"Velkomin heim"

Þetta hefur maður oft heyrt í íslenskum flugvélum:

 

Velkomin heim.

 

Ég var að koma heim og þá finnur maður gjarnan hve gott - nei, nauðsynlegt - það er að eiga heimili. Gaman er að sjá hversu margar - jákvæðar - athugasemdir eru við þessa litlu frétt (þó að myndin hafi vissulega ekki staðfest fyrirsögnina, eins og bent var á í einni athugasemdinni) enda hef ég stundum haft áhyggjur af skorti á umburðarlyndi og alþjóðahyggju Íslendinga.

 

Ég get ekki sagt annað við nýju Skagamennina en:

 

Velkomin heim.


mbl.is Flóttafólkið brosti við heimkomuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafa neytendur mannréttindi?

Ég hef í gegnum tíðina verið ákafur stuðningsmaður - og gjarnan notandi - almenningssamgangna en þetta endurtekna frumkvæði frá í fyrra um gjaldfrjálsan strætó fyrir (suma) nema hefur leitt til fyrirspurna til mín um mismunun eftir aldri og stöðu. Sjálfur hef ég einkum velt fyrir mér álitamálinu um hvort rétt sé og eðlilegt að gera slíkan greinarmun á nemendum eftir lögheimili; er það mismunun eftir búsetu og er hún þá í lagi ef svo er?

 

Ég lét á sínum tíma málið ekki til mín taka formlega en lýsi eftir sjónarmiðum neytenda um þetta. Síðar í vikunni á ég að halda erindi hjá Háskólanum á Akureyri um það álitamál hvort neytendur hafi mannréttindi.


mbl.is Margir nemar sækja um strætókort
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fanny og Freddi þjóðnýtt eins og Norðurklöpp

Nú hafa meginríki kapítalismans, Bandaríkin og Bretland, bæði þjóðnýtt íbúðarlánabanka sem komnir voru í vandræði. Þar með er fallist á sjónarmið sem sjálft frjálslyndisritið Economist hefur talað fyrir um skeið, þ.e. að ekki gangi að hluthafarnir græði bara þegar vel árar en að skattgreiðendur deili svo byrðunum með þeim eða beri þær alfarið þegar illa fer.

 

Um þetta skrifaði ég m.a. 4. apríl sl.:

 

Síðast á laugardaginn var fjallaði Economist í leiðara með gagnrýnum hætti um afleiðingar hins frjálsa markaðar þannig að hluthafar græði þegar vel gengur en ríkið beri hluta af byrðinni:

 

...when the other investment bankers and their shareholders take on that extra bit of risk, knowing that they keep all the gains, but that the state will shoulder some of the losses?

 

 


mbl.is Bandaríska ríkið að yfirtaka fasteignalánasjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Name and shame

Fréttin - þar sem bæði hinar brotlegu verslanir og þær, sem standa sig betur, eru nafngreindar - virðist sýna að Neytendastofa hefur nú tekið upp þá aðferðarfræði sem ég hef lagt til og kölluð er "name and shame" á enskri tungu. Kenning mín er að nafngreining - bæði til góðs og ills - geti bæði verið skjótari og virkari aðferð til þess að halda fyrirtækjum við efnið enda er lagaskyldan til þess að verðmerkja vörur og birta verð á boðinni þjónustu afar skýr.

 

Viðurlögin eru líka skýr - stjórnvaldssektir Neytendastofu eða jafnvel refsingar.

 

Þetta milliúrræði - nafnbirting - er hins vegar hið virkasta að mínu mati. Síðast þegar ég tjáði mig um þetta á blogginu sagði ég m.a.:

 

Þessar fréttir af virku eftirliti með verðmerkingum vekja vonir um að ástandið batni vegna þess að nú eru auknar líkur á eftirliti, áminningum, viðurlögum og gjarnan nafnbirtingum fyrirtækja sem ekki standa sig og fara eftir settum reglum.

 

Næsta skref er samkvæmt fréttinni formleg viðurlög - en ekki er víst að til þess þurfi að koma því nú er viðvörun um frekari aðgerðir komin fram og með nafnbirtingu er búið að virkja besta eftirlitið: neytendur sjálfa - sem geta greitt atkvæði með fótunum.


mbl.is Verðmerkingum ábótavant í matvörubúðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott hjá ESB

Þetta er gott dæmi um að margar helstu úrbætur fyrir neytendur (og launafólk) - þ.m.t. margar mikilvægari en þessi tillaga - koma frá Brussel en neytendavernd í slíkum sendingum milli landa er hentugt viðfangsefni fyrir yfirþjóðlegan aðila eins og ESB.


mbl.is Vilja hámarksgjald á sms skilaboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott - eins og við mátti búast

Hann sagði þetta

 

telur Íslendinga ekki þurfa að óttast að missa yfirráðin yfir fiskimiðunum við inngöngu í ESB

 

að vísu ekki á fundinum svo ég tæki eftir; utanríkisráðherrann spænski var því miður allt of langorður - bæði í framsögu og í svörum. Hvorki samfylkingarfólkið - utanríkisráðherra og varaformaður utanríkismálanefnar Alþingis - né fundargestir sögðu því mikið eða spurðu; aðeins 2-3 spurningar komust að - og því miður ekki þessi (sem ég hefði annars borið fram) en gott er að lesa á mbl.is að hann hafi staðfest þetta - sem ég bjóst við sem svari.

 


mbl.is ESB-aðild forsenda evruupptöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisafskipti eingöngu af verðlagningu lánsfjár?

Í gær þáði ég - öðru sinni og með þökkum - þetta endurtekna góða boð um "ókeypis" þjóðhagfræðikennslu í boði ríkisháskólans - enda virðast flestir hagfræðingar telja mig á villigötum þegar ég efast um rétt sé að verðlagning á lánsfé sé háð öðrum lögmálum en önnur vara og þjónusta á markaði - sem á að heita frjáls. Fáir hagfræðingar styðja efasemdir mínar og því verð ég sem talsmaður neytenda að afla mér frekari þekkingar sjálfur.

 

Eftir að frjáls verðlagning á leigubifreiðarþjónustu var tekin upp fyrir um 2ur árum (þegar Samkeppniseftirlitið ákvað að ekki mætti lengur miðstýra verðlagningu, meira að segja með atbeina þeirrar ríkisstofnunar) er sennilega ekki margt fleira (ég lýsi eftir öðrum dæmum) en búvörur sem eru háðar ríkinu um verðlagningu; þetta kallast samkvæmt prófessor í HÍ staðreyndarhagfræði.

 

Flestir hagfræðingar, sem vinna ekki hjá hagsmunaaðilum sem hafa aðra hagsmuni, gagnrýna þetta fyrirkomulag þó - og telst sú afstaða samkvæmt sama prófessor svonefnd stefnuhagfræði.

 

Þess vegna skil ég enn ekki víðtæka andstöðu hagfræðinga við hugmyndir um að stór hluti endurgjalds fyrir lán á peningum - svokallaðar verðbætur í formi ríkisútreiknaðrar vísitölu neysluverðs - sé einfaldlega settur inn í vextina og þar með sýnilegri og háðari samkeppni.

 

Er þetta ekki eins og ef seljendur annarrar vöru og þjónustu gætu verðlagt fastakostnaðinn en rukkað eftir á og með aðstoð ríkisins fyrir breytilegan eða óvissan kostnað? Þá gæti bakarinn sagt:

 

Rúnnstykkið kostar 80 kr. - en svo rukka ég þig síðar um meira ef hitunarkostnaður eða heimsmarkaðsverð á hveiti (sem er þó "relevant" fyrir þann geira) hækkar mér í óhag - eða ef bakarasveinninn veikist.

 

Eini munurinn er að kaup á rúnnstykki eru í eitt skipti en lán eru gjarnan til 25 eða 40 ára - en breytir það dæminu? Það á líka við um neytandann að vilja vita að hverju hann gengur til langs tíma.

 

Boðið er upp á rökræður.


Opið bréf til útvarpsstjóra: hvenær kemur sjónvarpsþáttur fyrir neytendur í RÚV?

Í gær birtist á heimasíðu talsmanns neytenda opið bréf mitt í embættisnafni til útvarpsstjóra þar sem spurt er hvenær neytendur á Íslandi fái neytendaþátt í sjónvarpi - eins og lagt var til í bréfi talsmanns neytenda til útvarpsstjóra fyrir réttum þremur árum, daginn sem nýi útvarpsstjórinn tók við embætti æðsta stjórnanda hljóðvarps og sjónvarps í almannaþágu.

 

Að vanda eru í bréfi mínu lagðar til lausnir og bent á fyrirmyndir - en auðvitað er RÚV best til þess fallið að útfæra þetta brýna almannaþjónustuhlutverk.


Vaxandi gagnrýni á svonefnda verðtryggingu

Hér er góð, vel rökstudd, umfjöllun (og margar athugasemdir frá bloggurum) um málefni sem ég hef lengi leitast við að finna formlegan flöt á vegna efasemda minna um fyrirbærið en enn ekki tekist - m.a. vegna þess að fáir hagfræðingar vilja taka - ég meina auðvitað geta tekið - undir efasemdir mínar.

 

Viðfangsefnið hef ég formlega nefnt lengra og formlegra heiti en "verðtryggingin" er kölluð í daglegu tali, þ.e. eitthvað á þessa leið:

 

Gildandi fyrirkomulag á sjálfkrafa (lögvarinni) tengingu neytendalána við vísitölu neysluverðs.

 

Álitaefnið kalla ég helst ekki "afnám" verðtryggingar (sem væri þá eini valkosturinn við óbreytt ástand) - heldur hugsanlega eitthvað þar á milli; ég hef efasemdir um núverandi framkvæmd.

 

Ég hef einkum - en ekki eingöngu - gagnrýnt svonefnda verðtryggingu út frá tveimur sjónarmiðum - þannig að umfjöllun mín hefur ekki verið órökstudd

  • þó að ég hafi ekki komist að formlegri eða endanlegri niðurstöðu og
  • þótt sumir ljósvakamiðlar og jafnvel prentmiðlar klippi og skeri þegar þeir spyrja mig um svo flókið og umdeilt mál.

 

Í fyrsta lagi hef ég vakið athygli á því neytendasjónarmiði að óréttmætt sé að annar aðilinn, sá veikari, skuldarinn (oft neytandi) beri alla áhættuna af óvissum atburði - sem hann hefur enga stjórn á einn og sér, verðbólgunni; hinn aðilinn, t.d. banki, hefur hins vegar oft nokkkur áhrif á þenslu og þar með verðbólgu með athæfi sínu. Sú óskipta áhætta skuldarans er auk þess ekki háð neinum takmörkunum; maður gæti sagt:

 

"the sky is the limit." 

 

Þetta taka sumir lögfræðingar undir og stundum útlendingar - ef þeir skilja yfirleitt fyrirbærið sem ég er að reyna að lýsa. Mótrökin um að neytendur ávaxti líka fé eiga ekki fyllilega við að mínu mati þar eð þeir gera það ekki í atvinnuskyni - enda teldust þeir þá ekki neytendur samkvæmt skilgreiningu; neytendur sem ávaxta fé - annað hvort sem frjálsan sparnað eða (skyldu)bundinn lífeyrissparnað - gera það ávallt fyrir milligöngu sérfróðra aðila - svo sem banka og lífeyrissjóða - sem ströng skilyrði og ítarlegur lagarammi gildir um og verndar hann m.a. neytendur - auk samkeppnislögmála um bestu ávöxtun og markaðs- og efnahagslögmála um vaxtastig. 

 

Í öðru lagi hef ég haldið fram því efnahagslega sjónarmiði - sem vissulega er ekki á sérsviði mínu - að "verðtrygging" sé ekki bara lögvernduð afleiðing verðbólgu heldur líklega að nokkru leyti orsök hennar; sterkir aðilar á markaði hafa m.ö.o. ekki sérstakan hag af því að halda niðri verðbólgu því að þeir fá vextina ávallt (sem eru ekki lágir hérlendis) auk verð"bóta" ofaná - óháð sinni fjármögnun. Jafnvel kunna einhverjir að hafa hagnast af meiri verðbólgu án þess að ég hafi ennþá beinlínis leitað uppi slík dæmi.

 

Í fyrra tók ég í embættisnafni með umsögn til viðskiptaráðuneytis undir fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur þingkonu um brýna þörf á greiðsluaðlögun - m.a. með vísan til þeirrar útbreiddu verðtryggingar sem tíðkast hérlendis. Nýverið áréttaði ég þessa afstöðu í ítarlegri umsögn um drög viðskiptaráðuneytis að frumvarpi um greiðsluaðlögun sem er félagslegt úrræði til handa neytendum í verulegum greiðsluvandræðum. RÚV fjallaði síðan um umsögnina síðdegis í gær í fréttum hljóðvarps.

 

Í hádegisfréttum Stöðvar 2 og Bylgjunnar í gær var svo fjallað um "afnám verðtryggingar" og aftur komu svo andmæli í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi.

 

Opinber rökræða heldur áfram.


Misbeiting pólitísks valds við ráðstöfun opinberra embætta

Síðan Palin var valin (eins og 24 stundir orðuðu það svo skemmtilega í fyrirsögn) hef ég - ekki skipulega en nokkuð tilviljunarkennt undanfarinn 2 1/2 sólarhring - rekist á umfjöllun á netinu um hana og feril hennar. Auðvitað er bara gott að konan sé líka myndarleg auk þess að vera 5 barna móðir sem mér finnst ávallt plús. Aðalatriðið er að ég hallast að því að takmörkuð stjórnunarreynsla hennar sé fremur styrkur gagnvart hinum þremur (vara)forsetaframbjóðendunum (McCain, Obama og Biden) - sem fyrst og fremst hafa reynslu sem fulltrúar á löggjafarþingum. Þó að hún hafi verið bæjarstjóri í þorpi á stærð við Dalvík (sem á líka kláran bæjarstjóra - sem var reyndar einu sinni aðstoðarkona núverandi forseta Íslands) þá finnst mér hæpið að beita höfðatölunni á þetta þannig að þetta jafnist á við að vera formaður í fremur stóru húsfélagi á Íslandi (mín ólíking).

 

Mitt mat er enn í samræmi við fyrstu viðbrögð mín; þetta var taktískur leikur hjá McCain og sterkur enda þótt ég sé vissulega ósammála Palin um margt. Hvort val McCains er líka strategískt kemur í ljós við athugun á því hvort Palin hefur (fleiri) beinagrindur í skápnum eins og sagt var á enskri tungu þegar ég lærði hana fyrst af skólabókum.

 

Þegar hefur verið bent á eina beinagrind - og það sem meira er: niðurstaðan úr rannsókn á réttmæti ásakana gagnvart Palin eiga að liggja fyrir nokkrum dögum fyrir forsetakosningarnar; hún er sökuð um að hafa sem fylkisstjóri Alaska misbeitt pólitísku valdi með því að víkja embættismanni úr embætti í kjölfar þess að hann hafnaði flutning í annað embætti - en ástæðan er sögð vera sú að embættismaðurinn neitaði að reka starfsmann sem átti í deilum við fyrrverandi konu sína, systur Palin.

 

Fyrir mann, sem skrifaði ritgerð til embættisprófs í lögfræði um bótaskyldu hins opinbera við meðferð opinbers valds og hefur starfað lungann úr sínum starfsaldri sem lögmaður og lobbyisti við að fyrirbyggja spillingu við ráðningar í opinber störf og bregðast við valdníðslu við frávikningu úr opinberum störfum, er ljóst að þessi ásökun - ef rétt reynist - er frágangssök ef ég væri að kjósa varaforseta 72ja ára forseta.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband