Þriðjudagur, 24. mars 2009
Aukin neytendavernd barna í sjónvarpi og verslunum
Gott er að heyra að eftir langt og strangt ferli eru leiðbeiningar okkar umboðsmanns barna um aukna neytendavernd barna farnar að hafa áhrif - hjá ríkissjónvarpinu - aðeins rúmri viku eftir að þær tóku gildi en samkvæmt kvöldfréttum sjónvarps RÚV er við ákvörðun þessa höfð hliðsjón af leiðbeiningunum. Er það í samræmi við nýlegan fund okkar með fulltrúum RÚV um að samræmi væri milli þessarar breyttu auglýsingastefnu og nýrra leiðbeininga talsmanns neytenda og umboðsmanns barna.
Framkvæmdarstjóri SVÞ, Andrés Magnússon, tók ekki eins vel í að höfð yrði hliðsjón af leiðbeiningarreglunum í þá veru að halda ekki sætindum að börnum við afgreiðslukassa; honum til málsbóta má taka fram að ákvæði leiðbeininganna um að aðeins hollar matvörur séu við afgreiðslukassa í dagvöruverslunum verður ekki virkt fyrr en tekið verður upp opinbert hollustumerki - eins og gert hefur verið í öðrum norrænum ríkjum. Að því leyti var ekki rétt forsenda hjá honum að talsmaður neytenda og umboðsmaður barna ætli sér að meta hvað er hollt og hvað ekki; það er norrænna sérfræðinga á sviði matvæla- og næringarfræði að meta. Tíðinda er að vænta á næstunni hvað það varðar.
Á hinn bóginn er mælst til þess í leiðbeiningunum að dagvöruverslanir séu fjölskylduvænar og teljum við okkur gæta alls hófs í þessari leiðbeinandi reglu:
Fjölskylduvænar dagvöruverslanir
Í dagvöruverslunum skal leitast við að ekkert sælgæti, flögur, gos eða þvíumlíkt sé nærri kassa og a.m.k. sé tryggt að einn kassi sé laus við slíkar vörur í verslunum þar sem eru fleiri en tveir kassar. Auk þess er mælst til þess að auðvelt sé fyrir fólk með börn að ganga um dagvöruverslun en sneiða hjá matvælum, sem höfða sérstaklega til barna og hafa hátt innihald sykurs, salts, fitu eða transfitu einkum ef þau eru í sjónhæð barna.
Engar auglýsingar í tengslum við barnaefni í Sjónvarpinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mikið fagnaðarefni að loks tókst að aðskilja barnaefni og auglýsinga
Hólmfríður Bjarnadóttir, 24.3.2009 kl. 23:27
En þetta er bara hjá ríkissjónvarpinu. Gilda einhverjar aðrar reglur fyrir einkastöðvarnar?
Anna Guðný , 25.3.2009 kl. 00:26
Sem þriggja barna faðir fagna ég þessu. Ef það er málið að fela sígarettur í búðum fyrir okkur fullorðna fólkinu, afhverju þá ekki alveg eins að fela nammið fyrir krökkunum? Þetta er einfaldlega réttlætismál! ;)
(Ég gæti svo haldið langa tölu um hversu vegna það er samt í grunninn rangt að fela einhverja vöru sem er á annað borð lögleg, en þarna togast líka á heilsuverndarsjónarmið og sú staðreynd að þegar maður veikist af völdum reykinga eða óhollrar fæðu eru það aðrir sem borga í raun fyrir læknismeðferðina. Þess vegna eru bæði gild rök með og á móti þessum takmörkunum á einstaklingsfrelsinu.)
Guðmundur Ásgeirsson, 25.3.2009 kl. 01:07
Það ætti ekki að þurfa að fela eitt né neitt, fólk á að geta haft stjórn á sjálfu sér og börnunum, en stundum er það bara ekki svo einfalt, svo ég er hlynnt því að eitthvað svona verði að gera til að aðstoða.
TARA, 25.3.2009 kl. 19:34
Takk fyrir góðar undirtektir - þrátt fyrir skiljanlega fyrirvara; Tara nefnir kjarna málsins: leiðbeiningunum er ætlað að aðstoða foreldra að standa undir rétti sínum og skyldu til forsjár barna sinna miðað við aldur og þroska í stað þess að markaðsöflin hafi óheft inngrip í það forsjáratriði. Anna Guðný; sömu leiðbeiningar eiga við um allar stöðvar.
Gísli Tryggvason, 27.3.2009 kl. 00:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.