6% eða sex orð - með áhrif

"Viðskiptafrelsi er afnumið á öllu Íslandi." Svona gæti 1. gr. laga hljóðað sem hefðu mikil áhrif - þrátt fyrir gagnorðan lagatexta. Dæmið er aðeins tekið til þess að sýna fram á að áhrif löggjafar og annars regluverks verður ekki mælt í fjölda orða, lagagreina eða hillumetra frekar en í kílógrömmum. Áhrif löggjafar eru mæld með mati á áhrifum hennar - eins og íslensk lög og alþjóðareglur kveða reyndar á um að gert skuli í tilteknum tilvikum.

 

Til þess að dæmið sé aðeins trúverðugra gæti 2. gr. laga um afnám viðskiptafrelsis hljóðað svo: "Allir viðskiptasamningar yfir 1.000 evrum skulu bornir undir viðskiptaráðherra til samþykkis eða synjunar." Svo gæti 3. gr. hljóðað með hefðbundnum hætti: "Lög þessi öðlast þegar gildi." Reglur sem þessar þyrftu reyndar líklega að vera í stjórnarskrá að mati okkar vildarréttarsinna til þess að standast (en ég ímynda mér að fylgismenn náttúruréttar teldu alls ekki fært að setja slíkar reglur, heldur ekki í stjórnarskrá) en það er sem betur fer önnur og óþörf saga.

 

Kjarni máls míns er að áhrif laga, reglna og stofnanakerfis er ekki eðlilegt að mæla með framangreindum "hlutlægum" hætti heldur m.t.t. mats á áhrifum þeirra - svo sem á áhættu, kostnaði, skuldbindingum og miðað við aðra kosti til þess að ná sama marki, eins og tilvitnuð lög (sjá einkum 3. gr.) gera til dæmis.

 

Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég heyrði yfirvegaða þjóðfélagsumræðu í þættinum Vikulokin í gær á Rás 1 hjá RÚV. Í sama þætti viku fyrr, laugardaginn 15. mars sl., spurði Ásta Möller þingkona og fyrrum samstarfskona mín í BHM mig hvort ég hefði lesið greinina hans Sigurðar Kára Kristjánssonar, samflokksmanns hennar í Sjálfstæðisflokknum. Það hafði ég ekki þá en fékk auðvitað tíma til þess á föstudaginn langa. Í grein sinni 15. mars í Morgunblaðinu (á bls. 29) endurtekur þingmaðurinn eins og Ásta rakti í þættinum þá rökstuddu afstöðu sína að misskilningur sé að mjög stór hluti löggjafar Evrópusambandsins (ESB) hafi þegar tekið gildi á Íslandi.

 

Sigurður Kári mælir ESB-löggjöfina í fjölda laga og reglna og tilgreinir ítarlega og með töflum hvernig hann fær niðurstöðu sína: að aðeins um 6,5% ESB-reglna hafi á 10 ára tímabili, 1994-2004, verið innleiddar í EES-samninginn sem Ísland á aðild að. Þessi mæling - og raunar einnig sú 80-90% magnmæling sem skólabróðir minn andmælir í greininni - er andstæð því viðhorfi sem ég kom að í þættinum. Ég hélt því fram að Ísland hefði í raun verið aukaaðili að ESB í 15 ár og þar hefðum við nánast allt - nema áhrifin og evruna. (Ég nefndi þó ekki landbúnaðarstefnuna sem er nú ekki svo frábrugðin okkar og sjávarútvegsstefnuna sem lengi hefur verið bent á að sé ekki hættuleg Íslendingum - sem auk þess býðst nú að taka þátt í að endurmóta hana með ESB).

 

Jafnframt freistaði ég þess í þættinum að rökstyðja að það væri nær því að taka um 2 ár að ganga í ESB og taka upp evru (ef Íslendingar vildu) - fremur en þau 7-10 ár sem það tæki að mati Steingríms J. Sigfússonar, þingmanns og formanns Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, sem var með okkur Ástu í þættinum auk Hallgríms Thorst stjórnanda.

 

Eftir að hafa starfað í um 10 ár fyrir launafólk og neytendur er ég viss um að áhrif aukaaðildar okkar að ESB (aðildar Íslands að EES-samningnum) eru mun meiri en 6% á landsvísu og gríðarleg á þessa hópa; sjálfur hef ég ekki haft tök á að meta þetta vísindalega - en ég tel augljóst að meta ber áhrifin fyrir fólkið í landinu en ekki mæla lengdina, þykktina, þyngdina eða annað "hlutlægt."

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Tryggvason

Takk; og þú ert "on record" á þeirri  nýjustu. Andmælin mín gegn mælifræði Sigurðar Kára byggi ég einmitt á umræðu við ykkur bræður mína - enda nær maður engu flugi með jábræðrum sínum.

Gísli Tryggvason, 24.3.2008 kl. 23:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.