Neytendur eru líka hagsmunaaðilar

Nokkrar vangaveltur hafa verið að gefnu tilefni hvers vegna stjórnarmenn verði að víkja úr stjórn hlutafélaga í kjölfar refsidóms - þó ekki um regluna almennt heldur þegar dómur er skilorðsbundinn og hins vegar þegar hinn dæmdi er stór hluthafi.

 

Annars vegar velta sumir því fyrir sér hvort sama gildi um skilorðsbundna dóma; því er til að svara að skilorðsbundinn dómur felur í sér dóm þar sem dómari dæmir vissulega refsingu - en frestar fullnustu (framkvæmd) refsingar um tiltekinn tíma með skilyrði því að hinn dæmdi geri (ekki) eitthvað í þann tíma, þ.e. uppfylli tiltekin skilyrði (skilorð). Skilyrðið er yfirleitt að brjóta ekki af sér aftur á umræddum tíma, svonefnt almennt skilorð (svo eru til sértæk skilyrði). Því er dómurinn jafngildur öðrum og verður refsingin yfirleitt virk ef skilyrðin eru brotin.

 

Hins vegar hefur verið spurt hvort réttaráhrif refsidóms á stjórnarmenn séu hin sömu ef hinn dæmdi stjórnarmaður á stóran hluta eða meiri hluta hlutafjár eða jafnvel allt hlutaféð. Því hefur verið svarað af lögspekingum að í slíkum tilvikum sé engin undantekning gerð í lögunum og virðast sumir undrast það. Ég tel að það sé af því að þeir gleyma að hluthafar eru ekki þeir einu sem eiga hagsmuna að gæta gagnvart hlutafélagi og stjórn þess. Meðal annarra hagsmunaaðila eru viðsemjendur þess - bæði starfsmenn, kröfuhafar (birgjar) og neytendur.

 

Í þessu tilviki hefur löggjafinn gert það sem kalla má neikvæða kröfu til stjórnunar hlutafélaga (um að menn sem uppfylla tiltekin skilyrði, þ.e. hafa fengið refsidóm, megi ekki sitja í stjórn). Auðveldara er að rökstyðja slíkar (málefnalegar) kröfur til hlutafélaga en það sem kalla má jákvæðar kröfur en slíkar kröfur rakti ég í færslu hér og eiga röksemdirnar þar enn frekar við hér, þ.e. að kjarni laga um (einka)hlutafélög er takmörkuð ábyrgð eigenda gagnvart kröfuhöfum - þ.m.t. neytendum.


mbl.is Boltinn hjá öðrum stjórnarmönnum Baugs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband