Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Mánudagur, 12. maí 2008
Það er gott að synda í Kópavogi
Á fjórföldum hátíðisdegi í gær - hvítasunnu, mæðradegi, sigurdegi Manchester United og afmælisdegi Kópavogs - var lýst opin endurbætt "gamla" Kópavogslaugin. Við börnin nutum þess í dag á fyrsta opnunardegi hennar að fara í þessa frábæru laug með góðar aðstæður og fjölskylduvæna hönnun; sem dæmi má nefna eru heitari pottar áfastir barnapottum þannig að við foreldrar getum látið þreytu og streitu líða úr kroppnum um leið og við fylgjumst með börnunum okkar í skemmtilegum barnapotti alveg við. Ég hirði ekki um að nefna smávægilega annmarka hér sem eflaust verður bætt úr enda slær laugin nú flestum fjölskyldulaugum við - en höfum við þó farið víða í laugar.
Mánudagur, 12. maí 2008
Rúm 90% svarenda vilja takmarka dreifingu fjölpósts til neytenda
Rétt rúmlega 90% svarenda í óformlegri skoðanakönnun hér á neytendablogginu vilja takmarka dreifingu óumbeðins fjölpósts til neytenda. Í þessu felst mikilvæg leiðbeining fyrir mig sem talsmann neytenda - sem hef unnið að slíkri takmörkun - því að mínu mati er þetta óvenju afdráttarlaus niðurstaða sem hlýtur því að gefa vísbendingu um vilja neytenda þó að auðvitað sé könnunin ekki eftir kúnstarinnar reglum, aðferðarfræðilega, þar sem ekki er um tilviljunarúrtak að ræða. Niðurstaðan er hins vegar mun afdráttarlausari en ég átti von á þrátt fyrir umfjöllun undanfarið sem má m.a. lesa hér, hér og hér á bloggsíðu minni og á vefsíðu talsmanns neytenda.
Spurt var:
"Á að takmarka rétt atvinnurekenda til þess að dreifa óumbeðnum fjölpósti í póstkassa/-lúgur neytenda með almennum reglum?"
Þá er athyglisvert að mikill meirihluti þeirra (60%) sem svara játandi vilja ganga lengra en lagt hefur verið til í starfsnefnd á vegum Póst- og fjarskiptastofnunar, þar sem ég átti sæti, en lesa má um strand þess starfs hér. Þessi stóri meirihluti svarenda, sem vill takmarkanir, vill að aðeins þeir sem segi sérstaklega "já takk" við fjölpósti fái hann - sem gengur mun lengra en ég hef lagt til í því skyni að tryggja rétt neytenda; slík leið þarf hins vegar að mínu mati að styðjast við traustari (laga)heimildir en sú leið sem ég reynt að tryggja og virkja, þ.e.a.s. að neytendur geti á einfaldan og samræmdan hátt sagt "nei takk" við fjölpósti og eru 40% þeirra neytenda, sem vilja almennar takmarkanir, sáttir við þá nálgun.
Af um 120 þeirra sem greiddu atkvæði var enginn hlutlaus eða vildi ekki svara; það segir sína sögu! Því voru rétt innan við 10% svarenda þeirrar skoðunar að ekki þyrfti að takmarka með almennum reglum rétt atvinnurekenda til þess að dreifa óumbeðnum fjölpósti í póstkassa eða -lúgur neytenda. Þeir skiptust milli svarkostanna að ástandið væri fínt eins og það væri (6%) og að neytendur gætu passað sig sjálfir (3,4%).
Önnur athyglisverð niðurstaða er reyndar að aðeins tæplega 15% þeirra nærri 800 gesta sem litu inn á bloggsíðu mína þessa rúma þrjá sólarhringa sem hin óformlega skoðanakönnun stóð yfir (fyrir mistök í stað 2ja) greiddu atkvæði. Auk hugsanlegs áhugaleysis á málefninu kann þessi lága "kjörsókn" að helgast af tvennu. Annars vegar eru e.t.v. margir sem eru fastagestir á síðunni og geta aðeins greitt atkvæði einu sinni í hverri könnun þó að þeir teljist sem gestir einu sinni á hverjum sólarhring (og myndi þá hlutfallið hækka í allt að 1/3-2/3 eftir því hvaða sólarhring er miðað við). Hins vegar voru færslur eftir upphafsfærsluna ekki tengdar fjölpósti nema neðanmáls. Þessi óvissa um "kjörsókn" gæti falið í sér að skynsamlegt væri að óformlegar skoðanakannanir stæðu aðeins í sólarhring og þá helst á virkum dögum þegar fréttalestur er heldur meiri (eða mjög lengi, ótímabundið, eins og sumir gera).
Eins og áður hefur vakin athygli á hér og við bloggdeild mbl.is er því miður ekki hægt að sýna niðurstöður skoðanakönnunar á blogginu eftir að tímabundinni könnun lýkur. Leiðbeiningin sem felst í slíkri óformlegri könnun sem þessari veitir hins vegar líkur á því að áframhald verði á hér á neytendablogginu.
Sunnudagur, 11. maí 2008
"Til hamingju með daginn"
"Til hamingju með daginn,"
sagði maðurinn þegar ég kom í heita pottinn rétt upp úr kl. fjögur í dag. Ég hikaði; ég hélt ekki að ég væri svo kvenlegur í útliti - auk þess sem við þekkjumst ágætlega. Við þekkjumst þó greinilega ekki nógu vel - því ég sagði bara,
"takk sömuleiðis"
- í trausti þess að við værum sammála um að samgleðjast yfir mæðradeginum - enda var ég nýbúinn að láta börnin kaupa rósir handa móður sinni.
"Ég treysti því að þú sért United-maður,"
sagði hann þá, er hann sá hikið á mér.
***
Nú eru síðustu forvöð að taka afstöðu til þess hvort eitthvað - og hvað - skuli gert fyrir neytendur gagnvart fjölpósti í óformlegri skoðanakönnun hér til vinstri.
![]() |
Manchester United er enskur meistari 2008 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 11. maí 2008
Gráu hárin
Eldri dóttir mín vill að ég liti á mér skeggbroddana - ekki af því að henni finnist ekki flott að hafa nokkra gráa bletti. Hún veit líka að ég er ekki beinlínis orðinn gamall þó að ég sé örlítið hæruskotinn. Ástæðan er sú að gráu hárin minna hana á forgengileika lífsins og dauðann.
"Ég er svo hrædd um að þegar þú ert orðinn gamall - þá hugsa ég um að þú ert að fara að deyja."
**
Greiðið atkvæði um fjölpóst hér til vinstri.
Laugardagur, 10. maí 2008
Þetta er ekki neytendamál
Það er ekki beinlínis neytendamál að fólk geti nálgast afnotarétt af höfundaréttarvörðu efni án endurgjalds; hagsmunir og réttindi neytenda felast í því að slíkt efni sé búið til og selt við sanngjörnu verði og með eðlilegum skilmálum. Meðal þeirra er að neytendur borgi ekki oft fyrir sama afnotaréttinn eins og hér er bent á og rökstutt ítarlegar hér, þ.e.a.s. að ef diskur með tónlist, leik eða mynd eyðileggst geti neytandi fengið nýjan gegn vægu endurgjaldi ef hinum skemmdu "umbúðum" er skilað. Slík tilhögun myndi gagnast bæði rétthöfum og neytendum svo lengi sem diskar verða áfram notaðir sem umbúðir fyrir höfundaréttarvarið efni.
***
Hefðurðu greitt atkvæði um rétt neytenda gagnvart fjölpósti - hér til vinstri?
![]() |
Kröfu rétthafa vísað frá í Hæstarétti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 9. maí 2008
"Get ég fengið vinnu?"
Fyrir rúmum tveimur áratugum réðst ég til vinnu í sundlaug þar sem ég bjó í nokkur ár og gekk í menntaskóla og síðar háskóla á Norður-Sjálandi. Gegndi ég þá virðulegasta starfsheiti sem ég hef nokkurn tíma haft - fyrr og síðar - "livredder" (lífbjörgunarmaður) þó að starfið hafi ekki aðeins falist í að sitja á háum stalli og vaka yfir lauginni svo enginn drukknaði (hérna er starfsheitið ekki eins "sexy" - sundlaugarvörður; tókum við regluleg námskeið í björgun og skyndihjálp í því skyni. Til þess að halda okkur vakandi voru önnur verkefni, svo sem að taka á móti fötum og afhenda, þrífa o.fl.
Ein af leiðinlegri starfsskyldunum var að banna sundlaugargestum ýmislegt - svo sem að hlaupa og ganga á röngum stöðum en sundlaugarstjórinn hafði þá stefnu að sundlaugin skyldi ekki verða "skiltaskógur" heldur ættum við frekar að tilkynna sundlaugargestum (eftirá) það sem væri bannað. Eitt af því, sem sundlaugargestir máttu ekki, var að stytta sér leið yfir laugina með því að ganga á skilrúmunum breiðu sem skiptu 50 metra keppnislauginni upp í þrjár - fyrirtaks dýfingarlaug, barnalaug og 25 metra sund-laug.
Einu sinni sem oftar þurfti ég að tilkynna sundlaugargesti - neytanda - að hann mætti ekki ganga á skilrúmunum; til þess notaði ég, nýbúinn, frasa sem ég hafði komið mér upp eftir að hafa fengið þessa góðu og vellaunuðu vinnu eftir aðeins um ár í Danaveldi:
"Det er kun for ansatte,"
þ.e.
"þetta (skilrúmið) er aðeins fyrir starfsmenn."
Ekki stóð á skemmtilegu svari frá Dananum:
"Kan jeg blive ansat?"
***
Segðu skoðun þína á fjölpósti í fyrstu óformlegu skoðanakönnuninni hér til vinstri.
Fimmtudagur, 8. maí 2008
Fyrsta skoðanakönnun um fjölpóst
Nú birti ég fyrstu óformlegu skoðanakönnunina fyrir neytendur um fjölpóst, þ.e. hvort takmarka eigi með almennum reglum rétt atvinnurekenda til þess að dreifa óumbeðnum fjölpósti í póstkassa eða póstlúgur neytenda. Könnunin stendur í tvo sólarhringa.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.5.2008 kl. 00:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 7. maí 2008
Meðbyr með rétti neytenda til þess að afþakka fjölpóst
Frábært að eiga bandakonu í Stjórnarráðinu; miðað við stuðning umhverfisráðherra og undirtektir við umfjöllun mína um fjölpóst og fríblöð, m.a. á vefsíðu talsmanns neytenda, og viðbrögð við þessari frétt hér á blogginu er ég ekki í vafa um að viðunandi lausn fæst; aðeins er spurning um hvort löggjöf þarf til eða hvort samkomulag næst við þá sem dreifa fjölpósti og fríblöðum en lesa má um þær tilraunir hér og strand þeirra hér. Er e.t.v. rétt að endurtaka óformlegar skoðanakannanir hér um málið?
![]() |
Hægt verði að hafna fjölpósti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 6. maí 2008
Neytendum sem leita sálfræðings mismunað
Neytendum, sem vilja leita til sálfræðings, er mismunað - því aðeins geðlæknaþjónusta er niðurgreidd af ríkinu. Þessa framkvæmd hefur Hæstiréttur nú staðfest. Gagnrýndi ég röksemdir dómaranna og afstöðu löggjafa og ráðherra hér og rökstuddi ítarlegar í pistli mínum á heimasíðu talsmanns neytenda.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 5. maí 2008
Ian
Mér datt í hug þegar ég las - einu sinni sem oftar - þetta ofurblogg að ég er rosalega seinn að fatta; ég stundaði eiginlega engar skipulegar íþróttir í æsku fyrr en ég var - fyrir mistök - skráður á íþrótta- og málabraut í menntaskóla í Danmörku fyrir rúmum 20 árum. Þegar ég varð loks pabbi og fór að fylgjast með íþróttaiðkun annarra undraðist ég hvað margir strákar í fótboltanum virtust af erlendum uppruna; einkum fannst mér ótrúlega algengt að fótboltastrákar væru nefndir ensku nafni: "Ian."
Sífellt heyrði ég suma foreldra á hliðarlínunni kalla "Ian, Ian, Ian," meðan við hin kölluðum bara íslensk nöfn strákanna okkar:
- "áfram Gunnar,"
- "það var rétt, Friðjón" eða
- "góður Siggi!
Loks rann það upp fyrir mér að ekki var verið að kalla á "Ian" - heldur verið að segja við Gunnar, Friðjón eða Sigga: "í'ann" (boltann, fyrir þá sem eru enn fattlausari).