Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Þriðjudagur, 25. mars 2008
Útreikningar Haga eru ekki réttir
Pétur Blöndal - þingmaður, ekki blaðamaður - benti - réttilega að mínu mati - á það í Kastljósi rétt í þessu að útreikningar Haga eða spá (um 20% hækkun matvöru) væru ekki réttir enda væri aðeins litið til (vonandi tímabundinnar) gengislækkunar krónunnar en ekki annars rekstrarkostnaðar; sjá nánar hér. Verum á verði fyrir misbeitingu væntingastjórnunar.
Þriðjudagur, 25. mars 2008
Góðar fréttir fyrir neytendur
Ekki vanþörf á góðum fréttum fyrir neytendur þegar stýrivextir eru komnir í 15%, gengi íslensku krónunnar í lágmarki, bensínverð í hámarki og hætta á verðhækkunum ef gengið hækkar ekki fljótlega.
Fréttir af árangri í Doha-viðræðum ættu - a.m.k. á heimsvísu - að vera góðar fyrir neytendur (og fátækar matvælaframleiðsluþjóðir); gaman væri að fá greiningu á því í fréttum eða svör frá stjórnvöldum hvort þessi væntanlegi árangur er til þess fallinn að auka í raun innflutning á landbúnaðarvörum og lækka matarverð fyrir neytendur á Íslandi þannig að ekki þurfi að treysta á íslensk lög.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 25. mars 2008
Mætti ég biðja um nýtt skinkumál?
Rúmum 14 árum síðar þyrftu neytendur kannski á nýju skinkumáli að halda því ég verð að taka undir með Finni um minni hömlur á innflutningi erlendis frá - enda þótt samkeppni á matvörumarkaði þyrfti einnig að vera virkari hérlendis.
![]() |
Verulegar verðhækkanir á matvælum framundan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 24. mars 2008
Fæst orð höfðu mest áhrif - á skinkumálið
Á leiðinni austur í gær rifjaðist upp fyrir mér við Skíðaskálann í Hveradölum óveðrið sem ég lenti í þar 20. janúar 1994. Um leið áttaði ég mig á að ekki þarf ímyndað dæmi til þess að rökstyðja að fæst orð hafa mesta ábyrgð (svo maður snúi málshættinum við í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar þann dag). M.ö.o. hefði ég getað notað þennan dóm til þess að sýna fram á að áhrif laga og reglna á að meta en ekki mæla í lengd, þykkt eða þyngd - eins og ég rökstuddi í gær.
Ég var þennan dag ásamt fleiri laganemum í föruneyti undir stjórn Ólafs heitins Axelssonar hrl. til þess - ef ég man rétt - að skoða hvort þar væri hentugur veislustaður fyrir norræna málflutningskeppni laganema, Sporrong-Lönnroth, (frekar en árshátíð Orators). Þá skall á með blindbyl og ófærð sem olli því að fjöldi bíla sat fastur og nokkrir urðu að fá far með öðrum, þ.m.t. góðum jeppa Ólafs sem skilaði okkur skjótt til borgarinnar.
Minnisstæðara er mér þó að fram kom í fréttum RÚV síðdegis þennan fimmtudag í hátalara Skíðaskálans að meiri hluti Hæstaréttar (4:3) hefði komist að öndverðri niðurstöðu við héraðsdóm í fjölskipuðum dómi - í skinkumálinu fræga - þannig að alls höfðu reyndar 7 dómarar fallist á málstað ríkisins eins og þáverandi landbúnaðarráðherra, Halldór Blöndal, benti "réttilega" á. Hæstaréttardómararnir fjórir réðu þó vitaskuld þeirri niðurstöðu að svohljóðandi upphafsákvæði laga um innflutning var túlkað samkvæmt orðanna hljóðan:
"Innflutningur á vöru og þjónustu til landsins skal vera óheftur nema annað sé sérstaklega tekið fram í lögum eða milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að."
Þetta var eitt stærsta neytendamálið á þeim tíma og þar tókust á sjálfir stjórnarflokkarnir (eiginlega þeir sömu og í dag) en sóknaraðili var Hagkaup sem vildi fá - og fékk - hnekkt synjun fjármálaráðherra um leyfi til innflutnings á svínaskinku; lögin sögðu já og ráðherrann mátti því ekki neita fyrirtækinu um innflutningsleyfi eins og hann gerði. Sjálfstæðismenn sökuðu krata um að hafa breytt lögunum í laumi og að annað hefði komið fram í greinargerð en okkur laganemum fannst þetta skólabókardæmi um skýran lagabókstaf - sem ræður umfram skýringartexta í frumvarpi, ekki síst á sviði neytendamála.
Búvörulögum var að vísu breytt fljótlega í kjölfarið, að mig minnir, svo hér erum við enn.
Sunnudagur, 23. mars 2008
Gerendur, masendur, fylgjendur og kjósendur
Í tengslum við áhugaverða umræðu - bæði stjórnmálalega og orðfræðilega - sem speglast á Eyjunni og víðar, um hvort stjórnmálamenn eru í hópnum (1) gerendur eða (2) masarar tel ég að ekki megi gleymast að auk þessara 2ja - að mínu mati mikilvægu - hópa eru tveir aðrir hópar í samfélaginu sem e.t.v. er vert að gefa meiri gaum en skilsmun á milli þeirra stjórnmálamanna sem gera og tala.
Til eru þeir (3) sem aðeins fylgjast með - og tala hvorki né gera. Loks eru þeir - vonandi ekki meiri hluti kjósenda - (4) sem fylgjast ekki einu sinni með - sem fólk á að vísu fullt í fangi með á þessum tímum bloggsins! Ég vil gjarnan að hópur neytenda sem er gerendur stækki því þá er valdið þeirra.
Sunnudagur, 23. mars 2008
6% eða sex orð - með áhrif
"Viðskiptafrelsi er afnumið á öllu Íslandi." Svona gæti 1. gr. laga hljóðað sem hefðu mikil áhrif - þrátt fyrir gagnorðan lagatexta. Dæmið er aðeins tekið til þess að sýna fram á að áhrif löggjafar og annars regluverks verður ekki mælt í fjölda orða, lagagreina eða hillumetra frekar en í kílógrömmum. Áhrif löggjafar eru mæld með mati á áhrifum hennar - eins og íslensk lög og alþjóðareglur kveða reyndar á um að gert skuli í tilteknum tilvikum.
Til þess að dæmið sé aðeins trúverðugra gæti 2. gr. laga um afnám viðskiptafrelsis hljóðað svo: "Allir viðskiptasamningar yfir 1.000 evrum skulu bornir undir viðskiptaráðherra til samþykkis eða synjunar." Svo gæti 3. gr. hljóðað með hefðbundnum hætti: "Lög þessi öðlast þegar gildi." Reglur sem þessar þyrftu reyndar líklega að vera í stjórnarskrá að mati okkar vildarréttarsinna til þess að standast (en ég ímynda mér að fylgismenn náttúruréttar teldu alls ekki fært að setja slíkar reglur, heldur ekki í stjórnarskrá) en það er sem betur fer önnur og óþörf saga.
Kjarni máls míns er að áhrif laga, reglna og stofnanakerfis er ekki eðlilegt að mæla með framangreindum "hlutlægum" hætti heldur m.t.t. mats á áhrifum þeirra - svo sem á áhættu, kostnaði, skuldbindingum og miðað við aðra kosti til þess að ná sama marki, eins og tilvitnuð lög (sjá einkum 3. gr.) gera til dæmis.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég heyrði yfirvegaða þjóðfélagsumræðu í þættinum Vikulokin í gær á Rás 1 hjá RÚV. Í sama þætti viku fyrr, laugardaginn 15. mars sl., spurði Ásta Möller þingkona og fyrrum samstarfskona mín í BHM mig hvort ég hefði lesið greinina hans Sigurðar Kára Kristjánssonar, samflokksmanns hennar í Sjálfstæðisflokknum. Það hafði ég ekki þá en fékk auðvitað tíma til þess á föstudaginn langa. Í grein sinni 15. mars í Morgunblaðinu (á bls. 29) endurtekur þingmaðurinn eins og Ásta rakti í þættinum þá rökstuddu afstöðu sína að misskilningur sé að mjög stór hluti löggjafar Evrópusambandsins (ESB) hafi þegar tekið gildi á Íslandi.
Sigurður Kári mælir ESB-löggjöfina í fjölda laga og reglna og tilgreinir ítarlega og með töflum hvernig hann fær niðurstöðu sína: að aðeins um 6,5% ESB-reglna hafi á 10 ára tímabili, 1994-2004, verið innleiddar í EES-samninginn sem Ísland á aðild að. Þessi mæling - og raunar einnig sú 80-90% magnmæling sem skólabróðir minn andmælir í greininni - er andstæð því viðhorfi sem ég kom að í þættinum. Ég hélt því fram að Ísland hefði í raun verið aukaaðili að ESB í 15 ár og þar hefðum við nánast allt - nema áhrifin og evruna. (Ég nefndi þó ekki landbúnaðarstefnuna sem er nú ekki svo frábrugðin okkar og sjávarútvegsstefnuna sem lengi hefur verið bent á að sé ekki hættuleg Íslendingum - sem auk þess býðst nú að taka þátt í að endurmóta hana með ESB).
Jafnframt freistaði ég þess í þættinum að rökstyðja að það væri nær því að taka um 2 ár að ganga í ESB og taka upp evru (ef Íslendingar vildu) - fremur en þau 7-10 ár sem það tæki að mati Steingríms J. Sigfússonar, þingmanns og formanns Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, sem var með okkur Ástu í þættinum auk Hallgríms Thorst stjórnanda.
Eftir að hafa starfað í um 10 ár fyrir launafólk og neytendur er ég viss um að áhrif aukaaðildar okkar að ESB (aðildar Íslands að EES-samningnum) eru mun meiri en 6% á landsvísu og gríðarleg á þessa hópa; sjálfur hef ég ekki haft tök á að meta þetta vísindalega - en ég tel augljóst að meta ber áhrifin fyrir fólkið í landinu en ekki mæla lengdina, þykktina, þyngdina eða annað "hlutlægt."
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.3.2008 kl. 09:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 23. mars 2008
Eignaðist vin í gærkvöldi
Bloggið er eins og golf, að ég held, því blogg er greinilega skemmtilegra en ég óttaðist og eins tímafrekt og ég bjóst við; golfið hef ég hingað til forðast af sömu ástæðu enda ófáir lögmenn - og aðrir menn - sem ég þekki sem hafa ánetjast því eins og aðrir netinu. Ég taldi fram að þessu nægilegt að vera fréttafíkill - en vildi líka koma starfsemi talsmanns neytenda betur á framfæri - sem virðist geta tekist því þetta sjá mun fleiri daglega en heimasíðu embættisins á heilli viku. Við fyrstu raun virðist mér bloggið draga betur að en sjálft sjónvarpið enda er bloggið gagnvirkt eins og tölvuleikur - sem margt ungviðið ánetjast beinlínis og með alvarlegum afleiðingum.
Ég varð hreinlega að fara úr húsi til þess að hætta að fylgjast með í netheimum og taka örlítinn þátt í raunheimum. Fyrst ég gleymdi mér við að læra á þennan miðil borðaði ég seint, kjúklinga-fajitas; ennþá betra en venjulega, annað hvort vegna kryddblöndu eða vegna svengdar eftir bloggið.
Þetta er athyglisvert samfélag sem ég er nú orðinn hluti af; ég hef hingað til sinnt því illa að lesa blogg (og ekki bloggað sjálfur þar til nú) nema á völdum miðlum eins og Eyjunni þar sem gott yfirlit fæst yfir samfélagsblogg og fréttir. Fyrsti blogg-vinur minn er reyndar gamall vinur minn úr Framsóknarflokknum, Gestur Guðjónsson - mjög virkur í bloggi um stjórnmál - en sjálfur hef ég ekki enn gefið mér tíma til að fara yfir tæknilega hluti bloggsins eða hvernig maður stofnar til vina á þessum vettvangi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 22. mars 2008
Trú, lög og siðferði
![]() |
Vantrúaðir spila bingó |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 22. mars 2008
Framboð á "konunglegu" sundi - í samræmi við eftirspurn!
Í kjölfar færslu um blessunarlega rýmkun lögheimilaðs verslunar- og þjónustutíma fór ég einu sinni sem oftar í sund með niðjana. Gífurleg eftirspurn eftir sundi í góðviðrinu í gær minnti helst á blíðviðrisdagana sem alltaf voru í æsku(minningu) minni í sundlaug Akureyrar þar sem ég er upp alinn. Framboðið á sundlaugum á föstudaginn langa nú var ekki síðra en eftirspurnin því í gær átti ég úr a.m.k. 4um laugum að velja hér á svæðinu, þ.e. Salalaug hér í Kópavogi sem er opin 8-12 stundir á dag alla frídagana fimm auk 3ja í Reykjavík (Árbæjarlaug, Laugardalslaug og Vesturbæjarlaug). Þessar laugar eru einnig allar opnar á morgun, sjálfan páskadag, í samræmi við undanþágu frá banni laga um helgidagafrið - sem ég tel þó helst til flókna lagasetningu eins og þessi texti gefur til kynna: rúm lögbundin undanþága frá víðtæku banni sömu laga.
Ég hef ekki kannað opnunartíma annarra lauga hér á Suðvesturhorninu sem ég sæki þó oft. Þessi góða þjónusta hefur reyndar lengi verið mér birtingarmynd þess að þó að einkaaðilar reki oft betur (í tvíræðum skilningi) en opinberir þá sýna sundlaugar landsmanna - nær allar reknar af hinu opinbera og væntanlega allar fyrir almannafé - að ekki þar með sagt að hið opinbera geti ekki veitt góða þjónustu; í þessu tilviki er hluti rekstrarfjárins reyndar fenginn með greiðslu frá borgurunum fyrir veitta þjónustu sem þannig teljast í raun neytendur.
Helst hef ég tvennt að athuga við þessa frábæru þjónustu sveitarfélaganna um hátíðarnar undanfarin ár. Annars vegar að greiða þarf fyrir laugarnar í með sérstöku korti fyrir hvert sveitarfélag og jafnvel fyrir hverja laug í stað þess að unnt sé að kaupa klippikort eða árskort í þær allar sameiginlega (þó að ég hafi enn ekki ákveðið að láta það til mín taka í embættis nafni). Hins vegar þarf maður helst að vita eða hringja eða koma í sundlaugina til að kanna þjónustutímann því nokkuð djúpt er á honum á PDF-skjali eftir 4 smelli af forsíðu vefs Reykjavíkurborgar. Styttra var í opnunartíma Sundlaugarinnar í Versölum af vef Kópavogsbæjar - bæði í tíma talið og í smellum. Þetta er því dæmi um annan smell sem mér er ljúft og skylt að taka undir; það er gott að búa í Kópavogi!
Nafnið sundlaugin í Versölum (sbr. friðarhöllina Versali í Frakklandi) leiðir hugann að þeirri skemmtilegu staðreynd að þrjár þeirra lauga, sem eru innan seilingar fyrir 2/3 hluta landsmanna og ég hef sótt mikið í gegnum tíðina, eru kenndar við hallir. Sú nýjasta er þessi heimalaug mín (oft nefnd Salalaug í daglegu tali). Hinar eru Sundhöllin í Reykjavík - ein fyrsta sundlaugin fyrir almenning, reist fyrir tilstilli Jónasar frá Hriflu og tekin í notkun fyrir rétt rúmum 70 árum - og Sundhöll Hafnarfjarðar við Herjólfsgötu - mín gamla sumardvalarlaug við sjóinn. Sundhallirnar tvær eru jafnframt þær einu á höfuðborgarsvæðinu (nema ég telji Hveragerði til úthverfis höfuðborgarinnar) þar sem (ó)reglulega er hægt að treysta á að geta stokkið af stökkbretti á höfuðborgarsvæðinu.
Í barlóminum þessa hátíðardaga vegna efnahags- og gjaldeyrisástandsins er gott að rifja eitthvað upp sem við á Íslandi erum hvað best í - að setja á fót og reka góðar og ódýrar sundlaugar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 21. mars 2008
Áttu bolla af hveiti - á föööstudaginn laaanga?
Hvað er langt síðan þú varst beðin(n) um eða þurftir að biðja um bolla af sykri, hveiti eða þvottaefni eða þvíumlíkum nauðsynjum að kvöldi eða á helgidegi? Í dag er föstudagurinn langi og þá mega verslanir og önnur þjónusta til handa neytendum lögum samkvæmt almennt ekki hafa opið, sbr. stutta umfjöllun mína hér.
Hvað sem fólki finnst um slíka takmarkandi löggjöf, trúarlegar og sögulegar ástæður hennar - og lagalegar og pólitískar hliðar hennar - má a.m.k. segja að takmarkanir þessar séu litlar miðað við það sem tíðkast hefur sums staðar annars staðar þar sem þeim hefur m.a. verið haldið frekar við lýði vegna hagsmuna launafólks, þ.e. einkum verslunarfólks. Þá eru takmarkanir á opnunartíma verslana ekki miklar nú miðað við það sem tíðkaðist áður fyrr.
Þetta held ég að sé ástæðan fyrir því að mér virðist mun sjaldgæfara eftir að ég varð fullorðinn og eignaðist eigið heimili að nágrannar biðji um að fá lánaðar einhverjar heimilisnauðsynjar; fyrir utan að fólk hefur dregið úr heimabakstri þá held ég að mikið framboð verslana í þéttbýlinu sem eru opnar lungann úr sólarhringnum og jafnvel hann allan sé megin ástæðan fyrir því að dregið hefur úr slíkum nágrannaheimsóknum.
Ég man fyrst eftir rýmkun opnunartíma verslunar í kaupfélagi KEA við Byggðaveginn á Akureyri þar sem lögð var á aukaálagning í formi hærra vöruverðs eftir tiltekinn tíma í lúgu, ef ég man rétt. Þó að í raun hafi þetta virst réttlátt - þannig að þeir neytendur sem nýttu sér þennan verslunartíma sem var dýrari, m.a. vegna hærra kaupgjalds á kvöldin - hefur þetta e.t.v. ekki svarað kostnaði við umsýslu að halda utan um tvöfalt vöruverð, ef svo má segja, svo í staðinn var kannski bara ákveðið í kjölfarið að hafa vöruverð alltaf tvöfalt!
Reyndar fannst mér föstudagurinn langi leiðinlegur þegar ég var strákur vegna þess að við bið eftir páskaegginu bættist - a.m.k í minningunni - að á heimilinu virtust í gildi óskráðar reglur um að ekkert skemmtilegt mætti gera þann dag; nú er það breytt - ég ætla einmitt að gera eitthvað skemmtilegt með börnunum mínum í góða veðrinu í dag. Við bætist að útvarpsdagskrá RÚV á föstudaginn langa virðist undanfarin mörg ár alltaf eiga sérstaklega vel við minn smekk.