Kröfuhafi ræður för - en ekki að geðþótta

Að gefnu tilefni vegna frétta af innheimtustarfsemi er ástæða er til að árétta svar mitt á fundi hjá viðskiptanefnd Alþingis í gærmorgun þar sem spurt var út í málið að það er vitaskuld ávallt kröfuhafi - ekki fulltrúi hans í innheimtuaðgerðum (lögmaður eða innheimtufyrirtæki) - sem ræður för í innheimtu. Það gerir kröfuhafi annað hvort með fyrirmælum til innheimtuaðila eða með samningi við hann.

 

Aðgerðir þeirra og samningar sæta svo aðhaldi sýslumanns eða dómstóla þegar þangað er komið - en það aðhald væri virkara ef skuldarar nytu aðstoðar lögmanna í vörnum sínum; því lagði ég til á fundi hjá viðskiptanefnd Alþingis í gær - þegar ég var spurður um þessi mál á fundi um almenna stöðu neytenda og launafólks - að ríkisvaldið legði skuldurum í té lögfræðilega aðstoð; í því sambandi minnti ég á að oft hefur verið lagt fram til skrauts frumvarp um skylt efni, þ.e. um opinbera réttaraðstoð.

 

Aðhaldið felst m.a. í því að ekki má notast við dýrari innheimtuaðgerðir en réttlætanlegar eru miðað við kostnað samkvæmt þeirri meginreglu að tjónþola beri að takmarka tjón sitt. Frekara aðhald mun felast í innheimtulögum sem taka gildi 1. janúar nk. og viðskiptaráðherra beitti sér fyrir á síðasta þingi (og lagði reyndar til í frumvarpinu að það tæki gildi 1. nóvember, sl.). Þar eru mikilvægustu nýmælin skyldubundin innheimtuviðvörun áður en innheimtuferlið hefst og hámark á hóflegum innheimtukostnaði samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.


Landslagið hreyfist

Og í nótt verður blökkumaður kosinn forseti Bandaríkjanna.
mbl.is Vilja hefja aðildarviðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú verð ég...

Nú verð ég að heimsækja Færeyjar - ekki vegna þess að þaðan komu fallegustu stúlkurnar til Akureyar á táningsárum mínum, heldur vegna þessa vinarbragðs og samstöðu sem Færeyingar sýna okkur á ögurstundu. Ég er reynar hræddur um að við höfum ekki sýnt þeim sama bróðurþel en lengi hefur mig langað til að kynnast þeim betur.


mbl.is Vill gefa Íslendingum 300 milljónirnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öflugra fjölmiðlaeftirlit

Þessi frétt um að flestir einkafjölmiðlar landsins lendi nú að uppfylltum skilyrðum á einni hendi rennir frekari stoðum - og samkeppnissjónarmiðum - undir það neytendasjónarmið mitt frá í fyrradag um að hér þurfi öflugt Ljósvakaeftirlit ríkisins - eða jafnvel allsherjarfjölmiðlastofnun!


mbl.is Félag Jóns Ásgeirs keypti fjölmiðla 365
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljósvakaeftirlit ríkisins?

Hljómar vel; þá aukast kannski möguleikar okkar umboðsmanns barna til að koma á þeirri löngu tímabæru takmörkun að ekki sé auglýst í barnatímum eða í kringum barnaefni í sjónvarpi eins og við höfum leitast við í 2-3 ár að sannfæra alla hagsmunaaðila um að eðlilegt sé - ekki síst hvað varðar óhollustu.

 

Þá mætti gjarnan íhuga hvort ekki sé rétt að auka eftirlitsheimildir og styrkja eftirlit með ljósvakamiðlum - t.d. að bandarískri fyrirmynd. Útvarpsréttarnefnd hefur að mínu mati ekki staðið undir nafni sem eftirlitsaðili.


mbl.is Starfshópur fjalli um stöðu fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nógu góður fyrir konurnar?

Til hamingju. Ekki hef ég nú lesið eða heyrt allar fréttir jafn vel undanfarið - hvað þá íþróttafréttir - og læt jafnvel ekki eftir mér að horfa á konur spila fótbolta en mér fannst endilega ég hafa heyrt í gær eða fyrradag að Laugardalsvöllur væri vegna frosts óleikhæfur (eða hvað það heitir) vegna væntanlegs landsleiks.

 

Var hann samt talinn nógu góður fyrir konurnar?


mbl.is Ísland á EM 2009
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögfræðingar allra tjónþola sameinist!

M.ö.o. hefur - að gefnu tilefni og eftir margar fyrirspurnir frá neytendum, fjölmiðlum o.fl. um réttarstöðu og möguleg úrræði neytenda (og annarra) vegna fram komins eða hugsanleg taps sjóðfélaga í peningamarkaðssjóðum - verið boðað til samráðsfundar stjórnenda og helst lögfræðinga þeirra sem hafa tapað í sjóðunum nk. mánudag kl. 11 - í því skyni að stilla saman strengi um lagarök, réttarstöðu og tiltæk úrræði. Fréttir annarra fjölmiðla, t.d. nú í kvöld, staðfesta að á slíku samráði er rík þörf.

 

Meðal aðila sem gert hefur verið viðvart eru fulltrúar lífeyrissjóða og sveitarfélaga en með því að sameina lögfræðilega krafta allra áður en lagt er mat á lögfræðilegar röksemdir og tiltæk úrræði er líklegra en ella að málin komist skjótt í eðlilegan farveg.

 

Um aðra möguleika en hefðbundin réttarúrræði samkvæmt gildandi lögum fyrir dómstólum var m.a. fjallað hér fyrir 11 dögum síðan en þar segir m.a. (undir fyrirsögninni "New Deal"):

 

Þeirri hugmynd hefur verið skotið að mér að þeir sem skuldi íbúðarlán í bönkunum eigi að geta skuldajafnað gagnvart bankanum sem nemur tapinu í sjóðunum sem að vísu ætti að vera sjálfstæður lögaðili; það er hugsanlegt að því marki sem rökstyðja mætti bótakröfu vegna tapsins eins og kann að vera möguleiki í sumum tilvikum miðað við fréttir undanfarið.

 

Þá vaknar spurninginn um rétt þeirra sem eru í sömu aðstöðu hvað tapið varðar en skulda ekki íbúðarlán eða önnur lán í bankanum; mér datt í hug að þeir fengju í skaðabætur hlutabréf sem því næmi í nýju bönkunum sem að öðru leyti verða ríkisbankar a.m.k. fyrst um sinn miðað við ummæli bankamálaráðherra.

 

Um þetta var ég spurður á Bylgjunni í Reykjavík síðdegis í gær (um kl. 16:25).

 

Sjá nánar um boð á fundinn nk. mánudag kl. 11:00: http://talsmadur.is/Pages/55?NewsID=933 


mbl.is Fundað með hagsmunaaðilum vegna taps í peningamarkaðssjóðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skyldi Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn vita að...?

Yfir okkur rignir undrunarorðum síðan í morgun - eins og áður bárust margar viðvaranir - frá haglærðu fólki um að stýrivaxtahækkun sé ekki rétta leiðin hér og nú (miðað við framboð á netfréttum um það nú ætti að vera óþarfi að tengja við þær allar - eins og ég er annars vanur).

 

Samt voru svonefndir stýrivextir hækkaðir um helming - já um 50% (úr 12% í 18%) - í morgun með lítt duldum skilaboðum aðalbankastjóra um að ákvörðunin væri í raun ekki hans eða bankastjórnarinnar - heldur Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (International Monetary Fund, IMF) eftir drög að samningi við ríkisstjórnina. Að svo stöddu fjalla ég ekki um lagaatriði í sambandi við það mál.

 

Það er ekki mitt sérsvið (og jafnvel ekki mitt hlutverk) að benda á að 18% stýrivextir þýða að þeir sem vilja koma á fót eða endurnýja atvinnurekstur - með áhættufé - þurfa að bjóða mjög vel yfir 20% vexti til að keppa við þessa öruggu ávöxtun fjár; allir vita að niðurstaðan flýtir fyrir fjöldaatvinnuleysi og eykur það.

 

Það kann hins vegar að vera innan minnar lögsögu að árétta það sem jafnvel hagfræðingar og bankastjórnendur hafa viðurkennt undanfarin misseri að "stýrivextir" eru rangnefni þegar stór hluti lánahagkerfisins - bæði neytenda og fyrirtækja - er ýmist

  • í erlendri mynt eða
  • í reiknieiningu, sem er reyndar óviss stærð - og gæti kallast "verðtryggð íslensk króna."  

 

Hækkunin þýðir að þessi hrossalækning kann samkvæmt framangreindu að virka óbeint - en bara til þess að deyða sjúklinginn, íslenskt efnahagslíf, en ekki til þess að lækna hann. Stýrivextir virka ekki hérlendis eins og ljóst má vera eftir margra ára vaxtapíningu - sem ég hefði haldið að IMF hefði haft tækifæri til þess að kynna sér. Þess vegna láðist mér að biðja um fund með fulltrúum IMF um daginn er þeir funduðu í Borgartúni.

 

Á hinn bóginn er það mitt hlutverk að bregðast við áhrifum þessarar hrossalækningar á neytendur, svo sem í formi:

  • enn hærri dráttarvaxta við vanskil,
  • gervihækkun gengis íslensku krónunnar sem hefur haldið við viðskiptahalla árum saman og
  • hærra vöruverðs vegna aukins (skammtíma)fjármagnskostnaðar.

mbl.is Vaxtahækkun jók bankakreppuna í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveggja sjóða tal

Ekki skal ég beint tjá mig hér um deilu varðandi skuldbindingar íslenska ríkisins gagnvart neytendum utan íslenskrar lögsögu en vil benda á að af starfi mínu fyrir samtök launafólks um árabil er mér kunnugt um að til eru tvær tegundir af lífeyriskerfum. Önnur tegundin byggir á lífeyrisréttindum sem eru skilgreind - t.d. út frá launum eftirmanna lífeyrisþega í starfi, svonefnd "defined benefit," eins og t.d. tíðkast hérlendis hjá hefðbundnum starfsmönnum ríkisins og mörgum öðrum opinberum starfsmönnum. Hin tegundin er fremur skilgreind út frá lífeyrisframlögum - bæði starfsmannsins sjálfs og atvinnurekandans - og ræðst á endanum af ávöxtun þeirra framlaga, þ.e.a.s "defined contribution."

 

Reyndar eru líka til tvenns konar lífeyris"sjóðir." Annars vegar eru alvöru sjóðir eins og hér starfa helst, þ.e. sem safna fé fyrir áföllnum skuldbindingum og stefna að því að eiga að jafnaði fyrir þeim þegar þær falla til; þeir sjóðir eru stundum nefndir "fully funded" á enska tungu. Hin tegundin felur eiginlega bara í sér lífeyrisréttindi og samsvarandi lífeyrisskyldur og getur því eiginlega ekki talist til sjóða; þar er gert ráð fyrir að þeir sem vinna (og greiða skatta eða aðrar álögur) á hverjum tíma greiði lífeyri hinna eftir því sem skuldbindingar koma til greiðslu eða eins og það er nefnt á ensku: "pay as you go."


mbl.is Sögðust myndu styðja Tryggingasjóð innlána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Samband sjálfstæðra Evrópuríkja"

Síðdegis naut ég þess í skammdegiskreppunni að samfagna með gömlum félögum úr Bandalagi háskólamanna þegar haldið var upp á 50 ára afmæli samtakanna sem ég var framkvæmdarstjóri og lögmaður fyrir í tæp 7 ár. Þar voru fluttar fjölmargar einstakar og óvenjulega hrífandi og hvetjandi ræður, sem ég hefði viljað að væru teknar upp - til að hlusta á aftur og fyrir alla þá sem misstu af þeirri miklu "inspiration." Þarna var háskólafólk allt frá 89 ára gömlum frumkvöðlinum Ármanni Snævarr og dóttur hans, Sigríði, sem stýrði málþinginu af hugljúfri og vel undirbúinni snilld og yfir í yngra forystufólk.

 

Ekki skal ég freista þess að endursegja þau ótalmörgu gullkorn sem féllu eða miðla hughrifunum af fundinum en eitt stikkorð fannst mér snjallt - og eiga erindi til neytenda - hjá síðasta fyrirlesaranum, Guðmundi Steingrímssyni varaþingmanni sem hvatti Íslendinga til að ganga til liðs við "Samband sjálfstæðra Evrópuríkja." Það fundust mér orð að sönnu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.