Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Miðvikudagur, 13. ágúst 2008
Hvað segiði' konur?
Á dagskrá í kvöld er ÓL, ÓL, ÓL, ÓL og ÓL - að vísu eftir að ég á að vera farinn að sofa. Já, auðvitað hef ég ýmislegt betra að gera en að glápa á sjónvarp en það vill til að ég er yfirleitt nokkuð ánægður með dagskrá RÚV - á milli íþróttaviðburða. Nú segja sumir kannski:
Já en þetta er heimsviðburður - og bara á 4ra ára fresti.
Gallinn er að svo eru það vetrar-Ólympíuleikar eftir tvö ár og í vor var það EM eða HM og svo er það landsleikur og hitt og þetta - og ekki alltaf á næturna eins og núna.
Ekki svo að skilja að ég sé á móti íþróttaáhorfi - hvað þá íþróttaiðkun - enda hreyfi ég mig nú svolítið sjálfur, er stúdent af íþróttabraut og tók meira að segja stúdentspróf í sagnfræði í efninu "Sport og pólitík" sem er jú mjög "aktuelt" þessa dagana. Ég er heldur ekkert upptekinn af því að flestir aðrir karlar hafa gaman af því að horfa á íþróttir (og þá er það víst ég sem er "öðru vísi"). En ég er fréttafíkill og hef gaman af því að horfa á vissa fasta dagskrárliði RÚV - sem raskast þegar landsleik eða (heims)íþróttaviðburð ber upp á sama tíma. Sumir hafa ekki aðra sjónvarpsrás en RÚV og kannski Skjáinn!
Ég hef enn þann kynja"fordóm" að konur séu ekki eins hrifnar af íþróttaáhorfi; er meirihluti karla þá ekki bara að vaða yfir okkur "kellingarnar"? Mig grunar að athugasemdir við þessa færslu muni staðfesta það. En af því að ég er lausnamiðaður þá hef ég hugsað upp lausn og lengi verið að safna kjarki til að flagga henni; ég segi:
Komum okkur upp íþróttasjónvarpsrás - og friðum hina ríkissjónvarpsrásina algerlega fyrir íþróttaröskun.
Hvað segja konur?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Þriðjudagur, 12. ágúst 2008
Orðinn hluti af listaverki!
Af viðtali við listamanninn Snorra Ásmundsson í síðdegisútvarpi Rásar 2 á RÚV í dag (framarlega) skildist mér að við sem höfum tjáð okkur um listræna nálgun hans gagnvart líkum séum á góðri leið með að verða list því að 1. hlutinn af 3ur í listaverkinu eigi að vera auglýsingin sjálf og viðbrögðin við henni. Þá veit maður það.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 12. ágúst 2008
Réttindi flugfarþega - og neytenda almennt
Hér er frétt á RÚV frá í gærkvöldi um réttindi flugfarþega og úrræði, sem eru ágæt - en ekki aðgengileg; þau þarf að virða og virkja eins og fram kemur. Best er að fara á www.neytandi.is til að leita upplýsinga og réttar síns.
Leiðakerfi neytenda er gagnvirk vefgátt til þess að leita upplýsinga og aðstoða við kvartanir.
Eins og fram kom í viðtalinu áður en það var klippt er hins vegar erfitt að notast við slíka vefgátt þegar maður er strandaglópur á flugvelli, er langt í burtu eða vantar farangur o.s.frv.; þess vegna þarf að virkja reglurnar - og úrræðin góðu. Þó að RÚV hafi átt frumkvæði að þessari frétt er hér reyndar af öðru tilefni í öðru samhengi vikið að tiltækum úrræðum neytenda.
Hér sem endranær vísa ég á Leiðakerfi neytenda sem skilvirkasta úrræðið til þess að virkja réttindi neytenda. Um ferðalög - t.d. réttindi flugfarþega - er fjallað hér á einfaldan hátt.
Mánudagur, 11. ágúst 2008
Lík í óskilum - lög eða siðferði?
Ekki skal ég gera lítið úr lögum - enda löglærður. Lög leysa þó ekki allan vanda. Með aldrinum og smá reynslu lærist manni að lög - þó mikilvæg séu og stundum góð - eru ekki til þess fallin að taka á öllum álitamálum mannlegs lífs - og dauða.
Þess vegna var ég ósáttur við fyrirsögn sjónvarpsfréttar RÚV um stóra listalíksmálið í kvöld og eftirfarandi megininntak:
Engar reglur eru til.
Þetta er ekki rétt. Að vísu sagði heimildarmaðurinn, forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæmis, þetta ekki og benti á að (frekari) lög vantaði um meðferð líks frá andláti og fram að greftrun; það kann að vera rétt enda er ég sammála honum um efni málsins. Kjarni fréttarinnar er hins vegar ekki réttur að mínu mati því þótt settar lagareglur skorti að öðru leyti en að til er refsiákvæði um ósæmilega meðferð á líki þá kunna að vera til óskráðar lagareglur um málið - og einkum þó siðareglur (sem auk þess fylla upp í vísireglur eins og þá sem bannar "ósæmilega" meðferð á líki)!
Fyrrum sveitungi minn, listamaðurinn og eitt sinn forsetaframbjóðandi, Snorri Ásmundsson, hefur óskað eftir að því við deyjandi fólk - opinberlega - að fá lík þeirra í því skyni að sinna listagyðjunni. Þó að ég sé síður að mér í listum og þótt bókmenntir fari mis vel með lík (eins og fyrirsögnin og sakamálabókmenntir staðfesta) þá er ljóst að sama á ekki við um allar listgreinar. Svarið er einfalt; eins og þáverandi fjármálaráðherra sagði - að vísu á sviði þar sem lög eru nú áskilin:
Svona gera menn ekki.
Laugardagur, 9. ágúst 2008
Fór í aðþrengdum búningi
Ég fór í mína - nei það er full mikið sagt, fylgdist með minni - fyrstu gleðigöngu og hafði gríðargaman af. Ég mætti meira að segja í aðþrengdum búningi í stíl við þá sem sýndu listir sínar - en það var nú bara blár - en ekki bleikur - hjólabúningur. Fyrir vikið komst ég illa að því mannþröngin var svo mikil að hjólið mitt komst ekki fyrir og fór ég því sífellt í nýja og nýja hliðargötu á fararskjóta mínum og sá Pál Óskar og föruneyti aftur og aftur. Gat ekki ráðið við að brosa og dilla mér í takt og fór svo á Austurvöll.
Þetta var mjög fín skemmtun og svo hittir maður margt skemmtilegt fólk.
![]() |
Tugþúsundir í miðborginni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 9. ágúst 2008
Skriftastóll
Nú skil ég af hverju ég hef á-netjast (í orðsins fyllstu merkingu) bloggi - sem átti fyrst og fremst að vera í því skyni að koma málstað neytenda og starfsemi embættisins betur á framfæri utan gúrkutíða (þegar allt vekur áhuga). Ég hef leyft mér að "krydda" stundum bloggið með öðru en neytendabloggi.
Málið er að það er ekki bara "krydd;" stundum er það þörf - og sama sé ég hjá fleiri bloggurum (og reyndari). Nei; þetta er ekki bara athyglisþörf. Ástæðan er sú sama og fyrir því að ég hef stundum velt því fyrir mér í frekar lítilli alvöru að gerast kaþólikki - það er svo gott að skrifta (og dýrt að borga sálfræðingi fyrir að hlusta ef enginn annar nennir).
Föstudagur, 8. ágúst 2008
Þorskastríðið fyrir 50 árum og raunir forsætisráðherra
Ég má til með að deila með ykkur smá klausu úr uppáhaldstímaritinu mínu af því að við íslensk höfum oft verið svo upptekin af því hvernig útlendingum líki landið okkar - og jafnvel fundist (illt) umtal betra en ekkert.
Í síðasta (ekki nýjasta) tölublaði The Economist er að finna enn eitt háðið gegn forsætisráðherra - Bretlands, sem sagt - sem skyndilega virðist ekki lengur eiga upp á pallborðið hjá þeim sem stjórna umræðunni. Í háðskri umfjöllun um sumarfrí þessa meinta ákvarðanafælna vinnufíkils er hann í lokin látinn byggja sandkastala á ströndinni og vaða svo út í sjóinn meðan hann hugsar um ástir og örlög, svik og hvarf Norðursjávarmakrílstofnsins - og "The Icelandic Cod war of 1958." Fyrir vikið slakar hann á um stund og losar bindið.
Ég er ekki nógu vel að mér í ensku (eða) háði til að fatta hvort þarna er hápunktur til að hugsa til eða (annar) lágpunktur til að hugga sig við en miðað við takmarkaða þekkingu mína og heimildir um þorskastríðin er hið síðarnefnda líklega hið rétta; að þetta hafi ekki verið neitt skárra fyrir hálfri öld þegar stórveldið tapaði fyrir smáríkinu Íslandi.
Föstudagur, 8. ágúst 2008
Hægrimannasamsæri!
Gott að heyra; minnisstæðust úr pólitísku starfi Hillary Rodham Clinton er mér ásökun hennar um "Vast Right Wing Conspiracy" gegn henni í kjölfar starfa hennar fyrir forsetann, mann sinn, í þágu endurbóta á heilbrigðiskerfis Bandaríkjanna; þær endurbætur mistókust.
Ég leyfi mér, þar sem ekki er um innanlandspólitík að ræða, að lýsa ánægju með þessa frétt enda hef ég lengi verið hrifinn af Hillary og hef lagt í þann "sokkna kostnað," sem fjármálaspekingar myndu kalla það, að lesa tvær ævisögur hennar - en er langt kominn með ævisögu Obama - sem fór, nokkuð óvænt, fram úr henni.
Mér líst vel á hann.
![]() |
Clinton styður Obama |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 7. ágúst 2008
Feginn
Ég er nú eiginlega feginn að talsmaður neytenda er ekki meðal lögformlegra umsagnaraðila um þetta mál; hvort vegur þyngra "hagsmunir" þeirra "neytenda" - sem vilja, gegn greiðslu, horfa á berar konur á skemmtistöðum - eða sú mannréttindastefna að vernda konur gegn slíku ofríki? Það er fremur landspólitískt mál - en ekki neytendapólitískt að mínu mati - sem ég hef ekki opinbera skoðun á í embættisnafni.
Persónulega skoðun hef ég á því eins og ýmsu en reyni yfirleitt að flíka henni ekki að óþörfu.
Stundum heyri ég það viðhorf að talsmaður neytenda eigi að vera ákveðnari og meira áberandi og gagnrýnni á fyrirtæki og fyrirbæri en í athugasemdum í dag á neytendabloggi mínu kemur í löngu máli fram að tveimur gagnrýnendum finnist að embættismaður eins og ég eigi að fara með veggjum og ekki vera að auglýsa sjálfan sig svona - þegar ég taldi mig vera að sinna málstaðnum og lögbundnu hlutverki mínu.
![]() |
Umsóknir nektarstaða til nýrrar umsagnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)