Sunnudagur, 21. september 2008
Heilsufæði
Í nýjum pistli frá sérfræðingi hjá Matís ohf. á heimasíðu talsmanns neytenda í dag er fjallað um Heilsufæði - m.a. hvort heilsufæði teljist lyf eða matvæli.
Í inngangi sérfræðingsins, Þóru Valsdóttur, segir m.a. að heilsufæði sé
alls kyns matvæli sem eru ætluð til að bæta heilsu. Það sem kemur fyrst upp í huga flestra þegar þeir heyra orðið heilsufæði eru sérhönnuð matvæli til að bæta heilsu og hugtök á borð við lífræn ræktun, engin aukaefni, mjólkurlausar vörur, sykurskertar vörur, glúten- og gerlausar vörur og lágmarks fituinnihald.
Í pistlinum er m.a. vikið að ráðleggingum föður læknisfræðinnar, Hippokratesar, fyrir 2.500 árum og allt að gildandi reglum og þýðingu heilsufæðis í dag.
Þetta er fyrsti pistillinn í talhorni talsmanns neytenda frá sérfræðingi i neytendamálum hjá annarri sérfræðistofnun - og vonandi upphafið að samstarfi við stofnanir, almannasamtök og fjölmiðla um að bera á borð fyrir neytendur hluta af þeirri þekkingu sem þar er fyrir hendi og getur nýst neytendum.
Laugardagur, 20. september 2008
Neytendur segja já
Neytendasamtökin, stærsti og elsti lýðræðislegi fulltrúi neytenda á Íslandi, hafa nú bæst í hóp hagsmunasamtaka atvinnurekenda og svarað jákvætt spurningunni um hvort Ísland eigi að leita eftir aðildarviðræðum við Evrópusambandið - sem sé heimilum í landinu í hag.
Um þetta var sögð frétt á nýsameinaðri fréttastofu RÚV síðdegis en ég hef ekkert fundið á mbl.is um þessi stórtíðindi enn.
Mér vitanlega hafa heildarsamtök launafólks - ASÍ, BHM og BSRB - ekki tekið formlega afstöðu í þessu efni.
Föstudagur, 19. september 2008
Vilja neytendur á Íslandi aðild að ESB?
Mikið hefur verið rætt um gjaldmiðils- og Evrópumál undanfarið og hefur Framsóknarflokkurinn m.a. nýverið kynnt skýrslu um kosti í fyrrnefndu máli til undirbúnings stefnumörkun. Neytendasamtökin hafa líka unnið sína heimavinnu í síðarnefnda málinu - sem er líka stórt neytendamál. Á þingi samtakanna sem sett verður nú eftir hádegi er málið á dagskrá:
Felast hagsmunir neytenda í Evrópusambandsaðild?
Í fyrrnefndri skýrslu Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst fyrir Neytendasamtökin kemur þetta m.a. fram í kynningu á vef NS í apríl sl.:
- Með aðild að ESB yrði Ísland um leið aðili að tollabandalagi ESB. Því myndu þeir tollar sem enn eru milli Íslands og ESB landanna falla niður og munar þar mestu um landbúnaðarvörur. Þetta myndi skila sér í lægra verði á þessum vörum. Tollar gagnvart ríkjum utan ESB gætu í sumum tilvikum hækkað.
- Með aðild að tollabandalaginu myndu netviðskipti við fyrirtæki innan ESB verða ódýrari og einfaldari. Slíkt myndi auka samkeppni gagnvart ýmsum innlendum fyrirtækjum.
- Ljóst er að samhliða aðild þyrfti að endurskipuleggja íslenskan landbúnað á sama hátt og Svíar og Finnar gerðu áður en þessi lönd gengu í ESB. Draga þyrfti úr stuðningi við íslenskan landbúnað en nú er sá stuðningur með því hæsta sem gerist. Það er hins vegar ljóst að við eigum góða möguleika að ná samningum varðandi stuðning við innlendan landbúnað miðað við þá samninga sem Finnar náðu fram, þar sem allt Ísland fellur undir skilgreiningu um landbúnað á harðbýlu svæði eða heimsskautalandbúnað. Vegna þessa eru möguleikar á að fá meiri styrki til íslensks landbúnaðar frá ESB en lönd sunnar í álfunni fá. Einnig er mögulegt að íslensk stjórnvöld fengju heimild til að styrkja landbúnað sinn meira en gildir um önnur lönd innan ESB.
- Talið er að matvælaverð geti lækkað um allt að 25% með inngöngu Íslands í ESB.
- Með aðild að myntbandalagi ESB má gera ráð fyrir að vextir á íbúðarlánum myndu lækka töluvert. Erfitt er hins vegar að segja til um hve mikil sú lækkun yrði. Minnt er á að hvert prósentustig hefur mikla þýðingu fyrir heimilin.
- Með aðild að ESB og myntbandalaginu myndi viðskiptakostnaður lækka og ætti slíkt að leiða til lægra vöruverðs.
Spennandi verður að heyra um helgina svar þings Neytendasamtakanna við spurningunni um ESB-aðild Íslands.
Föstudagur, 19. september 2008
Ríkisbakarí, ríkisbanki, ríkismatvöruverslun o.s.frv.
Félagi minn einn góður telur að ríkið eigi að reka eitt bakarí, einn banka, eitt olíufélag, eina matvöruverslun o.s.fr.v - til að veita markaðnum aðhald á þeim fákeppnismarkaði sem hér ríkir á flestum sviðum. Ég hef - þrátt fyrir unglingstilhneigingu til félagshyggju í það minnsta - enn ekki fallist á þessa afstöðu hans enda hafa jafnvel jafnaðarmenn sannfærst um að markaðsskipulagið sé ekki bara skást heldur best.
En! Ef svo er, þá verða verjendur markaðsskipulags að taka sig til og fallast á rök um - frekara - aðhald og eftirlit; ég tilfærði þetta fyrir nær hálfu ári í niðurlagi undir fyrirsögninni "Markaðir þurfa mótleikara:"
Þetta - sem bresk viðskiptapressa, bandarísk stjórnvöld og brjóstvörn frelsisins, Economist - benda nú á hefur markaðssinnað jafnaðarfólk, félagshyggjumenn og svonefndir forsjárhyggjusinnar reyndar lengi talið sig vita - líka við sem störfum í eftirlitsiðnaðinum.
Kannski hafa ekki bara forsjárhyggjumenn - heldur líka þeir, sem trúa á markaðsskipulagið - vanrækt mótvægið. Allir þurfa mótvægi. Það vita þeir sem eiga fjölskyldu. Það sáu Bandaríkjamenn fyrir meira en 200 árum er þeir hönnuðu sitt stjórnskipulag. O.s.frv.
Þessar hugleiðingar komu mér í hug er ég heyrði viðskiptaráðherra síðdegis í dag á RÚV svara fyrirspurn af fundi á Egilsstöðum um það hvort ríkið ætti ekki að taka (að nýju) upp ríkisrekstur til að veita markaðnum aðhald; ég finn ekki viðtalið á ruv.is en hér er frásögn RÚV:
Lagt var til á fundi um neytendamál á Egilsstöðum í gærkvöldi að ríkið stofni fyrirtæki um innflutning og sölu á olíu og bensíni enda væri þar engin virk samkeppni. Sömu rök voru nefnd fyrir því að ríkið ætti að stofna banka sem byði upp á örugga fjármálaþjónustu fyrir heimilin í landinu. Hvað finnst viðskiptaráðherra um þessar hugmyndir? Við komumst að því.
Þar sem svarið kemur ekki fram hér að framan er rétt að taka fram að viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, tók ekki undir hugmyndina og færði rök fyrir afstöðu sinni eins og heyra má þegar viðtalið fer á vefinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 18. september 2008
Traustvekjandi, skipulögð björgunaráform - neytendaflöturinn hefur áhrif
Nú undir kvöld heyrði ég á BBC í beinni útsendingu við lokun markaða í Bandaríkjum Norður-Ameríku (BNA) að orðrómur væri uppi um að þar stæði til að kerfis- eða stofnanabinda yfirtökuþörf gagnvart mikilvægum fjármálastofnunum sem við höfum séð kristallast undanfarið - í stað þess að fjármálaráðherra eða Seðlabanki BNA þurfi hverju sinni að taka "ad hoc" ákvörðun um hvort bjarga eigi banka eða sjóði eða láta hann róa.
Það finnst mér hljóma skynsamlega og mér hafa reyndar hingað til fundist viðbrögð fjármálaráðherra BNA traustvekjandi - að þjóðnýta, eftir þörfum, íbúðarlánasjóðina Fanny Mae og Freddie Mac um daginn og tryggingarfélagið AIG í vikunni en láta fjárfestingabankann Lehman Brothers fremur róa. Ég held reyndar að þar hafi spilað inn í - ásamt mörgu öðru, sem fram hefur komið í fréttum og ég endurtek ekki hér - að neytendafllöturinn hafi haft áhrif; að þrátt fyrir allt skipti það máli hvort lífsafkoma venjulegra neytenda um víðan völl er í húfi eða "bara" mögulegt tap auðmanna. Þess vegna finnst mér bæði valið á hverju á að bjarga og hverju ekki og skjót viðbrögð vera traustvekjandi fyrir neytendur.
Heildarkrafa íslensku bankanna á Lehman 25 milljarðar króna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 17. september 2008
Hvað geta neytendur gert?
Í gær var ég í viðtali á Reykjavík síðdegis hjá Bylgjunni þar sem ég reyndi að vera skáldlegur með veðurfarssamlíkingum um fyrstu haustlægðina á sama tíma og lægð gengi yfir efnahagslífið er ég reyndi að svara því hvað neytendur gætu gert til að bæta stöðuna. Þessar hugleiðingar duga þó skammt gegn stöðugu gengishruni þar sem enn nýtt met virðist sett í dag, 3. daginn í röð að ég held.
Stutta svarið við spurningu Bylgjunnar var hins vegar að vera virkur neytandi; langa svarið má hlusta á hér. Auðvitað stóðst ég heldur ekki freistinguna að benda á Leiðakerfi neytenda á www.neytandi.is sem á hálfs árs afmæli eins og ég benti á hér um helgina.
Þriðjudagur, 16. september 2008
Viðskiptahindranir - til skaða fyrir neytendur
Í dag fór ég tvívegis á sama kaffihúsið í því skyni að sækja fundi um neytendamál á vegum stjórnmálaflokka.
Sá fyrri var þessi í hádeginu á vegum Framsóknarflokksins um valkosti Íslands í vali á gjaldmiðli og hefur hann þegar fengið ágæta umfjöllun - sem ég kann litlu við að bæta auk þess sem ég hef enn ekki lesið skýrsluna.
Hinn síðari var á vegum Sjálfstæðisflokksins undir kvöld og þar voru því miður færri - bæði fundargestir og fjölmiðlamenn - því málið á sannarlega erindi til neytenda. Stundum er því haldið fram að krónan sé (tæknileg) viðskiptahindrun en það mátti heita óumdeilt á þessum fundi - bæði í framsögu Gunnars Ólafs Haraldssonar, prófessors og forstöðumanns Hagfræðistofnunar HÍ, og í umræðum - að fundarefnið, tollar og vörugjöld, væru viðskiptahindrun - til skaða fyrir neytendur. Hvað tolla varðar var Gunnar afdráttarlaus því að enginn hagnast að sögn á þeim - allir tapa (ekki bara neytendur).
Birgir Ármannsson alþingismaður tók til máls og hvatti m.a. til úttektar á því hver kostnaðurinn væri við innheimtu gjalda sem þessara.
Sjálfur benti ég m.a. á nýlega tillögu mína til fjármálaráðherra í embættisnafni varðandi lækkun svonefndra bókamúra sem skila litlu sem engu í ríkissjóð - en skapa fyrirtækjum óþarfa kostnað sem lendir á neytendum - beint sem umsýslukostnaður og óbeint sem samkeppnisvernd og hærra vöruverð.
Efling krónu eða upptaka evru | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 15. september 2008
Geir Keynes o.fl. í Silfrinu
Geir var góður í Silfrinu sem ég sá ekki fyrr en um miðnætti við endursýningu enda þykist ég ekki þurfa að hafa áhyggjur af þreytu í fyrramálið því samkvæmt almennum skilgreiningum er ekki kominn morgunn í þessum heimshluta fyrr en það er búið að vera bjart í tvær klukkustundir í röð.
Geir var afdráttarlaus um að fjárlögin yrðu ekki niðurskurðarfjárlög; ég held að ef ég væri hagfræðingur væri ég Keynes-isti.
Reyndar líkaði mér einnig vel málflutningur Kristins H. Gunnarssonar að sumu leyti enda var hann staðfastur með réttu í fleiri en einu máli. Að einu leyti - hvað varðar neytendur - held ég hins vegar að Kristinn hafi ekki haft rétt fyrir sér - þegar hann leiðrétti Andrés Magnússon lækni - er hélt því fram að vaxtamunur íbúðarlána milli Íslands og nágrannalandanna væri jafnvel þrefaldur; ég er að vísu ekki tölfróður en Kristinn er stærðfræðingur að mennt. Hann sagði - aðspurður af Andrési um hvort verðtrygging væri tekin með í myndina - að allt væri reiknað með. Svo virðist þó ekki vera samkvæmt fréttatilkynningu Neytendasamtakanna á vefsíðu 2005 þar sem segir (en þar má finna skýrsluna um samanburð íbúðarlánakjara í Evrópu):
Vextir hér eru þeir hæstu á því svæði sem könnunin nær til. Raunvextir eru að jafnaði frá 2 og upp í tæplega 5 prósentustigum hærri en í hinum Evrópulöndunum.
Mér virðist þetta orð "raunvextir" í íslenskri umræðu oft bera þeirri skoðun vitni að verðbæturnar séu ekki eitthvað sem lántakendur (t.d. neytendur) þurfi að greiða á endanum og ekki eitthvað sem lánveitendur stinga í vasann í raun. Sjá nánar á bls. 19n-20e í skýrslunni sem nálgast má hér þar sem segir til skýringar um séríslenskt kerfi:
Að lokum skal nefnt að reiknaðir nafnvextir á Íslandi, þ.e. raunvextir að viðbættri hækkun framfærsluvísitölunnar eru hærri hér vegna mun meiri verðbólgu. Verðbólga er að meðaltali í hinum níu löndunum í þessari athugun um 1,8% (12 mánaða hækkun framfærsluvísitölu í apríl 2005) en 2,9% hér á landi (þá er m.v. 12 mánaða hækkun NVV í maí 2005).
Ef ég skil þetta rétt eru í skýrslunni ekki bornir saman "nafnvextir" (greiddir vextir) hér og þar!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 14. september 2008
Til hamingju - neytandi þekktu rétt þinn!
Ég hef lengi verið svolítið fixeraður á afmælisdaga og aðrar merkar dagsetningar; nánast óvart tók ég eftir því að í dag, 14. september, á hálfs árs afmæli ein helsta afurð embættis talsmanns neytenda, sem viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, hleypti hátíðlega af stokkunum 14. mars sl. eftir feiknavinnu Liselotte Widing, sérfræðings í neytendarétti, þ.e.
Leiðakerfi neytenda (neytandi.is).
Ég fór að blogga skömmu síðar - m.a. til að kynna þessa gagnvirku vefgátt og með því reglur og úrræði til handa neytendum. Ég skora á neytendur að nýta sér Leiðakerfi neytenda til þess að leita réttar síns í nokkuð flóknu kerfi en með ágætis úrræði og oft nokkuð hagstæðar reglur - ef menn þekkja þær og nýta sér.
Föstudagur, 12. september 2008
Sammála - Þorsteini!
Þorsteinn Pálsson, ritstjóri og fyrrverandi ráðherra efnahagsmála m.m., skrifar leiðara undir fyrirsögninni Nei í Fréttablaðinu í dag. Sjálfur hef ég ekki alltaf verið mikill orðstílisti og hef oft skrifað full þungt lagamál - sem á ekki alltaf við. Mér finnast leiðarar Þorsteins líka stundum hafa verið tyrfnir; þessi leiðari er þó á léttu máli. Kannski skil ég bara aðra lögfræðinga betur en hagfræðinga. Ég verð hins vegar að segja:
Mikið er ég sammála Þorsteini um þetta mál.
Þó að hér sé kannski um að ræða stærsta neytendamál landsins hef ég reynt að halda mig frá því að tjá mig um val á gjaldmiðli enda sé það frekar stjórnmálamanna að leysa úr því; Þorsteinn bendir hins vegar á - og rökstyður það á gagnorðan hátt - að svarið við því hvort lausnin megi bíða sé:
Nei.
Evra er ekki lausn á verðbólgu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |