Mánudagur, 17. nóvember 2008
Dýrafjörður eða Brussel!
Stundum er rætt um mun á bjartsýni og svartsýni með þeirri myndlíkingu að sumir sjái hálf-fullt glas en aðrir hálf-tómt. Í sama anda eru einkunnarorð mín hér á blogginu:
Sá, sem vill, finnur leið; sá, sem vill ekki, finnur afsökun (arabískur málsháttur).
Nú renna öll vötn til Dýrafjarðar
Sunnudagur, 16. nóvember 2008
Vor eða haust?
Víða sjást nú áskoranir, undirtektir, undirskriftarsafnanir, kröfur, spár eða jafnvel fullyrðingar um kosningar fyrr en stjórnarskráin gerir ráð fyrir vorið 2011 og er þá ýmist rætt um að kosið verði "sem fyrst á nýju ári" eða "eins fljótt og mögulegt er." Flestir virðast þó gera ráð fyrir vorkosningum 2009, þ.e. eftir u.þ.b. hálft ár.
Í ljósi þess að tveir stærstu flokkar landsins og sá elsti verða að líkindum allir þrír komnir með endanlega og afdráttarlausa stefnu fyrir 1. febrúar 2009 - eftir 2 1/2 mánuð - um að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið (ESB) (og fregnir eru auk þess um hugsanlegt endurmat á afstöðu gagnvart ESB innan stærsta stjórnarandstöðuflokksins) finnst mér líklegri spá félaga Friðriks um að þingkosningar fari ekki fram fyrr en eftir tæpt ár - að afloknum aðildarviðræðum Íslands við ESB.
Í ljósi yfirgnæfandi stuðnings þings og þjóðar við ESB-aðildarviðræður myndu þingkosningar fyrr - t.d. í vor eða fyrir páska - fyrst og fremst þjóna þeim tilgangi að endurnýja eða endurskoða umboð kjörinna fulltrúa þjóðarinnar - sem í kjölfarið munu semja um aðildarskilyrðin við ESB; auðvitað kann vel að vera að sú krafa komi fram og nái fram að ganga.
Annars er hér einnig raunhæf spá um tímaröð atvika í tengslum við væntanlegar ESB-aðildarviðræður sem er nú kannski nærtækari en þessi hálfs árs gamla spá mín þar sem gert var ráð fyrir tvöföldu þjóðaratkvæði sem er líklega óþarft.
Vilja kosningar í upphafi nýs árs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 14. nóvember 2008
Sagði ég ekki...?
Fimmtudagur, 13. nóvember 2008
Edrú, á leiðinni á Vog!
Margir hafa notað þá samlíkingu við mig undanfarið að Ísland sé eins og alkóhólisti sem vill fá hjálp - en treystir sér ekki til þess að hætta að drekka (strax); ef sú samlíking er rétt er ég ekki frá því að af ummælum forystufólks ríkisstjórnarinnar í fréttum nú í kvöld megi ráða að á þessu sé að verða breyting - það er runnið af okkur og við erum að bíða eftir plássi á Vogi.
Flestir, sem hafa átt í erlendum samskiptum (eins og ég hef átt í nær tvo áratugi við norræna kollega), kannast sjálfsagt við spurningar eins og þessa frá samstarfsaðilum erlendis frá undanfarin misseri:
Hvaðan koma allir peningarnir?
Mér varð oft svara vant þó að ég hafi stundum getað bent á þann óumdeilanlega styrk landsins sem felst í sterku og þróuðu lífeyriskerfi - og stend við það - og á það fjármagn sem leystist úr læðingi með einkavæðingu bankanna og áður með framseljanleika kvótans - og held mig enn við það. Aðalsvarið var hins vegar væntanlega að út á þetta fé og annað var tekið meira fé að láni - meira fé en samrýmdist stærð landsins og kerfi.
Ekki get ég nú - frekar en aðrir sem hefðu átt að sjá það fyrir - sagt að ég hafi búist við þessu algera hruni bankakerfisins (en kannski gjaldmiðilsins) eða djúpri kreppu í kjölfarið; hitt er annað að ég hefði eins og fjölmargir aðrir átt að gera mér grein fyrir að það gat ekki gengið endalaust að fá sífellt meira fé að láni sem við Íslendingar virðumst hafa lifað fyrir sem heild. Helgina sem Glitnir hrundi (og spilaborgin öll í kjölfarið) fann ég hins vegar á mér - að eitthvað alvarlegt var að.
Þá var það líklega of seint. Kannski ætti maður oftar - og fyrr - að tjá hug sinn hreint út ef maður finnur eitthvað á sér.
IMF: Íslendingar verða að breyta um stefnu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 12. nóvember 2008
Hver væri núvirtur auður Hollendinga af auðlindum hafsins í kringum Ísland á 17. öld?
Ég var að lesa í bók um áhrif olíu á sögu og stjórnmál o.fl. að Hollendingar hefðu í yfir 100 ár, einkum á 17. öld, haft yfirburði á höfunum sem herrar vinds og viðar - og ríkt sem slíkir yfir gróðavænlegum síldveiðum og umfangsmikilli hvalaverslun á Norður-Atlantshafi o.fl. auðlindum hafsins.
Hvert skyldi vera núvirt virði þessara gríðarlegu verðmæta sem héldu m.a. hollenskum borgum upplýstum og Hollendingum vel nærðum og ríkum? Jón Sigurðsson forseti notaði slíkan framreikning í vopnlítilli sjálfstæðisbaráttu okkar Íslendinga gegn Dönum.
Skyldi sagan endurtaka sig?
(Sjá American Theocracy, The Peril and Politics of Radical Religion, Oil and Borrowed Money in the 21st Century, eftir Kevin Philips, einkum bls. 12.)
Ísland stendur frammi fyrir gjaldþroti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 10. nóvember 2008
Hagsmunir neytenda eru að í stjórn sitji (ekki van)hæfir menn
Hér er um að ræða tímabæra áréttingu Páls Ásgrímssonar hdl. á því sem löngu á að vera ljóst - eins og ég bloggaði m.a. um fyrir réttum 5 mánuðum síðan; þar kemur fram að stjórnarsetubannið á jafnt við í kjölfar skilorðsbundins dóms. Í færslu minni segir einnig:
Hins vegar hefur verið spurt hvort réttaráhrif refsidóms á stjórnarmenn séu hin sömu ef hinn dæmdi stjórnarmaður á stóran hluta eða meiri hluta hlutafjár eða jafnvel allt hlutaféð. Því hefur verið svarað af lögspekingum að í slíkum tilvikum sé engin undantekning gerð í lögunum og virðast sumir undrast það. Ég tel að það sé af því að þeir gleyma að hluthafar eru ekki þeir einu sem eiga hagsmuna að gæta gagnvart hlutafélagi og stjórn þess. Meðal annarra hagsmunaaðila eru viðsemjendur þess - bæði starfsmenn, kröfuhafar (birgjar) og neytendur.
Í tilvísaðri færslu minni frá 10. júní sl. er vísað til röksemda fyrir því að löggjafinn geri kröfur af þessu tagi til hlutafélaga,
þ.e. að kjarni laga um (einka)hlutafélög er takmörkuð ábyrgð eigenda gagnvart kröfuhöfum - þ.m.t. neytendum.
Ég tek undir með höfundi greinarinnar, Páli Ásgrímssyni hdl. (í Morgunblaðinu í dag, bls. 19) - bæði hvað varðar niðurstöðu og ítarlegar röksemdir, þ.e.a.s. að stjórnsýslan hefur ekki heimild til að víkja frá því skýra skilyrði löggjafans að í hlutafélögum sitji hæfir menn og ekki vanhæfir vegna refsidóma eða annars.
Jón Ásgeir víki úr stjórnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 10. nóvember 2008
Fyrirtæki = bílar; afar gagnleg en (stundum stór) hættuleg tæki - sem þurfa öflugt eftirlit og ríka ábyrgð
Í umræðu um það hvort vegagerðinni eða ökumanninum sé um slysið að kenna virðist felast séríslenskur vandi - að það sé alltaf annað hvort, eða; svart eða hvítt. Þó að ég hafi ávallt verið lítið fyrir hraðakstur og vitaskuld á móti akstri með skerta dómgreind og öðrum glæfraakstri vil ég nota tækifærið og árétta nokkuð sem ég benti á í jólakveðju hins nýstofnaða embættis talsmanns neytenda fyrir þremur árum og í upphafi kennslu í neytendamarkaðsrétti nú í haust, eitthvað á þessa leið:
Eigendur og umráðamenn vélknúinna ökutækja hafa lengst af í um hundrað ára sögu þeirra samkvæmt norrænni löggjöf borið sérstaka og ríkari ábyrgð að lögum, t.a.m. gagnvart hjólandi og gangandi vegfarendum, svo og farþegum. Sú löggjöf felur ekki í sér að að bílar og sambærileg farartæki (enn strangari ábyrgð gildir um lestir og flugvélar) séu slæm - þvert á móti: löggjafinn telur þessi farartæki afar gagnleg og skilvirk - svo skilvirk að þau geta verið stórhættuleg eins og dæmin sanna. (Af sömu ástæðu er samlíking bloggarans við refsivert athæfi, fíkniefnainnflutning, ekki röklegt.)
Í dæminu lék ég mér við að líkja fyrirtækjum (atvinnulífinu) við vélknúin ökutæki af ýmsu tagi og gangandi vegfarendum við neytendur (en miðað við reynslu úr fyrra starfi mínu í þágu launafólks má e.t.v. því starfsfólki við farþegana í dæminu). Ekki gekk ég lengra eins og að segja að við hjólreiðamenn værum eins og uppáhaldið mitt, sjálfseignarstofnanir; varð ég ekki var við annað en að samlíking mín fengi fremur dræmar undirtektir - enda kannski bara fyrir lögfræðinga að skilja og þá helst félagslega sinnaða, en þeir hafa líklega verið fáir.
Í athugasemdum mínum við umræðuna í gær notaði ég, sem sagt, sömu röksemd til þess að andmæla því sjónarmiði, sem bloggarinn hafði eftir Jóni Baldvin Hannibalssyni, að ekki mætti kenna veginum um; auðvitað má ekki kenna veginum einum um slysið - en hrað-, ölvunar- og annar glæfraakstur tíðkast þó að hann sé ekki leyfilegur og því þarf gott (og vitaskuld eftir efnum og ástæðum víðfemt og fjölbreytt) vegakerfi en með vegriðum - líka á milli akreina.
Og vegriðin mega ekki bara vera til sýnis - frekar en við notumst við pappalöggur, eða hvað?
Hannes vísar ásökunum á bug | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 8. nóvember 2008
Lögmálið um pólitískar afsagnir og fallhleri kvenna
Grímur Atlason tók í gær saman tilefni(sleysi) til afsagna erlendis og hérlendis en fyrir um 15 árum bjó ég mér til kenninguna um þrjár afneitanir sem undanfara pólitískra afsagna - sem hefur lítið með Bíblíusögur (Matt: 26,69) að gera. Kenningin varð líklega til í tengslum við fréttaskýringu, sem ég skrifaði um svipað leyti í dagblaðið Dag, um pólitískar afsagnir á Íslandi frá upphafi þingræðis, ef ég man rétt. Kenningin felur í sér eitthvað á þessa leið:
Ef kjörinn fulltrúi er spurður þrisvar opinberlega hvort hann muni segja af sér þá sjái hann sig - eða sé - tilknúinn til afsagnar innan tíðar.
Kenningin var staðfest í kjölfarið með afsögn Þórólfs Árnasonar úr borgarstjórastóli skömmu eftir að ég ritaði aðra grein. Augljóslega reynir þarna helst á fjölmiðlafólk, þ.e. þá fulltrúa almennings sem geta spurt kjörna fulltrúa um afsagnaráform (enda varð kenningin til fyrir tíma bloggsins sem er ekki í beinni útsendingu með sama hætti). Væntanlega reynir fljótlega á kenninguna í fyrsta skipti í yfirstandandi kreppu - enda er ekki vitað til þess að krafist hafi verið opinberlega afsagnar Tryggva Þórs þó að hann hafi e.t.v. verið fysta fórnarlamb kreppunnar í þeim skilningi að (þurfa að) segja af sér vegna (innanhúss) ágreinings eða þrýstings (svo ekki sé talað um þær hundruðir bankastarfsmanna sem sagt var upp í liðnum mánuði og fjöldauppsagnir í ýmsum geirum).
Hins vegar skrifaði ég fyrir rúmum 5 árum stutta grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni Fallhlerinn (í anda hins alþekkta hugtaks um glerþakið) sem gekk út á að sýna með þremur nýlegum norrænum dæmapörum að konur settu sér - eða væru settar undir - strangari mælistiku en karlar þegar metið væri hvort tilefni væri til afsagnar. Í greininni segir m.a.
Sjálfsgagnrýni?
Reyndar tel ég að ástæðan - glerþakið - sé ekki bara að aðrir geri meiri kröfur til kvenna heldur geri þær sjálfar meiri kröfur til sín en karlar til sjálfs sín, m.a. hvað varðar traust og (sjálfs)virðingu. Þetta leiðir hugann að því að konur í forystu virðast fremur - eða hraðar - en karlar axla ábyrgð sína þegar kemur að því að víkja úr stöðu. Orsökina má nefna "fallhlera" því þær konur sem ég hef í huga hurfu skyndilega úr stöðu sinni - en ekki af ósýnilegri ástæðu eins og þegar rætt er um glerþakið. Gallinn er að karlarnir virðast oft sleppa við fallhlerann í sambærilegum aðstæðum.
Þessi kenning var reyndar staðfest um daginn þegar kona, sem var fulltrúi Samfylkingarinnar í bankaráði Seðlabankans, sagði fyrst af sér í yfirstandandi kreppu - og það óumbeðið. Í kjölfarið rakti ég í greininni frá júlí 2003 þrjú nýleg íslensk og norræn dæmapör um borgarstjóra, ráðherra og forstöðukonu sem enn ættu að vera áhugafólki í fersku minni. Lokaorðin voru svohljóðandi:
Umburðarlyndi í garð karla?
Kannski skiptir ekki máli hvort við spyrjum hvort við séum umburðarlyndari gagnvart körlum eða hvort við orðum það svo að við höfum meiri væntingar í garð kvenna? Ég tel a.m.k. að ósamræmi sé í kröfunum.
***
Lesa greinina.
Tryggvi Þór: Lítið samband | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 6. nóvember 2008
Gengið: IKEA og neytendur - brostnar forsendur eða lokun! Hvað með íbúðarlánin?
Verðið í vörulistanum gildir til 15. ágúst 2009,
segir á forsíðu IKEA-bæklingsins frá í haust - rétt eins og í fyrra sagði: á sama stað
Verðið í vörulistanum gildir til 15. ágúst 2008.
Fyrirvari um gengisbreytingar eða aðrar forsendubreytingar er ekki auðfundinn í bæklingnum - en forsendur geta breyst í litlu hagkerfi eins og við Íslendingar þekktum á árum áður og nú af sárri reynslu; því er eðlilegt að neytendur spyrji sig hvort um sé að ræða eðlilega viðskiptahætti eða óheimilt rof á ofangreindri yfirlýsingu þessa alþjóðafyrirtækis.
Almennt verða fyrirtæki á borð við banka, tryggingarfélög, tímaritaútgefendur og orkufyrirtæki að teljast bundin af samningum (og samningsígildum á borð við opinberar yfirlýsingar um viðskiptakjör) til langs tíma - sem lögfræðingar nefna viðvarandi samninga (þ.e. annað hvort ótímabundnum samningum þar til þeim er sagt upp eða tímabundnum samningum til tiltekins tíma, t.d. til 31. desember 2008 eða til 3ja mánaða frá upphafsdegi). Slíkum samningum verður ekki breytt nema í samræmi við skilmála og almennar reglur neytendamarkaðsréttar - og þá með formlegri tilkynningu til hvers og eins neytanda og með hæfilegum fyrirvara eins og ég hef í embættisnafni gætt, formlega og óformlega.
Í venjulegum vestrænum ríkjum mætti telja rétt að leggja formlegt mat á hvort slík yfirlýsing um afturköllun verðstefnu af hálfu fyrirtækis á borð við IKEA stæðist almennar reglur neytendamarkaðsréttar.
Hvað gerir talsmaður neytenda þá?
kunna einhverjir að spyrja sig.
Ég tek fram að yfirleitt leitast ég við að nefna ekki tiltekin fyrirtæki - hvorki hér á neytendablogginu né á vefsíðu talsmanns neytenda nema að undangengnum samskiptum við þau og eftir málalyktir enda eðlilegt að þau njóti eins konar andmælaréttar áður en fjallað er um þau í embættisnafni. Hér virðist mér hins vegar í fljótu bragði ekki auðvelt að efast um lögmæti - og jafnvel réttmæti - þeirrar einhliða (en að vísu fyrirvaralausu) ákvörðunar IKEA að víkja frá áralangri yfirlýstri stefnu um bindandi verð heilt ár fram í tímann. Fyrirvarann - 1 dag - má reyndar efast um.
Á hinn bóginn má hugsanlega réttlæta þessa óvenjulegu yfirlýsingu með því að hér er vikið frá
- óhefðbundnum og neytendavænum viðskiptaháttum miðað við íslenskar aðstæður - þar sem flest allt hefur annars vegar áratugum saman verið verðtryggt, vísitöluháð og breytingum undirorpið,
- í einstökum viðskiptum hverju sinni en ekki viðvarandi samningum samkvæmt framangreindu og
- vegna sérstakra aðstæðna á gengismarkaði á sama tíma og réttnefnd neyðarlög hafa verið sett vegna hamfara á fjármálamarkaði.
Það, sem IKEA kann m.ö.o. að geta borið fyrir sig ef einhver neytandi vill byggja á bindandi gildi yfirlýsingarinnar hér í upphafi um bindandi verð rúmlegan meðgöngutíma fram í tímann, heitir á lagamáli "force majeure." Undir það falla að jafnaði utanaðkomandi atburðir sem samningsaðilar (t.d. fyrirtæki og neytandi) hafa ekki áhrif, hvað þá stjórn á, svo sem verkföll, borgarastyrjaldir, stríð og annað (svo sem e.t.v. beiting hryðjuverkalöggjafar gagnvart íslensku fyrirtæki og jafnvel heilu samfélagi óbeint).
Ég er, sem sagt, því miður ekki frá því að algert og fremur óvænt gengishrun undanfarið ár geti fallið undir "force majeure;" þess vegna er málstaður IKEA ekki erfiður að verja og réttur neytenda gagnvart fyrirtækinu ekki augljós í kjölfar þesarar skyndilegu breytingar þó að ég hefði, sem sagt, að vanda talið lengri fyrirvara eðlilegan.
Kjarni málsins - og hið alvarlega álitamál fyrir neytendur, kröfuhafa og efnahagskerfi landsins - er að mínu mati að neytendur geta hugsanlega borið fyrir sig sömu röksemd - og það með meiri rétti þar sem um er að ræða viðvarandi samninga: Þeir neytendur sem skulda "verðtryggðar" krónur eða eru ábyrgir fyrir íbúðar- og bílalánum í erlendri mynt geta þá ekki síður borið fyrir sig sömu röksemdir:
Brostnar forsendur og force majeure.
Á því byggi ég sem talsmaður neytenda væntanlegar tillögur til stjórnvalda um neyðarlög í þágu neytenda vegna íbúðarlána á næstunni - eins og ég rakti fyrir viðskiptanefnd Alþingis á fundi sl. mánudag.
Á mannamáli getur maður sagt eins og IKEA: annað hvort er verðinu breytt eða við (heimilin) lokum.
Verðhækkanir í IKEA | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 7.11.2008 kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Miðvikudagur, 5. nóvember 2008
Palin ekki galin
Fréttin - og einkum fyrirsögnin - staðfestir upphafsmat mitt, þ.e. að þó að Obama muni sennilega vinna nokkuð stóran sigur í nótt þá var Palin ekki galin - þ.e. sterkur og taktískur leikur - frá repúblikanskum sjónarhóli.
Skoðun mín á henni (ef ég væri bandarískur kjósandi) kom hins vegar snemma fram hér og var áréttuð fyrir mánuði.
Palin hefur áhrif | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |