Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Sunnudagur, 31. ágúst 2008
Misbeiting pólitísks valds við ráðstöfun opinberra embætta
Síðan Palin var valin (eins og 24 stundir orðuðu það svo skemmtilega í fyrirsögn) hef ég - ekki skipulega en nokkuð tilviljunarkennt undanfarinn 2 1/2 sólarhring - rekist á umfjöllun á netinu um hana og feril hennar. Auðvitað er bara gott að konan sé líka myndarleg auk þess að vera 5 barna móðir sem mér finnst ávallt plús. Aðalatriðið er að ég hallast að því að takmörkuð stjórnunarreynsla hennar sé fremur styrkur gagnvart hinum þremur (vara)forsetaframbjóðendunum (McCain, Obama og Biden) - sem fyrst og fremst hafa reynslu sem fulltrúar á löggjafarþingum. Þó að hún hafi verið bæjarstjóri í þorpi á stærð við Dalvík (sem á líka kláran bæjarstjóra - sem var reyndar einu sinni aðstoðarkona núverandi forseta Íslands) þá finnst mér hæpið að beita höfðatölunni á þetta þannig að þetta jafnist á við að vera formaður í fremur stóru húsfélagi á Íslandi (mín ólíking).
Mitt mat er enn í samræmi við fyrstu viðbrögð mín; þetta var taktískur leikur hjá McCain og sterkur enda þótt ég sé vissulega ósammála Palin um margt. Hvort val McCains er líka strategískt kemur í ljós við athugun á því hvort Palin hefur (fleiri) beinagrindur í skápnum eins og sagt var á enskri tungu þegar ég lærði hana fyrst af skólabókum.
Þegar hefur verið bent á eina beinagrind - og það sem meira er: niðurstaðan úr rannsókn á réttmæti ásakana gagnvart Palin eiga að liggja fyrir nokkrum dögum fyrir forsetakosningarnar; hún er sökuð um að hafa sem fylkisstjóri Alaska misbeitt pólitísku valdi með því að víkja embættismanni úr embætti í kjölfar þess að hann hafnaði flutning í annað embætti - en ástæðan er sögð vera sú að embættismaðurinn neitaði að reka starfsmann sem átti í deilum við fyrrverandi konu sína, systur Palin.
Fyrir mann, sem skrifaði ritgerð til embættisprófs í lögfræði um bótaskyldu hins opinbera við meðferð opinbers valds og hefur starfað lungann úr sínum starfsaldri sem lögmaður og lobbyisti við að fyrirbyggja spillingu við ráðningar í opinber störf og bregðast við valdníðslu við frávikningu úr opinberum störfum, er ljóst að þessi ásökun - ef rétt reynist - er frágangssök ef ég væri að kjósa varaforseta 72ja ára forseta.
Sunnudagur, 31. ágúst 2008
"Ekki karlar?"
Nú verð ég bara að segja frá svarinu sem báðar dætur mínar hafa gefið mér nokkuð furðu lostnar - alveg óháð hvor annarri og báðar í kringum 5 ára aldurinn. Þar sem ég þykist vera feministi hef ég annað slagið viljað vega upp á móti þeirri karllægu mótun sem við teljum jú að felist í samfélaginu - óháð því hversu vel foreldrar reyna að standa sig í jafnréttishugsun og aðgerðum sem bægja frá skilaboðum úr umhverfinu sem gætu gefið telpum röng skilaboð um (framtíðar)stöðu þeirra í þjóðfélaginu.
Væntanlega hef ég mótast af því að ég starfaði til skamms tíma fyrir hagsmunasamtök með 70% kvenna sem félagsmenn og sótti og varði réttindi þeirra. Ég hef ég sem sagt í góðu tómi talið rétt að árétta tiltekin sannindi (sem fyrir okkur feministum hafa þó ekki verið sjálfsögð í gegnum tíðina) fyrir dætrum mínum þegar þær voru að komast til vits og ára; í tvígang hef ég sagt eitthvað á þessa leið:
Stelpur geta allt sem þær vilja þegar þær verða stórar.
eða
Konur geta orðið hvað sem þær vilja.
Svar þeirra beggja - með um 2ja ára millibili ef ég man rétt - bendir til þess ég þurfi ekki að hafa eins miklar áhyggjur - a.m.k. ekki af dætrum mínum hvað þetta varðar:
Sú eldri sagði á sínum tíma með undrunarsvip:
Ekki strákar?
Í gær sagði sú yngri forviða:
Ekki karlar?
Laugardagur, 30. ágúst 2008
Engin predikun
Föstudagur, 29. ágúst 2008
"Velkominn"
Stundum á ég erindi í Ríkisútvarpið (RÚV) vegna viðtala sem óskað er eftir - og loks læt ég verða af því að geta þess sem ég hugsa í hvert skipti sem ég kem þar í anddyrið; hugsunin tengist því reyndar að ein best heppnaða ákvörðun mín um ráðningu er ráðning um andlit þeirra hagsmunasamtaka sem ég starfaði fyrir um árabil: móttökufulltrúinn.
Ég verð að segja að alltaf þegar ég kem í RÚV - stundum stressaður, í flýti og með hugann við málefnið sem spyrja á um - líður mér betur þegar ég er boðinn fallega velkominn og fæ inngöngupassa og skrái mig inn; enginn skyldi vanmeta þau mikilvægu störf sem eru andlit, rödd og jafnvel andi hvers vinnustaðar.
Föstudagur, 29. ágúst 2008
Lyktir?
Borgarráð hefur sem sagt ekki þegar lokið þessu brýna máli - heldur aðeins ákveðið að gera það; fyrirsögnin er því villandi - en ég hef nýlega áréttað umfjöllun mína um siðareglur, neytendur og stjórnmálafólk.
![]() |
Starfshópur lýkur gerð siðareglna fyrir borgarfulltrúa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 28. ágúst 2008
Meira klám
Af hverju erum við að hneykslast á því hver niðurstaðan er - þegar rangur aðili er spurður?
Vissulega er það rík tilhneiging - eins og ég hef, síðast í dag, bent á - að Íslendingar rífist frekar um hver á að ákveða en hvað á að ákveða.
Það er nú einu sinni þannig að við höfum á Íslandi ákveðna reglu um það hver takmarki svokallað atvinnufrelsi sem stjórnarskráin tryggir (ekki kvenfrelsi):
Það er löggjafinn - ekki einstakar sveitarstjórnir.
Þetta hefur ekkert með það að gera að ég þykist vera feministi eða að ég hafi starfað í mörg ár við að rétta hlut (háskóla)kvenna. Við verðum bara að banna þetta með lögum ef við viljum.
![]() |
Nektardans á Óðali og Vegas heimilaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 28. ágúst 2008
Viðtal um skuldaklafa og önnur neytendamál
Ég var í viðtali um neytendamál í morgun á rás 1 á Ríkisútvarpinu - í beinni útsendingu þannig að ég á eftir að hlusta á þetta sjálfur en kannski vilja fleiri heyra en voru við viðtækið í morgun.
Miðvikudagur, 27. ágúst 2008
Stoltur
Meira að segja ég (sem horfi helst ekki á aðra stunda íþróttir og aðhyllist lítt opinbera þjóðrækni) er stoltur - bæði af landsliðinu og forsetanum.
![]() |
Orðuveiting á Bessastöðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 27. ágúst 2008
Dómararannsókn - fyrir staðreyndirnar
Þó að ég sé gamall herstöðvarandstæðingur ætla ég ekki að tjá mig mikið um vopnleysisstefnuna hér og nú en ég er henni ekki fráhverfur í fljótu bragði. Ég vildi bara koma þeirri skoðun á framfæri að ég vona að það sé fordæmisgefandi að ráðherrar kalli dómara - starfandi eins og stundum í Danmörku en gjarnan fyrrverandi eins og í þessu tilviki - til rannsóknarstarfa í umdeildum álitamálum sem ekki heyra augljóslega undir þá úrlausnaraðila og aðhaldsstofnanir sem fyrir eru.
Við Íslendingar þurfum á því að halda að óvilhallt og pólitískt óumdeilt fólk eins og þessir virtu, fyrrverandi hæstaréttardómarar, þ.e. Guðrún Erlendsdóttir og Haraldur Henrysson (að mig minnir þó að það komi ekki fram í tilvísaðri frétt), greini álitamálið fyrst.
Nei, það er ekki til þess að lögfræðivæða þjóðfélagið eða gera sérfræðinga að yfirdómurum alls; það er til þess að við Íslendingar getum hætt að deila um staðreyndir og farið að ræða af alvöru um matsatriði og eyða orkunni í að komast að niðurstöðu um pólitískt mikilvæg álitamál, t.d. í kjölfar umdeildra mála.
Þessi hefð til dómararannsókna samkvæmt skýru erindisbréfi hafði áhrif á mig sem ungan mann í Danmörku og fór ég í kjölfarið í lögfræði.
Ég hef ekki haft tíma til að blogga um þetta fyrr - en auk þess fannst mér fyrirsögnin í einu dagblaðana í gær flott:
Vopnin kvödd.
![]() |
Mótuð verði skýr stefna um störf friðargæslunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 26. ágúst 2008
Þáði kampavín
Ég var á leið heim með flugi um daginn og keypti, aldrei þessu vant, smáræði í flugbúðinni og gaf upp umbeðna kennitölu; komst þá upp að ég átti afmæli þann dag og þáði ég boð um kampavín fyrir vikið - eins og hver annar neytandi.
Mér finnst hins vegar ekki hægt að embættismenn eða stjórnmálamenn þiggi gjafir stöðu sinnar vegna eins og ég hef rökstutt í ítarlegu máli á tilvísuðum stöðum.
Ég hef ekki greint sömu stöðu gagnvart stjórnendum fyrirtækja en mér hefur lengi fundist of í lagt á því sviði - enda ljóst hverjir borga brúsann á endanum: neytendur.
![]() |
Má flokka sem mútur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |