Fæst orð höfðu mest áhrif - á skinkumálið

Á leiðinni austur í gær rifjaðist upp fyrir mér við Skíðaskálann í Hveradölum óveðrið sem ég lenti í þar 20. janúar 1994. Um leið áttaði ég mig á að ekki þarf ímyndað dæmi til þess að rökstyðja að fæst orð hafa mesta ábyrgð (svo maður snúi málshættinum við í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar þann dag). M.ö.o. hefði ég getað notað þennan dóm til þess að sýna fram á að áhrif laga og reglna á að meta en ekki mæla í lengd, þykkt eða þyngd - eins og ég rökstuddi í gær.

 

Ég var þennan dag ásamt fleiri laganemum í föruneyti undir stjórn Ólafs heitins Axelssonar hrl. til þess - ef ég man rétt - að skoða hvort þar væri hentugur veislustaður fyrir norræna málflutningskeppni laganema, Sporrong-Lönnroth, (frekar en árshátíð Orators). Þá skall á með blindbyl og ófærð sem olli því að fjöldi bíla sat fastur og nokkrir urðu að fá far með öðrum, þ.m.t. góðum jeppa Ólafs sem skilaði okkur skjótt til borgarinnar.

 

Minnisstæðara er mér þó að fram kom í fréttum RÚV síðdegis þennan fimmtudag í hátalara Skíðaskálans að meiri hluti Hæstaréttar (4:3) hefði komist að öndverðri niðurstöðu við héraðsdóm í fjölskipuðum dómi - í skinkumálinu fræga - þannig að alls höfðu reyndar 7 dómarar fallist á málstað ríkisins eins og þáverandi landbúnaðarráðherra, Halldór Blöndal, benti "réttilega" á. Hæstaréttardómararnir fjórir  réðu þó vitaskuld þeirri niðurstöðu að svohljóðandi upphafsákvæði laga um innflutning  var túlkað samkvæmt orðanna hljóðan:

 

"Innflutningur á vöru og þjónustu til landsins skal vera óheftur nema annað sé sérstaklega tekið fram í lögum eða milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að."

 

Þetta var eitt stærsta neytendamálið á þeim tíma og þar tókust á sjálfir stjórnarflokkarnir (eiginlega þeir sömu og í dag) en sóknaraðili var Hagkaup sem vildi fá - og fékk - hnekkt synjun fjármálaráðherra um leyfi til innflutnings á svínaskinku; lögin sögðu já og ráðherrann mátti því ekki neita fyrirtækinu um innflutningsleyfi eins og hann gerði. Sjálfstæðismenn sökuðu krata um að hafa breytt lögunum í laumi og að annað hefði komið fram í greinargerð en okkur laganemum fannst þetta skólabókardæmi um skýran lagabókstaf - sem ræður umfram skýringartexta í frumvarpi, ekki síst á sviði neytendamála.

 

Búvörulögum var að vísu breytt fljótlega í kjölfarið, að mig minnir, svo hér erum við enn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.