Tveggja sjóða tal

Ekki skal ég beint tjá mig hér um deilu varðandi skuldbindingar íslenska ríkisins gagnvart neytendum utan íslenskrar lögsögu en vil benda á að af starfi mínu fyrir samtök launafólks um árabil er mér kunnugt um að til eru tvær tegundir af lífeyriskerfum. Önnur tegundin byggir á lífeyrisréttindum sem eru skilgreind - t.d. út frá launum eftirmanna lífeyrisþega í starfi, svonefnd "defined benefit," eins og t.d. tíðkast hérlendis hjá hefðbundnum starfsmönnum ríkisins og mörgum öðrum opinberum starfsmönnum. Hin tegundin er fremur skilgreind út frá lífeyrisframlögum - bæði starfsmannsins sjálfs og atvinnurekandans - og ræðst á endanum af ávöxtun þeirra framlaga, þ.e.a.s "defined contribution."

 

Reyndar eru líka til tvenns konar lífeyris"sjóðir." Annars vegar eru alvöru sjóðir eins og hér starfa helst, þ.e. sem safna fé fyrir áföllnum skuldbindingum og stefna að því að eiga að jafnaði fyrir þeim þegar þær falla til; þeir sjóðir eru stundum nefndir "fully funded" á enska tungu. Hin tegundin felur eiginlega bara í sér lífeyrisréttindi og samsvarandi lífeyrisskyldur og getur því eiginlega ekki talist til sjóða; þar er gert ráð fyrir að þeir sem vinna (og greiða skatta eða aðrar álögur) á hverjum tíma greiði lífeyri hinna eftir því sem skuldbindingar koma til greiðslu eða eins og það er nefnt á ensku: "pay as you go."


mbl.is Sögðust myndu styðja Tryggingasjóð innlána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna

Takk fyrir þessar upplýsingar. Þú ert mjög fróður maður um ýmis mál. Telur þú að lífeyriskerfið okkar á Íslandi sé gott kerfi.

Anna , 28.10.2008 kl. 10:06

2 Smámynd: Gísli Tryggvason

S-in fjögur. Já. Ég vil þakka þér Anna Björg um leið og ég svara jákvætt; ég þekki að vísu aðeins til lífeyrissjóðakerfisins en sem lögfræðingur, sem starfaði  um 7 ára skeið fyrst og fremst í baklandi lífeyriskerfisins, er ég nú ekki eins mikill sérfræðingur og þeir hagfræðingar og viðskiptafræðingar sem starfa enn í þágu lífeyrissjóðanna. Þó vil ég svara spurningu þinni játandi með eftirfarandi fjórþættum röksemdum. Fyrstu þrjár röksemdirnar eru almennt viðurkenndar meðal fræðimanna og þeirra sem þekkja vel til íslenska lífeyriskerfisins - sem var sett á fót fyrir nærri 40 árum og var fyrir nokkrum árum talið verða sjálfbært, sem kallað er, innan fárra ára - um 2015 að mig minnir; það kann að hafa breyst í kjölfar fjármálakreppunnar, sbr. umfjöllun hér: http://ll.is/?i=2&o=994 á vef Landssamtaka lífeyrissjóða, sbr. fyrstu fréttir hér um áfallið: http://ll.is/?i=2&o=993. Styrkleikar lífeyrisssjóðakerfisins íslenska - s-in fjögur - eru þessir helstir (eins og ég get rökstutt nánar ef eftir því er leitað):

  1. Samtrygging.
  2. Sjóðssöfnun.
  3. Skylduaðild.
  4. Samstjórnarfyrirkomulag (viðbót mín eftir sérstaka athugun 2003).

Gísli Tryggvason, 28.10.2008 kl. 19:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband