi kaupi vöru ef hann handleikur hana eða mátar flík eða skó! Fréttin um rannsóknina minnir mig á nýlega umfjöllun á vef tímaritsins Economist þar sem einnig er um að ræða skipulagðar aðgerðir til að hafa áhrif á neytendur og þá með jafnvel enn afdrifaríkari hætti en að skapa þá "hættu" sem um er rætt í fréttinni.

 

Í greininni er rætt um þá þróun undanfarinna áratuga að atvinnurekendur þróa vörur og jafnvel þjónustu sem hefur ekki þá eiginleika að endast sem best og mest - heldur þvert á móti; skipulega er þróuð vara sem þarf að endurnýja eða leysa af hólmi með nýrri útgáfu eða módeli. Frá upphafi er skipulagt að hið selda úreldist sjálfkrafa. Nærtæk dæmi, sem nefnd eru í greininni, eru ný tíska - ekki bara á hverju ári heldur með hverri árstíð - svo og nýjar árgerðir bifreiða og ný gerð hugbúnaður reglulega sem kallar á uppfærslu tæknibúnaðar.

 

Þessi stefna getur þó slegið í bakseglin fyrir seljendur og framleiðendur ef neytendum mislíkar:

 

A strategy of planned obsolescence can backfire. If a manufacturer produces new products to replace old ones too often, consumer resistance may set in. This has occurred at times in the computer industry when consumers have been unconvinced that a new wave of replacement products is giving sufficient extra value for switching to be worth their while.

 

Neðan við greinina má svo lesa fróðlegar bloggumræður um þessa stefnu framleiðenda - sem sumir kalla markaðsbrest - og áhrif kreppunnar á hana og neytendahegðun, svo og augljós áhrif slíkrar úreldingarstefnu á umhverfið.


mbl.is Hætta á kaupum sé varan handleikin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki aprílgabb?

Í gær var ég á málefnalegum og fróðlegum rökræðufundi í Háskólanum í Reykjavík þar sem eina ágreiningsefnið var hvernig, hve hratt og eftir hvaða leið - en ekki hvort - Ísland ætti að taka upp alvörugjaldmiðil í stað krónu; annar frummælandinn, Ágúst Valfells, spurði í upphafi hvaða leið væri út úr Limbólandi og benti á - grínlaust - að fleiri notuðu Mikka-Mús-seðla í Disneylandi í Flórída en íslensku krónuna. Þessi samlíking og samanburður minnti mig á færslu mína fyrir réttu ári um tilfinningu mína sem neytanda að vera leiksoppur í Matadorspili. Vonir mínar þá um aðgerðir brustu því miður en ég áréttaði færsluna skömmu síðar og svo aftur í frægri færslu - daginn fyrir upphaf bankahrunsins þar sem ég bað forsætisráðherra að koma ekki heim frá Bandaríkjunum fyrr en hann hefði lausn í farteskinu; fyrirsögnin var:

 

Ekki koma heim Geir...

 

Hinn fyrirlesarinn í gær, dr. Jón Þór Sturluson, viðurkenndi að eftir hrunið kynni krónan að hafa nokkra kosti til aðlögunar en evran hefði að líkindum fyrirbyggt hrunið - og myndi framvegis gera slíkar kreppur ólíklegri.

 

Allt þetta nefni ég á þessum 1. apríl því það hljómar næstum eins og gabb þegar loksins virðist að skapast nokkur þverpólitískur skilningur á því að verðtrygging eigi ekki fullan rétt á sér þó að aldrei sé alveg rétti tíminn til að afnema hana eða takmarka; í frétt RÚV sagði:

 

Þingmenn ræddu utandagskrár á Alþingi í dag um verðbætur á lán. Fulltrúar allra flokka á þingi vilja ýmist draga verulega úr verðtryggingum lána eða afnema þær að fullu. Flestir töldu að bíða ætti uns dregur úr verðbólgunni þar til hægt er að breyta notkun verðtryggingar. 
 

 

Þó er aðeins rúmt hálft ár - nokkru fyrir hrunið - að sjálfur ráðherra neytendamála, Björgvin G. Sigurðsson, tók undir með þeim hagfræðingum, stærðfræðingum og bankamönnum sem töldu efasemdarmenn á borð við mig ekki skilja fyrirbærið - og sakaði þá, sem efuðust um réttmæti verðtryggingar, um

 

lítt rökstutt lýðskrum!


Greiðsluaðlögun leysir ekki vandann nú

Þessi (fyrri) lög greiðsluaðlögun eru skárri en það frumvarp sem fyrri ríkisstjórn lagði fram síðsumars og fékk dræmar undirtektir af minni hálfu. Stærsti gallinn við þessi annars ágætu lög er ekki lengur að þau koma um 25 árum of seint en jafnaðarmenn og þeir, sem láta sig hagsmuni neytenda varða, hafa kallað eftir slíkri löggjöf árum saman. Lítill galli er að þau skuli ekki vera sérstök lög eins og ég lagði til. Stærsti gallinn við þessi lög er heldur ekki að þau taka ekki til veðlána, svo sem íbúðarlána, enda hyggst allsherjarnefnd Alþingis bæta úr því á næstu dögum. Stærsti gallinn er reyndar ekki heldur að í þeim felst ekki að skuldbinding ábyrgðarmanns falli niður við greiðsluaðlögun aðalskuldara eins og ég benti á í færslu í gær með tilvitnun í umsögn mína með tillögu um úrbætur; hafði ég áður bent á þetta í umsögn  um frumvarp þetta með samanburði við hin tvö frumvörpin - sem voru sama marki brennd að taka ekki á skuldbindingum ábyrgðarmanna.

 

Nei; stærsti gallinn við þessi lög um greiðsluaðlögun og viðbótarlög allsherjarnefndar er að slík lög eru ekki til þess fallin að taka á umfangsmiklum og brýnum skuldavanda heimilanna í landinu eins og hér er bent á og áréttað var í upphafi umsagnar minnar um málið:

 

Engu að síður tel ég ljóst að miðað við núverandi aðstæður nær greiðsluaðlögunarúrræðið engan veginn að mæta þeim mikla vanda sem íslensk heimili standa frammi fyrir vegna íbúðarveðlána og annarra skulda.

 

Lausnin felst að mínu mati í almennri niðurfærslu íbúðarveðlána eins og ég benti á 11. febrúar sl. í ákalli til stjórnvalda um almennar aðgerðir til lausnar efnahagsvanda heimilanna ásamt Hagsmunasamtökum heimilanna o.fl.; þar sagði m.a.:

 

Til að koma í veg fyrir að fjöldi lántakenda lendi í þroti og jafnframt stuðla að því að fasteignamarkaður fari aftur af stað þarf að auki að beita almennum aðgerðum í eitt skipti. Til þarf að koma veruleg og almenn niðurfærsla höfuðstóla íbúðarveðlána vegna verulegs og óvænts gengishruns íslensku krónunnar og þarafleiðandi hækkunar gengistryggðra og verðtryggðra lána í kjölfar verðbólgu undanfarna 18 mánuði.


mbl.is Greiðsluaðlögun komin í gegnum þingið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ábyrgðaleysi"

Loks kom að því að því ábyrgðarleysi yrði útrýmt með lögum að einhver annar bæri ábyrgð á því langtímaviðskiptasambandi, sem felst í að lána fé til annars, en aðalsamningsaðilarnir tveir. Hverjir aðrir ættu að taka ábyrgð á viðskiptum sínum en annars vegar lánveitandinn - yfirleitt stór, sérfróður og fjársterkur aðili á borð við banka eða lífeyrissjóð - og hins vegar lántakandinn - oft lítill, ólögfróður og fjárvana einstaklingur - neytandi? Þetta er séríslenskur (ó)siður sem að lokum var afnuminn með víðtækum pólitískum stuðningi.

 

Lúðvík Bergvinsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, á að mínu mati þakkir skildar fyrir að halda þessu máli til streitu - innan sem utan stjórnarmeirihluta - árum saman. Hafði ég nánast engar athugasemdir við þverpólitískt frumvarp, sem hann hafði forgöngu um, er ég veitti skriflega og munnlega umsögn um málið fyrr í mánuðinum.

 

Að vísu hafði töluverð réttarbót orðið frá 2001 þegar þáverandi viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, kom á samkomulagi meðal hagsmunaðila sem takmarkaði (mis)notkun ábyrgða gagnvart neytendaskuldbindingum en þessi réttarbót gengur lengra og er óháð aðild að samtökum og samkomulagi þessu. Dómstólar höfðu byggt á því samkomulagi sem réttarheimild en engu að síður var hætta á óvissu um gildi þess - og einkum vandamál við að samkomulagið tók aðeins til þeirra sem vildu standa að því!

 

Í umsögn minni minntist ég t.a.m. ekki á 8. gr. frumvarpsins, sem reyndist umdeildust, enda taldi ég hana eðlilega og neita því ekki að ég hugsaði - áður en vísbendingar bárust um annað - að þetta væri enn eitt "þingmannafrumvarpið" sem í valdakreðsum njóta minni virðingar en svonefnd stjórnarfrumvörp; frumvarpið var næstum of gott til að vera satt eins og sagt er á enskri tungu. Aðspurður um 8. gr. eftir ábendingar frá hagsmunaaðilum hinum megin borðs um að ákvæðið myndi nánast útrýma ábyrgðum og leiða til þess að þeir, sem verið hefðu ábyrgðarmenn fyrir aðra (t.d. börn sín), yrðu framvegis aðalskuldarar, þ.e. lántakendur, í staðinn sagði ég að ef svo færi yrði svo að vera.

 

Grundvallaratriðið er að lántakendur sjálfir bera ábyrgð og lánveitendur líka, t.d. með raunhæfu mati á greiðslugetu lántakenda.

 

Annmarki á frumvarpinu er þó að það lagfærir ekki vöntun í annarri réttarbót sem var samþykkt í dag og ég get fjallað um síðar: greiðsluaðlögun. Í umsögn minni segir:

 

Um 9. gr. - Um greiðsluaðlögun

Tillaga

Lagt er til að á eftir orðinu „eftirgjöf“ í 3. mgr. 9. gr. komi orðin „, þ.m.t. í tengslum við greiðsluaðlögun,“.

 

Rök

Lagt er til að bætt verði úr annmarka á þremur frumvörpum (275., 278. og 281. mál) sem eru til meðferðar á yfirstandandi þingi með því að kveða hér skýrt á um að greiðsluaðlögun skuldara fylgi sams konar aðlögun eða niðurfelling gagnvart ábyrgðarmanni í samræmi við tilgang þessa frv. og þeirra frumvarpa.


mbl.is Ábyrgðarmennirnir burt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilji þjóðarinnar verður ekki veðsettur

Í dag eru réttir fjórir mánuðir síðan ég vakti máls á því í lýðræðisnefnd Framsóknarflokksins að rétt  væri að efna til stjórnlagaþings; af því tilefni endurbirti ég grein mína úr Morgunblaðinu sl. þriðjudag en sú hugmynd fékk einróma undirtektir í nefndinni og tillaga um það var síðan samþykkt samhljóða á flokksþingi um miðjan janúar. Frumvarp, sem ég samdi, var svo borið fram af þingflokknum og stjórnlagaþing loks gert að skilyrði fyrir hlutleysi gagnvart núverandi minnihlutastjórn sem lét ráðgjafarhóp, sem ég á sæti í, semja frumvarp um sama efni o.fl. Næstu dagar munu ráða úrslitum um hvort af stjórnlagaþingi verður:  

 

 

"Sjálfstæðisbaráttu Íslendinga er ekki enn lokið. Nú er tími til kominn að fullkomna það er valdið var flutt frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur með heimastjórn fyrir 105 árum – og færa það alla leið til fólksins. Til þess er stjórnlagaþing.

 

Þrjár stofnanir hafa verið taldar njóta sérstöðu vegna hlutverks síns í þágu þjóðarinnar: Alþingi, stofnað 930 og endurreist 1845, Háskóli Íslands, settur í fyrsta sinn á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar 1911, og Ríkisútvarpið, sett á fót á þúsund ára afmæli Alþingis 1930.

 Jafnræði í rökræðu

Á Alþingi er nú rætt hvort – og þá hvernig – skuli stofnað til stjórnlagaþings til þess að semja í fyrsta skipti og á lýðræðislegan hátt heildstæð stjórnlög – nýja stjórnarskrá sem lögð verði fyrir þjóðina til afgreiðslu. Á Alþingi njóta jafnræðis þau, sem styðja hugmyndina um að flytja að þessu sinni til stjórnlagaþings frumkvæði til þess að breyta stjórnarskránni, og þeir sem andmæla þeirri tillögu. Á sama tíma efna hinar tvær grunnstofnanir þjóðarinnar til umræðu um stjórnlagaþing – sem er vel. Það vekur hins vegar athygli mína að einungis karlar eru kallaðir til í Háskóla Íslands og Ríkisútvarpinu – þótt fjölda sérfræðinga sé til að dreifa úr hópi kvenna. Tvö frumvörp liggja fyrir Alþingi um stjórnlagaþing – hið fyrra frá þingflokki Framsóknarflokksins og hið síðara flutt af fulltrúum fjögurra af fimm þingflokkum. Engir af þeim, sem standa að þessum frumvörpum, voru fengnir til framsögu eða umræðna í háskólanum og ríkissjónvarpinu. Flestir voru efasemdarmenn eða andmælendur þessarar róttæku hugmyndar – sem virðist þó njóta mikils stuðnings meðal þjóðarinnar á þessum umbrotatímum.  Hefði ég talið eðlilegt að þessar tvær lýðræðisstofnanir gættu jafnræðis eins og gert er á Alþingi.

 „of the people...“

Sú spurning vaknar til hvers ætti að stofna til stjórnlagaþings – og til hvers stjórnlög séu.  Sem höfundur fyrra frumvarpsins um stjórnlagaþing og einn höfunda hins síðara vil ég svara í anda Abrahams Lincolns, forseta Bandaríkjanna  – sem taldi í ræðu sinni í Gettysburg í borgarastyrjöldinni að stjórnvöld ættu að vera „of the people, by the people and for the people“.

 

Þessi viturlegu orð Abrahams Lincolns fela í fyrsta lagi í sér að stjórnskipulagið eigi að vera lýðræðislegt í þeim skilningi að almenningur sjálfur eða fulltrúar hans stjórni landinu. Sama á við um stjórnlagaþing – hið fyrsta síðan misheppnuðum Þjóðfundi var skyndilega slitið 1851 af fulltrúa Danakonungs. Á stjórnlagaþingi eiga að sitja og ráða ráðum sínum almennir borgarar landsins. Ókjörnir sérfræðingar eða fulltrúar hagsmunaafla eiga ekki að ráða lögum og lofum um framtíðarstjórnskipan Íslands.

 „... by the people...“

Í öðru lagi er grundvallaratriði að þingmenn á stjórnlagaþingi séu valdir af fólkinu sjálfu, lýðnum – sem á að ráða í lýðræði. Ég hafna hugmyndum um að ríkjandi valdhafar, stofnanir eða stjórnmálasamtök eigi að velja þá sem gera tillögur til þjóðarinnar um framtíðarskipulag íslenska lýðveldisins. Einnig er ég andvígur því að hlutkesti ráði vali á fulltrúum á stjórnlagaþing; slíkt væri ávísun á sérfræðingaræði. Sama gildir um þá hugmynd að þingfulltrúar sinni stjórnlagagerð í hjáverkum eða komi einungis að því að staðfesta niðurstöður sérfræðinga. Stjórnlagaþing eiga þeir að sitja sem áhuga hafa og njóta trausts almennra kjósenda til þess að semja tillögu að nýrri stjórnarskrá eftir lýðræðislegt framboð og umræðu um málið og geta því talist fulltrúar þjóðarinnar.

 „...for the people“Í þriðja lagi má ekki gleyma að stjórnskipulagið á að þjóna almennum borgurum, almenningi, fyrst og síðast en ekki hagsmunaaðilum, stjórnmálastefnum eða stofnunum – sem eru aðeins leiðir að því markmiði að tryggja almenna hagsæld í lýðræðislegu réttarríki.

Ekki sérfræðingaveldi

Því nefni ég þetta að á því hefur borið að íhaldsöfl hafi viljað tryggja að stjórnlagaþing undirbyggi ríkjandi skipulag – eða raski því a.m.k. ekki um of. Ég tel – vitaskuld – mikilvægt að tryggt sé að þjóðkjörnir fulltrúar á stjórnlagaþingi njóti aðstoðar færustu sérfræðinga innanlands sem utan – en að ljóst sé hverjir ráði ferðinni. Sérfræðingarnir eiga, sem sagt, að aðstoða – en ekki ráða för. Því er t.a.m. mikilvægt að þjóðkjörnir fulltrúar á stjórnlagaþingi njóti stuðnings og verndar í hlutverki sínu sem fulltrúar á stjórnlagaþingi – m.a. í því skyni að þeir verði ekki of háðir sérfræðingum. 

 

Ýmislegt má betur fara í stjórnskipan Íslands og hafa margir sett fram hugmyndir sínar þar um. Um mínar hugmyndir get ég fjallað síðar. Margar þessara hugmynda hafa verið ræddar en ýmsar eru óræddar – og hafa jafnvel ekki komið fram í almennri umræðu. Úr því verður bætt þegar kosið verður til stjórnlagaþings en ég tel mikilvægt að á komandi hausti hafi fulltrúar á stjórnlagaþingi autt blað þegar þeir hefja störf sín.  Þá vænti ég þess að umræða næstu vikna staðfesti þörf á stjórnlagaþingi og að rökræður á komandi mánuðum auðveldi þjóðinni að gera upp við sig hvers konar breytinga er þörf á stjórnskipulagi landsins. Vilji þjóðarinnar verður ekki veðsettur.

 

Höfundur á sæti í ráðgjafarhópi

forsætisráðherra um stjórnlagaþing og stjórnarskrá"


Bótaskylda nemandans og úrbætur á bótakerfum

Þessi dómur Hæstaréttar virðist vekja álíka undrun og dómur héraðsdóms áður og er því rétt að skýra hann aðeins þó að ekki sé beinlínis um neytendamál að ræða enda er skólavist ókeypis hérlendis. Dómurinn virðist nokkuð strangur í garð skólastúlkunnar; kann niðurstaðan að hafa ráðist af þeirri mannlegu nálgun dómstóla að ella hefði kennarinn e.t.v. ekki fengið tjón sitt bætt - en stúlkan var tryggð fyrir bótaskyldu samkvæmt frétt mbl.is þar sem segir í niðurlagi:

 

Fram kom eftir að dómurinn var kveðinn upp í héraði, að fjölskyldutrygging konunnar hjá Tryggingamiðstöðinni myndi greiða bæturnar ef dómurinn yrði staðfestur í Hæstarétti. Skaðabótaskylt tjón af völdum barns er jafnan bætt af slíkri tryggingu.

 

Margir spyrja hvernig það megi vera að atvinnurekandi bæti ekki slíkt tjón starfsmanns - eins og kennara. Því er til að svara að atvinnurekendur bera ábyrgð á því tjóni sem þeir eða starfsmenn þeirra valda af gáleysi. Því virðist ekki hafa verið til að dreifa í þessu máli og ekki var fallist á þær skaðabótaröksemdir að búnaði skólans eða eftirliti hafi verið ábótavant. Sveitarfélagið var því sýknað í héraðsdómi af kröfu gagnvart meintum mistökum af hálfu skólans; var þeim hluta dómsins ekki áfrýjað tímanlega til Hæstaréttar.

 

Því var þrautalendingin af hálfu tjónþolans, kennarans, að krefjast bóta úr hendi skólastúlkunnar - eða í raun frá tryggingarfélagi móður hennar. Dómstólar féllust á þá bótaskyldu með þeim rökstuðningi að nemandinn, 11 ára stúlka, þekkti mun á réttu og röngu þó að hún byggi við tiltekna fötlun. Dómurinn virðist að vísu - eins og áður segir - nokkuð strangur í garð barnungs tjónvalds af framangreindum ástæðum. Hins vegar felur dómurinn í sér dæmi um lagareglu sem gildir í norrænum skaðabótarétti að börn - allt niður að um 4ra ára aldri - hafa verið látin bera skaðabótaábyrgð svo fremi sem skaðaverkið sé eitthvað sem barn á þeim aldri á að gera sér grein fyrir að ekki megi gera. Í þessu tilviki fólst skaðaverkið í því að renna hurð harkalega svo að hún lenti á höfði kennarans.

 

Loks hafa margir furðað sig á takmarkaðri umfjöllun um fötlun stúlkunnar í dóminum. Hæstiréttur kveður upp úr um það að sú röksemd, sem laut að fötlun hennar, hafi ekki komið nægilega skýrt fram í málsvörn fyrir hönd stúlkunnar í héraðsdómi; því sé hvorki hægt að fallast á að þau rök komist að við áfrýjun málsins til Hæstaréttar né unnt að gagnrýna að ekki skyldu kvaddir til meðdómendur með sérþekkingu á fötlun hennar. Fyrrnefnda niðurstaða Hæstaréttar um þessa málsmeðferð ber vitni þeirri reglu að aðilar máls - kennarinn, sveitarfélagið og móðirin f.h. stúlkunnar - eigi að reka málið en ekki dómararnir enda hefur svonefnt rannsóknarréttarfar verið afnumið hérlendis fyrir löngu. Síðarnefnda niðurstaðan - um að "ekkert tilefni" hafi verið til þess að kveða sérfróða meðdómendur til - er hins vegar að mínu mati umdeilanleg enda á slík ákvörðun í upphafi varla að ráðast af röksemdum aðila eingöngu.

 

Þessar reglur sem byggt er á í dómi Hæstaréttar - bæði um efni og málsmeðferð - koma löglærðum ekki á óvart. Hvað sem gildandi reglum líður er hér dæmi um niðurstöðu og málsmeðferð sem að mínum dómi virðist illa samrýmast réttarvitund almennings og rennir af þeim sökum stoðum undir þá skoðun sumra sérfræðinga á sviði skaðabótaréttar að tímabært sé að endurskoða í heild gildandi bótakerfi.


mbl.is Þarf að greiða kennara bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aukin neytendavernd barna í sjónvarpi og verslunum

Gott er að heyra að eftir langt og strangt ferli eru leiðbeiningar okkar umboðsmanns barna um aukna neytendavernd barna farnar að hafa áhrif - hjá ríkissjónvarpinu - aðeins rúmri viku eftir að þær tóku gildi en samkvæmt kvöldfréttum sjónvarps RÚV er við ákvörðun þessa höfð hliðsjón af leiðbeiningunum. Er það í samræmi við nýlegan fund okkar með fulltrúum RÚV um að samræmi væri milli þessarar breyttu auglýsingastefnu og nýrra leiðbeininga talsmanns neytenda og umboðsmanns barna.

 

Framkvæmdarstjóri SVÞ, Andrés Magnússon, tók ekki eins vel í að höfð yrði hliðsjón af leiðbeiningarreglunum í þá veru að halda ekki sætindum að börnum við afgreiðslukassa; honum til málsbóta má taka fram að ákvæði leiðbeininganna um að aðeins hollar matvörur séu við afgreiðslukassa í dagvöruverslunum verður ekki virkt fyrr en tekið verður upp opinbert hollustumerki - eins og gert hefur verið í öðrum norrænum ríkjum. Að því leyti var ekki rétt forsenda hjá honum að talsmaður neytenda og umboðsmaður barna ætli sér að meta hvað er hollt og hvað ekki; það er norrænna sérfræðinga á sviði matvæla- og næringarfræði að meta. Tíðinda er að vænta á næstunni hvað það varðar.

 

Á hinn bóginn er mælst til þess í leiðbeiningunum að dagvöruverslanir séu fjölskylduvænar og teljum við okkur gæta alls hófs í þessari leiðbeinandi reglu:

 

Fjölskylduvænar dagvöruverslanir
Í dagvöruverslunum skal leitast við að ekkert sælgæti, flögur, gos eða þvíumlíkt sé nærri kassa og a.m.k. sé tryggt að einn kassi sé laus við slíkar vörur í verslunum þar sem eru fleiri en tveir kassar. Auk þess er mælst til þess að auðvelt sé fyrir fólk með börn að ganga um dagvöruverslun en sneiða hjá matvælum, sem höfða sérstaklega til barna og hafa hátt innihald sykurs, salts, fitu eða transfitu – einkum ef þau eru í sjónhæð barna.

mbl.is Engar auglýsingar í tengslum við barnaefni í Sjónvarpinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnlagaþing?

Sem aðjúnkt við lagadeild Háskólans í Reykjavík féllst ég á þátttöku í skemmtilegu fyrirlestramaraþoni í gær og fjallaði um það hugðarefni sem ég hef unnið að undanfarna fjóra mánuði: stjórnlagaþing. Hér má lesa glærur frá mínum 8 mínútna fyrirlestri þar sem ég leitaði svara við þeim spurningum hvað stjórnlagaþing væri og hvert væri hlutverk þess, hverjum og hvernig ætti að skipa stjórnlagaþing, hvar og hvenær ætti að halda slíkt þing og - síðast en ekki síst - hvers vegna væri þörf á stjórnlagaþingi nú?


mbl.is Saga hrunsins á 8 mínútum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neytendur og fjármál stjórnmálaflokka

Stjórnmálastarf kostar oft nokkurt fé. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, safnaði ógrynni fjár til kosningabaráttu sinnar en megnið af því fólst í mörgum, smáum framlögum. Neytendur hafa ekki sömu burði og fyrirtæki til þess að styrkja stjórnmálaflokka. Þess vegna velti ég því fyrir mér í  fyrsta pistli mínum um neytendamál fyrir rúmum tveimur árum hvort hagur neytenda myndi vænkast eftir að  hámark var sett á styrki til stjórnmálaflokka með lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra sem tóku gildi 1. janúar 2007.

 

Þá spurði ég hvort möguleikar á sjálfstæðum, íslenskum réttarbótum myndu aukast í kjölfar laganna; niðurstaða mín var

 

að áhrif einstakra fyrirtækja minnki að líkindum mikið og að áhrifamöguleikar fyrirtækja í heild minnki e.t.v. nokkuð eða jafnist fremur út þegar á heildina er litið. Að sama skapi tel ég líklegt að hlutfallsleg áhrif neytenda og almannasamtaka aukist í samræmi við framangreint.

 

Mér sýnist þessi fyrsta birting Ríkisendurskoðunar á framlögum til stjórnmálaflokkanna fyrir árið 2007 staðfesta bjarta von um úrbætur á þessu sviði - svo að hagur neytenda á að geta vænkast þar sem framlög frá fyrirtækjum eru takmörkuð. Sérstaklega er ánægjulegt að lögin skuli túlkuð þannig að birta skuli heiti hvers fyrirtækis sem styrkir hvern stjórnmálaflokk en á því átti ég satt að segja ekki von er ég ritaði pistlilinn.

 

Í pistlinum bar ég einnig þessa niðurstöðu mína saman þann tilgang laganna

 

draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum. Markmið laganna er að auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið.

 

Rökstuddi ég það mat mitt að líklegt væri að lögin 

 

dragi úr hættu á hagsmunaárekstrum stjórnmálamanna gagnvart hagsmunum fyrirtækja - en af því leiðir ekki að lögin útiloki hagsmunaárekstra; því þurfa neytendur og fulltrúar þeirra, stofnanir og almannasamtök áfram að vera á verði. Þá er e.t.v. ofsagt að lögin tryggi gagnsæi í fjármálum stjórnamálastarfsemi en væntanlega auka þau gagnsæið enda hefur það nánast ekkert verið. Vonandi eykst traust - neytenda t.a.m. - á stjórnmálastarfsemi en það er komið undir framhaldinu og hegðun stjórnmálafólks og aðhaldi neytenda og annarra. Þá hef ég trú á því að lýðræði eflist og hlutfallsleg áhrif neytenda geti aukist með lögunum þar sem dregið er úr möguleikum fárra stórra fyrirtækja til þess að hafa áhrif á stjórnmálaflokka og frambjóðendur.

 

Meginatriði laganna rakti ég svo:

 

  • Hámark árlegs stuðnings einstaklings eða lögaðila til stjórnmálaflokka eða frambjóðenda verður 300 þús. kr. á ári.
  • Stuðningur hins opinbera verður aukinn í  staðinn.
  • Óheimilt er að taka við öðru framlagi frá opinberum aðilum.
  • Óheimilt er taka við framlögum frá óþekktum gefendum.
  • Óheimilt er að taka við framlögum frá opinberum fyrirtækjum.
  • Óheimilt er að taka við framlögum frá erlendum aðilum.
  • Flokkar og frambjóðendur hafa upplýsingaskyldu gagnvart Ríkisendurskoðun.
  • Birta skal nöfn allra lögaðila sem veita framlög til stjórnmálastarfsemi.
  • Ríkisendurskoðun fer yfir reikningsskil stjórnmálaflokka og frambjóðenda.
  • Brot gegn lögunum geta varðað refsingu.

 

Pistilinn má lesa hér.


mbl.is Samanlagt tap stjórnmálaflokkanna 281 milljón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.