Þriðjungur neytenda telur mótmæli bílstjóra ekki í þágu neytenda

Samkvæmt óvísindalegri könnun minni hér á blogginu í gær og fyrradag, þar sem um 330 greiddu atkvæði, er réttur þriðjungur neytenda á því að nóg sé komið af mótmælum bílstjóra gegn háu bensínverði - enda hafi þau ekki verið í þágu neytenda.

 

Rúmur fjórðungur þeirra, sem greiddu atkvæði, er alveg á hinum pólnum og taldi ekki nóg komið því að neytendur ættu frekar að taka þátt og mótmæla fleiru. Það er því ein megin ályktunin sem ég dreg af þessari óformlegu könnun á blogginu mínu að hér mætast stálin stinn - en um þriðjungur er mitt á milli ystu pólanna í valkostum.

 

Ef taldir eru saman þeir sem segja nóg komið af mismunandi ástæðum voru þeir rétt rúm 50% en þeir sem vilja áframhaldandi mótmæli voru hátt í 42%. Fáir eru hlutlausir en framangreindar tölur myndu hækka ef þeir væru ekki taldir með.

 

Könnuninni lauk kl. 23:00 eins og kynnt var en því miður er enn ekki boðið upp á að sýna niðurstöður eftir að könnun lýkur. Takk fyrir þátttökuna; þetta var fróðleg tilraun sem kannski verður endurtekin. Ég árétta hins vegar að þetta er mjög óvísindaleg aðferð enda taka þeir þátt sem hafa áhuga en ekki tilviljunarkennt úrtak úr þýði eins og í alvöru skoðanakönnunum. Þó að ég hafi reynt að hafa samkvæmni í valkostum með því að hafa jafn mörg "já" og "nei" voru þeir fullmargir, þrír af hvoru tagi með mismunandi ástæðum, auk þriggja aukakosta um rökstutt hlutleysi, pass og veit ekki eða vil ekki svara (nær 8%).


Brá ekkert smá!

Ég rétt náði í síðdegissólina á svölunum um sexleytið í [gær]kvöld enda vorið að koma. Svo var ég upptekinn við að sinna börnum og heimilisstörfum fram eftir kvöldi en leit óvænt út um gluggann á 12. tímanum.  Hugsunin minnti mig á atriði úr þáttaröðinni bandarísku, "West Wing." Ég hugsaði: "Hvað er að gerast, af hverju lét enginn mig vita?" Í uppáhaldsþáttaröðinni minni eru orðaskiptin eitthvað á þessa leið: "It's Christmas already?" - "Yeah, didn't you get the memo?"

 

Úti er nokkurra sentímetra jafnfallinn snjór.

 

Niðurstöður skoðanakönnunar um mótmæli gegn bensínverði verða birtar síðar í dag.


Hvað finnst þér um bensínmótmælin? Skoðanakönnun meðal neytenda

Ertu búin(n) að kjósa - nei, maður kýs fólk sem fulltrúa en greiðir atkvæði um málefni! Hefur þú greitt atkvæði um afstöðu til mótmæla bílstjóra gegn olíuverði? Nú er aðeins tæpur sólarhringur eftir af óformlegri skoðanakönnun meðal neytenda til bensínverðsmótmælanna. Taktu þátt hér til hliðar.


Skoðanakönnun meðal neytenda - er komið nóg af bensínverðsmótmælum?

Nú er rétt að spyrja neytendur sjálfa - sem ég vona að séu orðnir all margir regulegir lesendur að neytendabloggi mínu: hvað finnst ykkur, neytendur góðir, um mótmæli atvinnubílstjóra og annarra bílstjóra gegn háu bensín- og olíuverði hérlendis - bæði gegn álagningu og óbeinum sköttum sem felast í orkuverðinu. Greiðið atkvæði hér til hliðar. Þessi óformlega könnun stendur til kl. 23:00 annað kvöld, þriðjudag, 8. apríl.

 

Talsmaður neytenda hefur ekki tekið formlega afstöðu til mótmælanna og aðeins að hluta til opinbera afstöðu til opinberra gjalda í bensínverði.


mbl.is Mótmælt við ráðuneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öryggi neytenda eða hagsmunir framleiðenda?

Hvað er mikilvægast - öryggi neytenda, gæði vöru og þjónustu, neytendavernd, lágt vöruverð, vörumerki framleiðenda eða eitthvað annað? Er þetta rétt röð? Oft er í markaðsfræðum rætt um að fyrirtæki keppi annað hvort í verði (t.d. lágvöruverslun) eða gæðum (t.d. merkjavara) - ekki hvoru tveggja.

 

Gaman væri hins vegar að heyra viðhorf neytenda á Íslandi um þetta eilífðarverkefni - bæði viðskiptalífsins og þeirra sem starfa í þágu neytenda, eins og talsmaður neytenda. Er markaðurinn fullfær um að hlusta sjálfur eftir viðhorfum neytenda eða þarf markaðurinn aðhald frá samtökum eða opinberum aðilum við að standa vörð um  hagsmuni og réttindi neytenda - almennt eða á sérstökum sviðum?

 

Það vita það ekki allir en tugir aðila starfa hérlendis í þágu neytenda að minna eða meira leyti eins og sjá má ef maður leitar upplýsinga eða vill leita réttar síns með aðstoð Leiðakerfis neytenda á vegum talsmanns neytenda en þessi gagnvirka vefgátt er á slóðinni: www.neytandi.is.

 

Þá koma mörg ráðuneyti að neytendamálum eins og þetta mál matvælaráðherra er dæmi um.


mbl.is Úrvalið meira en spurning um verð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiri hluti neytenda er konur - hví skyldu þær ekki vera í stjórnum?

Í framhaldi af færslu um væntingar bloggbyrjanda um hlutfall kvenna í hópi bloggvina fyrir viku vil ég birta ábendingu um almenna réttlætingu slíkra kvenna"kvóta" (og annarra ríkisafskipta) frá mínum "femíniska" og neytendamiðaða sjónarhóli. Milton Friedman taldi að vísu að stjórnendur fyrirtækja bæru ekki ábyrgð gagnvart öðrum en hluthöfum.

 

Margir lögfræðingar og frjálshyggjumenn telja sömuleiðis að það skjóti skökku við að gera kröfur um það - hvað þá með lögum - að í stjórnum fyrirtækja séu konur upp að einhverju marki. Ef um er að ræða einkafyrirtæki manns (svonefnt einkafirma) eða fjölskyldu, t.a.m., get ég fallist á að slík afskipti af hálfu ríkisins eigi tæpast rétt á sér. Margar undanþágur eru enda í íslenskum lögum og víðar frá sambærilegum ríkisafskiptum gagnvart minni fyrirtækjum - eins og ég get nefnt mörg dæmi um.

 

Ef á hinn bóginn er um að ræða hlutafélag eða einkahlutafélag má ekki gleyma því að kjarni laga um (einka)hlutafélög er takmörkuð ábyrgð eigenda gagnvart kröfuhöfum - þ.m.t. neytendum og launafólki - og þar með samfélaginu, eða eins og enskt heiti þeirra vísar til: Limited (liability), skammstafað "Ltd." Sjá hér færslu um "Unlimited." Venjulegir kröfuhafar - fyrirtæki og neytendur - missa þannig kröfu sína ef fyrirtækið reynist ekki eiga fyrir skuldbindingum. Með lögum um Ábyrgðarsjóð launa tekur samfélagið hins vegar að sér að greiða rétthærri kröfur, þ.e. vangreidd laun (en sjóðurinn er vissulega fjármagnaður með hlutfalli af tilteknum launaskatti, tryggingargjaldi; það breytir því ekki að allir greiða en aðeins sumir "njóta").

 

Eins og breska tímaritið Economist hefur bent á felur takmörkuð ábyrgð í sér að eigendurnir - sem hafa vissulega tekið áhættu - bera þó takmarkaða áhættu, bundna við hlutina; hlutaféð. Hluthafarnir bera aðeins takmarkaða ábyrgð - gagnvart neytendum og öðrum hluthöfum. Þetta er samfélagsleg gjöf til hlutafélaga - og þar með til hluthafa - og þess vegna má samfélagið gera kröfur á móti, með lögum. Síðast á laugardaginn var fjallaði Economist í leiðara með gagnrýnum hætti um afleiðingar hins frjálsa markaðar þannig að hluthafar græði þegar vel gengur en ríkið beri hluta af byrðinni:

 

...when the other investment bankers and their shareholders take on that extra bit of risk, knowing that they keep all the gains, but that the state will shoulder some of the losses?

 

Vissulega er takmörkuð ábyrgð talin hafa skilað samfélaginu miklum hagsauka. Sú tilhögun að einhver beri ekki - eða aðeins takmarkaða - ábyrgð er hins vegar í fyrsta lagi á skjön við lífsskoðun sem fyrirtækjastjórnendur og margir, sem hallast til hægri, þreytast seint á að endurtaka: að skjólstæðingar mínir undanfarin 10 ár - launafólk og neytendur - beri líka ábyrgð eða eigi fyrst og fremst að bera ábyrgð á gerðum sínum. Í öðru lagi er takmörkuð ábyrgð aðeins nokkurra árhundruða (og á Íslandi í raun aðeins áratuga) gömul undantekning frá þeirri meginreglu rómversks og germansks réttar, ef ég man réttarsöguna mína rétt, að allir beri ábyrgð á gerðum sínum. Kirkjan - stærsti fyrirtækjarekandi Íslands um aldir - bar væntanlega ábyrgð á löggerningum sínum með öllu sínu fé; Sigurður Líndal leiðréttir mig ef rangt er. Frá þeirri meginreglu er líka komin sú almenna regla - sem ekki var sett í lög af Alþingi - að maður beri skaðabótaábyrgð á þeim gerðum sínum, sem hann ber sök á (svonefnd sakarregla). Meira að segja vitskertur - eða "óðr" - maður ber slíka ábyrgð eins og Jónsbók frá 1281 kveður á um (já, skoðið hér - enn í gildi) og Hæstiréttur byggði á 1972, ber ábyrgð á athæfi sínu sem veldur öðrum tjóni.

 

Mér finnst þetta skýrt. Gjaldið, sem samfélagið á að mínu mati - og samkvæmt leiðarahöfundi Economist - að krefjast af eigendum (hluthöfum) fyrirtækja fyrir hagræðið, sem felst í takmarkaðri ábyrgð, er að mega skipta sér af stjórnun þeirra og rekstri - í hófi og í samræmi við samfélagslega stefnumörkun - svo sem jafnrétti kynjanna.


Já, við erum bræður - en ekki jábræður

Já, það er (ótrúlegt en) satt - og ekkert leyndarmál af minni hálfu - að við erum bræður; gaman að eiga sér ekki bara jábræður - enda miklu skemmtilegra að rökræða við þá sem eru manni ósammála, jafnvel um grundvallaratriði.

 

Kíkið á bloggið hans til að fá breidd í umræðuna; nýlega var ég af áhrifamanni í atvinnulífinu kallaður „óvenju stjórnlyndur maður“ en yngsti bróðir minn er, vægast sagt, mjög frjáls og hygginn maður.


Athyglisvert ákvæði um nektarsund

Þetta er skemmtileg umfjöllun um nektarsund o.fl. skrýtin ákvæði í lögreglusamþykktum víðs vegar um höfuðborgarsvæðið - og vil ég því rifja upp þessa aprílgabbhugleiðingu mína frá í fyrradag um neytendaflöt á berbrjósta sundgestum.


mbl.is Dulargervi og nektarsund bannað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stimpilskattur mismuni ekki við endurfjármögnun

Brýnna þykir mér þó að afnema mismun stimpilgjalda við endurfjármögnun - eftir því hvort lánveitandi er nýr eða sá sami, eins og segir frá hér um þessa tillögu mína til fjármálaráðherra í tengslum við loforð um umræddar breytingar. Rökin eru þau að neysluskattar og aðrir skattar eigi ekki að draga úr samkeppni - eða eins og segir m.a. í tillögunni:

 

Ég tel augljóst að tilvitnað lagaákvæði sé óbreytt til þess fallið að hafa hamlandi áhrif á samkeppni á milli þeirra sem veita neytendum veðlán til fjármögnunar á íbúðarhúsnæði og að afnám þess væri því til úrbóta fyrir neytendur. Ég tel einnig að óbreyttu að lagaákvæðið kunni að brjóta gegn hagsmunum og réttindum neytenda enda er samkeppni ónóg á þessum markaði.

 

Sjá hér um frétt RÚV rétt í þessu um inntak breytingar á stimpilgjöldum. Formlegt svar hefur ekki borist talsmanni neytenda frá fjármálaráðuneytinu.


mbl.is Óttast stíflu á fasteignamarkaði fram til 1. júlí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jábræður og neisystur

Ég er hugsi yfir brotthvarfi Magnúsar Péturssonar. Ég var reyndar - og er - stundum ósammála honum um að réttaröryggi opinberra starfsmanna sé of mikið eins og hann nefndi sem einn stærsta vanda opinberrar starfsemi í Kastljósi í kvöld. Magnús tók við sameinuðum landspítala skömmu eftir að ég varð framkvæmdarstjóri Bandalags háskólamanna í árslok 1998 og þar með flestra stéttarfélaga heilbrigðisstarfsmanna. 

 

Ég er m.ö.o. hugsi yfir brotthvarfi Magnúsar úr forstjórastóli Landspítala eins og ég reyndi að koma að í þættinum Vikulokin á Rás 1 15. mars sl. (sem er farinn af vefnum) þar sem heilbrigðis- og efnahagsmál voru rædd ítarlega á kostnað neytendamála. Enginn, sem ég þekki, deilir um að Magnús er sjentilmaður og fagmaður; hann hefur ekki aðeins notið virðingar sem forstjóri stærstu ríkisstofnunar Íslands.

 

Við Magnús vorum hins vegar ósammála  um a.m.k. þetta: 

 

Á að tryggja starfsöryggi opinberra starfsmanna - hárra sem lágra - eða á reglan að vera að makka rétt eftir (pólitíska) yfirmanninum? Ég held að borgarar, neytendur, skattgreiðendur o.s.frv. þessa lands eigi rétt á að ráðherrar ráði ekki öllu - heldur fyrst og fremst stefnunni og stjórnarskrárbundnu frumkvæði að löggjöf. Sama gildir að mínu mati um stjórnendur gagnvart samstarfsfólki.

 

Ég lít svo á að við embættismenn og forstjórar störfum í þágu almennings samkvæmt lögunum, sem ráðherrar hafa forgöngu um að Alþingi setji. Við störfum ekki í þágu ráðherra og pólitískra markmiða þeirra; þeir hafa - bæði samkvæmt stjórnarskrá og í raun - stöðu til þess að koma stefnu sinni - ekki bara á framfæri heldur einnig - í framkvæmd. Þeir sem framkvæma - eða sinna eftirliti og aðhaldi - eru embættismenn, forstjórar og aðrir opinberir starfsmenn. Að grafa undan þessu er að grafa undan grundvelli íslenska stjórnkerfisins. Um þetta eru margir forstjórar ósammála mér.

 

Þrjár megintegundir stofnana eru til á Íslandi:

  1. Þjónustustofnanir, svo sem Landspítali - háskólasjúkrahús, Menntaskólinn í Reykjavík og Háskóli Íslands.
  2. Stjórnsýslustofnanir, svo sem Neytendastofa, húsafriðunarnefnd og Póst- og fjarskiptastofnun.
  3. Sjálfstæðar eftirlits- og aðhaldsstofnanir á borð við umboðsmann Alþingis, Ríkisendurskoðun, talsmann neytenda og Samkeppniseftirlitið.

 

Mikilvægt er að stofnanir og embætti í 2. og 3. flokki njóti sjálfstæðis. 

 

Auðvitað má enginn "undirmaður" vinna gegn "yfirmanni" en ég verð að upplýsa að besta samstarfsfók mitt þegar ég var stjórnandi á litlum vinnustað voru þeir starfsmenn sem sögðu mér þegar þeir voru ósammála mér - þeir vissu jú oft betur, þó að ég réði stundum ef á skyldi reyna. Næstbest var að mínu mati starfsfólkið sem samþykkti - og framkvæmdi - stefnuna, sem við ræddum á vikulegum starfsmannafundum. Verst fannst mér þegar starfsmaður sagði já - en skildi ekki, meinti ekki eða samþykkti ekki.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.