Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Miðvikudagur, 19. mars 2008
Snubbóttur endir - eða hvað?
Gaman að heyra að Hæstiréttur Svía hafi einnig lagt mat á hagsmuni neytenda með því að telja að "auglýsingahléin spilltu upplifun áhorfenda á myndunum" en við fyrstu fréttir af þessum dómi á BBC í gærkvöldi var aðeins vísað til höfundaréttar leikstjóra, sjá fyrri færslu mína. Þannig fetar Hæstiréttur Svíþjóðar góðan meðalveg með því að byggja niðurstöðuna ekki bara á réttindum eigenda höfundaréttar eins og skilja mátti við fyrstu fréttir BBC.
Annars er athyglisvert að lesa blogg um fréttina um þennan dóm því þar er annars vegar vísað til þess að sumir hlaði niður höfundaréttarvörðu efni af því að eigendur þess skjóta sig í fótinn - eins og ég hef áður fjallað um - og hins vegar rætt um bíómyndahlé sem stundum virkar þannig á mig að ég segi (eða hugsa) - gríðarlega hissa: "Þetta var snubbóttur endir!"
![]() |
Auglýsingahlé í kvikmyndum brot á höfundarrétti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 19. mars 2008
Fermingargjöfin í ár - getið nú!
Ég hef - að gefnu tilefni - verið að velta fyrir mér fermingargjöfum. Auðvitað mun talsmaður neytenda ekki geta þess hvaða skoðun hann hafi á vænlegum gjöfum í þessu efni frekar en öðru sem mætti túlka sem auglýsingu fyrir fyrirtæki eða vörur; en ef ég skyldi ekki finna góða gjöf þá er alltaf hægt að gefa pening - eins og sagt er - en hvaða pening?
Ég er hræddur um að ég geri eins og ég gerði um daginn þegar ég þóttist sjá í hvað stefndi - en vildi samt í alvöru verðlauna starfsmann embættisins fyrir frábæran árangur; maður vill gefa eitthvað sem endist: ég gef evrur!
Þriðjudagur, 18. mars 2008
Leikstjórar vinna mál gegn sjónvarpsauglýsingum - en hvað með neytendur?
Ég heyrði á BBC í kvöld af niðurstöðu Hæstaréttar Svíþjóðar um að auglýsingar, sem rufu sýningu bíómyndar, hefðu brotið gegn höfundarétti leikstjóranna - þó að auglýsingarnar hefðu aðeins komið á milli atriða; gott mál - en hvers eiga neytendur að gjalda?
Málið er birtingarmynd þess að þrátt fyrir réttarumbætur undanfarinna ára í þágu neytenda - ekki síst vegna áhrifa frá Brussel - er vestrænt réttarkerfi enn miðað við fyrirtæki og eignarrétt. Þarna var tekist á um hagsmuni og eignarréttindi þeirra litlu - eigenda höfundaréttar - gagnvart hagsmunum og eignarréttindum hinna stóru - eigenda sjónvarpsstöðva og auglýsenda.
Þó að þarna hafi hinir litlu sigrað þá stærri er því miður enn sjaldgæft að hinir minnstu - neytendur - hafi sigur í vörn gagnvart ásókn fyrirtækjanna. Sá tími mun þó væntanlega koma - líka á Íslandi.