Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

10 ára afmæli - getið nú!

Ég hef þann undarlega eiginleika að muna - oft alveg óvart - alls konar dagsetningar, svo ég tali ekki um ártöl, bæði úr sagnfræði, sem ég les töluvert, og úr mínu eigin lífshlaupi. Það rifjaðist upp fyrir mér að í dag eru 10 ár síðan ég flutti fjórða og síðasta prófmálið mitt - og varð formlega héraðsdómslögmaður viku síðar (en á þeim degi fæddist eldri dóttir mín þremur árum eftir það). Þetta fjórða prófmál vann ég (reyndar fremur óvænt að mínu mati) eins og hin prófmálin - en við lögmenn segjumst jú vinna mál þegar svo ber undir - en þegar þau tapast, þá tapar skjólstæðingurinn!

 

Málið snerist eiginlega óbeint um neytendamál; stórframleiðandi daglegrar nauðsynjavöru og höfundur vinsæls lagstúfs sem notaður var um árabil til þess að auglýsa þá vöru deildu um hvort lagstúfurinn hefði verið seldur og keyptur til varanlegrar notkunar í þessu skyni - eða aðeins leigður þannig að endurnýja þyrfti greiðslu fyrir afnotaréttinn. Þetta var skemmtilegt mál og fróðlegt á sviði höfundaréttar. Ég kann ekki við að nefna aðilana eða lagstúfinn hér í meginmáli en lesendur geta sjálfsagt giskað og ég svarað í athugasemdum ef einhver hefur áhuga.


90%, 80% og 70% með vali neytenda gagnvart fjölpósti og fríblöðum

Kæru neytendur. Eftirfarandi eru niðurstöður úr þremur óformlegum skoðanakönnunum hér á neytendablogginu:

  1. Rétt rúm 90% svarenda vildu með almennum reglum takmarka dreifingu óumbeðins fjölpósts til neytenda.
  2. Rúm 80% svarenda vilja geta valið milli fjölpósts og fríblaða og afþakkað fríblöð sjálfstætt, þ.e. að "nei takk" (eða "já takk") gilti ekki um allt eða ekkert.
  3. Um 70% vilja geta afþakkað fjölpóst (auglýsingabæklinga) innan í fríblöðum.

 

Athyglisvert er að aðeins 1 af þeim  nærri 300 sem hafa svarað í þessum þremur óformlegu könnunum var hlutlaus. Kannski verður næsta skref að gera víðtæka og aðferðarfræðilega tæka skoðanakönnun ef einhver efast um vilja neytenda - sem ber að virða.

 

Ef ekki kemur í ljós að þessar niðurstöður - sem eru í samræmi við tilfinningu mína - séu í ósamræmi við almenna afstöðu neytenda mun ég byggja á þeim í samstarfi við stjórnvöld og á grundvelli samráðs við hagsmunaaðila í frekari vinnu á næstunni við að tryggja valfrelsi neytenda og rétt þeirra til þess að afþakka a.m.k. fjölpóst eða fríblöð sem þeir vilja ekki þiggja.


Mikill meirihluti svarenda vill ekki auglýsingabæklinga í fríblöðum

Merkilega fyrirsjáanlegt - að mínu mati; niðurstaðan úr þriðju og líklega síðustu óformlegu skoðanakönnun minni um fjölpóst og fríblöð er sú að mikill meirihluti svarenda - um 70% - vildi geta afþakkað fjölpóst (auglýsingabæklinga) innan í fríblöðum. Um 18% töldu ekki nauðsynlegt að sporna við auglýsingabæklingum í fríblöðum en 12% völdu millileiðina - að 1-2 auglýsingabæklingar innan í fríblaði væri innan marka.

 

Svarendur voru að vísu færri en í fyrstu könnuninni , aðeins rúmlega 80, enda stóð þessi skemur.

 

Á morgun verða kannanirnar þrjár bornar saman og greindar að því marki sem unnt er með aðferðarfræðilega takmarkaðar kannanir þar sem úrtakið er ekki tilviljunarkennt - heldur sjálfvalið.


Til hamingju (við) Norðmenn

Í dag er þjóðhátíðardagur okkar Norðmanna - 17. maí - sem eins og margir vita hefur eins og íslenski þjóðhátíðardagurinn skírskotun í dag sem tengist sjálfstæðisbaráttunni. Færri vita kannski eða muna að fyrir örfáum árum má segja að ríkisstjórn Íslands hafi verið að 1/6 norsk (sem líklega er grundvöllur Spaugstofu-paranojunnar um norska samsærið):

 

Geir H. Haarde fjármálaráðherra, nú forsætisráðherra, er hálfnorskur í föðurætt eins og margir vita, Siv Björg Juhlin Friðleifsdóttir, sem hefur verið umhverfis- og heilbrigðisráðherra (man ekki í svipinn hvað hún var þá) og er nú alþingiskona, er hálfnorsk í móðurætt, Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, sem þá var, nú sendiherra, er hálfnorskur í föðurætt og Valgerður Sverrisdóttir, sem þá var iðnaðar- og viðskiptaráðherra og situr á Alþingi, er gift norskum manni - og stundum er jú talað um maka sem betri helminginn. Samkvæmt þessu voru 4 af 12 ráðherrum - 1/3 ríkisstjórnarinnar - "hálfnorskir" og íslenska ríkisstjórnin því að 1/6 norsk! Þetta fannst okkur Norðmönnum ágætt - en sjálfur taldi ég mig allt að því hálfnorskan fram eftir aldri af því að ég er fæddur í Noregi. Nú hef ég áttað mig á að svo er ekki en mér er alltaf hlýtt til Norðmanna eins og fram hefur komið.

 

Þennan dag 1814 var ein elsta stjórnarskrá Evrópu undirrituð á Eiðsvelli, fyrir norðan Osló (þá Kristjaníu). Til hamingju Norðmenn!


Er þér sama um fjölpóst, fríblöð og auglýsingabæklinga?

Áttu eftir að segja skoðun þína á auglýsingabæklingum og fríblöðum? Þú hefur tækifæri til morguns í óformlegri skoðanakönnun hér til vinstri. Sjá hér umræðu um mörkin þar á mili og önnur álitamál um þetta brýna málefni.


Mega auglýsingabæklingar vera innan í fríblöðum?

Nú birtist þriðja og væntanlega síðasta óformlega skoðanakönnunin um fjölpóst og fríblöð - hér til vinstri - og stendur hún í tvo sólarhringa. Í þeirri fyrstu varð niðurstaðan að 90% svarenda vildu, með almennum hætti, takmarka dreifingu fjölpósts til neytenda. Í annarri könnuninni kom fram að 81% vildi geta valið milli fjölpósts og fríblaða. Nú er spurt:

 

"Viltu geta afþakkað fjölpóst innan í fríblöðum?"

 

Taktu þátt og segðu þína skoðun.


Hve margir leggja fríblöð og fjölpóst að jöfnu? Sjáðu þessa óformlegu niðurstöðu

Jæja; þá er næsta skref að kynna niðurstöður úr annarri óformlegu skoðanakönnuninni hér um fjölpóst og fríblöð - en síðast varð niðurstaðan að 90% svarenda vildu, með almennum hætti, takmarka dreifingu fjölpósts til neytenda. Næst var spurt hvort neytendur vildu geta valið milli fjölpósts og fríblaða og afþakkað fríblöð sjálfstætt - eða hvort sama ætti að gilda um fríblöð og fjölpóst, allt eða ekkert? Skemmst er frá að segja að þó að sú skoðanakönnun hafi aðeins staðið í einn sólarhring varð svörun aðeins 33% minni en þó innan við 80 og því ekki marktækt tölfræðilega þannig að gera þarf alvöru könnun ef hagsmunaaðilar vilja byggja sameiginlega niðurstöðu beinlínis á slíkum könnunum. Niðurstaðan varð að aðeins 1 (%) var hlutlaus en 81% vildi geta valið milli fjölpósts og fríblaða. Um 18% lögðu fjölpóst og fríblöð að jöfnu og töldu því væntanlega ekki þörf á að í afþökkunarmiðum neytenda væri greint á milli fjölpósts (auglýsingabæklinga) og fríblaða (t.d. Fréttablaðsins, 24ra stunda eða Kópavogspóstsins).

 

Næstu skref verða kynnt síðar.


Hefurðu skoðun á fríblöðum og fjölpósti? Greiddu atkvæði!

Ef þú hefur skoðun á því hvort neytendur eigi að geta haft áhrif á hvort þeir fái fríblöð sjálfkrafa auk fjölpósts ættirðu að greiða atkvæði hér til vinstri. Ef þú hins vegar leggur fjölpóst (auglýsingabæklinga) og fríblöð að jöfnu vil ég auðvitað gjarnan líka heyra þitt sjónarmið. Athugasemdir eru vel þegnar ef spurningarnar endurspegla ekki veruleikann að þínu mati.


Ef þú fylgist ekki með barninu þínu, gerir það einhver annar

Foreldrar allra landa, sameinist; lítið á þetta - ef þið misstuð af frábæru Kastljósi nú í kvöld. Í stuttu máli er þetta auðvitað ekki bara neytendamál heldur almennt barnaverndarmál þar sem fram kemur m.a. að vefmyndavélar eiga ekki erindi til barna - einkum einmana barna, sem eru sjálfsagt mörg á Íslandi. Drengurinn fékk senda vefmyndavél í kynningarskyni! Hann var einmana og vantaði félaga - sem reyndust ekki vera táningar eins og hann heldur fullorðnir með aðrar hugmyndir en hann.

 

Ef við fylgjumst ekki með börnunum okkar fylgist einhver einhver annar með þeim - á netinu.


Allt eða ekkert; skoðanakönnun: Vilt þú geta afþakkað fríblöð sérstaklega?

Í óformlegri skoðanakönnun, sem lesa má um hér, var afdráttarlaus niðurstaða um hvort neytendur vildu takmarka almennt rétt atvinnurekenda til þess að dreifa óumbeðnum fjölpósti. Nú er spurt um fríblöð að auki - hér til vinstri. Spurningin er:

 

"hvort þú vilt geta valið á milli fjölpósts og fríblaða - og afþakkað fríblöð eða fjölpóst sjálfstætt?"

 

- eða -

 

"á "nei takk" (eða "já takk," sbr. hér) að gilda um bæði fjölpóst og fríblöð?"

 

Ef svo er myndi sá, sem afþakkar óumbeðnar sendingar á annað borð, hvorki fá fjölpóst né fríblöð - allt eða ekkert!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.