"Markaðir þurfa mótleikara"

Svona umorðaði Sigrún Davíðsdóttir hjá Ríkisútvarpinu (RÚV) í London það í Speglinum í fyrrakvöld þegar hún rakti umfjöllun breskra blaða um - nei, ekki bara um íslenskt efnahagslíf - heldur um umræðu í Bretlandi um hvert (ekki hvort) eftirlitshlutverk ríkisins eigi að vera í ljósi bankakreppu. Umræðan kemur í kjölfar skýrslu breska Fjármálaeftirlitsins um afskipti þess af Northern Rock-bankanum sem sýnir að sögn Sigrúnar að fjármálaeftirlitið viðurkennir að hafa haft augun á öðru. Umræðan sýnir að mati Sigrúnar að þeir sem rita í viðskiptablöð - t.d. Financial Times - hafa nú komist að því að markaðir þurfa (meira) aðhald; þeir eru ekki fullfærir um að sjá um sig sjálfir heldur þarf opinbert eftirlit og stjórntæki af hálfu hins opinbera. "Markaðir þurfa mótleikara," dró Sigrún saman sem niðurstöðu breskra viðskiptasérfræðinga í Speglinum.

 

Sama kom fram í fréttum RÚV í gærkvöldi að stjórnvöld í Bandaríkjum Norður-Ameríku hygðust auka eftirlit með bönkum og fjármálastofnunum til þess að geta betur gripið inn í þróun á mörkuðum; völd Seðlabanka verða aukin verulega, hlusta nánar hér um væntanlega ræðu fjármálaráðherra Bandaríkjanna um þetta á morgun.

 

Við sama tón kveður t.a.m. í leiðara breska tímaritsins Economist í gær - "The regulators are coming" - þar sem þetta 165 ára gamla málgagn frelsis bæði spáir því og hvetur til þess að meira regluverk og eftirlit þurfi að koma til í ljósi ástandsins á fjármálamörkuðum nú; þetta er líka rökstutt í leiðaranum, nánar um það síðar.

 

Þetta - sem bresk viðskiptapressa, bandarísk stjórnvöld og brjóstvörn frelsisins, Economist - benda nú á hefur markaðssinnað jafnaðarfólk, félagshyggjumenn og svonefndir forsjárhyggjusinnar reyndar lengi talið sig vita - líka við sem störfum í eftirlitsiðnaðinum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband