Bótaskylda nemandans og úrbætur á bótakerfum

Þessi dómur Hæstaréttar virðist vekja álíka undrun og dómur héraðsdóms áður og er því rétt að skýra hann aðeins þó að ekki sé beinlínis um neytendamál að ræða enda er skólavist ókeypis hérlendis. Dómurinn virðist nokkuð strangur í garð skólastúlkunnar; kann niðurstaðan að hafa ráðist af þeirri mannlegu nálgun dómstóla að ella hefði kennarinn e.t.v. ekki fengið tjón sitt bætt - en stúlkan var tryggð fyrir bótaskyldu samkvæmt frétt mbl.is þar sem segir í niðurlagi:

 

Fram kom eftir að dómurinn var kveðinn upp í héraði, að fjölskyldutrygging konunnar hjá Tryggingamiðstöðinni myndi greiða bæturnar ef dómurinn yrði staðfestur í Hæstarétti. Skaðabótaskylt tjón af völdum barns er jafnan bætt af slíkri tryggingu.

 

Margir spyrja hvernig það megi vera að atvinnurekandi bæti ekki slíkt tjón starfsmanns - eins og kennara. Því er til að svara að atvinnurekendur bera ábyrgð á því tjóni sem þeir eða starfsmenn þeirra valda af gáleysi. Því virðist ekki hafa verið til að dreifa í þessu máli og ekki var fallist á þær skaðabótaröksemdir að búnaði skólans eða eftirliti hafi verið ábótavant. Sveitarfélagið var því sýknað í héraðsdómi af kröfu gagnvart meintum mistökum af hálfu skólans; var þeim hluta dómsins ekki áfrýjað tímanlega til Hæstaréttar.

 

Því var þrautalendingin af hálfu tjónþolans, kennarans, að krefjast bóta úr hendi skólastúlkunnar - eða í raun frá tryggingarfélagi móður hennar. Dómstólar féllust á þá bótaskyldu með þeim rökstuðningi að nemandinn, 11 ára stúlka, þekkti mun á réttu og röngu þó að hún byggi við tiltekna fötlun. Dómurinn virðist að vísu - eins og áður segir - nokkuð strangur í garð barnungs tjónvalds af framangreindum ástæðum. Hins vegar felur dómurinn í sér dæmi um lagareglu sem gildir í norrænum skaðabótarétti að börn - allt niður að um 4ra ára aldri - hafa verið látin bera skaðabótaábyrgð svo fremi sem skaðaverkið sé eitthvað sem barn á þeim aldri á að gera sér grein fyrir að ekki megi gera. Í þessu tilviki fólst skaðaverkið í því að renna hurð harkalega svo að hún lenti á höfði kennarans.

 

Loks hafa margir furðað sig á takmarkaðri umfjöllun um fötlun stúlkunnar í dóminum. Hæstiréttur kveður upp úr um það að sú röksemd, sem laut að fötlun hennar, hafi ekki komið nægilega skýrt fram í málsvörn fyrir hönd stúlkunnar í héraðsdómi; því sé hvorki hægt að fallast á að þau rök komist að við áfrýjun málsins til Hæstaréttar né unnt að gagnrýna að ekki skyldu kvaddir til meðdómendur með sérþekkingu á fötlun hennar. Fyrrnefnda niðurstaða Hæstaréttar um þessa málsmeðferð ber vitni þeirri reglu að aðilar máls - kennarinn, sveitarfélagið og móðirin f.h. stúlkunnar - eigi að reka málið en ekki dómararnir enda hefur svonefnt rannsóknarréttarfar verið afnumið hérlendis fyrir löngu. Síðarnefnda niðurstaðan - um að "ekkert tilefni" hafi verið til þess að kveða sérfróða meðdómendur til - er hins vegar að mínu mati umdeilanleg enda á slík ákvörðun í upphafi varla að ráðast af röksemdum aðila eingöngu.

 

Þessar reglur sem byggt er á í dómi Hæstaréttar - bæði um efni og málsmeðferð - koma löglærðum ekki á óvart. Hvað sem gildandi reglum líður er hér dæmi um niðurstöðu og málsmeðferð sem að mínum dómi virðist illa samrýmast réttarvitund almennings og rennir af þeim sökum stoðum undir þá skoðun sumra sérfræðinga á sviði skaðabótaréttar að tímabært sé að endurskoða í heild gildandi bótakerfi.


mbl.is Þarf að greiða kennara bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valan

Góð grein og áhugavert lögfræðilegt viðfangsefni.

Þetta er að mínu mati frekar sérstakur dómur enda ekki algengt að sjá foreldraábyrgð höndlaða á þennan máta þar sem ég þekki til. Ég renndi yfir dóminn og burtséð frá málsmeðferðinni sem þú ræðir fannst mér umræðu um nokkur atriði vanta:

Í fyrsta lagi kemur skaðabótaábyrgð foreldra vegna barna yfirleitt upp þegar þau eru eða ættu að vera í umsjá foreldranna sjálfra. Hér var nemandinn í umsjá skólayfirvalda en ekki t.d. eftirlitslaus á flandri um nágrennið. Í dómnum vantar mat á því hvernig in loco parentis hlutverk skólans gagnvart börnum er í raun afsakað í þessu samhengi. Skólar taka eftirlitsábyrgð/foreldraábyrgð á börnum á meðan þau eru í þeirra vörslu og vel þekkt er að í fæstum réttarkerfum leyfist foreldrum og eftirlitsaðilum að fara í mál við börn sín eða börn sem eru í þeirra umsjá - sér í lagi ekki þegar um ræðir atvik sem flokkast undir fyrirsjáanleg (og eðlileg?) ólæti í börnum.

Að auki þá eru skólar af sumum réttarkerfum taldir bótaskyldir vegna nemenda í sinni umsjá sem valda þriðja aðila tjóni og slík dæmi hefði verið gott að bera saman þar sem ábyrgð á börnum virðist án ítarefnis alfarið liggja á foreldrunum. Hver er ábyrgð kennara? Hvað t.d. ef barn meiðir annan nemanda, eða gest í skólanum?

Það er miður að náttúra og gæði sambanda umsjónamanna og barna séu ekki rædd þar sem mér sýnist kennarinn hafa sagt það sjálfur að barnið hefði ekki átt að vera inni í þessari geymslu. Einnig kemur fram að hurðin hafi ekki verið það sem flestir foreldrar myndu kalla "barnaheld" en fæstir myndu telja slíka kröfu mjög íþyngjandi miðað við að herbergið er fullt af börnum með 1 fullorðinn til umsjónar.

Það að fjölskyldutrygging borgi skaðabætur á að vera málinu óviðkomandi nema mögulega í þeim tilvikum sem að slík trygging er skyldutrygging (líkt og bílatryggingar eru víða). Fréttaflutningurinn vakti með mér áhyggjur að ekki hafi verið litið algerlega framhjá tilvist trygginga við ákvörðun málsins og hefði verið gott að fá einhver nánari orð um það. Ef dómar eru felldir að einhverju leyti vegna þess að valfrjálsar tryggingar eru til staðar skapast jú hætta á miklu óréttlæti þar sem staða þeirra sem hafa slíkar tryggingar og þeirra sem gera það ekki verður með slíku óþarflega ójöfn og einnig mögulega á milli þeirra sem verða fyrir skaða af hendi barna tryggðra foreldra og ótryggðra.

Einnig finnst mér vanta umræðu um reynslu og þjálfun kennarans í að eiga við börn með þetta tiltæka heilkenni. Það er yfirleitt talið vera á ábyrgð vinnuveitanda að veita réttan undirbúning og þjálfun fyrir slíkt og ef slíkt vantar þá er vinnuveitandi oft talinn bera ábyrgð eða hluta ábyrgðar (t.d. ábyrgð sundlaugar á því að ráða sundlaugaverði sem kunna að synda) og ef hegðun þessa barns var sérstaklega ófyrirsjáanleg eða með öðrum hætti en annarra ætti kennarinn að hljóta sérstaka fræðslu til að gera honum kleyft að höndla slíkt af fagmennsku.

Mér finnst þetta mál hefði mögulega betur átt að vera milli kennara og vinnuveitanda vegna óviðunandi aðbúnaðar og þjálfunar við aðstæður þar sem ólæti og óvanaleg hegðun eru fyrirsjáanleg. Í stað þess þurfa málsaðilar að hengja sig í það hvað 11 ára barni með Asperger þykir fyrirsjáanlegt og því að láta foreldrana taka fulla ábyrgð þó þeir séu (eðlilega og í góðri trú) fjarri góðu gamni á skólatíma.

Í svona málum (í öðrum réttarkerfum) eiga jafnvel börnin rétt á málssókn gegn vinnuveitandanum ef aðbúnaður og starfsaðstaða leiddi til skaðans sem þau sjálf ollu. Í öllu falli er undarlegt hversu lítið vægi fötlun barnsins, möguleg vanþekking kennarans og þung skólastofuhurð sem á vantaði barnalæsingu eða dempara fá í málsmeðferðinni.

Sem lögfræðingur verð ég að velta því fyrir mér hvort nú sé ekki hreinlega við hæfi að ráðleggja foreldrum sem eiga börn í skóla (eða jafnvel hjá dagmæðrum, leikskólum eða öðrum forsjáraðilum) mæti þangað á mánudaginn með hurðadempara og barnalæsingar og gangi úr skugga um að skólabyggingin sé barnaheld burtséð frá því hvað stendur í reglugerðum ríkisins. Einnig gæti verið nauðsynlegt að leggja hart að börnunum að haga sér alltaf eins og góðir og gegnir nemendur því að á Íslandi gera lögin ekki ráð fyrir að búast megi við nema í mesta lagi mjög takmörkuðum ólátum af skólabörnum. Fötlun sé þar engin afsökun. Svo væri kannski ráð að hringja í tryggingafélagið og fullvissa sig um að nægar tryggingar séu fyrir hendi. Jafnvel væri þar að auki ráðlegt að hafa foreldravakt í skólum til að passa að nemendur fari ekki í óleyfi inn í geymslur þar sem þeir eiga ekki að vera, því kennarar virðast ekki bera ábyrgð á því að halda nemendunum á þeim svæðum sem þeir eiga að vera á.

Að lokum, ef það er rétt að skólanum beri engin sérstök skylda til að þjálfa starfsfólk sérstaklega í umsjá fatlaðra barna (ég sé ekki úr dómnum hvort svo sé) þá ættu foreldrar slíkra barna mögulega að skoða það að koma á fót slíkri fræðslu fyrir kennarana - væntanlega úr eigin vasa - svo að kennarar þekki þau hegðanamunstur og viðeigandi varúðarráðstafanir.

En svona horfir þetta bara í fljótu bragði fyrir mér svona erlendis frá - ég hef mögulega farið á mis við einhverja visku sem falin er á fleiri stöðum en þessum tiltekna dómi (en hefði gjarna mátt koma þar fram) og tæki ég ábendingum um það með þökkum.

Valan, 27.3.2009 kl. 02:27

2 Smámynd: corvus corax

Þessi dómur er mjög eðlilegur og algjörlega í takt við hlutdræga og gjörsamlega ónýta íslenska dómstóla. Bæturnar nást af tryggingafélagi, annars hefði dómurinn ekki verið á þennan veginn. Ekki það að mér sé annt um glæpafyrirtækin sem kalla sig tryggingafélög, heldur er augljóst að dómurinn fer algjörlega eftir greiðslugetu á bótum. Endurspeglar það hlutleysi dómstóla?

corvus corax, 27.3.2009 kl. 11:18

3 Smámynd: TARA

Mér finnst þessi dómur ekkert rangur....ef þetta hefði verið á hinn veginn þá hefði kennarinn verið rekinn með skömm, dæmdur til að greiða skaðabætur, mannorð hans eyðilagt og landsmenn hefðu lagt hann í einelti.

Hvers vegna ætti það að vera öðru vísi þó barn eigi í hlut ? Er réttlætanlegt að barn slasi fullorðinn ? Er ekki eðlilegt að forráðamenn barns undir 18 ára aldri, séu skaðabótaskyldir ?

Hvers vegna á ekki að hugsa um hag kennarans alveg eins og hag nemandans, ef þetta hefði verið á hinn bóginn ?

TARA, 27.3.2009 kl. 17:22

4 Smámynd: Gísli Tryggvason

Takk fyrir áhugaverð andsvör. Sérstaklega er áhugaverð röksemd Völu um að skólinn hefði átt að bera ábyrgð á grundvelli reglu um in loco parentis sem minnir á skaðabótasjónarmiðið culpa in custodiendo úr mínu laganámi; hvort tveggja lýtur að ábyrgð þess sem á að gæta þeirra sem þurfa gæslu við, svo sem barna og foreldra. Þetta kann að skrifast á aðila málsins - eða lögmenn þeirra, sbr. ábendingu mína um réttarfar. Sjálfur flutti ég fyrir nokkrum árum og hafði sigur í máli sem laut að bótaábyrgð opinberrar heilbrigðisstofnunar fyrir það að skipuleggja ferð geðfatlaðs fólks sem endaði með því að geðfatlaður maður örkumlaði heilbrgiðisstarfsmann, skjólstæðing minn, með alvarlegu höggi í kjölfar firringar sem sjúklingurinn upplifði. Skortur á betri skipulagningu fól í sér nægan grundvöll til bótaábyrgðar hins opinbera að mati héraðsdómara og málinu var ekki áfrýjað. M.a. þess vegna skortir nú fordæmi frá Hæstarétti. Vala rökstyður vel að aðstæðurnar hafi átt að vera á ábyrgð skólans og þar með sveitarfélagsins. Sömu niðurstöðu styður sú röksemd völu sem lýtur að þjálfun kennarans, sbr. culpa in instruendo.

Dómsorð héraðsdóms er hins vegar að því leyti villandi að móðirin (C) er dæmd til greiðslu f.h. dótturinnar (B); Hæstiréttur bætir úr þeirri villu og dæmir dótturina eina til greiðslu því að móðirin er aðeins fyrirsvarsmaður dóttur sinnar en ekki aðili máls. Sú villa héraðsdóms hefur vakið upp misskilning um að dómurinn snúist um foreldraábyrgð. Dómurinn er nægilega umdeildur þó að svo sé ekki. Hann snýst aðeins um ábyrgð barna og eins og ég benti á og corvus corax víkur að virðist dómurinn falla í þá gryfju að líta til tryggingarverndar skólabarns, sem stefnt er á grundvelli svonefndrar sakarreglu.

Kjarni málsins virðist mér snúast um að barnið, nemandinn, neytandinn - fatlað að auki - eigi ekki að gjalda aðstæðna, sem öðrum stendur nær að tryggja, þó að óbeint sé þar sem tryggingar bæta tjónið.

Í mínu fyrra starfi sem framkvæmdarstjóri og lögmaður heildarsamtaka háskólamanna lagði ég áherslu á - en náði takmörkuðum árangri við - að semja um aukna tryggingarvernd opinberra starfsmanna við aðstæður sem þessar, svo sem hjúkrunarfræðinga á slysamóttöku um helgar, lögreglumanna, félagsráðgjafa og annarra sem gátu orðið fyrir ásetningstjóni en ekki aðeins gáleysisathöfnum eins og hér um ræðir. Það nefni ég til áréttingar því að ég er ekki sáttur við þær lagareglur sem í gildi eru á þessu sviði. Að því leyti finnst mér málið einnig varða mikilvæga réttarvernd starfsmanna.

Gísli Tryggvason, 27.3.2009 kl. 21:07

5 Smámynd: Gísli Tryggvason

"barna og foreldra" í 4.-5. línu á að vera "barna og fatlaðra". GT

Gísli Tryggvason, 27.3.2009 kl. 21:35

6 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Þessi krafa snýr fyrst og fremst að tryggingafélagi móðurinnar. Ef hún hefði ekki verið tryggð þá hefði málið aldrei verið höfðað gegn henni.

Þóra Guðmundsdóttir, 27.3.2009 kl. 23:35

7 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Hefði þá kennarinn kannski ekki fengið neinar bætur? Það virðist svo vera að hún hafi ekki átt annarra kosta völ. Það má ekki gleyma því að hún situr eftir með heilsutjón.

Margrét Birna Auðunsdóttir, 28.3.2009 kl. 10:03

8 Smámynd: Valan

Takk fyrir ítarlega og greinagóða útskýringu Gísli. Ég var að reyna að bera þetta saman við framkvæmdina hér í New York en hér eins og víðar fara reyndar mjög fá starfsmannamál fyrir dóm vegna þess að Worker's Compensation tryggingakerfið sér algerlega um greiðslu launamissis og kostnað endurhæfingar og bótaþegar hafa ekki rétt til þess að höfða skaðabótamál nema í mjög takmörkuðum tilvikum.

In loco parentis var mér ofarlega í huga vegna skaðabótamáls sem ég er að vinna við núna þar sem skólastjóri misnotaði táningsdreng kynferðislega, ég get ekki sagt mikið um það en finna má umfjöllun hér. Það er synd að málinu sem þú fluttir fyrir héraðsdómi hafi ekki verið áfrýjað því niðurstaða þess hljómar ólíkt skynsamlegri en í málinu sem hér er rætt.

Þóra, ef þetta er rétt þá er það áhyggjuefni hver niðurstaðan yrði í svipuðu máli gegn barni/foreldrum sem ekki eru tryggðir á þennan máta - munu þeir lenda í því að greiða svona upphæðir úr eigin vasa? Eða eiga kennarar bara að fá svona bótaupphæðir þegar foreldrar eru tryggðir? Það er brýnt að svörin við þessum spurningum séu skýr.

Margrét, auðvitað eiga þeir sem verða fyrir svona skaða að hljóta bætur fyrir. Að mínu mati er það að nokkru leyti ósanngjarnt að fórnarlömb þurfi að stóla á lögsókn og tryggingar upp á von og óvon -- þessi ábyrgð á held ég betur heima sem skyldutrygging á vinnuveitanda. Vinnuveitendur ættu, skynsemi samkvæmt, að bera ábyrgð á vinnuaðstöðu og öryggi starfsmanna að svo miklu leyti sem hægt er því þeir eru í bestri aðstöðu til að gera breytingar og úrbætur þar á. Hvort vinnuveitandinn geti svo lögsótt barnið fyrir hlut sinn í gáleysinu er svo annað mál, en kvöðin á að lögsækja barnið (ef einhver væri) ætti helst ekki að vera á starfsmanninum sjálfum.

Valan, 29.3.2009 kl. 18:12

9 Smámynd: Gísli Tryggvason

Sammála Völu. Þetta er kannski efni í málþing um bótaskyldu og bótarétt neytenda - næst þegar þú ert á landinu, Vala!

Gísli Tryggvason, 31.3.2009 kl. 09:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband