Lögmálið um pólitískar afsagnir og fallhleri kvenna

Grímur Atlason tók í gær saman tilefni(sleysi) til afsagna erlendis og hérlendis en fyrir um 15 árum bjó ég mér til kenninguna um þrjár afneitanir sem undanfara pólitískra afsagna - sem hefur lítið með Bíblíusögur (Matt: 26,69) að gera. Kenningin varð líklega til í tengslum við fréttaskýringu, sem ég skrifaði um svipað leyti í dagblaðið Dag, um pólitískar afsagnir á Íslandi frá upphafi þingræðis, ef ég man rétt. Kenningin felur í sér eitthvað á þessa leið:

 

Ef kjörinn fulltrúi er spurður þrisvar opinberlega hvort hann muni segja af sér þá sjái hann sig - eða sé - tilknúinn til afsagnar innan tíðar.

 

Kenningin var staðfest í kjölfarið með afsögn Þórólfs Árnasonar úr borgarstjórastóli skömmu eftir að ég ritaði aðra grein. Augljóslega reynir þarna helst á fjölmiðlafólk, þ.e. þá fulltrúa almennings sem geta spurt kjörna fulltrúa um afsagnaráform (enda varð kenningin til fyrir tíma bloggsins sem er ekki í beinni útsendingu með sama hætti). Væntanlega reynir fljótlega á kenninguna í fyrsta skipti í yfirstandandi kreppu - enda er ekki vitað til þess að krafist hafi verið opinberlega afsagnar Tryggva Þórs þó að hann hafi e.t.v. verið fysta fórnarlamb kreppunnar í þeim skilningi að (þurfa að) segja af sér vegna (innanhúss) ágreinings eða þrýstings (svo ekki sé talað um þær hundruðir bankastarfsmanna sem sagt var upp í liðnum mánuði og fjöldauppsagnir í ýmsum geirum).

 

Hins vegar skrifaði ég fyrir rúmum 5 árum stutta grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni Fallhlerinn (í anda hins alþekkta hugtaks um glerþakið) sem gekk út á að sýna með þremur nýlegum norrænum dæmapörum að konur settu sér - eða væru settar undir - strangari mælistiku en karlar þegar metið væri hvort tilefni væri til afsagnar. Í greininni segir m.a.

 

Sjálfsgagnrýni?

Reyndar tel ég að ástæðan - glerþakið - sé ekki bara að aðrir geri meiri kröfur til kvenna heldur geri þær sjálfar meiri kröfur til sín en karlar til sjálfs sín, m.a. hvað varðar traust og (sjálfs)virðingu. Þetta leiðir hugann að því að konur í forystu virðast fremur - eða hraðar - en karlar axla ábyrgð sína þegar kemur að því að víkja úr stöðu. Orsökina má nefna "fallhlera" því þær konur sem ég hef í huga hurfu skyndilega úr stöðu sinni - en ekki af ósýnilegri ástæðu eins og þegar rætt er um glerþakið. Gallinn er að karlarnir virðast oft sleppa við fallhlerann í sambærilegum aðstæðum.

 

Þessi kenning var reyndar staðfest um daginn þegar kona, sem var fulltrúi Samfylkingarinnar í bankaráði Seðlabankans, sagði fyrst af sér í yfirstandandi kreppu - og það óumbeðið. Í kjölfarið rakti ég í greininni frá júlí 2003 þrjú nýleg íslensk og norræn dæmapör um borgarstjóra, ráðherra og forstöðukonu sem enn ættu að vera áhugafólki í fersku minni. Lokaorðin voru svohljóðandi:

 

Umburðarlyndi í garð karla?

Kannski skiptir ekki máli hvort við spyrjum hvort við séum umburðarlyndari gagnvart körlum eða hvort við orðum það svo að við höfum meiri væntingar í garð kvenna? Ég tel a.m.k. að ósamræmi sé í kröfunum.

 

***

Lesa greinina.


mbl.is Tryggvi Þór: Lítið samband
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann G. Frímann

Þetta er skemmtilegt innlegg í umræðuna.

Jóhann G. Frímann, 8.11.2008 kl. 23:12

2 Smámynd: Anna Guðný

Mjög fróðlegt

Hafðu það gottt

Anna Guðný , 8.11.2008 kl. 23:49

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Athyglisverðar pælingar.

Ég held ég get tekið undir þá skoðun þína að a.m.k. stór hluti af þessum "siðferðishalla" sé sprottinn frá konunum sjálfum, þ.e. að þær mæli "persónulegan árangur" einfaldlega með allt öðrum hætti en karlar, sérstaklega þeir sem eru af dóminerandi týpunni. ;)

Guðmundur Ásgeirsson, 11.11.2008 kl. 23:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.