Vilja neytendur á Íslandi aðild að ESB?

Mikið hefur verið rætt um gjaldmiðils- og Evrópumál undanfarið og hefur Framsóknarflokkurinn m.a. nýverið kynnt skýrslu um kosti í fyrrnefndu máli til undirbúnings stefnumörkun. Neytendasamtökin hafa líka unnið sína heimavinnu í síðarnefnda málinu - sem er líka stórt neytendamál. Á þingi samtakanna sem sett verður nú eftir hádegi er málið á dagskrá:

 

Felast hagsmunir neytenda í Evrópusambandsaðild?

 

Í fyrrnefndri  skýrslu Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst fyrir Neytendasamtökin kemur þetta m.a. fram í kynningu á vef NS í apríl sl.:

 

  • Með aðild að ESB yrði Ísland um leið aðili að tollabandalagi ESB. Því myndu þeir tollar sem enn eru milli Íslands og ESB landanna falla niður og munar þar mestu um landbúnaðarvörur. Þetta myndi skila sér í lægra verði á þessum vörum. Tollar gagnvart ríkjum utan ESB gætu í sumum tilvikum hækkað.
  • Með aðild að tollabandalaginu myndu netviðskipti við fyrirtæki innan ESB verða ódýrari og einfaldari. Slíkt myndi auka samkeppni gagnvart ýmsum innlendum fyrirtækjum.
  • Ljóst er að samhliða aðild þyrfti að endurskipuleggja íslenskan landbúnað á sama hátt og Svíar og Finnar gerðu áður en þessi lönd gengu í ESB. Draga þyrfti úr stuðningi við íslenskan landbúnað en nú er sá stuðningur með því hæsta sem gerist. Það er hins vegar ljóst að við eigum góða möguleika að ná samningum varðandi stuðning við innlendan landbúnað miðað við þá samninga sem Finnar náðu fram, þar sem allt Ísland fellur undir skilgreiningu um landbúnað á harðbýlu svæði eða heimsskautalandbúnað. Vegna þessa eru möguleikar á að fá meiri styrki til íslensks landbúnaðar frá ESB en lönd sunnar í álfunni fá. Einnig er mögulegt að íslensk stjórnvöld fengju heimild til að styrkja landbúnað sinn meira en gildir um önnur lönd innan ESB.
  • Talið er að matvælaverð geti lækkað um allt að 25% með inngöngu Íslands í ESB.
  • Með aðild að myntbandalagi ESB má gera ráð fyrir að vextir á íbúðarlánum myndu lækka töluvert. Erfitt er hins vegar að segja til um hve mikil sú lækkun yrði. Minnt er á að hvert prósentustig hefur mikla þýðingu fyrir heimilin.
  • Með aðild að ESB og myntbandalaginu myndi viðskiptakostnaður lækka og ætti slíkt að leiða til lægra vöruverðs.

 

Spennandi verður að heyra um helgina svar þings Neytendasamtakanna við spurningunni um ESB-aðild Íslands. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband