Fimmtudagur, 24. apríl 2008
Norðmenn eru bestir
Í anda umdeilanlegrar "gæðaröðunar" þjóða hér á bloggi Hammurabis í dag leyfi ég mér að alhæfa svona - sem maður á auðvitað ekki að gera - en nei, ég á ekki við í íþróttum; ég segi þetta heldur ekki bara af því að ég er staddur á ráðstefnu í Noregi (sjá fréttir hér en efnið tengist samstarfsverkefni okkar umboðsmanns barna um frekari mörk við markaðssókn sem beinist að börnum); enn síður alhæfi ég svona af því að ég er fæddur í Noregi enda man ég ekkert eftir búsetu minni hér.
Það sem vakti mig til þess að alhæfa með þessum hætti í fyrisögninni hér að ofan er upprifjun á reynslu minni í þá tæpu tvo áratugi sem ég hef tekið þátt í norrænu samstarfi - fyrst sem "danskur" og svo sem íslenskur laganemi í nokkur ár, þá sem framkvæmdarstjóri íslenskra heildarsamtaka háskólamanna í tæp 7 ár og nú undanfarin 3 ár sem talsmaður neytenda - en norrænir umboðsmenn neytenda hafa um árabil átt með sér náið og gott samstarf í þágu neytenda.
Reynsla mín er kannski tilviljunarkennd en þrátt fyrir að ég þykist tala dönsku eins og innfæddur og kunni vel við Finna af augljósum ástæðum og dáist að Svíum sem skipulögðum en samt félagslega sinnuðum alþjóðasinnum eru það - af einhverjum ástæðum - oft Norðmenn sem hafa, á margvíslega vísu, reynst mér best í norrænu samstarfi enda eigum við ýmislegt sameiginlegt, annað en upprunann og fiskveiðihagsmuni, svo sem að vera aukaaðilar að ESB.
Grænlendingum hef ég aðeins kynnst takmarkað og þá helst af hálfdönskum uppruna á námsárum mínum í Danmörku. Færeyingum hef ég því miður ekki kynnst síðan fallegar stúlkur frá landi þeirra komu til Akureyrar á táningsárum mínum. Svo má auðvitað ekki gleyma okkur Íslendingum sjálfum; við erum ágætir.
Sumarið er komið í Þrándheimi; gleðilegt sumar.
Hér má lesa einstaka fréttir um fróðlegt efni ráðstefnunnar um "Child and Teen Consumption".
Miðvikudagur, 23. apríl 2008
Gott hjá dómaranum
Gott hjá dómaranum að kveða skýrt að orði um að það er ekki hlutverk hans að leggja línur í neytenda- og neyslupólitík:
"Það [er] ekki hlutverk dómstóla á ákveða að æskilegt sé að neytendur velji frekar eina tegund áfengis en aðra og gera þannig upp á milli áfengistegunda á þann hátt, sem ákærði heldur fram að beri að gera. Því síður að slá því föstu að neysla áfengs bjórs sé fólki hollari en til dæmis drykkja brennivíns. Sýknukröfu ákærða á þessum grundvelli er því hafnað."
Þetta er auðvitað hlutverk löggjafans - ef ekki neytenda sjálfra. Frá sjónarhóli talsmanns neytenda er eftirfarandi hins vegar mikilvægasta innleggið, sbr. pistil minn fyrir rúmu ári um ábyrgð á áfengisauglýsingum, þ.e.a.s. fyrirtækið er nafngreint í auglýsingunni og því ber framkvæmdarstjórinn ábyrgð - en annars er það ritstjórinn eins og ég hef rökstutt:
"Auglýsingin var á vegum fyrirtækisins sem greiddi fyrir birtingu hennar. Fyrirtækið er tilgreint í auglýsingunum með nafni á flöskunum og liggur því fyrir nafngreining í skilningi 15. gr. laga um prentrétt nr. 75/1956. Ákærði, sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins, er því ábyrgur fyrir birtingu auglýsingarinnar og breytir engu þar um þótt aðrir starfsmenn þess hafi í starfi sínu annast það að semja eða láta semja auglýsingarnar, koma þeim á framfæri og greitt fyrir birtinguna."
![]() |
Dæmdur í sekt fyrir að birta áfengisauglýsingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 23. apríl 2008
Landsins versti bílasali
Er ekki rétt að huga að öðrum þáttum neytendamála fyrir bílaneytendur? Sá á neytendaþættinum Kontant á danska ríkissjónvarpinu í gærkvöld ítarlega umfjöllun um vonsvikna neytendur sem höfðu orðið fyrir barðinu á bílasala - sem hafði ekki bara selt bíla er ekki stóðust væntingar heldur stóðust hvorki yfirlýsingar hans um að bílar væru nýskoðaðir o.þ.h. né fór hann að álitum úrskurðarnefndar í neytendamálum í mörgum málum gegn honum. Umfjöllunin, sem var beinskeytt og fól m.a. í sér rökstuddar ásakanir um svik og skjalafals, er liður í kjöri neytendaþáttarins á Danmarks værste brugtvognsforhandler.
Rætt var við marga neytendur sem höfðu þurft að draga nafngreindan bílasalann fyrir úrskurðarnefndir og jafnvel dómsmál en allt kom fyrir ekki því þegar kom að því að fullnusta dóminn borgaði hann ekki og neytandinn bar sönnunarbyrði fyrir því að hann ætti eignir. Það var ekki fyrr en fjárnám hafði verið tekið í bílum , sem sannaðist að hann ætti, og komið var að því að fjarlægja þá að hann endurgreiddi bíla sem var skilað í kjölfar riftunar. Þátturinn sýnir hversu brýnt getur verið að nafngreina svörtu sauðina - og hafa fjölmiðla sem sinna rannsóknarblaðamennsku fyrir neytendur. Danska neytendakerfið er líkt hinu íslenska på godt og ondt en íslenskir neytendur hafa það kannski fram yfir danska að geta farið á einn stað á Leiðakerfi neytenda og leitað réttar síns með gagnvirkum hætti á www.neytandi.is. Það sem vantar á Íslandi er virkur neytendaþáttur í sjónvarpi á borð við þennan eins og ég hef bent útvarpsstjóra ítrekað á.
Þriðjudagur, 22. apríl 2008
Hæstiréttur skammar dómara en leyfir þeim að sleppa
Á mannamáli sýnist mér Hæstiréttur þarna vera að segja: Hæstiréttur getur ekki skipað þessum dómurum að dæma aftur í þessu máli þar sem lög kveða á um að dómstjóri úthluti málum og dómarar geti beðist undan því að dæma í máli - þó að þeir teljist ekki vanhæfir. Athyglisvert er að í því felst að um nýtt mál sé að ræða. Þannig staðfestir Hæstiréttur í raun niðurstöðu héraðsdóms um að sömu dómarar þurfi ekki að dæma aftur í málinu; Hæstiréttur fellst hins vegar ekki á þær röksemdir héraðsdóms að í fyrri hæstaréttardómi felist þrýstingur, sem héraðsdómur fann - að mínu mati réttilega - fyrir, um að komast að gagnstæðri niðurstöðu í þessu nauðgunarmáli.
Hæstiréttur skammar héraðsdómarann hins vegar fyrir að kalla þann þrýsting stjórnarskrárbrot - og gefur til kynna að einfalt hefði verið að víkja sér undan því að dæma aftur í málinu án þess að úrskurða sig vanhæfan með þessum hætti.
Kjarni málsins er þó að kerfið er vandinn eins og rakið er hér af félaga mínum og hér af mér.
![]() |
Dómarar fá ekki að víkja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 22. apríl 2008
Sáttamiðlun í deilu um málfrelsi!
Öðrum þræði er þetta neytendamál - hvað á neytandi rétt á að skrifa og hversu langt má notandi bloggheima leyfa sér gagnvart rekstraraðila - og öðrum notendum, bloggneytendum? Tjáningarfrelsi má samkvæmt stjórnlagafræðinni skipta í formlegt tjáningarfrelsi sem er nær takmarkalaust á Íslandi; ríkið getur yfirleitt ekki komið á ritskoðun eða annarri fyrirfram takmörkun á tjáningu fólks. Efnislegt tjáningarfrelsi er hins vegar takmörkum háð, m.a. vegna réttinda annars fólks - bæði einstaklinga á grundvelli meiðyrðalöggjfar, skaðabóta- og höfundaréttar o.fl. og hópa á grundvelli stjórnlaga og hegningarlaga.
Mér sýnast stjórnendur bloggsins hafa byggt á efnislegum takmörkunum og notendaskilmálum og e.t.v. hafa þeir litið til hugsanlegrar meðábyrgðar við ákvörðun sína. Af yfirborðskenndum lestri bloggs undanfarna daga um þetta deilumál um lokun bloggsíðu með gagnrýni á íslam virðist mér að aðferðarfræði sáttamiðlunar eigi fullt erindi til deilenda, bæði í þessu sérstaka máli og í hinni stærri deilu að baki. Ég var á námskeiði um sáttamiðlun í lok síðustu viku - einmitt í Skálholti þar sem sambærileg deila var fyrir 458 árum útkljáð með dauðadómi.
Ég hef verið að koma sáttamiðlun á framfæri við neytendur undanfarið, þ.e.a.s. gjaldfrjáls sáttamiðlun sýslumanna í neytendamálum. Aðferðarfræðin á að mínu mati erindi í bæði smáum sem stórum deilumálum og hentar oft betur en lögfræðileg nálgun sem rakin er stuttlega hér að framan.
![]() |
Óánægja með lokun umdeilds bloggs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 21. apríl 2008
Hagræði af hinum látnu
Sé að fleiri bloggarar hafa rekið augun í þessa skemmtilegu fyrirsögn sem minnir á fyrirsögn sem varð fræg fyrir mörgum árum Degi á Akureyri um það leyti sem ég var þar sumarblaðamadur: "Látnir þvo slökkviliðsbíla á nóttunni" - sem var þó í hagræðingarskyni (því um var ad ræða slökkviliðsmenn, ef ég man rétt) en ekki í viðurlagaskyni eins og í þessi frétt, sem er líka skemmtileg að efni til.
![]() |
Látnir tína upp plastpoka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 20. apríl 2008
Quid pro quo - skemmtilegar, myndrænar o.s.frv.
Eins og Hannibal Lecter (í Silence of the Lambs) benti réttilega á eru samskipti - líka á blogginu - eins og hver önnur viðskipti. "Upplýsingar eru gjaldmiðillinn," sagði umsækjandi um starf, sem ég féll fyrir - fyrir vikið - og réð í umrætt starf; ég sé það alltaf betur og betur að maðurinn, sem var reyndar sérmenntaður í þessum fræðum, hafði a.m.k. fræðilega rétt fyrir sér.
Gjaldmiðillinn á blogginu er, sem sagt, upplýsingar - hvort sem er fræðilegar, taktískar, umræðuhvetjandi, tæknilegar, skemmtilegar, stuðandi, myndrænar, fyndnar, hljóðrænar, ögrandi - eða hvað sem er. Það er það sem mín mánaðar reynsla hér segir mér að skilji feigan frá ófeigum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 19. apríl 2008
Hvernig velur maður bloggvini?
Hvernig velur maður sér vini, bloggvini? Velur maður fullt af fólki sem er eins og bloggarinn sjálfur eða velur maður vini eins og viðmælanda? Já. Mér finnst almennt skemmtilegra og gagnlegra að rökræða við þá sem eru svolítið ósammála mér - jafnvel með (allt) aðra lífsskoðun.
Vissulega er æskilegt - og jafnvel nauðsynlegt fyrir sálartetrið að hafa einstaka jábræður og -systur og þess vegna hef ég fagnað þeim sem boðið hafa mér bloggvináttu af þeirri ástæðu; en raunverulegar rökræður fást með því að lesa - og vera lesinn - af "andstæðingunum"
Þetta vona ég að endurspeglist í bloggvinalista mínum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Fimmtudagur, 17. apríl 2008
Nú get ég líka kallast talsmaður neitenda
Nú er ég sem talsmaður neytenda líka farinn að geta talist talsmaður neitenda - sbr. frétt mína hér um málamiðlunartilraun varðandi rétt neytenda til þess að segja: nei takk!
Miðvikudagur, 16. apríl 2008
Bakhús - ekki Bakkus (almannaþjónusta eður ei)
Ég var í góðu boði í ónefndu bakhúsi í borginni (fyrirgefið ofstuðlun) um daginn. Var því þá velt upp í gríni að réttast væri að rífa húsin framan við til þess að falleg sjávarsýnin nyti sín til fullnustu hjá bakhúsíbúum. Brandarinn minnti mig á tilhneigingu sumra (veit ekki hvort ég á að kalla þá hægrimenn eða hvað - því frjálshyggjumenn eru að mínu mati - eins og alvöru sósíalistar - yfirleitt samkvæmir sjálfum sér) síðan ég byrjaði að fylgjast með þjóðfélagsmálum á Íslandi af alvöru fyrir um tveimur áratugum.
Tilhneiging þessara ónefndu manna er sú að
- gera fyrst kröfu um að einkaaðilum sé leyfð starfsemi á sviðum sem hið opinbera hefur séð um eða einokað fram að því;
- krefjast svo styrkja til þeirrar starfsemi til þess að standa jafnt að vígi við þá aðila sem reka starfsemi á kostnað og jafnvel ábyrgð hins opinbera; og
- heimta svo að hinn opinberi aðili aðskilji ekki bara samkeppnisrekstur sinn frá þeim sem nýtur sérleyfis eða annarrar (óbeinnar) verndar heldur
- fara fram á að hið opinbera hætti rekstri á tilteknum sviðum, sem almenningur hefur eðlilega og í samræmi við stjórnarskrá treyst á að sinnt sé fyrir almannafé - og án þess að þjónusta sé háð greiðslu frá hverjum og einum - og þar með háð efnahag.
Í krafti stjórnarskrárákvæða leyfi ég mér að vekja máls á þessu álitaefni sem tengist a.m.k. óbeint neytendapólitík. Þið, neytendur góðir, getið sjálf - ekki síður en ég - velt fyrir ykkur dæmum af sviði útvarpsþjónustu, menningarþjónustu, heilbrigðisþjónustu, menntunar- og uppeldisþjónustu o.s.frv. - en þó að framangreind stig eigi við í mismiklum mæli, mismunandi röð og jafnvel með misríkri (ó)réttlætingu er þetta tilfinning mín eftir að hafa hugsað þetta mál, stúderað og unnið því tengt í um 20 ár.
Ég þykist vita að frjálshyggjumenn á borð við ónefnda ættingja mína í nefndu bakhús-boði (Bakkus var ekki þar) segi að einkarekstur sé alls ekkert bakhús - miðað við samlíkingu mína - sem biðja þurfi um leyfi til þess að vera til; einkastarfsemi sé lögmálið, einkarekstur sé það sem tíðka eigi nema annað sannist (eins og í sakamáli). Ég hallast hins vegar að því að opinber þjónusta þurfi þess heldur ekki heldur hafi hún sinn tilverurétt í huga almennings - og neytenda þessa góða lands. Ef lesendur efast geta þeir fengið staðfestingu í stjórnarskránni.