Talsmaður neytenda óskar enn eftir staðfestum upplýsingum um mismunun gagnvart íslenskum neytendum erlendis

Um leið og ég árétta ósk mína á heimasíðu embættis talsmanns neytenda um upplýsingar um nöfn verslana, stað og stund á slíkum tilvikum á netfang mitt gt@talsmadur.is vil ég árétta þessa frétt um að óheimilt er að mismuna Íslendingum erlendis - rétt eins og refsing er lögð við því að mismuna neytendum hérlendis á grundvelli þjóðernis, kynþáttar, kynhneigðar o.fl. ómálefnalegra sjónarmiða. Eins og fram kemur í tenglum í fréttinni hef ég brugðist við slíkum tilvikum sem ég hef frétt af á Íslandi.

 

Eins og hér kemur fram er slík mismunun neytenda refsiverð hérlendis og ætti að vera það í Bretlandi enda um að ræða lögfestingu á alþjóðaskuldbindingum. Hér hljóðar hegningarlagaákvæðið svo:

 

Hver sem í atvinnurekstri eða þjónustustarfsemi neitar manni um vörur eða þjónustu til jafns við aðra á grundvelli þjóðernis hans, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar skal sæta sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum.


Sömu refsingu varðar að neita manni um aðgang til jafns við aðra að opinberum samkomustað eða öðrum stöðum sem opnir eru almenningi.

 

Vegna sambærilegra frétta hef ég þegar haft samband við kollega minn, umboðsmann neytenda, í Danmörku og er hann viðbúinn ef "konkret" upplýsingar koma fram um stað, stund og nafn verslunar. Hið sama mun ég gera gagnvart til þess bærum neytendayfirvöldum í Bretlandi ef mér berast haldbærar upplýsingar.


mbl.is Óvelkomnar í gæludýraverslun í Glasgow
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvort skiptir meira máli - hagur neytenda eða formsatriði?

Í dag vek ég athygli á umfjöllun minni á heimasíðu embættis talsmanns neytenda um það hvort mikilvægara sé að huga að kjörum og skilmálum í neytendaviðskiptum eða eignarhaldi fyrirtækja; ég er ekki í vafa og svara því þar - bæði í lengra og skemmra máli.

 

Þar segir í útdrætti:

 

Í pistli í talhorninu í gær rökstyður talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, hvers vegna það er að hans mati aukaatriði hver eigi og reki starfsemi sem snýr að neytendum; aðalatriðið fyrir neytendur sé á hvaða kjörum og með hvaða skilmálum vara eða þjónusta sé boðin. Talsmaður neytenda heldur því fram að það sé mikilvægara verkefni að setja réttlát neytendalög en að takast á um eignarhald.


Glöggt er gests augað

Fyrir þá sem skilja dönsku og hafa tíma og áhuga er hér að finna áhugaverðar umræður í danska ríkisútvarpinu í liðinni viku um ástæður og afleiðingar fjármálakreppunnar fyrir Íslendinga. M.a. er rætt við Dana á Íslandi og Íslendinga í Danmörku - þ.m.t. Halldór Ásgrímsson og þá skynsömu útvarpskonu Erlu Sigurðardóttur sem hefur búið í Danmörku í áratugi.


New Deal?

Nú styttist samkvæmt fréttum í að peningamarkaðssjóðir og aðrir verðbréfasjóðir verði gerðir upp og úr þeim greitt til eigenda samkvæmt tilmælum Fjármálaeftirlitsins - en hvað með afganginn?

 

Þeirri hugmynd hefur verið skotið að mér að þeir sem skuldi íbúðarlán í bönkunum eigi að geta skuldajafnað gagnvart bankanum sem nemur tapinu í sjóðunum sem að vísu ætti að vera sjálfstæður lögaðili; það er hugsanlegt að því marki sem rökstyðja mætti bótakröfu vegna tapsins eins og kann að vera möguleiki í sumum tilvikum miðað við fréttir undanfarið.

 

Þá vaknar spurninginn um rétt þeirra sem eru í sömu aðstöðu hvað tapið varðar en skulda ekki íbúðarlán eða önnur lán í bankanum; mér datt í hug að þeir fengju í skaðabætur hlutabréf sem því næmi í nýju bönkunum sem að öðru leyti verða ríkisbankar a.m.k. fyrst um sinn miðað við ummæli bankamálaráðherra.

 

Hvað finnst neytendum um þær hugmyndir að skuldaafna tapi í slíkum sjóðum gagnvart íbúðarlánum eða fá síðar hlutabréf fyrir mismuninn?


mbl.is „Það er búið að þurrausa sjóðinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barisi düsle

"Barisi düsle" þýðir "hugsa sér frið" á tyrknesku samkvæmt barmmerkjum á ýmsum tungumálum, sem ég og börnin fengum á laugardaginn í Viðeyjarferð um helgina í boði Yoko Ono að líta á friðarsúluna. Ég hef lengi haldið með Tyrkjum - auk okkar sjálfra - bæði í viðleitni þeirra til að komast í ESB og í framboðinu ásamt Austurríki í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.

 

Stórþjóðin Tyrkland er nútímaleg og nauðsynleg brú milli austurs og vesturs, islam og hins kristna heims auk þess að vera rótgróið NATO-ríki með stærsta landher Evrópu ef ég man rétt. Tyrkjum hefur tekist ágætlega upp í seinni tíð með að feta lýðræðis- og umbótaveg með ESB-aðild sem raunhæft agn til skamms tíma og þrátt fyrir stöðuga ógn af enn einu valdaráni hersins. Stór minnihluti Kúrda (um 15%) er áberandi á ferðamannastöðum á borð við Marmaris og virðast þeir margir hollir tyrkneska ríkinu þrátt fyrir skærur í kúrdískum heimahéruðum við landamærin að Írak. Þá hefur ríkið færst nær nútímastjórnarháttum undir nokkuð styrkri stjórn AK-flokksins. Miðað við lestur minn um tyrkneska ríkið, sögu þess og stutt kynni af landinu á það t.a.m. mun meira erindi í ESB en Búlgaría sem ég heimsótti fyrir tveimur árum.

 

Miðað við aðstæður segi ég ekkert um okkar erindi en vona það besta síðdegis í dag þegar niðurstöður koma í ljós.


mbl.is Stóra stundin nálgast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Neytendamarkaðurinn" í stað Markaðarins með stóru "M"

Kannski mér og fleirum verði brátt að ósk okkar og til verði reglulegur og djúpur neytendaþáttur í öllum fjölmiðlum - í stað þess að allir fjölmiðlar (nema fréttastofa hljóðvarp, þegar hún var og hét) hafa árum saman gert fréttum af "Markaðnum" (les hlutabréfamarkaðnum o.s.frv.) nærri því eins hátt undir höfði og sjálfum Íþróttunum.  
 
Útvarpsstjóri tók a.m.k. vel í ítrekun mína hér - og það var fyrir hrunið. Það sama hafa fleiri gert í kjölfarið.


Á maður að biðja um hjálp eða fá hana óumbeðið?

Það róar mig nú satt að segja aðeins að fá þessar fréttir en fróðlegt verður að vita hvort Bretar taka undir; kannski höfum við verið of sein á okkur að biðja vini okkar um hjálp - eða á maður almennt að búast við því að vinir rétti manni hjálparhönd áður en hennar er beiðst?


mbl.is ESB-leiðtogar styðja Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott hjá ríkisstjórninni

Þetta hljómar vel og er í samræmi við óskir mínar um slíkt gagnvart félagsmálaráðherra við yfirtöku ríkisins á slíkum íbúðarlánum í erlendri mynt til langs tíma eins og komið hefur fram á vefsíðu embættisins: www.talsmadur.is. Til skamms tíma þarf ég hins vegar að setja mig í samband við ríkisbankana þrjá vegna frystingar til bráðabirgða.


mbl.is Afborganir verði frystar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takmörkuð ábyrgð hluthafa réttlætir afskipti ríkisins

Að gefnu tilefni vil ég gjarnan árétta eftirfarandi færslu mína um takmarkaða ábyrgð hlutafélaga - þó að tilefnið hafi þá ekki brunnið á mörgum, þ.e. fjölgun - jafnvel lögþvinguð fjölgun - kvenna í stjórnum fyrirtækja - sem við hefðum betur knúið í gegn áður en allt fór að hrynja ofan á okkur um sl. mánaðamót. Þar segir m.a.:

 

Ef á hinn bóginn er um að ræða hlutafélag eða einkahlutafélag má ekki gleyma því að kjarni laga um (einka)hlutafélög er takmörkuð ábyrgð eigenda gagnvart kröfuhöfum - þ.m.t. neytendum og launafólki - og þar með samfélaginu, eða eins og enskt heiti þeirra vísar til: Limited (liability), skammstafað "Ltd." Sjá hér færslu um "Unlimited." Venjulegir kröfuhafar - fyrirtæki og neytendur - missa þannig kröfu sína ef fyrirtækið reynist ekki eiga fyrir skuldbindingum. Með lögum um Ábyrgðarsjóð launa tekur samfélagið hins vegar að sér að greiða rétthærri kröfur, þ.e. vangreidd laun (en sjóðurinn er vissulega fjármagnaður með hlutfalli af tilteknum launaskatti, tryggingargjaldi; það breytir því ekki að allir greiða en aðeins sumir "njóta").

 

Eins og breska tímaritið Economist hefur bent á felur takmörkuð ábyrgð í sér að eigendurnir - sem hafa vissulega tekið áhættu - bera þó takmarkaða áhættu, bundna við hlutina; hlutaféð. Hluthafarnir bera aðeins takmarkaða ábyrgð - gagnvart neytendum og öðrum hluthöfum. Þetta er samfélagsleg gjöf til hlutafélaga - og þar með til hluthafa - og þess vegna má samfélagið gera kröfur á móti, með lögum. Síðast á laugardaginn var fjallaði Economist í leiðara með gagnrýnum hætti um afleiðingar hins frjálsa markaðar þannig að hluthafar græði þegar vel gengur en ríkið beri hluta af byrðinni:

 

...when the other investment bankers and their shareholders take on that extra bit of risk, knowing that they keep all the gains, but that the state will shoulder some of the losses?

 

Lesa alla færsluna.


Útrás, já ný útrás - almannahagsmuna

Hér minni ég á tækifæri Íslands - ekki bara sumra Íslendinga - til "útrásar." Kapitalisminn snýst um framboð og eftirspurn - og þar sem nóg framboð er af slæmum fréttum vil ég jafna stöðuna með góðum staðreyndum og tækifærum. Annars vegar stendur ríkissjóður vel og er nánast skuldlaus miðað við aðra slíka eins og flestir hafa nú heyrt stjórnvöld minna á undanfarið. Hins vegar eigum við lífeyrissjóðakerfi á heimsmælikvarða - ekki bara miðað við höfðatölu heldur í raun. 

 

Hvernig væri að huga að útrás þess sem við kunnum betur en flestar aðrar þjóðir?

 

Ekki skal ég þreyta ykkur á tölum - sem má lesa hér á heimasíðu Landssamtaka lífeyrissjóða og hlusta á hér í viðtali við Benedikt Jóhannesson tryggingarstærðfræðing í Kastljósi í síðustu viku; auðvitað rýrna eignir samtryggingarlífeyrissjóðanna okkar við hlutabréfahrunið og afleidda verðrýrnun eigna sjóðanna eins og Benedikt rökstyður og rekur í tölum (rétt eins og sjóðir gildnuðu í "góðærinu" áður).

 

Hitt er annað að hér er ekki bara sóknarfæri fyrir okkur Íslendinga sjálfa - heldur er þarna tækifæri fyrir okkur að kenna öðrum þjóðum (já, við getum ekki bara þegið heldur einnig veitt) hvernig á að stofna og reka samtryggingarlífeyrissjóði og stjórna þeim eins og ég þekki örlítið til úr fyrra starfi mínu í þágu launafólks. Þar eru verðmæti fólgin því á endanum fylgir þátttöku í samfélagi þjóðanna - í ESB eða annars staðar - ekki aðeins rétturinn til að þiggja hjálp vina og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins o.s.frv. heldur einnig skylda til þess að leggja eitthvað af mörkum.´

 

Þó að útrásarfólk og bankakerfið virðist nú (að því er virðist með þegjandi samþykki breskra og íslenskra stjórnvalda) hafa skuldsett íslensku þjóðina um of megum við ekki gleyma að íslenska lífeyrissjóðakerfið er nær einstætt í heiminum fyrir þá sök að þar er safnað fyrirfram og samtímis fyrir lífeyrisréttindum launafólks, þ.e. lífeyrisskuldbindingum vinnuveitenda sem koma í stað sambærilegra skuldbindinga ríkissjóðs (þ.e. "funded" sjóðssöfnunarkerfi); víða annars staðar eru gefin út lífeyrisloforð sem dekkuð eru með framtíðartekjuöflun launafólks og skattgreiðenda ("pay-as-you-go"-kerfi). Okkar ríki er því skuldlaust í tvennum skilningi - bæði nú og þá. Íslenska ríkið/þjóðin stendur því betur en margir halda nú og betur en margir erlendir aðilar virðast telja - en vonandi er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ekki þar á meðal er hann leggur til skilyrði fyrir aðstoð við íslenska ríkið á ögurstundu.


mbl.is Ástandið verra en þjóðargjaldþrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband